11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Þið hafið heyrt í gærkvöld og munuð heyra meira í kvöld um virkjun íslenzku fallvatnanna í sambandi við fyrirhugaða stóriðju í landinu. Það er e.t.v. rétt, að ég hefji mál mitt með því að víkja nokkuð að því viðfangsefni.

Það er sagt, að við megum ekki selja erlendum aðilum afgangsraforku frá fyrstu stórvirkjun í hinum miklu fallvötnum, sem þó er seld til þess að gera stórvirkjunina framkvæmanlega og skjóta framþróun orkuvinnslu úr fossunum um marga tugi ára til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir þessa lands. Og hvers vegna megum við ekki gera slíkt? Í fyrsta lagi er sagt vegna þess, að hættan af erlendu fjármagni í okkar litla landi er svo geigvænleg, að hún étur okkur upp, gleypir okkur með húð og hári, sjálfstæði lands og þjóðar fer innan tíðar í súginn. Við erum kallaðir aukvisar, sem þorum að horfast í augu við vandamálin og finnum hvíla á okkur ríka ábyrgð til þess að láta einskis ófreistað til að bæta hag þessa lands, ef við höfum ekki manndóm til þess að takmarka aðgerðir okkar við það eitt, sem markast af okkar eigin þörfum þessa stundina. Já, ég veit, að það er mannalegt að standa á eigin fótum. En hver er að tala um að standa ekki á eigin fótum? Og hversu mannalegt er það að hugsa og segja: Íslendingar geta ekki samið við útlendinga öðruvísi, en að tapa í þeim leik? Ég veit fullvel, að útlendingar semja ekki við okkur, nema þeir telji sér hag í því. Jafnvíst er hitt, að við ætlum ekki og munum ekki semja við erlenda aðila um stóriðju á Íslandi, nema við teljum okkur sjálfa hafa hag af því.

Þá er sagt, að okkur reki ekki nauður til þessa, atvinnulíf okkar sé í blóma, hver vinnandi hönd að verki. Þetta trufli okkur aðeins og spillí fyrir öðrum atvinnurekstri. Má vera, að enginn þurfi að kvarta í dag. Má vera, að viðreisnin hafi ekki reynzt svo slæm sem sagt var fyrir af andstæðingum ríkisstj. Það er líka rétt, að atvinnuleysið, sem forsrh. vinstri stjórnarinnar sagði, að við værum að skipuleggja, hefur brugðizt. En athugum þetta svolítið nánar. Við erum að hugleiða að renna fleiri stoðum undir okkar einhæfa atvinnulíf í þeirri von, að það mætti reynast til frekara öryggis í framtíðinni. Fiskimannaþjóð er háð veðri og vindum, landbúnaður árferði, og veikur er innlendur iðnaður einnig. Felst nú í viðurkenningu þessara staðreynda vantrú á þessar líftaugar íslenzks atvinnulífs? Við viljum ekki heltast aftur úr þróun nágrannaþjóða. Þvert á móti þurfum við að vinna upp það, sem við erum á eftir.

Þau gleðilegu tíðindi hafa gerzt, að framleiðsluaukning í sjávarútvegi hefur síðari árin orðið miklu meiri, en menn þorðu að ráðgera. Hér valda ágætis aflabrögð og sérstaklega alveg ný aflabrögð á sviði síldveiðanna. Ný tækni er e.t.v. meginþáttur þessarar þróunar. Við þessi skilyrði hefur framleiðsluaukningin í útveginum verið um 10% undanfarin ár. Samtímis hefur heildarframleiðsluaukning þjóðarinnar ekki verið nema um 5.7%. Það er að vísu góður heildarárangur, en ekki má þó miklu skeika. Í Bandaríkjunum er talið, að heildaraukning þjóðarframleiðslunnar hafi numið 7% s.l. ár. Aukning iðnaðarframleiðslunnar í nokkrum Evrópulöndum, þar sem hún ræður mestu, er talin hafa verið 1964 í Vestur-Þýzkalandi 8% , í Frakklandi 5%, í Hollandi 6% og á Ítalíu 4%. Eitthvað þarna á milli mun framleiðsluaukningin hafa verið á Norðurlöndum. Og er það þá, þegar á þetta er litið, að ófyrirsynju að vilja í alvöru vinna að því að efla okkar hag enn meir í framtiðinni með fjölþættara atvinnulífi og nýrri verðmætasköpun í landinu?

