11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

Almennar stjórnmálaumræður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Eins og oft áður hafa verið sögð ýmis öfugmæli í þessum umr., en lengst hygg ég, að Jóhann Hafstein hafi samt komizt, þegar hann sagði, að ríkisstj. væri búin að afnema höftin. Útvegsmenn, iðnrekendur og kaupmenn halda nú aldrei svo fund, að þeir kvarti ekki sáran undan lánsfjárhöftum. Vegna frystingar sparifjárins í Seðlabankanum búa atvinnuvegirnir við stórfelldari lánsfjárskort nú, en nokkru sinni fyrr. Það er því ekki að undra, þótt atvinnurekendur kvarti, því að ekkert háir nú atvinnurekstrinum meira en lánsfjárhöftin.

Benedikt Gröndal flutti hér hjartnæma ræðu um hina nýju stefnu ríkisstj., sem m.a. birtist í stuðningi við ýmsar verklegar framkvæmdir og framfarir. Því miður birtist þessi nýja stefna öðruvísi í verki, en hún birtist á vörum Benedikts. Nýlega ákvað t.d. ríkisstj. að lækka öll framlög til skólabygginga, vegabóta, hafnarbóta, flugvallagerða og rannsóknaframkvæmda um 20%. Þetta er vissulega ekki ný framfarastefna, heldur eldgömul og úrelt afturhaldsstefna.

Ég mun í þessum umr. fyrst og fremst ræða það mál, sem nú er tvímælalaust í hugum flestra mál málanna, en það eru kjarasamningarnir, sem eru fram undan.

Það er ótviræð staðreynd, að kauptaxtar eru hér miklu lægri, en í nágrannalöndum okkar og vinnutími er hér miklu lægri en þar. Skv. opinberum dönskum heimildum var meðal tímakaup ófaglærðra verkamanna í Danmörku á öðrum ársfjórðungi s.l. árs kr. 54.55, en hér var þá tímakaupið hjá 4. launaflokki Dagsbrúnarmanna, en honum tilheyra verkamenn í hafnarvinnu, kr. 35.99. Það er líka óumdeilanleg staðreynd, að kaupmáttur tímakaupsins, en við hann eru launakjör jafnan miðuð, hefur farið minnkandi síðustu ári, og sýna opinberir útreikningar, að kaupmáttur tímakaupsins er nú 12% minni hjá verkamönnum en hann var fyrir 6 árum: Þetta er óskiljanleg öfugþróun, þegar þess er gætt, að þjóðartekjurnar hafa aukizt um 30–40% á þessum tíma. Þótt hagfræðingar deili um margt, deila þeir ekki um það, að kaupmáttur tímakaupsins á að geta aukizt í samræmi við auknar þjóðartekjur. Þetta hefur hins vegar farið á aðra leið hjá okkur síðustu árin og veldur þar öllu, að ríkisstj. hefur lagt meginkapp á að láta verðlagið hækka meira en kaupgjaldið, því að hún og hagfræðingar hennar hafa trúað blint á þá villukenningu, að hófleg kaupgeta almennings sé meginháski efnahagslífsins.

Hversu hér hefur verið stjórnað öðruvísi, en hjá nágrannaþjóðum okkar, sést bezt á því, að á árunum 1959—64 hækkaði tímakaup verkamanna í Danmörku um 51%, en vísitala vöru og þjónustu um aðeins 25%, og jókst kaupmáttur tímakaupsins sem þessu munar. Hér hækkaði tímakaup Dagsbrúnarmanna um 63% á þessum tíma, en vísitala vöru og þjónustu um 89% og minnkaði kaupmáttur tímakaupsins sem þessum mun svarar. Undantekningarlaust hefur kaupmáttur tímakaupsins aukizt verulega í öllum löndum Vestur-Evrópu á þessum tíma nema á íslandi, en þó hefur hvergi orðið meiri aukning þjóðartekna, en hér á þessum tíma. Slíkar eru afleiðingar af verðhækkana- og ofsköttunarstefnu ríkisstj. Þessari öfugþróun mega launþegarnir ekki una og geta ekki unað, þar sem svo er líka komið hag þeirra flestra vegna sívaxandi dýrtíðar, að þeir hafa rétt til hnífs og skeiðar þrátt fyrir stöðuga lengingu vinnutímans, vaxandi vinnu húsmæðra og barna, svo að í mörgum tilfellum nálgast hreinan þrældóm allrar fjölskyldunnar. Við verðum í þessum efnum að byrja að minnka gjána, sem á undanförnum árum hefur skapazt milli okkar og annarra þjóða, bæði hvað snertir kaupmátt tímakaupsins og lengd vinnudagsins.

