11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2088 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

Almennar stjórnmálaumræður

Björn Jónsson:

Herra forseti. Heiðruðu tilheyrendur. Við Íslendingar höfum nú um mörg ár búið við einstætt góðæri til lands og sjávar. Náttúran hefur verið okkur gjöful og fiskimenn, bændur, verkamenn og aðrir vinnandi menn hafa sveitzt við að ausa af nægtabrunni hennar. Þeir hafa lagt nótt við dag við framleiðslustörfin, lagt á sig lengsta vinnudag, sem þekkist meðal siðmenntaðra þjóða og skilað ótrúlegum verðmætum í þjóðarbúið með vinnu sinni. Á síðustu 3 árum hefur þjóðarframleiðslan vaxið um fimmtung, en þjóðartekjurnar hafa þó vaxið enn meira, en magnaukningu framleiðslunnar nemur, vegna stórhækkaðs verðlags á framleiðsluvörum okkar á öllum mörkuðum. Ef reiknað er með fólksfjölgun í landinu í þessu sambandi, liggur sú staðreynd fyrir, að á 5 síðustu árum hafa þjóðartekjur á mannsbarn hvert, miðað við fast verðlag, vaxið um rösklega 20%. Ef þessum verðmætisauka væri nú skipt milli þjóðfélagsþegnanna í sama hlutfalli og gert var, áður en viðreisnin hélt innreið sína, ættu þeir nú hver og einn að hafa á milli handa að erfiðislaunum tekjur, sem væru fimmtungi meiri að raunverulegu verðmæti, heldur en fyrir 5 árum, og væri þá að engu metið eða upp gert, hvað hver og einn hefði af mörkum látið til þess að ná þeim árangri í verðmætasköpun, sem raunin er á, að orðið hefur.

En engum blöðum er um það að fletta, að undirstaða þessa árangurs er framlag vinnustéttanna. Á það er einnig að líta, að hvarvetna annars staðar, en hér á landi er litið á það sem algert lágmark eðlilegra lífskjarabóta, að rauntekjur á vinnustund hækki til jafns við auknar þjóðartekjur á mann og víða er reyndin sú, svo sem á Norðurlöndum, að rauntekjur verkafólks hækka meira en þjóðartekjurnar. Kemur þar til hlutur síbatnandi tækni, bættra vinnubragða og réttlátari arðskiptingar. Það er því alrangt, sem Bjarni Benediktsson sagði hér í gærkvöld, að rök megi færa fyrir því, að launakjör eigi ekki að hækka í hlutfalli við vöxt þjóðartekna.

Um tölur þær, sem hann fór með frá Efnahagsstofnuninni, er annars það að segja, að þótt þær væru á alla grein réttar, verða ekki af þeim dregnar röksemdir gegn því, að óhjákvæmilegt sé að stórhækka tímakaup verkafólks, heldur þvert á móti, þótt ekki kæmi annað og meira til, en það geipilega ósamræmi, sem orðið er milli þess og annarra launagreiðslukerfa, sem forsrh. hrærði saman til þess að fá útkomu, sem málflutningi hans hentaði.

Skylt er þó að meta, að forsrh. kom þar máli sínu, að hann varð að viðurkenna, að kaupmáttur tímakaups almennra verkamanna hefði á viðreisnartímanum, lækkað um 12%. Gildi þessarar viðurkenningar á kauplækkun langsamlega stærsta hópsins í verkalýðsstéttinni, vildi hann þó eyða með þeirri fullyrðingu, að aðrir kaupgjaldsflokkar hefðu fengið meiri hækkanir. Þetta er úr lausu lofti gripið, því að staðreynd er, að aðrir kauptaxtar verkamanna hafa flestir hækkað minna, en almenna kaupið, en rétt er, að nokkrar tilfærslur milli flokka koma þar í móti. Almenna kaupið er því örugglega viðmiðun, sem ekki er fjarri sanni, enda það kaup ásamt næstlægsta taxta, sem er það raunverulega kaup meginþorra verkamanna um land allt.

