07.05.1965
Sameinað þing: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

Aluminíumverksmiðja

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Af skýrslu þeirri, sem útbýtt hefur verið um hið svokallaða stóriðjumál, er ekki hægt að fá nákvæma vitneskju um, hvernig málið stendur, því að mjög margt þarf nánari skýringa við, sem þar er frá greint, en þó einkum í þeim kafla, sem flytur nýjar fréttir hv. þingmönnum, en það er sá kafli skýrslunnar, sem fjallar um, hvernig málin standa núna, en viðhorfið í málinu hefur allmjög breytzt upp á síðkastið.

Nú flæða um borðin ný þskj., sem þarf að lesa, svo að engin dæmi munu til annars eins á Alþingi voru og er þá mikið sagt. Búið er að sprengja ríkisprentsmiðjuna og farið að fjölrita, fyrir löngu. Afstöðu þarf að taka jafnt og þétt um flóknustu og örlagaríkustu nýmæli, en þingfundir svo fast pressaðir, að klipið er af flokksfundatímanum. En þar verður þó að ræða stóru málin, a.m.k. verða þeir að ræða þau þar, sem ekki hafa aðstöðu til að fylgjast með þeim fyrir fram, áður en þau eru lögð fram.

Af sjálfu leiðir, þegar svona stendur á, að enginn kostur hefur verið að verja tíma í að spyrjast fyrir út af stóriðjuskýrslunni eða kryfja hana til mergjar, svo sem þurft hefði fyrir umr., sem verða í flaustri við þessi skilyrði. Eru þetta allt mjög ámælisverð vinnubrögð og engu um þetta að kenna nema seinagangi hæstv. ríkisstj.

Við þessar ástæður tek ég það ráð að minnast á færri atriði, en ella mundi orðið hafa, enda skilst mér takmarkaður tími ætlaður í þessar umr. og vil ég ekki verða til þess, að aðrir komi ekki að því, sem þeim finnst mestu skipta á þessu stigi málanna. Ég mun því reyna að takmarka mál mitt sem mest.

Áður, en ég kem að sjálfri skýrslunni og því máli, sem hún fjallar um, finnst mér þó, að ég megi til með að nota þetta tækifæri til að segja örfá orð um stefnur varðandi erlent fjármagn til uppbyggingar í landinu. Almennt er um tvær meginstefnur að ræða, sem hægt er að fylgja í því tilliti, þ.e.a.s. þegar um það er að tefla að fá erlent fjármagn inn í löndin til að byggja upp. Það er fyrst lánaleiðin, en þá leið hefur Ísland farið sem betur fer. Hin leiðin er að veita erlendum aðilum sérleyfi eða frelsi til að eiga og reka fyrirtæki í löndunum. Þetta hafa Íslendingar ekki gert að neinu ráði og stórar ráðagerðir um því líkt hafa ævinlega verið lagðar á hilluna, áður en til framkvæmda hefur komið, þótt þær hafi þó nokkuð oft komið fram.

Ég tel, að við eigum að fylgja lántökustefnunni sem hingað til, en vil ekki fremur en fyrr, þar með segja, að ekki komi til mála að gera undantekningu, ef sérstaklega stendur á. En ég vara alvarlega við því að skipta um meginstefnu í þessu efni, sem er þó í vaxandi mæli ráðlagt og ráðgert af ýmsum.

Ég bendi í því sambandi á þrálátar ráðagerðir um, að útlendingar setji hér upp olíuhreinsunarstöð í landinu, sem er ekki stærra fyrirtæki en svo, að vel ætti að vera viðráðanlegt Íslendingum sjálfum, en olía og önnur bræðsluefni eru þær vörur, sem einna mesta þýðingu hafa í þjóðarbúskapnum.

