11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Dómsmrh., Jóhann Hafstein, var einstaklega ánægður yfir afkomu atvinnuveganna, alveg sérstaklega sjávarútvegsins, sem hann taldi standa með miklum blóma. Svo ætti það auðvitað að vera eftir öll góðærin. En hvað segja útvegsmenn sjálfir um þetta? Hafa þeir ekki einmitt nýlega haldið ráðstefnu og lýst því þar yfir, að hag sjávarútvegsins væri þannig komið, að hann þyldi alls engar kauphækkanir? Og hvað er um togaraútgerðina? Hvernig getur nokkur ráðh. verið svo utangátta að halda því fram, að hún standi með blóma? Sannleikurinn er sá, að útgerð á við stórkostlega erfiðleika að etja.

Hv. þm. Jón Þorsteinsson kallaði það yfirboð hjá framsóknarmönnum að flytja nokkrar till. um hækkun fjárveitinga til verklegra framkvæmda og vísindalegra rannsókna. Veit ekki þessi hv. þm. um þörfina á þessum fjárveitingum til vega, hafnargerða, skólabygginga, sjúkrahúsa og ýmiss konar rannsókna? Samkv. fenginni reynslu töldu framsóknarmenn tekjuáætlun fjárl. það lága, að þessar nauðsynlegu útgjaldahækkanir væru vel forsvaranlegar. Reynslan sker úr því, hvort svo hefur verið eða ekki. En þrátt fyrir eftirgangsmuni hefur enn þá engin skýrsla fengizt um afkomu ríkissjóðs s.l. ár. Það er því siður en svo ástæða til að saka framsóknarmenn um nokkurt ábyrgðarleysi í þessu sambandi, enda veit ég ekki betur en við höfum hvað eftir annað greitt atkv. með fjáröflun, sem talin var nauðsynleg, svo sem launaskatti og vegaskatti og mun slíkt þó fátítt um stjórnarandstöðu. En að gefnu tilefni er rétt að spyrja: Á aldrei að ráðast í nýjar eða auknar verklegar framkvæmdir eða vísindalegar tilraunir, ef þær kosta peninga? Á þjóðfélagið nú að eyða peningum sínum í allt annað fremur en slíkt? Skilja stjórnarsinnar ekki, að einmitt þessi fjárframlög skila sér aftur margfaldlega? En viðkvæði íhaldsins við úrbótatill. framsóknarmanna er og hefur jafnan verið: Þetta er yfirboð, ábyrgðarleysi, kostar peninga og er ekki hægt. — Já, við þekkjum þann söng. En ósköp er það ömurlegt að heyra Alþfl.-þm. fara með þetta hreinræktaða íhaldsnöldur og tala eins og íhaldssamasti íhaldsmaður. Ósæmilegar dylgjur þm. um það, að framsóknarmenn væru í hjarta sínu andvígir fjárveitingum til almannatrygginga, eru illkvittnislegur uppspuni frá rótum. Hvenær hafa framsóknarmenn greitt atkv. gegn fjárveitingum til almannatrygginga? Bókstaflega aldrei.

Það er sagt, að sumir menn séu svo jarðbundnir, að þeir eigi dálítið erfitt með að yfirgefa sitt veraldlega vafstur við vistaskipti sín. Það er auðheyrt, að hv. þm. Gunnar Thoroddsen var ekki alveg búinn að skilja við sitt fyrra tilverustig, ef svo má að orði kveða. Hugur hans var enn þá eðlilega talsvert bundinn fjmrn. og sköttum. Hann virtist svo ánægður með frammistöðu sína þar og alla skattana, að eiginlega varð maður undrandi yfir því, að hann skyldi vera fáanlegur til að yfirgefa þann ánægjulega póst og sín pólitísku eftirlætisbörn, skattana. Og eftirmanni sínum gaf hann holl ráð, svo sem vænta mátti. Þau voru í stuttu máli að efni til þessi: Magnús minn góður, mundu eftir meirvirðisskattinum nýja og viðurkenndu krónuhrunið með því að breyta um mynt og gera krónuna að tíeyringi og gera hana þannig að stærstu krónunni á Norðurlöndum. Þessi heilræði segja sína sögu. En manni verður að hugsa: Ja, þeir eru útspekúleraðir, þessir fjármálasnillingar.

Við skattahugleiðingar hv. þm. mætti vissulega gera margar aths., svo sem um ágæti hinna almennu neyzluskatta. En þar sem hann er nú eiginlega orðinn stikkfrí, ætla ég að sleppa því, en óska honum alls velfarnaðar í hans nýju og virðulegu stöðu í Kaupinhöfn.