Ef svo væri sem ráðh. lét að liggja, að almenni taxtinn væri nálega þýðingarlaus, væri auðvitað auðsótt mál við atvinnurekendur og ríkisstj. að fá hann hækkaðan. En ég fullyrði, að engri breytingu á launakjörum hafa þessir aðilar verið andstæðari, en þeirri að hækka almenna kaupið. Þar höfum við í verkamannasamtökunum mætt bjargföstu skilningsleysi og krepptum hnefum ríkisvalds og atvinnurekenda og enn orðið að lúta í lægra haldi.

Forsrh. og atvinnurekendur eiga nú í komandi samningum auðveldan leik að hverfa í þessu frá villu síns fyrri vegar og ættu því bæði Jón Þorsteinsson, sem hér talaði í gærkvöld eins og illa uppalinn Heimdellingur og aðrir hundtryggustu þjónar kauplækkunarstefnunnar að spara sér um sinn ögranir og áfrýjunarorð til verkamanna um, að ræfildómi þeirra sé að kenna, hvernig högum þeirra sé nú komið. Hins vegar munu þeir hinir sömu lengi þurfa að bíða þeirrar fullnægju vilja síns, að verkamenn gerist bandamenn atvinnurekenda í krossferð þeirra gegn lífskjarabótum annarra vinnustétta. Ef stjórnarstefnan hefði stuðlað að framkvæmd þeirrar meginreglu, að kjarabætur vinnustéttanna væru í samræmi við vöxt þjóðartekna, er auðsætt, að kaupgjald þeirra nú ætti að vera þeim mun hærra nú en 1959, sem nemur öllum verðlagshækkunum síðan og því til viðbótar hefði það átt að hækka um 20% í samræmi við þjóðartekjurnar. Verðlagshækkanirnar hafa eftir mælikvarða Hagstofunnar numið á þessu tímabili 92% að meðaltali. Launahækkanir hefðu því átt að vera um 130% samkv. þessari viðmiðun. Hversu fjarri raunveruleikinn er þessu takmarki, sem a.m.k. víðast hvar er viðurkennt réttmætt sem lágmark, má nokkuð marka af því, að tímakaup verkamanna í almennri vinnu hefur frá 1959–1964, miðað við ársmeðaltal, hækkað um aðelns 58%. Einstakar starfsstéttir hafa að sönnu náð fram nokkru meiri hækkunum, en það breytir ekki heildarmyndinni, sem nú blasir við, að rauntekjur miðað við vinnuframlag hafa breytzt í öfugu hlutfalli við vöxt þess arðs, sem hið vinnandi fólk hefur skapað, að þær hafa lækkað gífurlega mitt í mesta góðæri, sem þjóðarbúið hefur notið. Úr þessari mynd má svo lesa þakkir ríkisstj. og flokka hennar til verkalýðsstéttarinnar, sem nú leggur á sig slíkan vinnudag, að þess eru dæmi, að heilar starfsstéttir vinni sem svarar 4–7 mánuðum á ári í aukavinnu umfram eðlilegan vinnudag alla 12 mánuði ársins og ofbjóði þannig starfsþreki sínu, heilsu og hamingju.

