11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

Almennar stjórnmálaumræður

Geir Gunnarson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það hefur þegar komið fram í umr. þessum, að þjóðartekjur Íslendinga hafa vegna einmuna afla, bættra viðskiptakjara, nýrrar tækni og gegndarlausrar vinnu almennings hækkað um hvorki meira né minna en 7.5–8% á ári undanfarin ár eða mun meira en þekkist í nokkru nálægu landi. Hin dökka hliðin á þessu er sú, sem einnig hefur verið minnzt á við þessar umr., að kjör vinnustéttanna, þess fólks, sem með þrotlausri vinnu hefur skapað þessa verðmætaaukningu, hafa ekki batnað í hlutfalli við aukinn afrakstur þjóðarbúsins. Raungildi tímakaupsins hefur á sama tíma lækkað. Nú er það svo sem allir vita, að atvinnurekendur og ríkisstj. hafa stöðugt jarmað um það í einum kór undanfarin ár, að kröfur um bætt kjör verkafólks ættu að bíða, þar til meira kæmi til skipta hjá þjóðinni. Bætt launakjör væri einungis hægt að veita af auknum þjóðartekjum. Nú hafa íslenzkir launþegar lifað þá tíma, sem okkur var sagt að bíða eftir. Þeir hafa lifað mestu aukningu þjóðartekna, sem um getur, en samt rýrna kjör þeirra, svo sem viðbúið er, þegar sú stjórn fer með völd, sem gætir fyrst og fremst hagsmuna atvinnurekenda og lítur á það sem höfuðhlutverk sitt að tryggja þeim, að aukinn afrakstur þjóðarbúsins lendi einungis í þeirra hlut. Vegna þess, hverra hagsmuna ríkisstj. gætir, hefur hverri kröfu verkalýðssamtakanna og Alþb. á Alþ. um, að verkafólk fái sinn hlut af auknum þjóðartekjum, verið mætt með óbilgirni og jafnvel með tilraunum til afnáms verkfallsréttar.

Kröfur alþýðusamtakanna hafa verið tvíþættar: annars vegar um hærri laun og hins vegar um lækkun á útgjaldaliðum alþýðuheimilanna, lækkun verðs á nauðþurftum, fæði, klæðum og húsnæði. Húsnæðiskostnaður almennings hér á landi er svo miklum mun meiri, en gerist með öðrum þjóðum, að þar kemst enginn samanburður að. Þjóðir, sem þurftu að reisa borgir og bæi úr rústum eftir stríðið, hafa búið þegnum sínum mun hagstæðari kjör í húsnæðismálum, en okkar stjórnarvöld hafa gert, þrátt fyrir að við höfum engin mannvirki misst af stríðsvöldum og þrátt fyrir þá gífurlegu aukningu þjóðartekna, sem við höfum notið. Sú aukning þjóðartekna hefur því miður hvorki farið til raunverulegrar hækkunar á kaupmætti tímakaups né til þess, sem ekki hefði verið síður um vert, að lækka þann gífurlega húsnæðiskostnað, sem almenningur býr við. Sá kostnaður hefur verið svo stórfelldur, að meginhlutinn af launum verkamanna fyrir 8 stunda vinnudag allt árið fer í vexti af kostnaðarverði einnar íbúðar, en vísitöluíbúðin er í dag talin kosta um 830 þús. kr. Frá því í október 1960 hefur byggingarkostnaður vísitöluíbúðar hækkað um riflega 300 þús. kr., eða meir en nemur öllu því hámarksláni, sem ætlunin er að veita úr húsnæðismálasjóði til hverrar íbúðar. Aðeins á s.l. 2 árum hefur meðalíbúð hækkað í verði um nálega 190 þús. kr. Það þýðir, að jafnvel þótt einhver, sem hygði á byggingu íbúðar, væri svo vel á vegi staddur, að hann gæti lagt fyrir rífleg árslaun verkamanna á einu ári fyrir 8 stunda vinnudag, stæði hann á því stigi eftir að hafa gert það í tvö ár, að íbúðin hefði hækkað í verði um nákvæmlega jafnháa upphæð og hann hefði sparað og hinir þeim mun verr, sem þeir gætu minna af mörkum lagt. Húsnæðiskostnaðurinn er svo gífurlegur, að ungu fólki er gert ókleift að eignast íbúð án þess að ofgera sér við látlausa vinnuþrælkun um langt skeið á sínum beztu árum. Þessi hái húsnæðiskostnaður veldur svo óhjákvæmilega því, að almenningur verður að gera þeim mun hærri launakröfur til þess að geta fullnægt þeirri frumþörf sinni að hafa þak yfir höfuðið.