Ég nefni einnig ýmsar ráðagerðir, sem nú eru farnar að koma fram um erlent hlutafé í fiskiðnaði og ýmsar aðrar atvinnugreinar í landinu. Mér finnst það ekki heldur spá góðu, að meiri hluti stjórnarflokkanna á Alþ. vildi ekki á dögunum krefjast þess, að Íslendingar eigi 75% af hlutafé, til að félag teljist innlent, þegar Norðurlandaþjóðir krefjast þess, að 80% af hlutafé sé innlent, til þess að fyrirtækin teljist raunverulega innlend. Út af þessu hef ég áhyggjur og ég vara við þessu. En þá má spyrja: Hvers vegna ekki breyta um og taka útlendinga inn í atvinnureksturinn á mörgum sviðum? Í fyrsta lagi vegna þess, að erlend fyrirtæki geta ekki jafnazt á við innlend, því að gróðinn og afskriftaféð fer beint út úr landinu. En það er einmitt gróðinn eða afgangurinn og afskriftaféð, sem byggir upp fyrir framtíðina mest í atvinnulífi landsins. Ég bendi á, að jafnvel auðug þjóð eins og Kanadamenn hefur átt í hinum mestu erfiðleikum vegna þess, hve mikið hefur verið þar í landi um erlenda fjárfestingu.

Engin trygging er fyrir stöðugum rekstri erlendra fyrirtækja. Þau deila yfirleitt ekki kjörum við landsmenn og hafa gróðasjónarmiðið eitt að leiðarljósi og það er skylt að gera sér fulla grein fyrir þessu. Við höfum líka reynslu fyrir þessu, Íslendingar, af erlendum fyrirtækjum, sem hér hafa rekið togaraútgerðir o.fl., þótt nú sé farið að fyrnast yfir slíkt hjá mörgum.

Erlendir aðilar hljóta að verða áhrifaaðilar innanlands, ef rekstur erlendra verður verulegur þáttur í atvinnulífinu og þetta sanna eldri og ný dæmi víðs vegar um lönd allt í kringum okkur. Jafnvel í háþróuðum iðnaðarlöndum Evrópu er „erlenda atvinnurekstrarmálið“ orðið verulegt vandamál, hvað þá í öðrum heimsálfum sumum, þar sem heimafólk er skemmra á veg komið, en erlendir hafa mikinn rekstur með höndum.

Ég bendi á, að það að taka inn erlent hlutafé í fyrirtæki yfirleitt í stórum stíl, t.d. í stað þess að taka lán handa Íslendingum sjálfum í fyrirtækin, verður yfirleitt dýrara Íslendingum, en að taka lánin. Og þegar talað er um að kaupa svo hlutabréfin af útlendingunum aftur, ef vel gangi, hvað kostar það? Hvað kostar það? Hvað kostar þá það fjármagn Íslendinga, sem þannig er fengið eftir þeirri leið, í staðinn fyrir eftir lánaleiðinni, sem yfirleitt hefur verið notuð fram að þessu?

Og hvernig ættu yfirleitt erlend stórfyrirtæki hér að komast í eigu Íslendinga, eins og sumir þeirra tala um, sem ráðleggja stefnubreytinguna? Menn vitna í Norðmenn í þessu sambandi, en ég hygg, að Norðmenn hafi fyrst og fremst eignazt þau fyrirtæki erlendra, sem tekin voru í bætur af Þjóðverjum. Eða hvernig hugsa menn sér, að erlend fyrirtæki hér kæmust í eigu Íslendinga? Ég hef ekki séð málefnalegar umr. um það, hvernig slíkt ætti eða mætti verða, en meira af bollaleggingum um, að slíkt kynni að geta skeð.

Íslendingar eru allra þjóða smæstir og hafa ríkari ástæðu til þess, en nokkur önnur þjóð, að fara varlega, enda hefur verið farið mjög varlega í þessum efnum og vel farnazt og mikið gert samt í landinu.