Alla megindrætti þessarar myndar má rekja til ráðandi stjórnarstefnu, til margþættra aðgerða stjórnarflokkanna í efnahagsmálum. Tvennar gengisfellingar fyrsta og annað viðreisnarárið mörkuðu verðbólguleiðina í upphafi ásamt riftingu allra kjarasamninga verkalýðshreyfingarinnar með valdboðinu um niðurfellingu löglegra ákvæða um verðlagsbætur á laun. Og áfram var haldið á sömu braut með gerbreytingum á skattakerfinu í anda verðbólgu- og kjaraskerðingarstefnunnar. Þær voru hafnar strax 1960 og höfðu síðan æ ofan í æ verið efldar á hverju ári og þó sjaldan meira en á því þingi, sem nú er að ljúka. Frá 1959 hafa tollar og skattar samanlagt verið hækkaðir um 2.670 millj. kr. eða meira en fjórfaldaðir. Á því ári, sem nú er að líða, nemur hækkunin um 1.000 millj. kr. miðað við árið 1964. Meginhluta þessarar gífurlega þyngdu skattabyrði er almenningi gert að taka á sig með hækkuðu verðlagi. Söluskattshækkunin, sem kemur með hlutfallslega jöfnum þunga á allt verðlag í landinu og því þyngst á þá, sem minnst mega sín, nemur nú 922 millj. kr. eða hefur nífaldazt. Í fjármálum ríkisins hefur jöfnum höndum verið fylgt eyðslustefnu og verðhækkunarstefnu og almenningur hefur verið látinn borga brúsann í hækkuðu verðlagi, hækkuðum sköttum og lækkuðum raunlaunum. Samhliða hafa verið lögfestar slíkar breytingar á skattgreiðslum gróðafélaga í landinu, að þau eru nú orðin nær algerlega skattfrjáls til ríkisins. Af samanlögðum sköttum og tollum greiða öll rekstrarfyrirtæki í landinu nú 2% af tekjuskatti og 2% — segi og skrifa tvo af þúsundi af eignarskatti. Þess þarf naumast að geta, að slíkt skattakerfi þekkist nú ekki í neinu landi Vestur-Evrópu, nema vera kynni á Franco-Spáni og í Portúgal Salazars. Þess þarf varla heldur að geta, að öll sú gífurlega gróðamyndun, sem á sér stað í peningastofnunum þjóðarinnar, bönkum og fjárfestingarsjóðum, sem flestir eru nærðir á beinni eða óbeinni sköttun á almenning, eru algerlega skattfrjáls, bæði til ríkis og bæja. En þessi gróðamyndun ein er nú varla undir 1.000 millj. kr. árlega og fer sívaxandi ár frá ári. Þessari skattastefnu hefur ríkisstj. reynzt svo trú á þinginu nú, að auðsætt er sem áður, að hún telur hana einn helzta grundvöll efnahagsstefnu sinnar nú sem fyrr. Jólagjöf hennar til þjóðarinnar og til verkalýðssamtakanna sérstaklega til minningar um júnísamkomulagið var hækkun söluskattsins um 340 millj. kr. Og sumargjöfin verður svo hækkaðir beinir skattar til ríkis og bæja ásamt stórhækkun nefskatta, að því ógleymdu, að felldar hafa verið till. verkalýðshreyfingarinnar og Alþb., sem verulegu máli hefðu skipt til breytinga á skattakerfinu til hagsbóta láglaunastéttum þjóðfélagsins. Frjálst hagkerfi skulum við hafa, hvað sem það kostar. Skattfrelsi gróðafélaganna verður að vernda.

Nú skyldu menn ætla, að hóflaus skattpíningarstefna ríkisstj. hefði þó náð því markmiði að tryggja afkomu ríkissjóðs. Og rétt er það, að hann hefur fram til siðasta árs verið rekinn með miklum greiðsluafgangi, sem náðst hefur með því að heimta skatta og tolla langt um þarfir fram. Þetta er nú liðin tíð, að því er bezt verður vitað. 100 millj. kr. greiðsluhalli mun hafa orðið á s.l. greiðsluári, þótt leynt fari enn og enn meiri á þeim hluta ársins, sem nú er liðinn. Hinn nýi fjmrh. sezt því að tómum ríkiskassanum, þrátt fyrir þá dæmalausu skattheimtu, sem framkvæmd hefur verið.

Aukin skattheimta með verðhækkunarsköttum hefur svo leitt af sér aukin ríkisútgjöld, og þau hafa aftur kallað á enn aukna skatta. Enginn þróttur eða vilji hefur verið fyrir hendi til þess að stöðva rásina í þessum vítahring.

Allur vandi hefur verið leystur á þann veg að skapa annan meiri og gildir það jafnt á sviði skattamálanna sem annarra þátta efnahagsmálanna.

Við vöggu viðreisnarinnar var því heitið, að atvinnuvegum þjóðarinnar skyldi tryggður traustur, heilbrigður og varanlegur grundvöllur, auðvitað án allra uppbóta og styrkja. Nú er það að vísu algerlega úrelt orðið að minna viðreisnarmennina á gefin loforð, því að þjóðin öll veit fyrir löngu, að þar stendur ekki steinn yfir steini; að öll hafa þau verið svikin. Samt er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvernig atvinnuvegunum hefur vegnað og hvar þeir eru á vegi staddir.