Menn segja, að okkur vanti vinnuafl til nýrra hluta, jafnvel þeirra, sem fyrir hendi eru. Guði sé lof, að við erum ekki að glíma við atvinnuleysisdrauginn. Hvaða draugur er það? Mundi unga kynslóðin í dag spyrja. En hún getur spurt pabba og mömmu og reyndar eru því miður til enn í dag þau byggðarlög, þar sem þessi Móri herjar a.m.k. suma tíma ársins. Það er verið að tala um möguleika á því að koma hér upp alúminíumbræðslu, sem ekki mundi taka til sín nema um 10% af vinnuaflsaukningu þjóðarinnar, þegar hún tæki til starfa með fullum afköstum. Síðan mundi hún taka síminnkandi hluta af vinnuaflsaukningunni árlega vegna hinnar öru fólksfjölgunar og þegar hinn umtalaði samningstími til starfrækslunnar væri liðinn, mundu Íslendingar sennilega vera um það bil 400 þús. manna þjóð. En við erum 190 þús. í dag.

Sagt er, að við eigum að virkja vatnsorkuna fyrir okkur eina, vegna þess að við megum ekki af henni sjá til annarra, hún sé svo lítil. Lítum á þetta. Í fyrsta lagi mundum við aðeins selja erlendum aðilum raforku takmarkaðan tíma og þá afgangsraforku, meðan okkur sjálfum er að vaxa fiskur um hrygg til meiri orkunota. Samkv. áætlunum Sigurðar Thoroddsens verkfræðings er heildarvatnsafl landsins til raforkuvinnslu áætlað nálægt 38 þús. millj. kwst. á ári. Við erum að tala um að selja erlendum í takmarkaðan tíma innan við 1.000 millj. kwst. á ári eða 2–3% af þessari orku. Síðan getum við líka notað þessa orku sjálfir.

Um kosti og lesti stóriðju í formi alúminíumbræðslu, sem væri fjárhagsleg undirstaða stórvirkjunar í Þjórsá og þá á ég við 210 þús. kw. virkjun í samfelldum áfanga, skal ég ekki frekar ræða nú vegna þess, hve málið hefur verið mikið rætt og upplýst á opinberum vettvangi að undanförnu á grundvelli þeirrar ýtarlegu skýrslu, sem ríkisstj. lagði nýlega fyrir Alþ.

Það er helzt að heyra á stjórnarandstöðunni, að við séum að kollsteypa landinu með stórhug og framsýni. Ekki eru þó stórvirkjanir og stóriðja það eina, sem ríkisstj. hefur um fjallað, eða það eina, sem þróazt hefur í skjóli ríkjandi stjórnarstefnu að undanförnu. Ég veit vel, að menn segja: Nei, sannarlega ekki, við höfum líka haft verðbólguna. — Og það er satt. Verðbólgan hefur þó ekki verið meiri en svo, að tekizt hefur að halda gengi krónunnar föstu og óbreyttu þrátt fyrir þrotlausa baráttu stjórnarandstöðunnar lengst af til þess að keyra allt úr skorðum. Í árslok 1963 hafði kauphækkunarkapphlaupið gengið svo fram úr hófi, að flestir töldu þá einsýnt, að gengisfelling væri óumflýjanleg. Nú talar enginn um gengisfall. Þetta ber m.a. að þakka ábyrgri forustu verkalýðshreyfingarinnar á s.l. ári, þegar gert var hið svokallaða júnísamkomulag milli launþega og vinnuveitenda með tilstuðlan ríkisstj., en af því leiddi tímabundinn og að ýmsu of takmarkaðan frið og festu í atvinnu- og efnahagslífi landsmanna. Ríkisstj. metur og landsmenn munu meta raunsæi og ábyrgðartilfinningu þeirra manna, sem þarna voru að verki. Forustumenn verkalýðshreyfingarinnar töpuðu jafnframt engu öðru en þeim vafasama heiðri að vera ekki eftirbátar forustumanna Framsfl. í ábyrgðarlausri kröfugerð, sem er við það eitt miðuð — og þetta er ekki í fljótræði sagt — að komast sjálfir til valda í ríkisstj. Þegar þessu er sleppt, hvað skyldi þá hafa verið að gerast? Hvernig var umhorfs, þegar Ólafur Thors myndaði ríkisstj. eftir alþingiskosningarnar 1959 um haustið? Hvers vegna var sú stjórn kennd við viðreisn?