Ég vara alvarlega við því að líta svo á sem atvinnurekstur útlendinga geti yfirleitt jafnazt á við rekstur innlendra að gagnsemi fyrir þjóðarbúið og ég vara við því að ráðgera fullum fetum þátttöku erlendra í hverri starfsgreininni á fætur annarri, eins og hér sé ekki um nokkurt vandamál að ræða, heldur stefnu, sem upp eigi að taka. En slíkar ráðagerðir má heyra nálega daglega, t.d. einhvers staðar úr herbúðum sjálfstæðismanna.

Ég legg ríka áherzlu á, að þeirri meginstefnu verði fylgt sem áður, að atvinnurekstur á Íslandi sé í höndum Íslendinga og af þeim rekinn og komi annað til greina, þá sé þar um hreinar undantekningar að ræða samkv. sérstökum samningi hverju sinni og sérstökum lögum hverju sinni og tryggilega um búið, eftir því sem verða má og þá gert til þess að leysa verkefni, sem annars eru óleysanleg, en mjög þýðingarmikil fyrir landsmenn. Sé þess þá og vandlega gætt, að rekstur erlendra aðila verði aldrei nema lítill hluti af atvinnurekstrinum í landinu. Þessi hefur og verið stefna Framsfl. frá fyrstu tíð, að því viðbættu, að slík fyrirtæki njóti ekki hlunninda umfram íslenzka atvinnuvegi og lúti íslenzkum lögum. Síðast, en ekki sízt tek ég þó fram, að flokkurinn hefur ætíð lagt mikla áherzlu á, að staðsetning slíkra fyrirtækja stuðlaði að jafnvægi í byggð landsins, enn fremur, að með þessu móti, ef til kæmi, flyttist í landið verkkunnátta og ný tækni.

Framsfl. hefur alltaf fylgt lánastarfsemi varðandi erlent fjármagn, en aldrei lokað fyrir, að samningar ættu að geta komið til greina við erlenda aðila um atvinnurekstur, ef sérstaklega stæði á og þá sem undantekning frá meginreglunni. Þannig hefur þetta verið frá fyrstu tíð í Framsfl. og ég vitna til þess, að á Þingvallafundi framsóknarmanna 1919 var ályktað um þessi efni efnislega á þá lund, að fara skyldi varlega, en ljá þó máls á, ef þannig stæði á, að einn sérleyfissamningur yrði gerður hér í landinu til reynslu.

Auðvitað hefur hin varfærnislega afstaða framsóknarmanna eða Framsfl. alltaf verið talin ámælisverð af einhverjum og stefnan óskýr og þá ýmist legið á hálsi fyrir að vilja ekki fyrir fram annaðhvort útiloka allt, sem kæmi til greina af þessu tagi eða fyrir fram gína við öllu skilyrðislaust, opna þá sem sé allar gáttir fyrir útlendingum til að reka hér atvinnu og veita þeim sérréttindi og fríðindi umfram landsmenn sjálfa o.s.frv., o.s.frv.

Það vantar ekki álas venjulega í þeirra garð, sem þræða vilja vandrataðar götur í þessum efnum. En engin ástæða er til að kippa sér upp við þetta eða láta leiðast í öfgarnar, þótt stundum sýnist léttara í bili að skeiða á þeim brautum.

Ég kem þá að stóriðjumálinu svokallaða, sem hér liggur fyrir skýrsla um. Ríkisstj. hefur árum saman, að því er virðist, bitið sig nokkuð fast í þá hugmynd, að næstu virkjun á Íslandi skyldi og yrði að fylgja alúminíumbræðsla. Út af þessu hefur hún vafið þessi tvö mál saman og hefur það orðið til þess, að virkjunarmálin hafa tafizt til tjóns. Látið hefur verið í veðri vaka, að ekki mundi hægt að virkja hagkvæmt né myndarlega nema fá stóriðju með. Nú liggur á hinn bóginn fyrir, að slíkt er hægt, sem raunar átti að vera ljóst frá upphafi. Búrfellsvirkjun í Þjórsá t.d. fyrsti áfangi hennar, er sízt meiri áfangi í virkjunarmálum landsins, en Sogsvirkjunin á sinni tíð og hæfilega stór áfangi fyrir þarfir Íslendinga sjálfra, en stórmyndarleg framkvæmd.