Á valdatíma núv. ríkisstj. hefur lengst af verið hér óvenjulegt góðæri frá náttúrunnar hendi, þegar á heildina er litið: metafli ár eftir ár, hækkandi verðlag á útflutningsafurðum og vaxandi þjóðartekjur. Þrátt fyrir þær hagstæðu ytri aðstæður hefur ríkisstj. alls ekki tekizt að standa við fyrirheit sín um varanlegar úrbætur í efnahagsmálum. Í stað verðbólgustöðvunar, sem heitið var, er komin stórstígari verðþensla og risavaxnari dýrtíð, en nokkru sinni fyrr. Í stað skattalækkunar, sem lofað var, hafa álögur á almenning margfaldazt svo, að miðað við fjárlög hafa heildarskatttekjur ríkissjóðs meira en fjórfaldazt frá 1959. Á ríkisstj. eflaust Íslandsmet í álagahækkunum og e.t.v. einnig heimsmet. Í stað sparnaðar, sem fögur fyrirheit voru gefin um, er fjáraustur og óhófseyðsla í opinberum rekstri meiri nú, en dæmi eru áður til. Í stað bættra lífskjara, sem heitið var a.m.k. fljótlega eftir að fyrstu viðreisnarverkanirnar væru komnar fram, eiga margir þjóðfélagsþegnar við lakari aðstöðu að búa nú, en við upphaf núv. stjórnartímabils, þegar alls er gætt og miðað er við vaxandi framleiðslu og auknar þjóðartekjur. Auðvitað hafa ýmsar starfsstéttir haft sæmilegar eða jafnvel mjög góðar tekjur á þessum uppgripaárum. En ég hygg, að það sé óhrekjandi staðreynd, að kaupmáttur samningsbundins tímakaups hinna lægst launuðu manna hafi rýrnað frá því 1959. Hitt er annað mál, að vegna vinnuaflseftirspurnar og þar af leiðandi mikillar eftirvinnu og e.t.v. yfirborgana hafa tekjur manna sums staðar á landinu verið meiri, en orðið hefði undir venjulegum kringumstæðum. Hvernig hefðu menn líka annars átt að komast af í öllu dýrtíðarfárinu. Það hefur orðið neyðarúrræði manna að lengja vinnutímann, þar sem þess hefur verið kostur.

Hvernig halda menn, að útkoman hefði orðið og ástandið væri hér nú, ef við í stað uppgripaára hefðum búið við aflaleysisár á þessu tímabili? Til þess er óskemmtilegt að hugsa. Allt eru þetta skuggalegar staðreyndir og þungur áfellisdómur yfir stjórnarstefnunni.

Þó að hér hafi almennt verið góðæri á þessu tímabili, hafa einstök héruð aðra sögu að segja. Í sumum landshlutum, nú síðast t.d. á Norðurlandi, hefur verið við mikla atvinnuerfiðleika að etja af völdum aflabrests og óblíðrar náttúru. Hvað hefur verið gert af opinberri hálfu til að mæta þeim erfiðleikum eða til sérstakrar atvinnuuppbyggingar á þeim stöðum? Harla litið eða jafnvel ekki neitt, — skipuð n. og annað ekki. Í stað þess eru fjárveitingar til verklegra framkvæmda skornar niður um 20% jafnt í þessum landshlutum sem annars staðar. Og jafnframt eru svo ráðgerðar stórfelldari framkvæmdir og fjárfestingar. en áður hafa þekkzt hér á landi, einmitt á því svæði, þar sem verðþenslan er alvarlegust og vinnuaflsskorturinn er mestur. Svo heillum horfin er núv. stjórn.