Strax er auðsætt, að vel hefur verið búið að þeim þætti atvinnurekstrar, sem hefur með höndum innflutning á neyzlu- og framkvæmdavörum landsmanna, innflutningsverzluninni, heildsalastéttinni. Eftir 5 ára viðreisn rísa glæsilegustu stórhýsi höfuðborgarinnar yfir þessa starfsemi og aðra skylda, stórhýsi, sem kostað hafa hundruð og aftur hundruð millj. kr. Velmegunin lýsir af ytra borði jafnt sem því innra. Hér hefur hið frjálsa framtak, hið frjálsa efnahagskerfi, hin frjálsa álagning, sem Jóhann Hafstein var hér að blessa áðan, svo sannarlega sýnt glæsilega yfirburði sína. Hér hafa engir skömmtunarstjórar, hvorki skipaðir af stjórnarvöldum né getuleysinu sjálfu, staðið að verki. Hér hafa þeir sjálfir og einir um fjallað, sem fengið hafa til ráðstöfunar stærsta hlutann af sparifé þjóðarinnar og taka 1/10 af hverri kr., sem vinnustéttirnar afla í gjaldeyrisverðmætum. Óskabörnin sjálf eru að leika sér og búa sér í haginn í skjóli verðbólgunnar.

En hvað um sjávarútveginn og fiskiðnaðinn, sjálfa undirstöðuna, sem afkoma þjóðarinnar byggist öllu öðru fremur á? Hvað er um iðnaðinn í landinu, sem margir landsmenn eiga afkomu sína undir? Hvað um landbúnaðinn? Eitt er víst, að hagur þessara atvinnugreina er með allt öðrum brag, en verðbólgubraskaranna. Verulegur hluti sjávarútvegs og fiskiðnaðar skilar að vísu stórfelldum gróða, einstök fyrirtæki jafnvel tugmillj. kr. á ári. En þegar á heildina er litið, er hagur þessara atvinnugreina ekki í neinu samræmi við þá geysilegu aukningu verðmætasköpunar, sem hún hefur staðið undir og að réttu ætti að hafa til ráðstöfunar til þess að mæta réttmætum kröfum vinnustéttanna um bætt lífskjör. Hvað veldur? Ekki það, að útflutningsverðmæti afurðanna hafi ekki vaxið eðlilega, því að frá 1959–1964 óx heildarútflutningurinn úr 1.059 millj, kr. í 4.776 millj. kr. eða meira en fjórfaldaðist í krónum talið. Miðað við fast gengi óx verðmætið um meira en 70%. Ekki er því um að kenna, að raunlaun hafi hækkað í hlutfalli við verðmætisaukningu, því að þau hafa lækkað stórkostlega og eru nú miklum mun minni þáttur heildarverðmætisins en nokkru sinni áður. Hér þarf því annarra orsaka að leita, en of mikillar kröfugerðar verkafólks og sjómanna á hendur útflutningsframleiðslunni. Ef þeir erfiðleikar eru fyrir hendi að einhverju leyti, sem jafnan eru hafðir á hraðbergi, þegar semja á um launamál við verkalýðssamtökin, hafa vissulega allt önnur öfl verið að verki, og skal þó fátt talið. Útflutningsskattur hrifsar hundruð millj, af framleiðslunni. Innflutningstollar af vélum og tækjum taka sinn hlut. Gróði innflytjenda á veiðarfærum, skipum, vélum og rekstrarvörum er ómældur. Okurvextir hvíla með miklum þunga á framleiðslunni. Allt eru þetta kostnaðarliðir, sem vega miklu þyngra en vinnulaunin. Við þetta bætist svo lánsfjárskortur, sem hindrar eðlilega tæknivæðingu og framkvæmdir og skapar mikla erfiðleika. Almenn áhrif verðbólgustefnunnar gleypa þannig bróðurpartinn af verðmætisaukningunni og eru ein helzta hindrunin í veginum fyrir eflingu útvegsins og bættum lífskjörum þeirra, sem við hann starfa.