Framsóknarmenn hafa lagt á það megináherzlu, að alúminíumbræðsla, ef til kæmi, gæti stuðlað að því að leysa byggðavandamálið. En það hefur engar undirtektir fengið enn þá að staðsetja slíka verksmiðju annars staðar, en hér í mesta þéttbýlínu, sem mundi auka byggðavandamálið í stað þess að hjálpa til að leysa það. Haldið hefur verið áfram sleitulaust að því marki, eins og annað sjónarmið kæmi ekki til greina og ber raunar allt þann svip, að sú staðsetning hafi verið ákveðin í raun og veru eða málið fest í þeim farvegi, áður en þm. var sýnt dálítið inn fyrir tjöldin í þessum efnum í nóvember í haust.

Svo er helzt að sjá t.d., að Norðurland og Dettifossvirkjun hafi verið úrskurðuð frá einhvern tíma snemma í málinu á þeim grundvelli, að Dettifossvirkjun þarfnaðist 60 þús. tonna alúminíumverksmiðju til að fá raforkuverðið nægilega niður, en Svisslendingar þá ekki sagðir vilja reisa nema 30 þús. tonna verksmiðju. En nú um miðjan vetur sveiflaðist málið allt í einu í annan farveg og kemur í ljós, að Svisslendingar geri að skilyrði að reisa 60 þús. tonna verksmiðju og þannig er komið gerbreytt viðhorf í málinu, sem ásamt fleiru gerir eðlilegt og nauðsynlegt, að staðsetningarmálið sé endurskoðað frá grunni. Enn fremur liggur ekki fullnægjandi fyrir um, hvaða aðrir staðir hafa verið úrskurðaðir frá og þá af hverjum eða með hvaða rökum, en er þó að því vikið í skýrslunni, en um þetta þyrfti að upplýsa.

Gert er ráð fyrir því í þessari skýrslu, að svissneska fyrirtækið kaupi raforku af Búrfellsvirkjun fyrir 21/2 mill, eins og það er orðað á tæknimáli um einingarverðið í skýrslunni, þ.e.a.s. fyrstu 15 árin, en óljóst fyrir mér, hvernig svo á að breyta verðinu eða hvernig það verður í framkvæmd. Upplýst er í skýrslunum, að Alþjóðabankanum þykir þetta of lágt verð fyrir raforkuna handa raforkuverinu, a.m.k. fyrstu árin. Er því ráðgert að taka hlut af skatttekjum af félaginu og borga í nokkur ár sem eins konar uppbætur á raforkuverðið upp í 3 mill. Samt er ætlað, að raforkuverið borgi engin aðflutningsgjöld og er það í fyrsta sinn, sem raforkuver fær slík hlunnindi á Íslandi. Ráðgert raforkuverð er líka, að því er mér skilst, nálægt 17% lægra, en Norðmenn fá fyrir raforku til alúminíumvera, eftir því sem upplýst er í skýrslunum. Þeir eru sagðir fá 3 mill.

Um hagnað fyrir raforkuverið af orkusölusamningi, sem gerður væri núna um fast verð til 15 ára úr orkuveri, sem á að byggja á næstu 7 árum, skilst mér vægast sagt allt vera á huldu, þar sem óðaverðbólga ræður hér ríkjum og allt efnahagskerfið í upplausn, sem verið hefur árum saman. Þar sem svo er ástatt, er engar áætlanir nokkuð að marka og allt á flugsandi byggt.