Þrátt fyrir það, að eitt helzta fyrirheit stjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar var, að þeir mundu auðvelda almenningi að eignast eigið húsnæði, hafa þeir staðið gegn raunhæfum aðgerðum til þess að lækka byggingarkostnaðinn. Þess í stað streitist ríkisvaldið við að auka enn á byggingarkostnaðinn með aukinni skattheimtu á byggingarefni. Það er fróðlegt að fylgjast með þeirri bögglahrúgu, sem ríkisvaldið stendur að því að leggja á herðar húsbyggjenda til viðbótar við þær drápsklyfjar, sem fyrir eru: Ríkið leggur tolla á byggingarefni. Heildsalinn bætir við álagningu á tollinn, smásalinn sinni álagningu á tollinn og álagningu heildsalans á þann sama toll. Síðan kemur ríkið aftur með sinn söluskatt, 7.5%, ofan á allt saman. Auk þess, að 7.5% söluskattur er lagður ofan á innflutningsverð, flutningskostnað og þess háttar, leggst hann líka ofan á tollinn og þá álagningu, sem heildsalinn og smásalinn hafa lagt á tollinn. Hvað halda svo þeir, sem eru að baslast við að eignast íbúð, að þeir borgi í þessa sjálfvirku plokkunarvél ríkisins og kaupmannanna, — í toll, í álagningu á toll, í söluskatt á toll, í söluskatt á álagningu á toll? Ekki minna en 100 þús. kr. af meðalíbúð. Þar af er aðeins söluskatturinn einn um 37 þús. kr., en ríkisstj. hefur hækkað hann um 25 þús. kr. aðeins á s.l. ári eða um rúml. 2.000 kr. á mánuði að meðaltali. Þeir efna fagurlega fyrirheitin sín, stjórnarflokkarnir, um aðstoð við húsbyggjendur. Ofan á þetta bætast önnur opinber gjöld, svo sem gatnagerðargjöld og annað, sem menn verða að greiða, áður en þeir geta tekið fyrstu skóflustunguna. Nú síðast hafa svo bæjarfélögin flest tvöfaldað fasteignaskatt á íbúðum. Allt gerist þetta á sama tíma og lífskjörin, þ. á m. aðstaðan til þess að fullnægja húsnæðisþörfinni, ættu að geta batnað vegna stórfelldrar aukningar þjóðartekna.

Þær þjóðir, sem leggja sig fram um að gera þjóðfélagsþegnunum sem auðveldast að eignast þak yfir höfuðið og nota aukningu þjóðartekna m.a. til þess að gera það æ betur kleift, endurgreiða húsbyggjendum tolla af byggingarefni og skilja, að það er hagkvæmast fyrir þjóðfélagið og ríkið, að byggingarkostnaði sé haldið sem lægstum, svo að hann verði ekki sjálfvirkur verðbólguvaldur eins og hjá okkur. Alþb. hefur flutt á Alþ. frv. til úrbóta í húsnæðismálum, þar sem m.a. er gert ráð fyrir, að við höfum sama hátt á. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki fengizt til þess að skilja nauðsyn þessa máls, — nauðsyn, sem er í rauninni jafnbrýn fyrir ríkið sjálft eins og húsbyggjendur. Sama er að segja um till. Alþb.- manna um byggingu hagkvæms leiguhúsnæðis. Þær hafa engar undirtektir fengið. Erlendur auðhringur á hins vegar að fá eftirgefna alla tolla í sambandi við byggingu alúminíumverksmiðjunnar. Erlendum auðhring er ríkisstj. óðfús að veita 500 millj. kr. í eftirgjöf aðeins við byggingu verksmiðjunnar, en það svarar til tolla á byggingarefni til 10 þús. íbúða. Erlendum auðkýfingum ætlar ríkisstj. að gefa eftir jafnmikla tolla við byggingu alúminíumverksmiðjunnar og hún tekur af öllu því íbúðarhúsnæði, sem byggt er í landinu á 7 árum.

Íslenzkur almenningur, sem er meginhluta starfsævi sinnar að strita undir húsnæðiskostnaðinum, á að greiða fulla tolla af byggingarefni til þess að ríkisstj. hafi þeim mun betri efni á að gefa útlendum auðkýfingum eftir toll af sem svarar 10 þús. íbúðum.