Á valdaferli sínum hefur ríkisstj. þurft að kyngja mörgum stórum orðum. Hún ætlaði t.d. ekki að hafa afskipti af kaupgjaldssamningum. En reyndin hefur orðið sú, að hún hefur hvað eftir annað staðið í stríði við launþega og gripið til gerðardóma og valdbeitingar. Kaupgjaldsvísitalan var afnumin og fordæmd, en nú hefur ríkisstj. verið neydd til að lögleiða aftur verðtryggingu launa. Ríkisstj. ætlaði að afnema allt uppbótakerfi, sem sérfræðingar hennar töldu sérlega háskalegt, en nú hefur hún aftur innleitt það í stórum stíl, og er í því hin mesta gróska um þessar mundir. Engir höfðu fordæmt það meira, en forvígismenn Sjálfstfl., að reynt væri að leysa vandasöm mál með samningum við stéttasamtök eða utanþingsöfl, eins og þeir kölluðu það. En það má segja, að það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann. Þessi ríkisstj. hefur einmitt gert víðtækari samninga við utanþingsöfl um þjóðfélagsmál, en áður eru dæmi til og auðvitað án þess að hafa fyrst leitað umboðs hjá Alþ. Þannig mætti lengi telja. Ég er síður en svo með þessum orðum að andmæla þessum aðgerðum, en bendi aðeins á, að þær eru ekki í samræmi við þá stefnu, sem ríkisstj. markaði sér í öndverðu. Auðvitað hefði ríkisstj. átt að hafa sagt af sér fyrir löngu, ef hún hefði haft þor til þess að standa eða falla á verkum sínum, enda því lýst yfir á sínum tíma, að ef ekki tækist að stöðva verðbólguna, væri allt annað unnið fyrir gýg. En stjórnin hefur valið þann kostinn að stritast við að sitja sem lengst, hvað sem það kostaði. Hún hefur fyrir þó nokkru að því er virðist gefizt upp við að hafa nokkra heillega stefnu, enda hefur hún lánað öðrum þjóðum sjálfan efnahagsráðunautinn. Í stað þess lætur hún reka á reiðanum og allar þjóðfélagslegar aðgerðir hennar bera svip af handahófi, ráðleysi og ringulreið og það er víst þetta stjórnleysi, sem málgögn stjórnarsinna kalla frelsi.

Auðvitað hljóta margir fylgismenn ríkisstj. að hafa gert sér ljóst fyrir löngu, í hvert óefni stefnir. En þeir hafa sjálfsagt margir hverjir lifað í þeirri von, að ríkisstj. tæki sig á og hafa sagt eins og maðurinn: „Kannske Eyjólfur hressist.“ En nú hlýtur sá vonarneisti óðum að vera að kulna, því að Eyjólfi hefur bara alltaf hrakað. Víxlspor ríkisstj. hafa orðið æ fleiri og stærri. Þolinmæði manna hlýtur því að vera á þrotum og trú á því, að nokkurra nýrra raunhæfra úrræða sé að vænta af núv. ríkisstj., mun orðin næsta fágæt.

Fram undan er ný og geigvænleg verðbólgualda. Núv. stjórn hefur tvisvar gripið til gengisfellinga, í fyrra skiptið var hún óþarflega mikil og í síðara skiptið algerlega óþörf. Nú óttast margir og ekki að ástæðulausu, að ríkisstj. muni gripa til þriðju gengisfellingarinnar á komandi hausti. Vegna þess, sem á undan er gengið, duga því miður ekki yfirlýsingar hæstv. forsrh. hér í gærkvöld til að eyða þeim grunsemdum. En verði þriðja gengisfellingin framkvæmd, ætti mælirinn að vera fullur. En hvað sem er um það, er hitt víst, að gengi ríkisstj. er sílækkandi.

Ég fæ ekki betur séð en núv. ríkisstj. sé eins og á flótta, — á flótta frá upphaflegri stefnu, á flótta frá aðkallandi vandamálum, á flótta fyrir stjórnarandstöðunni, sem þrátt fyrir allt og sem betur fer hefur getað sveigt ríkisstj. til fylgis við sín sjónarmið á ýmsum málum, á flótta frá hinni eilífu sjálfstæðisbaráttu lítillar þjóðar í náðarskaut erlendra auðhringa. E.t.v. hafa hæstv. ráðh. það í huga, er einn orðhagasti Íslendingur á þessari öld, sem á efri árum og að fenginni reynslu sneri baki við Sjálfstfl., sagði eitt sinn: „Margur maðurinn hefur nú bjargað sér á flótta.“

Það má vel vera, að undir flóttans merki geti ríkisstj. framlengt eitthvað sitt pólitíska líf. Um það skal ég engu spá, en hitt er víst, að vandi framtíðarinnar vex með viku hverri, sem þessi ríkisstj. situr í stjórnarstólum aðgerðarlítil og úrræðasnauð. Og vandamálin, sem við er að glíma og leysa þarf, ef við ætlum að lifa við mannsæmandi lífskjör sem fullvalda menningarþjóð í þessu landi, eru meiri og stærri en svo, að líklegt sé, að við þau verði ráðið af stjórn, sem berst fyrir straumi og hefur eigi almennari tiltrú en núv. ríkisstj.

Þökk þeim, sem hlýddu. — Góða nótt.