Orkuverið er áætlað í þessum plöggum tæpar 1.700 millj., en hæglega gæti þannig til tekizt, að endanlegt verð yrði 2.500 millj. eða hver veit hvað? Byggingarkostnaður mun t.d. hafa hækkað hér um a.m.k. 40% á 4 síðustu árum. Hvernig yrði þá komið hag orkuversins og þessum málum yfirleitt og þessum viðskiptum og hvernig ætti að leysa slíkt vandamál? Ráðstafanir til að vinna bug á óðadýrtíðinni og koma á heilbrigðri þróun efnahagsmála virðast því alger forsenda þess, að hægt sé að gera samninga af svona tagi. Sjá menn á því, að ekki verður þetta mál slitið úr sambandi við önnur atriði efnahags- og atvinnumála.

Fram kemur af skýrslunni, að ekki er gert ráð fyrir því, að alúminíumverið sitji við sama borð og íslenzkir atvinnurekendur varðandi skattgreiðslur og álögur. Það á ekki að vera undir íslenzkum skattalögum. Ómögulegt er að átta sig á því til fulls, hvað í skýrslunni stendur um þetta, nema fá skýringar og útlistanir, t.d. hvernig greiðslur hugsanlega passa við greiðslur samkv. íslenzkum skattalögum í dag, enda verða menn til þess að geta spáð um afkomu fyrirtækisins fram í tímann, svo að það yrði vist í meira lagi örðugt, þótt ýmsir Íslendingar taki sér það nú fyrir hendur. Hitt sést, að talað er um, að skattar, útsvör og álögur fari aldrei yfir 50% af ágóða í 45 ár, sem á að verða hinn raunverulegi samningstími og er það athyglisvert, að nú er fullum fetum farið að tala um hámarksprósentu af ágóða í þessi gjöld, en upphaflega var sagt, að sérreglan ætti að vera og raunar þyrfti að vera fyrir félagið, til þess að Íslendingar þyrftu ekki að reyna að gera upp reikninga félagsins til skatts, því að það væri svo erfitt. Er hér því sú ástæða fyrir sérreglu að falla burt eftir þessum nýjustu fréttum. Lágmarksskattagreiðslur eiga að vera 4–8 millj. á ári. Ekki eiga skattar né álögur á fyrirtækið að hækka í 25 ár, þótt álögur aukist á Íslandi, en fylgja allt öðrum reglum. Eftir því sem ég bezt veit, hafa hliðstæð fyrirtæki í Noregi lotið almennum skattalögum þar, en það verður þá leiðrétt, sé þetta misskilningur.

Tollahlunnindi mikil á verksmiðjan að hafa umfram nálega allan íslenzkan atvinnurekstur og munar það ekki neinum smávegis fjárhæðum og verður þarna um mikið misrétti að ræða, nema miklar breytingar verði gerðar á tollalöggjöf Íslendinga.

Oft hefur verið sagt, að Íslendingar mundu geta eignazt hlut í alúminíumbræðslum, sem síðar yrðu byggðar og helzt þá talað svo sem bygging þeirrar fyrstu gæti orðið grundvöllur að slíku. Þetta atriði finnst mér nauðsynlegt að ræða nánar, en ég fæ á hinn bóginn ekki séð, að í þessum ráðgerðu viðskiptum við Svisslendingana sé nokkurs staðar að finna þá fjármagnssöfnun Íslendinga, sem geti gefið vonir um, að þeir hefðu fé að leggja út frá þessu í þess konar verksmiðjur síðar að einhverju verulegu eða öllu leyti. Ég segi þetta núna vegna þess, að í sjálfri skýrslu ríkisstj. eru hugleiðingar um framtíðarþátttöku okkar sjálfra síðar í alúminíumbræðslu, en þessi mikilsverði þáttur málanna ekkert ræddur. Ég kem ekki auga á neina brú yfir það úr þessum viðskiptum, en missýnist mér, mun ég verða leiddur í allan sannleika.