Verulegur hluti iðnaðarins er nú í fjörbrotunum og hundruð starfsfólks hans hafa verið og eru að missa atvinnu sína af þeim sökum, þótt hæstv. iðnmrh. gleymdi að minnast á það í ræðu sinni hér áðan. Þetta er ein fórnin, sem færð er verzlunarfrelsinu og þykir ekki of stór. Hins vegar þykir það of stór fórn fyrir íslenzkan iðnað, að létt sé af honum þeim miklu tollum, sem hvíla á öllum innflutningi tækja hans og véla og efnivörum til mannvirkjagerðar og hráefnum til hans, eins og þm. Alþb. hafa lagt til. Aftur á móti er algert afnám tolla sjálfsagt, þegar í hlut eiga erlendir auðhringar og fyrirhugaðar framkvæmdir þeirra, sem koma eiga í staðinn fyrir það framtak, sem nú er verið að drepa. Skortir nú ekki annað á, að verzlunarfrelsið sé fullkomnað, en hafinn verði innflutningur landbúnaðarafurða og þjóðin þannig losuð við eitthvað af því ómagaframfæri á bændum, sem ríkisstj. telur niðurgreiðslu búvöruverðsins vera, en auðvitað er ekkert annað en nýtt form á uppbótakerfi fyrir útflutningsframleiðsluna.

Mitt í hinu almenna góðæri hefur orðið mikill aflabrestur, bæði á síld- og þorskveiðum, fyrir öllu Norðurlandi og þó alveg sérstaklega á s.l. ári. Afleiðing þessa hefur orðið sú, að sjávarþorpin í þessum landsfjórðungi allt frá Ströndum og að Langanesi hafa, nú í meira en hálft ár, búið við atvinnulega ördeyðu, atvinnuleysi, sem á ekki sinn líka á síðustu áratugum. Hundruð manna hafa orðið að flýja suður í atvinnuleit, aðrir orðið að búa við skarðan hlut og afkomu, sem á sér ekki nú orðið hliðstæðu. Á þetta ástand og þar með yfirvofandi og þegar hafinn stórfelldan fólksflótta, úr sjávarbyggðunum á Norðurlandi, hefur ríkisstj. horft sljóum augum og án þess að hreyfa hönd til óhjákvæmilegrar aðstoðar. Hún virðist eiga að bíða, þar til hinir rýru skattpeningar alúminíumhringsins fara að drjúpa í pottinn eftir 4—5 ár. Þannig er forsjónin um atvinnulegt jafnvægi í framkvæmd.

Forsrh. sagði reyndar hér í gærkvöld, að um það mætti deila, hvort nægilega skjótt hefði verið brugðizt við vanda Norðlendinga af ríkisstj. Er samvizkan eitthvað mórauð eða hvað? Ekki væri það ótrúlegt, því að aðstoðin er engin og hefur engin verið. Hún hefur hvorki komið of seint né snemma, hún er enn ókomin.

Hvert sem litið er í efnahags- eða atvinnu- málum þjóðarinnar, blasa við erfiðleikar og vandamál, sem flest má rekja til rangrar stjórnarstefnu, sem fylgt hefur verið, stefnu, sem haft hefur að raunverulegu markmiði að koma á ranglátari tekjuskiptingu og eignaskiptingu í þjóðfélaginu, en áður var í stað þess að miða að auknum jöfnuði og bættum lífskjörum hinna mörgu, sem landið byggja, vinna hörðum höndum, leggja harðar að sér en flestir, ef ekki allir aðrir stéttarbræður þeirra, hvar sem leitað yrði. Það er þessi stefna, sem er að verki í skattamálunum, þegar drápsklyfjar eru lagðar á þá, sem aðeins hafa til hnífs og skeiðar, en auðfélög eru gerð skattfrjáls. Það er þessi stefna, sem að baki liggur, þegar bannfært er, að þjóðarhagsmunir ráði fjárfestingunni í landinu, sem nú nemur um 140 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu, með vitlegri stjórn á öllum þáttum hennar, og gróðasjónarmiðin ein eru sett í öndvegi í stað vitsmunanna. Það er þessi stefna, sem ræður ferðinni, þegar verzlunarvaldinu í höfuðborginni er fengin til frjálsrar ráðstöfunar meginhluti gjaldeyristekna þjóðarinnar, að það megi skattleggja allan þann innflutning, sem framleiðslustéttirnar gera mögulegan, að vild sinni, í stað þess að haft sé taumhald á og stærstu þættir innflutningsins fengnir í hendur ríkinu. Það er þessi stefna, sem birzt hefur í krepptum hnefa ríkisvaldsins, sem hvað eftir annað hefur verið reiddur að grundvallarrétti verkalýðshreyfingarinnar og enn var á lofti hér í gærkvöld, þegar Bjarni Benediktsson hótaði að svipta launamenn rétti sínum til verðlagsbóta á laun, ef kröfur þeirra færu fram úr því, sem hann teldi hæfa. Það er þessi stefna, sem nú eygir það sem helzta hjálpræði sitt að leiða fjármagn erlendra hringa til öndvegis í íslenzku atvinnulífi, ekki aðeins með því að semja við Swiss Aluminium og veita honum einstæð sérréttindi umfram íslenzka atvinnurekendur, heldur einnig í okkar höfuðatvinnugreinum, sjávarútvegi og fiskiðnaði, en þetta hjálpræði hefur verið boðað bæði af efnahagsráðunautum ríkisstj. og hefur verið nefnt því fína nafni erlent áhættufjármagn í íslenzku atvinnulífi.