En það er ekki nóg með, að byggingarkostnaður sé óheyrilega hár hér á landi, m.a. vegna álagna frá sjálfu ríkinu, sem ætti að gegna þveröfugu hlutverki. Skipulagsleysi og tæknilegur vanbúnaður valda hér nokkru um. í stað þess að sinna þessum málum á jákvæðan hátt, hafa stjórnarflokkarnir hunzað þau svo, að nú síðast við afgreiðslu fjárlaga höfnuðu þeir sérstakri ósk atvinnudeildar háskólans um 200 þús. kr. framlag, til þess að byggingarefnadeildin gæti hafið sjálfstæðar rannsóknir til lækkunar á byggingarkostnaði og endurbóta í mannvirkjagerð. Slíkur var áhugi stjórnarliðsins á lækkun byggingarkostnaðar þá dagana. Þó er það ámælisverðast í húsnæðismálum, að svo hár sem byggingarkostnaðurinn er og óviðráðanlegur fólki með venjulegar tekjur, er það að verða æ meira áberandi staðreynd, að almenningur á þess ekki kost að eignast íbúð á þessu háa kostnaðarverði, heldur verður að greiða byggingarbröskurum stórfelldar fjárhæðir í ofanálag. Venjulegu fólki er engin aðstaða búin til þess að kljást sjálft við íbúðarbyggingu, það er að verða liðinn tími, heldur verður það að sæta því, að einstakir fjáraflamenn fá byggingarlóðirnar og aðganginn að lánsfénu. Þeir byggja síðan íbúðirnar hverja af annarri og selja þær með hárri álagningu ofan á óhóflegan byggingarkostnað því fólki, sem eru allar aðrar bjargir bannaðar. Það mun ekki óvenjulegt, að þarna sé smurt um 200 þús. kr. ofan á byggingarkostnaðinn. Það er ömurleg staðreynd, að í slíkum íbúðarkaupum hafnar meginhluti þess láns, sem menn seint og um síðir fá hjá húsnæðismálasjóði, sem gróði í vasa byggingarbraskaranna, sem nota aðstöðu þá, sem valdamennirnir fá þeim, til þess að sópa til sín fé frá húsnæðisleysingjum, sem síðan leggja nótt með degi í óhóflegum vinnuþrældómi í fjölda ára til þess að geta staðið straum af öllu þessu.

Í þjóðfélögum, sem telja það ekki hæsta markmiðið, að útvaldir þegnar lífi á afrakstrinum af vinnu annarra, lifi á því að selja náunga sínum vöru og þjónustu á verði, sem er langt ofan við það, sem hún raunverulega kostar, þar gera stjórnarvöldin sérstakar ráðstafanir til þess, að slíkir hættir þrífist ekki í húsnæðismálum. Og hvað sem líður frjálsræði gróðans á öðrum sviðum í okkar þjóðfélagi, er það lágmarkskrafa, að húsnæðismálin séu friðhelg fyrir gróðanum. Hjá öðrum þjóðum, svo að ekki sé farið lengra en til Noregs, er það gert almenningi auðvelt að eignast íbúðir á kostnaðarverði með því að stuðla að félagslegri byggingarstarfsemi og búa svo um hnútana, að það væri jafnfráleitt fyrir gróðafíkna spekúlanta að ætla að nota sér húsnæðisþörf almennings til einkagróða fyrir sig eins og það væri að ætla að auðgast á því að selja fólki andrúmsloft. Í þjóðfélögum, þar sem eitthvað er gert til þess að vernda almenning fyrir gráðugum fjáraflamönnum, sem sjá alltaf peningavon frá náunga sínum, þar er byggingarsamvinnufélögum almennings gert kleift með hagkvæmum lánum til langs tíma og með lágum vöxtum að selja félagsmönnum sínum íbúðir á kostnaðarverði, þar eru engir tollar reiknaðir. En frv. okkar Alþb.–manna um þess háttar aðgerðir hér á landi, í landi hinnar miklu aukningar þjóðarframleiðslu, hefur engar undirtektir fengið hjá stjórnarflokkunum. Öllum úrbótatillögum í húsnæðismálum höfnuðu stjórnarflokkarnir. Það var ekki fyrr, en verkalýðsfélögin sögðu upp samningum í fyrrasumar og beittu samstilltum mætti heildarsamtaka sinna, að ríkisstj. sá þann kost vænstan að láta undan og sinna þessum málum í einhverju, — málum sem hún hafði allt til þessa dags ýmist fellt eða svæft á löggjafarþinginu. Fyrir afli verkalýðssamtakanna beygðu stjórnarflokkarnir sig og sömdu um nokkrar úrbætur í húsnæðismálum í samræmi við frv. Alþb., sem flutt var á síðasta þingi. Gegn því og nokkrum mikilsverðum atriðum í öðrum málaflokkum frestaði verkalýðshreyfingin meginhluta kröfu sinnar um hækkun launa. Sá árangur, sem náðist í húsnæðismálum, var vissulega nokkurs virði, þegar um þau mál var samið, en þann árangur hefur ríkisstj. nú að verulegu leyti tekizt að eyðileggja með því að rjúfa það grundvallaratriði samkomulagsins að vinna að stöðvun verðbólgunnar. En það fyrirheit sviku ríkisstjórnarflokkarnir við afgreiðslu fjárl. á þann hátt að hækka álögur meir en nokkru sinni hafði verið áður gert, m.a. um hækkun söluskatts um 340 millj. kr. á ári.