Í þessu sambandi á einnig við að benda á, að frá því greinir í skýrslu ríkisstj. á bls. 8, að menn hafa gefizt upp við samninga um eignarhlutdeild Íslendinga að loknum samningstímanum, þ.e.a.s. þessum 45 árum, enda þótt sagt sé, að fram hafi komið skýrt, að Svisslendingar teldu æskilegt að tryggja rekstur eða uppgjör, eins og það er orðað, verksmiðjunnar á einhvern hátt í lok tímabilsins. En samningar um þetta hafa strandað, að því er fram kemur og þá helzt ráðgert í skýrslunni, að þetta sé opið og óumsamið. Allt þarf þetta nánari athugunar við, en sýnir hvað með öðru, að ekki er Íslendingum auðgengið inn í atvinnurekstur af þessu tagi og verða menn að hafa alveg opin augun fyrir því, Vantar raunar alveg málefnalegar umr. hér í landinu um þennan þátt þessara mikilsverðu mála.

Sjálfsagt er að gefa vandlega gaum bæði að kostum og göllum í þvílíku stórmáli sem þessu og áríðandi, að sem flest komi fram í umr. og málflutningi, svo að mönnum veitist léttara að mynda sér endanlega hleypidómalausa skoðun. Því drep ég m.a. á, að í skýrslu stjórnarinnar er komið inn á það, sem oft hefur verið lögð mikil áherzla á af öðrum, að út frá alúminíumvinnslu hér muni íslenzkir aðilar, íslenzk fyrirtæki, geta komið upp atvinnurekstri á eigin spýtur til að vinna úr alúminíummálminum frá verksmiðjunni. Er sagt, að þegar sé farið að athuga þetta. En ég hef hvergi séð þetta skýrt nánar og ekki heldur í þessari skýrslu, en bara sagt, að hér sé um mjög stórfelldan þátt að ræða í málinu. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðh., sem fjallar um þessi málefni: Hvað kemur aðallega til greina að vinna hér úr alúminíummálmi frá svona verksmiðju? Eiga þær vörur að vera til útflutnings og eru líkur til, að við getum keppt við aðrar þjóðir í slíkum iðnaði? Og af hvaða stærð eða stærðargráðu, eins og sérfræðingar segja stundum í mæltu máli, eru þá þær verksmiðjur, sem til þess þarf að annast slíkan atvinnurekstur? Eru þær verksmiðjur á okkar meðfæri, sem til þess þarf að annast slíkan atvinnurekstur? Eru þær verksmiðjur á okkar meðfæri eða er þá hugsunin, að erlendir ættu þá enn að koma til? Eða er hér átt við að framleiða úr alúminíum fyrir innanlandsmarkað einvörðungu og hvaða iðnaður yrði það þá aðallega?

Um þetta vantar upplýsingar, sem þyrftu að koma fram, því að þessi þáttur þarf að skoðast ásamt öðru sem æðistórt atriði í málinu. En ríkisstj. hlýtur að vita talsvert um þetta, það sýna ummælin í skýrslunni, þótt almenn séu.

Stórt orkuver og stóriðjufyrirtæki eru miklar framkvæmdir á okkar mælikvarða, sem bezt sést á því að hugsa sér, að hlutfallslega jafnstórar einstakar framkvæmdir kæmu til greina í nálægum, fjölmennari löndum. Ef menn setja upp þetta dæmi fyrir sér, fá menn betri hugmynd um, hve hér eru stórir hlutir á ferðinni, enda telur stóriðjunefndin þetta meðal hinna meiri háttar vandamála og í því sambandi vinnuaflið. Þetta vandamál mundi minnka stórlega, ef staðsett væri þar, sem þessar framkvæmdir gætu hjálpað til að leysa okkar stórfellda byggðavandamál, t.d. við Eyjafjörð. Á hinn bóginn magnast og margfaldast þetta vandamál, ef því er fram haldið endanlega að staðsetja stóriðju þar, sem hún eykur sogkraftinn, sem dregur fólkið úr þremur landshlutum í einn stað. En einmitt sú þróun er eitt helzta áhyggjuefni langflestra hugsandi manna í landinu og það ekkert síður þeirra, sem búsettir eru á mesta þéttbýlissvæðinu. Og skilningur á þessu vandamáli eykst sífellt. Ekki minnkar þessi vandi við það, að í vændum eru taldar á sömu slóðum verulegar framkvæmdir, í Hvalfirði, á vegum Bandaríkjamanna, sem væntanlega taka til sín talsverðan mannafla, ef úr verður, nema hugsunin sé að fresta þeim, eins og að vísu lauslega hefur komið fram hjá mönnum, sem kunnugir eru mörgu því, sem er að gerast.

