11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

Almennar stjórnmálaumræður

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þeir, sem hlusta á eldhúsdagsumr. héðan frá Alþ., álykta oft sem svo, að þingið sé hin mesta rifrildissamkoma. En sem betur fer er þetta ekki rétt ályktað. Mörg mál eru afgreidd ágreiningslaust eða ágreiningslítið, eins og Emil Jónsson félmrh. sýndi ljóslega fram á í ræðu sinni í gær og á mörgum sviðum hafa þm. úr öllum flokkum gott samstarf, þótt því séu takmörk sett af ýmsum ástæðum.

Áhugamál flokkanna og einstakra þm. úr stjórnarliði og stjórnarandstöðu fara oft saman, en þegar um fjárútlát úr,ríkissjóði er að ræða, verða stjórnarliðar að hafa gát á hlutunum, sem hinir eru óbundnir af. Þannig heldur stjórnarandstaðan því oft og einatt fram, að hún geti útvegað hv. kjósendum skóla, sjúkrahús, vegi, brýr, hafnir, rafmagn, flugvelli o.s.frv., löngu áður en stjórnarliðið er tilbúið með sínar ákvarðanir og byggjast slík gylliboð til kjósenda oftast nær á óraunverulegum eða alls engum möguleikum til fjáröflunar til þessara mála. Geta vonandi allir séð, hversu lítils virði slík boð hljóta að vera. Svo þegar að því kemur, að stjórnarflokkarnir hafa tekið sínar ákvarðanir og málin komast á framkvæmdastig, þenja stjórnarandstæðingar út brjóstin og segja: Þetta eru skrautfjaðrirnar okkar. — Þótt þetta sé barnalegt og stundum skoplegt, dylst samt ekki tilgangurinn, sem er sá að blekkja kjósendur og fala af þeim atkv.

Þessarar áróðursaðferðar hefur gætt nokkuð í ræðum hv. stjórnarandstæðinga í þessum umr. Einnig hafa þeir af fremsta megni leitazt við að gefa hlustendum sem ranghverfasta mynd af ástandi og horfum í þjóðarbúskapnum í dag. Lífskjörum þjóðarinnar hefur hrakað, segja þeir. Kjarabætur hafa gufað upp. Iðnaðurinn er að hrynja, sjávarútvegur og fiskvinnsla berjast í bökkum og landbúnaðurinn er að syngja sitt síðasta, ef trúa má orðum manna eins og Eysteins Jónssonar og Björns Jónssonar. Framkvæmdir á öllum sviðum hafa dregizt saman og þjóðin er að sligast undan sköttum, segja þessir menn. — Mér finnst alveg furðulegt að heyra þennan söng kyrjaðan fyrir þjóðina ár eftir ár af mönnum með mikla reynslu í stjórnmálum að baki. Ekki þarf annað en segja við þig, hlustandi góður: Gakk út og sjá til þess að þú getir kynnt þér af eigin raun, að ástandið í hinu unga íslenzka lýðveldi er alls ekki eins og ræðumenn stjórnarandstöðunnar reyna að útmála það. Þjóðin býr við fulla atvinnu og allsnægtir, og hefur svo verið allan þann tíma, sem núv. stjórnarflokkar hafa starfað saman eða í 51/2 ár. Stjórnin hefur traustan meiri hl. þjóðarinnar að baki sér, traustari meiri hl., en nokkur önnur samsteypustjórn hefur haft á dögum lýðveldisins og hún hefur jafnan gert sér far um að taka föstum tökum þau vandamál, sem að höndum hefur borið. Hún hefur valið sér til ráðuneytis færustu menn, sem völ er á, til að undirbúa málin og jafnan lagt spilin á borðið, þannig að allir, sem vildu, mættu sjá, hvað um var að ræða hverju sinni. Því er ekki neitað af hálfu stjórnarflokkanna, að sumt hafi farið öðruvísi, en ætlað var og aldrei er það svo, að ekki komi til staðbundnir erfiðleikar, svo sem vegna aflaleysis í einstökum landshlutum eða nú í vetur vegna hafíss. En þjóðfélagið hefur aldrei áður verið jafnvel undir það búið og nú að koma til hjálpar í slíkum tilfellum, eins og forsrh. tók fram í sinni ræðu í gærkvöld.