Í júnísamkomulaginu, sem gert var í fyrra, féllust verkalýðssamtökin á að fresta til eins árs kröfum sínum um hækkun tímakaupsins og styttingu vinnudagsins gegn því, að atvinnurekendur og ríkisstj. féllust á að taka upp að nýju verðlagsuppbætur skv. vísitölu. Það var vissulega mikill ávinningur fyrir launastéttirnar að fá verðlagsuppbætur teknar upp að nýju, því að hér eftir verður ekki hægt að fella gengi krónunnar eða gera aðrar slíkar kjaraskerðingarráðstafanir án þess að kaupið hækki jafnhliða.

Af hálfu verkalýðsstéttanna var því lýst eindregið yfir í fyrra, að kröfum þeirra um hækkun tímakaupsins og styttingu vinnutímans væri aðeins frestað í eitt ár. Í samræmi við það verða þetta aðalkröfur verkalýðssamtakanna í sambandi við samningana í ár, eins og líka var eindregið áréttað af Alþýðusambandsþinginu á s.l. hausti og kjararáðstefnu Alþýðusambandsins fyrir skömmu.

Ég hygg, að fullyrða megi, að aldrei hafi kjarakröfur verkalýðsstéttanna verið studdar betri efnahagslegum röksemdum en að þessu sinni. Eins og ég hef áður rakið, hafa þjóðartekjurnar vaxið stórlega síðustu árin, án þess að það hafi borið minnsta árangur í þá átt, að kaupmáttur tímakaupsins hafi hækkað eða vinnutíminn stytzt, heldur hefur hið gagnstæða átt sér stað: Það er réttlætismál, sem er ekki hægt að standa gegn, að launastéttirnar fái nú þátttöku í hinum auknu þjóðartekjum á þann hátt, að kaupmáttur tímakaupsins verði aukinn og vinnutíminn styttur. Hinar stórauknu þjóðartekjur gera þetta mögulegt, ef nokkur vilji til skynsamlegra stjórnarhátta er fyrir hendi.

Ég veit, að svarið verður nú eins og oftar, að þrátt fyrir hinar auknu þjóðartekjur sé þetta samt svona, að vissar greinar atvinnulífsins þoli ekki hækkanir, eins og frystihúsin, útgerðin o.s.frv. En þetta eru engar afsakanir, þegar nánar er að gætt. Ég veit, að afkoma margra þessara fyrirtækja er erfið, en erfiðleikar þeirra stafa ekki af háu kaupgjaldi, því að kaupgjald er hér lægra en í nágrannalöndunum. Þar er kaupgjaldið stórum hærra en hér, en aftur á móti búa atvinnuvegirnir þar við miklu rýmra lánsfé og geta því aukið hagræðingu sína, tollar af framleiðslutækjum eru nær engir eða engir, vextir miklu lægri, en hér og útflutningsgjöld sáralítil eða engin. Erfiðleikar íslenzkra atvinnuvega stafa þannig af rangri stjórnarstefnu, er birtist í stórfelldum og vaxandi lánsfjárskorti, allt of háum vöxtum, allt of háum tollum, allt of háum útflutningsgjöldum. Seðlabankinn, sem fyrst og fremst á að þjóna atvinnuvegunum skv. lögum sínum, hefur verið notaður eins og fjandsamlegt tæki til að gera þeim erfitt fyrir á flestan hátt. Það er þetta, sem þrengir að atvinnuvegunum og veldur því, að sumar greinar þeirra þola ekki miklar hækkanir, en það er þetta, sem á að breyta og auðvelt er að breyta og þá geta atvinnufyrirtækin bætt hag sinn, aukið hagræðinguna í rekstri sínum og boðið starfsfólki sínu bætt kjör. Þá er hægt að hækka kaupið, án þess að teljandi verðhækkanir fylgi eftir.

Í litlu þjóðfélagi, eins og íslenzka þjóðfélagið er, er fátt nauðsynlegra, en að stéttirnar láti sér koma vel saman. Fátt er hér mikilvægara, en góð samvinna milli atvinnurekenda og launþega. En frumskilyrði þeirrar samvinnu er, að atvinnurekendur skilji, að þeir eiga að standa með verkafólki sínu gegn ranglátu ríkisvaldi og rangri stjórnarstefnu, en ekki fylkja sér með ranglátu ríkisvaldi og rangri stjórnarstefnu gegn launafólkinu í landinu. Atvinnurekendur eiga hér samleið með launafólkinu, en ekki ríkistj. Atvinnurekendur og launastéttir eiga, ef rétt er haldið á þessu máli, að fylkja liði við júnísamningana á þessu ári og knýja ríkisstj. til þeirra breytinga á stjórnarstefnunni, sem geri atvinnuvegunum vel fært að koma til móts við réttmætar kröfur launamanna. Þetta er hægt með auknu lánsfé, lægri vöxtum, lægri tollum, lægri útflutningsgjöldum o.s.frv. Satt að segja eru það skrýtnir atvinnurekendur, sem vilja heldur eiga í deilum við starfsfólk sitt og neyða það til verkfalla, en að samfylkja með því um að það að knýja ríkisstj. til að létta lánsfjárhöftum og ranglátum byrðum af atvinnuvegunum, svo að þeir geti greitt hærra kaup.