Ráðgert er, að nálægt 900 manns þyrfti við virkjun og verksmiðju, þegar mest væri á framkvæmdatímanum og að þessu dregst svo þjónustulið og viðskiptalið, sem tölu er erfitt á að koma eða á að gizka, hversu fjölmennt yrði. En það er ekkert smávægilegt, sem um er að vera í kringum svona lagað, með beinum eða óbeinum hætti, ef til kemur.

Af þessu sjáum við glöggt, að framkvæmdir af þessu tagi verða ekki slitnar úr sambandi við aðra þætti í þjóðarbúskapnum, heldur hafa þessar framkvæmdir þau áhrif, að allar áætlanir um aðrar framkvæmdir í landinu yrði að gera með tilliti til þeirra. Allar áætlanir um aðrar framkvæmdir í landinu yrði um margra ára bil að gera með tilliti til þeirra. Fram hjá þessu verður ekki komizt.

Það er því nauðsynlegt og hollt að minna á verkefnin, sem skoða verður í sambandi við þessar stóriðjuáætlanir og aðrar fyrirætlanir í landinu. Íslenzka framleiðsluatvinnuvegi vantar mjög vinnuafl og sem betur fer úir allt og grúir af áætlunum um eflingu þeirra, sem ýmsar komast þó ekki í framkvæmd vegna skorts á vinnuafli, því að það fer í annað. Samt eru íbúðabyggingar á eftir og húsnæðisvandræði fara vaxandi. Vegagerðir, hafnargerðir, skólabyggingar, sjúkrahúsabyggingar og rannsóknarframkvæmdir í þágu sjálfra atvinnuveganna eru langt á eftir þörfinni, svo að í öngþveiti stefnir nálega í sumum greinum. Byrjað er samt að skera framlög til þeirra niður til að draga úr framkvæmdaþenslunni, að sagt er. Og í álitsgerð stóriðjunefndar eru ráðagerðir um, að einmitt opinberar framkvæmdir verði að víkja fyrir stóriðjunni, ef til kemur.

Fyrirhuguð staðsetning stóriðju eykur stórkostlega þörfina fyrir nýjar framkvæmdir í öðrum landshlutum, ef ekki á að snarast gersamlega og endanlega. Það er hér í skýrslunni talað um að taka upp hugmyndina um jafnvægissjóð og setja upp framkvæmdasjóð strjálbýlis með hluta af skatttekjum frá alúminíumverinu sem tekjustofn. Allt er betra en ekkert, sem sýnir viðleitni í þessa átt. En hvað dugir það, ef enn verður magnaður vandinn margfalt á móti því, sem þarna á að koma til? Og enginn getur spáð um skatttekjur af verinu, eins og nú er ráðgert um skattreglurnar, nema lágmarkið vitum við, hvað verður.

Hér mundi því þurfa allt önnur og meiri átök, en þetta. En þá verða það að vera nýjar framkvæmdir, sem þurfa vinnuafl og aftur vinnuafl og einmitt ekki sízt á meðan verður vinnuaflið fastast togað í þessar stóriðjuframkvæmdir. Annars koma þvílíkar ráðstafanir ekki að gagni til að styðja byggðina í landshlutunum, er mest á ríður, einmitt á þessum sömu árum.