Árið áður hafði farið frá völdum vinstri stjórnin svokölluð, en forsrh. þeirra stjórnar hafði beðizt lausnar með þeim vitnisburði um eigin stjórn, að í henni væri ekki samstaða um nein úrræði til lausnar aðsteðjandi og ríkjandi vanda, en sá væri mestur, að verðbólgualdan væri skollin yfir, efnahagsmálin á gljúfurbarmi gjaldþrota. Við bjuggum við innflutningshöft og leyfafargan. Sagt var, að menn settust kl. 7 að morgni í stiga þann, er lá til leyfisveitinganna fyrir þá, sem lentu þá í náðinni. Svarti markaðurinn var hér í blóma, en hafði verið stríðsfyrirbrigði þjóðanna, þar sem styrjöldin geisaði og áranna fyrst eftir styrjaldarlokin. Ég ásaka ekki vinstri stjórnina fyrir haftakerfið. Þetta hafði verið okkar bölvaldur allt frá því á kreppuárunum. Enginn hafði haft áræði til að losa þetta haft af þjóðinni. Og þegar það nú hefur verið losað, hoppar hún því miður stundum eins og hún sé í haftinu áfram. Því nota menn sér ekki til hlítar frjálsa verðmyndun, frjálsa samkeppni, frjálst viðskiptalíf. Gæta menn t.d. þess að fara í verzlun og spyrja: Hvað kostar þetta? — Og í næstu verzlun og spyrja hins sama? Mér er sagt, að verðið á sykurkílói í verzluninni Vísi í gamla daga hafi ráðið verðmyndun á sykrinum hér í bænum. Þá voru engar verðlagsákvarðanir, ekki einu sinni verðlagseftirlit. Fólkið þóttist ekki þurfa að hafa eftirlit með sjálfu sér. Af hverju biðja menn í dag um strangara verðlagseftirlit? Því eru menn ekki sjálfir það aðhald og eftirlit, sem menn biðja um? Það er mönnum í lófa lagið. Innflutningurinn hefur verið gefinn frjáls svo til að öllu. Það er ekki lengur nein innflutningsnefnd, engin skömmtunarskrifstofa.

Við höfum byggt upp gilda gjaldeyrisvarasjóði í stað gjaldeyrisskorts. Það er einkum í blöðum framsóknarmanna, sem menn berja höfðinu við steininn, vitna í tölur og segja: Samt er gjaldeyrisstaðan ekki betri en hjá vinstri stjórn. Ég ætla ekki að nefna neinar tölur. En ég spyr: Hvar er nú svartimarkaður með erlendan gjaldeyri? Geta menn ekki nú fengið erlendan gjaldeyri til vöruinnkaupa eftir þörfum? Geta menn ekki nú fengið viðhlítandi ferðagjaldeyri? Geta menn ekki nú farið inn í erlenda banka og skipt sinni íslenzku krónu á skráðu gengi? Sé hægt að svara þessum spurningum játandi og það er hægt, þarf þá frekar vitnanna við? Og gerir það nokkuð til, þótt blöð framsóknarmanna og fulltrúar séu enn að rembast við að reyna að sannfæra lesendur sína um, að gjaldeyrisstaðan hafi ekki batnað frá tíð vinstri stjórnar. Hefur atvinnulíf landsmanna nokkru sinni fyrr verið í slíkum blóma sem nú?

Fyrst vildi ég víkja að sjávarútveginum, sem er þrótt mesti máttarstólpinn í atvinnulífinu. Því miður hafa margir fengið ranga mynd af þessu lífgrasi Íslendinga, bæði vegna óheilbrigðrar fjármálastefnu áður fyrr og eins vegna of mikils barlóms þeirra, sem sízt ættu að berja lóminn. Fyrirsvarsmenn útgerðarinnar ættu í miklu ríkari mæli, en fram til þessa, að gera landsfólkinu ljóst, hvílíkur máttarstólpi landsins útgerðin er. Hvenær koma fyrirsvarsmenn þessarar megin atvinnugreinar saman í þeim tilgangi? Það er hart að spyrja svona,og ég geri það með hálfum hug, af því að ég virði og met svo mikils útgerðina á Íslandi með öllu því, sem henni fylgir. Dugmiklir og þrautseigir útvegsmenn, dugmiklir og harðgerðir sjómenn, allt er þetta lið hert í veðri og vindum hafs og fjármála.