Ég vil í þessu sambandi nefna, að vegna aflaleysis s.l. haust á Vestfjörðum og Norðurlandi gaf fiskveiðasjóður frest á allt að tveggja ára afborgunum stofnlána af bátum undir 100 rúml. á þessu svæði og á eins árs afborgunum annars staðar, þar sem með þurfti. Nú hafa nokkur erindi borizt til þm. á Vestfjörðum og Norðurlandi vegna erfiðleika á flutningum til þessara landshluta af völdum hafíssins. Hefur þessum erindum verið vísað til ríkisstj., sem áreiðanlega afgreiðir þau vinsamlega, þegar nægilegar upplýsingar liggja fyrir um, hversu víðtækrar fyrirgreiðslu sé þörf.

Margt er það í áróðri stjórnarandstæðinga, sem ástæða væri til að ræða nánar, þótt ekki vinnist tími til þess að sinni. Að lítt hugsuðu máli fleygðu tveir þm., þeir Hannibal Valdimarsson og Sigurvin Einarsson, inn í þingið till. um að færa út landhelgina fyrir Vestfjörðum, þannig að hún næði til landgrunnsins alls og aðalrök þeirra fyrir till. voru þau, að afli brást við Vestfirði s.l. haust og í janúar. Það er að vísu yfirlýst stefna Íslands, að afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls. Um þessa stefnu er enginn ágreiningur. En þeirri stefnu verður ekki komið fram með einfaldri samþykkt á þáltill. sem þessari. Málið er í heild miklu flóknara en svo og það gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir afdrif þess, ef farið væri af stað með það án rækilegs undirbúnings. Hvaða hald er t.d. í aðalröksemd flm. till. fyrir útfærslunni við Vestfirði, þ.e.a.s. aflaleysinu, nú að afstaðinni aðalvertíð? Fyrir mitt leyti vil ég vara alla þá Vestfirðinga, sem í raun og veru hafa áhuga á útfærslu landhelginnar, við vinnubrögðum tillögumannanna í þessu máli, enda veit ég, að fyrir þeim vakti það eitt með flutningi till. að skapa sér betri áróðursaðstöðu gagnvart þeim þm. úr Vestfjarðakjördæmi, sem styðja ríkisstj. Ég hef reynslu af því hér á Alþ., að til þess að koma málum fram fyrir einstök kjördæmi þurfi þm. jafnframt að líta á þarfir annarra kjördæma — eða heildarinnar, því að ekkert kjördæmi getur verið eins og ríki í ríkinu. Út frá þessu er það sannfæring mín, að allar aðgerðir í landhelgismálinu þurfi að miða við landið allt, þannig t.d., að ef fært er út á einum stað, þurfi að vera hægt að byggja sams konar aðgerðir síðar alls staðar annars staðar á þeirri aðgerð.

Þm. Vestf, hafa nú á þessu þingi komið fram miklu áhugamáli sínu og flestra Vestfirðinga einmitt með því, að um leið voru leyst sams konar mál annars staðar. Hér á ég við menntaskólamálið. Það er nú orðið lögfest, að byggður skuli heimavistarmenntaskóli á Ísafirði, en jafnframt var ákveðið að byggja nýjan menntaskóla í Reykjavík og heimavistarskóla á Austurlandi og menntmrh. hefur lýst því yfir, að fyrsta fjárveiting til Ísafjarðarskólans verði tekin inn á fjárlög næsta árs. Þessi málalok hljóta að verða öllum Vestfirðingum fagnaðarefni og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka menntmrh., formanni menntmn. Nd., Benedikt Gröndal og n. allri fyrir sérlega mikilsverða og góða fyrirgreiðslu við þetta mál. Í þessu sambandi vil ég einnig geta þess, að aldrei áður hafa verið veittar jafnháar fjárveitingar til skólamála á Vestfjörðum og í fjárl. þessa árs, en sú upphæð nemur um 15 millj. kr.

Nokkrir menn úr kennarastétt hér syðra hafa gerzt til þess að upphefja áróður gegn menntaskólum á Vestfjörðum og Austfjörðum í útvarpi og blöðum. Með því hafa þeir ekki uppskorið annað en það að auglýsa þröngsýni sína og skammsýni, því að minnast mættu þeir þess, að aðrir menntaskólar voru ekki miklir að vöxtum þegar við stofnun, þótt þeir séu orðnir það nú. Sú ákvörðun þings og stjórnar að stofna menntaskóla á Ísafirði er aðeins einn liður í þeim aðgerðum, sem nú eru að hefjast til þess að sporna gegn fólksflótta úr kjördæminu, en tækifæri til menntunar, bættar samgöngur og blómlegt atvinnulíf er það, sem með þarf framar öðru til þess að viðhalda byggð í hinum ýmsu landshlutum og á þessum sviðum þarf aðstaða manna að vera sem jöfnust, hvar sem þeir búa, eftir því sem framast er unnt.