Af hálfu andstæðinganna er mjög reynt að draga kjark úr verkalýðshreyfingunni með því, að kauphækkanir borgi sig ekki, því að kauphækkanir á undanförnum árum hafi verið gerðar að engu með enn meiri verðhækkunum. Þetta er því miður allt of rétt. En þó er það víst, að þessi öfugþróun hefði orðið launastéttunum miklu óhagstæðari, ef ekki hefði notið við baráttu verkalýðssamtakanna. Baráttu þeirra er það að þakka, að ekki hefur þó farið verr, eins og stjórnarstefnunni hefur verið háttað. Hér eftir munu líka grunnkaupshækkanir notast launastéttunum betur, vegna þess að í fyrra fékkst það fram, að verðlagsuppbætur skv. vísitölu voru teknar upp að nýju. Það er mikil trygging. Samt er það rétt, að meðan völdin eru í höndum manna, sem hugsa meira um aðra hagsmuni, en hagsmuni launastéttanna, er sú hætta alltaf fyrir hendi, að kjarabæturnar verði gerðar að engu með röngum stjórnaraðgerðum. Meginástæða þess, að kaupmáttur tímakaupsins hefur aukizt stórlega í Danmörku, meðan hann hefur rýrnað hér á landi, er sú, að í Danmörku hefur ríkisstj. verið í höndum manna, sem voru fulltrúar launastéttanna, en hér hefur það verið öfugt. Þetta sýnir það vel, að þótt stéttasamtökin séu mikilvæg og verkfallsrétturinn ómissandi þeim, sem lakar eru settir, er þó atkvæðisrétturinn þýðingarmesti og örlagaríkasti rétturinn. Því hafa launastéttirnar á Norðurlöndum, í Bretlandi og Bandaríkjunum lært, að samstaða á vettvangi stjórnmálanna er sízt minna mikilvæg en samstaða á hinum faglega vettvangi. Aðeins með því að nota atkvæðisseðilinn á réttan hátt er hægt að tryggja réttláta stjórnarstefnu. Af reynslu undanfarinna ára mega launþegar og réttsýnir atvinnurekendur vissulega læra það, að þeir þurfa í næstu kosningum að fylkja sér betur saman til að knýja fram nýja stjórnarstefnu, sem stuðlar að sameiginlegum hag beggja.

Þess verður nú víða vart, að menn eru kvíðnir vegna þeirra átaka, sem kunna að vera fram undan í sambandi við kjarasamningana í vor. Þessi átök þurfa þó engin að verða, ef ríkisstj. gerir sjálfsagðar ráðstafanir til að rétta hlut atvinnuveganna, eins og ég hef áður lýst. Þá geta atvinnurekendur vel staðið undir réttmætum kröfum starfsmanna sinna um hækkað kaup. Það er þannig á valdi ríkisstj., fyrst og fremst, hvort hér kemur til átaka eða ekki. Ég skal engu spá um það, hvað stjórnin gerir. Augljóst er hins vegar, hvað hyggin stjórn mundi gera. Hún mundi koma til móts við launastéttirnar og semja. En núv. stjórn er þreytt stjórn og ráðvillt stjórn, sem hefur það sem síðasta hálmstrá að halda dauðahaldi í ýmsar úreltar kennisetningar. Þess vegna er bezt fyrir launastéttirnar að vera við öllu búnar, fúsar til samkomulags, ef stjórn og atvinnurekendur taka hinn betri kost, en víkja ekki heldur frá rétti sinum, ef með bolabrögðum á að neita um það, sem réttmætt er. Þótt verkalýðssamtökin séu jafnan ófús til vandræða, hefur reynslan kennt þeim, að stundum er óhjákvæmilegt, að „þeir, sem stríði vilja verjast, verða stundum fyrst að berjast.“ Sú ábyrga og einbeitta stefna hefur fært verkalýðshreyfingunni stærstu sigrana.