Svo kemur því miður linkindin, þegar menn halda fundi og mynda samtök. Það er eins og allt þetta prúða lið sé glæsilegast í eigin persónu. Og hvað hefur líka ekki skeð? Framleiðslan í þessari atvinnugrein fer sívaxandi. Kröfurnar um tækni eru sívaxandi og tæknin nú meiri, en nokkru sinni og hefur vaxið undravert á örskömmum tíma. Það hefur sannarlega ekki verið sofið á verðinum. Það er vissulega útgerðinni til mikils sóma. Á árunum frá 1954–1958 var innflutningur fiskiskipa samtals 8.327 tonn, en það samsvarar rúmlega 80 100 tonna bátum á þessu tímabili. Á sama árafjölda, frá 1959–1963, var innflutningur fiskiskipa samtals 24.236 tonn, en það samsvarar rúmlega 240 100 tonna bátum eða þrisvar sinnum meira, en á fyrra tímabilinu. Meðaltalið á ári á fyrra tímabilinu er 16.6 þús. tonn, á síðara tímabilinu nærri 5 þús. tonn. Og árið 1964 munu hafa verið flutt inn fiskiskip um 8 þús. tonn samtals.

Ég minnist þess, þegar ég var bankastjóri Útvegsbanka Íslands, að þá heyrði ég stundum, að menn töldu bagalegt varðandi sparifjársöfnun, að bankinn væri tengdur við útgerð, vegna sífelldra ályktana, funda og samtaka um, að útgerðin bæri sig ekki og vantaði starfsgrundvöll. Erlendis er það sérstök virðing að vera bankastjóri í útvegsbanka þessarar litlu, en hlutfallslega langmestu fiskveiðaþjóðar. Í allra mestu vinsemd og einlægni spyr ég Hví ekki að láta útveginn, sjómennina og útgerðarmenn, njóta sömu virðingar innanlands? Vissulega er útgerðin undirstaðan í atvinnulífi okkar, sem efnahagsþróunin að öðru leyti grundvallast að verulegu leyti á, t.d. hvort okkur muni lánast að ráða við það stóra átak að hefja í landinu sjálfu stálskipasmíði til þess á sínum tíma að fullnægja algerlega okkar eigin þörfum.

Lengur má ég ekki dvelja við þennan meginþátt íslenzks atvinnulífs. En það er ekki eins og menn hafi aðeins verið að byggja fiskiskip á síðustu árum. Verzlunarskipaflotinn hefur samtímis vaxið með furðumiklum hraða. Hann var talinn um 55 þús. tonn 1958, en er nú 65 þús. tonn samtals og aukningin þá um 20%. Flugfloti tveggja stóru flugfélaganna hefur, meira en tvöfaldazt á síðustu 5–6 árum. Bifreiðum hefur fjölgað, á skemmri tíma, meira en nokkru sinni fyrr. Samtímis hafa verið gerð stórátök í samgöngubótum. Vélvæðingin er orðin furðu umfangsmikil í landinu. Ég get alls ekki tíundað til neinnar hlítar þróunina í landsmálum í tíð þessarar stjórnar, sem talin verður framhald af viðreisnarstjórn Ólafs Thors frá 1959. Starfsbræður mínir í ríkisstj, hafa reifað þætti mála, sem undir þá heyra. En ég gæti þó að skaðlausu nefnt fleira.

Við höfum samþ. á síðasta þingi heimild til ríkisstj. til þess að byggja kísilgúrverksmiðju við Mývatn. Að þessu hefur verið unnið. Framkvæmd málsins er fyrirsjáanleg. Líklegt er, að svona verksmiðja kosti um 150 millj. kr. Útflutningsverðmætin geta orðið veruleg í þjóðarbúskapnum. Vegur verður lagður beinustu leið frá Mývatni til Húsavíkur, sem yrði útskipunarhöfn. Hitaveita yrði lögð úr Námaskarði. Byggt yrði þorp við Mývatn. Ég veit svo náttúruelskt fólk, að það vill helzt ekki með neinu móti spilla náttúru undurfagurrar Mývatnssveitar. Ekki má gleyma hinu, að ekkert er fegurra því að vinna úr auðlindum þessa lands verðmæti, sem stuðla að betra mannlífi í landinu.