Með þessum aðförum, þegar sérstök brýn nauðsyn var á að skera niður fjárl. og halda álögum þannig í skefjum, er loku fyrir það skotið, að þær úrbætur, sem fengust í húsnæðismálum, gætu orðið varanlegar. Sú byggingarvísitala, sem í gildi var við samningana í júní í fyrra, svarar til þess, að vísitöluíbúðin hafi kostað um 740 þús. kr., en í dag er samsvarandi tala 830 þús., svo að kostnaðarverð íbúðar hefur hækkað um 90 þús. kr. á þessum tíma. Það er því auðsætt, að mikið átak þarf að gera í húsnæðismálum.

Reynslan hefur rækilega sýnt, að ríkisstjórnarflokkarnir fást engar úrbætur til að samþykkja, nema þeir standi frammi fyrir valdinu. Að sjálfsögðu munu þeir hér eftir sem hingað til ekkert gera til hagsbóta fyrir húsbyggjendur og standa gegn öllum jákvæðum till., þar til aflið knýr þá til að láta undan, eins og þeir gerðu í fyrrasumar, þegar heildarsamtök verkafólksins knúðu fram þær umbætur, sem fengust þá, en verðbólgan er nú komin vel á veg; með að gleypa, áður en komið er að því, að húsbyggjendur fái úthlutað lánum samkv. þeim nýju reglum, sem um var samið. Þegar það er haft í huga, að þjóðartekjurnar hafa aukizt stórkostlega hér á landi undanfarin aflaár, án þess að kaupmáttur tímakaups hafi hækkað, heldur lækkað, nær það að sjálfsögðu engri átt, að félagsmenn verkalýðssamtakanna skuli þurfa að fórna þeirri kauphækkun, sem þeir sannanlega eiga inni af aukningu þjóðartekna undanfarin ár, til þess að fá fram í samningum við ríkisstj. löggjafaratriði, m.a. um, að lán úr húsnæðismálasjóði skuli að krónutölu ekki dragast langt aftur úr hinni öru verðbólguþróun. Hér geldur verkalýðsstéttin þess að hafa ekki við þingkosningar tryggt það, að á Alþingi sitji nógu margir fulltrúar hennar, fulltrúar, sem meta meir að styðja að framgangi hagsmunamála almennings, en að búa gróðastéttunum sem bezta aðstöðu til athafna við gróðasöfnunina, jafnt við íbúðarbyggingar sem á öðrum vettvangi. Framgang löggjafarmálefna, svo sem úrbóta í húsnæðismálum, á verkalýðsstéttin, svo fjölmenn sem hún er, að sjá um með því að tryggja setu miklu fleiri fulltrúa sinna á Alþ., en eru nú, fleiri fulltrúa Alþb. en nú eiga sæti á Alþ. Þegar verkalýðsstéttin hefur gert það, þarf hún ekki að fórna réttmætri beinni kauphækkun fyrir framgang löggjafarmálefna. Þegar hún hins vegar, eins og nú, á við óvinsamlegt ríkisvald að etja, hljóta slíkir samningar að hafa takmarkað gildi, þar sem það sama ríkisvald hefur í hendi sinni að gera veigamikil atriði þeirra að engu, eins og reynslan er nú að sýna. Góða nótt.