Alþfl. hefur átt frumkvæði að því í ríkisstj. að koma á nokkrum vísi að áætlunarbúskap hér á landi og skipulegri heildarstjórn fjárfestingarmála og jafnframt hefur mönnum orðið ljóst, að einmitt á þann hátt þyrfti að vinna að því að leysa vandamál dreifbýlisins, en ekki með tilviljanakenndum og óskipulegum aðgerðum, eins og oft hafa tíðkazt. Þrátt fyrir fólksfækkun á Vestfjörðum að undanförnu, leggja Vestfirðingar stöðugt drjúgan skerf í þjóðarbúið og framleiða meiri útflutningsverðmæti, en ýmsir aðrir landshlutar, miðað við íbúatölu. Það er þess vegna engin tilviljun, að Vestfirðir hafa orðið fyrir valinu nú, þegar ákveðið hefur verið að taka upp skipulega áætlunargerð um framkvæmdir, er miði að því að efla byggðina úti um land. Stöðugt er unnið að samningu framkvæmdaáætlunar fyrir Vestfirði, en einn mikilvægasti þátturinn, samgöngumálin, er þegar kominn það langt, að 4 ára áætlun liggur fyrir um vegi, brýr og flugvelli og hefur verið útvegað það lánsfé, sem með þarf, auk venjulegra framlaga, til þess að framkvæma áætlunina. Áætlunin nær yfir árin 1965–1968 og er alls að upphæð 1711/2 millj. kr. Þar af verður varið til hafna 67.7 millj. kr., til vega 63.8 millj. kr. og til flugvalla á Ísafirði og Patreksfirði 40 millj. kr. Venjuleg framlög til framkvæmdanna nema 851/2 millj. kr., en lánið, sem tekið verður hjá Viðreisnarsjóði Evrópu, nemur 86 millj. kr. samtals. Fyrsti hluti þessa láns hefur þegar fengizt. Unnið verður í öllum höfnum frá Patreksfirði til Súðavíkur og stefnt verður að því að koma á sem fullkomnustu vegasambandi til flugvallanna á Ísafirði og Patreksfirði alls staðar að úr nágrenni þessara staða. Byggðir verði sem öruggastir vegir milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, milli Ísafjarðar og Súðavíkur og svo vestur yfir til Súgandafjarðar, Flateyrar og Þingeyrar. Lokið verður við veginn úr Trostansfirði til Bíldudals og byggður vegur yfir Hálfdán til Patreksfjarðar. M.a. verða gerð göng gegnum Breiðadalsheiði, sem nú er einn versti farartálmi á veginum til Ísafjarðar. Loks verður lagður bílvegur sunnan Þingmannaheiðar frá Eiði að Auðshaugi. Með þessum framkvæmdum er fyrst og fremst stefnt að því að efla þéttbýliskjarnana á Ísafirði og Patreksfirði, en koma stöðunum þar á milli jafnframt í nánari tengsl við þessa tvo þéttbýliskjarna, viðskiptalega, félagslega og menningarlega.

Djúpvegur og Strandavegur eru að vísu ekki með í þessari áætlun, en ætlun okkar Vestfirðinga, sem ríkisstj. styðjum hér á Alþ., er sú, að einmitt vegna framkvæmdaáætlunarinnar muni möguleikarnir aukast til þess að gera meiri átök í Djúpvegi og á Ströndum. Og ástand það, sem hafísinn hefur skapað í vetur, hlýtur að knýja á það, að reynt verði af fremsta megni að flýta því, að Árneshreppur komist í vegasamband.

Tími minn leyfir ekki, að ég ræði ýtarlegar um Vestfjarðaáætlunina, en í næstu áföngum hennar mun verða fjallað um atvinnumálin og ráðstafanir til þess að gera atvinnulifið á Vestfjörðum fjölbreyttara. Jafnhliða því, að tekin hefur verið upp skipulögð áætlanagerð fyrir dreifbýlið, eins og ég nú hef lýst hvað Vestfjarðakjördæmi snertir, eru stjórnarflokkarnir að taka ákvarðanir um stórvirkjun og stóriðju á Suðvesturlandi. Þær ráðstafanir munu væntanlega verða til þess að renna stoðum undir uppbyggingu dreifbýlisins með framkvæmdasjóði þeim, sem stofnaður verður með tekjum af opinberum gjöldum stóriðjunnar. Með slíkri uppbyggingu í landinu er hvað látið styðja annað markvisst og skipulega og með tíð og tíma munu nýjar kynslóðir hafa endurnumið marga þá landshluta, sem nú eru kallaðir dreifbýli.

Ég þakka þeim, sem hlýddu. — Góða nótt.