Samþykkt hefur einnig verið Vestfjarðaáætlun svokölluð, en í henni felst að bæta, auka og efla samgöngur, flugvelli og hafnir í þessum landshlutum á næstu 4 árum langt umfram það, sem með venjulegum hætti hefði orðið. Til þess hefur verið aflað erlends lánsfjár og verður það lánsfé aukið, en samtals yrði varið til fyrirhugaðra framkvæmda á næstu 4 árum nálægt 170 millj. kr. í þessar framkvæmdir þarf líka fólk. Hví spyrja menn ekki, hvar eigi að taka það? Það mun finnast í vexti þjóðarinnar. En hér er um að ræða fyrstu áætlun um að gera veigamiklar ráðstafanir til að viðhalda byggð í strjálbýli landsins, þar sem mikil og góð skilyrði eru til framleiðslu og verðmætasköpunar, en fátækt hamlar að komi að notum nema sérstakar ráðstafanir séu gerðar. Í framhaldi af þessu hefur ríkisstj. lýst yfir, að hún muni undirbúa fyrir næsta þing löggjöf, sem hafi þann tilgang almennt að vera strjálbýlinu skjól og varnargarður gegn því, að því blæði um of, fólkið flytjist burt, því að Ísland er ekki hluti af Íslandi, heldur Ísland allt. Ég veit ekki nema ég mikli um of fyrir mönnum það, sem fram undan er og það, sem áunnizt hefur. Á það er að líta, að tilgangur eldhúsumr. er að gera sennu að ríkisstj. og hennar að verja sig. Ég hef yfir fátt komizt og verða menn að líta á ræður okkar ráðh. í heild. Hitt staldra ég við, að um tíma var það fundið að ríkisstj., að hún gerðist um of athafnalítil. Meira ber nú á hinu, að mönnum finnst hún of athafnasöm. Hún á ekki að virkja fallvötnin eins stórt og hún ráðgerir, hún á ekki að stofna til stóriðju, hún á ekki að gera þetta eða hitt. Það eru á prjónum ýmsar ráðagerðir til eflingar íslenzkum iðnaði í auknum lánsfjármöguleikum og á annan hátt. Iðnlánasjóður hefur verið stórefldur og í gær var gefin út reglugerð á grundvelli l. um að breyta lausaskuldum iðnaðar, sem myndazt hafa vegna fjárskorts fram til ársloka 1963, í föst og umsamin lán. Hefur framkvæmd þessarar löggjafar verið gaumgæfilega undirbúin í samráði við alla bankana og miðað við góðar undirtektir þeirra á ég von á, að þessi löggjöf geti í framkvæmdinni orðið iðnaðinum veruleg lyftistöng. Þetta er kannske líka of mikið.

Það eru líka á prjónunum meiri aðgerðir, en áður í heilbrigðismálum þjóðarinnar, byggingu sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana og sett hefur verið merk löggjöf um nýja læknaskipan á þessu þingi, hjúkrunarlög o.fl. Þetta er kannske líka of mikið. Landhelginnar munum við gæta og efla hana eftir beztu getu. Þyrla er komin til gæzlunnar, til viðbótar annarri þjónustu. Verið er að undirbúa byggingu nýs varðskips á borð við Óðin, þó stærra og aflmeira. Þetta er kannske líka of mikið.

Gerð hefur verið grein fyrir því í þessum umr., hversu almannatryggingar hafa verið stórefldar á s.l. árum. Árin 1958–1959 var tæplega sjöttu hverri kr. af ríkisútgjöldum í heild varið til félagsmála. En s.l. tvö ár er fjórðu hverri kr. af ríkisútgjöldum í heild varið í sama skyni, en í ríkisframlagi til félagsmála er framlag til almannatrygginga langstærsti gjaldaliðurinn. Þetta er kannske líka of mikið.

Þegar á allt er litið, mundi sérhver ríkisstj. vinna að öllum þessum málum og öðrum þeim, sem greind hafa verið og greind verða í máli ráðh. Deilan stendur þá um það, hvort okkur hefur tekizt betur eða verr, en öðrum mundi takast. Við höldum, að öðrum mundi takast verr, af því að þeir hafa aðra stefnu, kommúnistíska stefnu eða sérhagsmunastefnu eða haftastefnu, sem við teljum þjóðinni skaðlega, eins og dýrkeypt reynsla sannar. Það er ástæðulaust að gera mannamun á þeim, sem eru í stjórn og stjórnarandstöðu, en það má dæma okkur, sem nú erum í ríkisstj., eftir verkum okkar. Séu þau léleg, á að hafna okkur, en velja aðra, sem menn teldu líklegri til stórræða. Hafi þessar eldhúsumr, nokkurn tilgang, er hann sá að auðvelda almenningi matið á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég lýk máli mínu með því að láta í ljós þá augljósu ósk, að ég vænti, að almenningur hneigist að okkar málstað, ríkisstj. og hennar stuðningsmanna, en arka verður að auðnu með það sem annað.