Það er þessi stefna og margvíslegar afleiðingar hennar, sem eru höfuðvandamál íslenzks þjóðfélags og íslenzkra stjórnmála nú. Hún er það vandamál, sem verkalýðshreyfingin á í höggi við í baráttu sinni fyrir bættum kjörum, mannsæmandi vinnutíma og félagslegum umbótum, vegna þess að meðan henni er framfylgt, verður ekki um að ræða neina viðunandi lausn í þessum höfuðmálum íslenzkra vinnustétta. Hið frjálsa hagkerfi, sem viðreisnarstjórnin hefur verið að hrófla upp, hefur nú á 5 ára reynslutíma sannað, svo sem verða má, fullkomið getuleysi sitt til þess að veita vinnandi mönnum réttmæta hlutdeild í þeim lífsgæðum, sem þeir skapa með erfiði sínu. Efnahagskerfið, eins og það er orðið og hagsmunir almennings í landinu eru orðnar ósættanlegar andstæður og annað hvort verður að víkja fyrir hinu. Það eru þessar andstæður, sem hafa verið og eru nú í ríkara mæli, en áður kveikjan að því stéttastríði og innbyrðisbaráttu í okkar litla þjóðfélagi, sem alltaf, meðan þær eru fyrir hendi, vofir eins og sverð yfir því gróandi athafnalifi, friðsamlegri uppbyggingu og umbótum, sem þjóðin þarfnast og þráir flestu öðru fremur.

Verkalýðshreyfingin hefur ekki óskað eftir þessu stríði og hún mun ekki heldur óska eftir því í framtíðinni. En hún hvorki getur fórnað, má fórna né vill fórna hagsmunum og velferð umbjóðenda sinna fyrir sættir við þá arðskiptingu í þjóðfélaginu, sem nú er staðreynd orðin eftir 5 ára viðreisnarstjórn. Þess vegna er hún reiðubúin til að berjast, ef nauðsyn krefur.

5 ára reynslutíma hins frjálsa hagkerfis stjórnarflokkanna er lokið og við stöndum nú á tímamótum, þar sem úr því fæst skorið, hvort stjórnarflokkarnir hafa til þess manndóm og þrek að viðurkenna í raun og veru nauðsyn og óhjákvæmileik þess að gerbreyta um stefnu, taka upp nýja stefnu og gera þær margvíslegu ráðstafanir í efnahagsmálum, sem gera þarf til þess að tryggja launastéttunum endurheimt þess, sem ranglega hefur verið af þeim tekið og síðan stöðugar kjarabætur og félagslegar umbætur í framtíðinni í samræmi við raunverulega getu þjóðfélagsins eða hvort þeir enn lemja höfði við stein og efna til þess upplausnarástands, sem innsiglar endanlega stjórnmálalegt gjaldþrot þeirra. Velji þeir fyrri kostinn, er vel. Velji þeir hinn síðari, er það þings og þjóðar að tryggja nýja forustu, sem hefur vilja og getu til þess að ráða fram úr vandamálunum og er fær um að tryggja frið við vinnustéttirnar á grundvelli nýrrar stjórnarstefnu í samræmi við þarfir og kröfur alþjóðar.