Hvað á svo að víkja út úr þessu dæmi? Auðvitað veit ég um fjárfestingarsóunina, sem á sér stað og vinnuaflssóunina, sem verðbólgan hefur í för með sér, hina skipulagslausu handahófs- og verðbólgufjárfestingu, sem sogar til sín fjármuni og vinnuafl. En verður verðbólgufjárfestingin látin víkja? Verður ráðin bót á því ástandi, sem henni veldur, eða tekin upp skynsamleg stjórn á fjárfestingarmálunum? Því miður bendir fátt eða ekkert til þess og allar ráðagerðir vísa í öfuga átt, því er verr. Eða hvað sýnir 20% niðurskurður verklegra framkvæmda hins opinbera og ráðagerðir um framhald af slíku? Og hvað sýnir reynsla þeirra Íslendinga, sem eru að reyna að koma upp nýjum atvinnurekstri eða bæta þann, sem fyrir er?

Ég ætlaði með þessum fáu orðum um þetta mikla efni m.a. að reyna að sýna fram á, að þessi stóriðjuplön eða áætlanir er ekki hægt að einangra né unnt að taka afstöðu til þeirra að fullu, nema meta um leið margt annað, æði veigamikið og örlagaríkt, varðandi framkvæmdir og áhugamál einstaklinga og á þjóðarbúinu.

Mín ályktunarorð að sinni eru því þessi: Ég tel nauðsynlegt að snúa sér að því með mesta mögulegum hraða að virkja myndarlega, miðað við okkar raforkuþörf og þá m.a. fyrsta áfanga við Búrfell, ef ekkert óvænt kemur fram á lokastigi og þá með stækkunarmöguleikum að sjálfsögðu og svo raforkuver og tengilínur fyrir aðra landshluta eftir þörfum. En stóriðjuáætlanirnar og höfuðþætti í efnahags-, atvinnu- og fjárfestingarmálum tel ég að þurfi að endurskoða frá rótum. Tel ég þau höfuðsjónarmið, sem taka þurfi tillit til, koma fram í ályktun aðalfundar miðstjórnar Framsfl., sem samþykkt var í síðasta mánuði og ég leyfi mér að ljúka máli mínu með því að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni af þeim samningaumleitunum, sem nú standa yfir um alúminíumvinnslu hér á landi, lýsir miðstjórnin því yfir, að slíkt stórmál sé ekki hægt að afgreiða nema sem lið í heildaráætlun í framkvæmda- og efnahagsmálum og ekki tiltök að hefja þær framkvæmdir við þá verðbólguþróun og vinnuaflsskort, sem íslenzkir atvinnuvegir búa nú við. Eins og sakir standa er því ný stefna í efnahags- og atvinnumálum landsins forsenda þess, að unnt sé að ráðast í stóriðju. Hið erlenda fyrirtæki njóti engra hlunninda umfram íslenzka atvinnuvegi og lúti í einu og öllu íslenzkum lögum og raforkusala til þess standi a.m.k. undir stofnkostnaði virkjunar að sínu leyti. Enn fremur hafi íslenzk stjórnarvöld á hverjum tíma íhlutun um skipun stjórnar verksmiðjunnar og meiri hluti stjórnenda séu íslenzkir ríkisborgarar.

Miðstjórnin minnir sérstaklega á, að staðsetning alúminíumverksmiðju á mesta þéttbýlissvæði landsins mundi, eins og nú háttar, auka mjög á ójafnvægi í byggð landsins. Að óbreyttum þeim aðstæðum felur miðstjórnin framkvæmdastjórn og þingflokki að beita áhrifum sínum þannig, að verksmiðjan verði staðsett annars staðar.“

Með þessu vil ég ljúka máli mínu, en ályktunarorðin eru þau, að ég tel, að stóriðjuáætlanirnar og höfuðþætti í efnahags-, atvinnu- og fjárfestingarmálum þurfi að endurskoða frá rótum, eins og nú standa sakir.