07.05.1965
Sameinað þing: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2179 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

Aluminíumverksmiðja

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Skýrslu hæstv. ríkisstj: á þskj. 635, um svonefnda stóriðju, hefur nú veríð útbýtt á Alþ. og er það í sjálfu sér, eins og fram hefur komið í þessum umr., ekki vonum seinna, að Alþ. fái vitneskju um þetta mál og þær samningaumleitanir, sem átt hafa sér stað í því að undanförnu. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, mál sem er einstakt í þingsögunni, mál sem gæti orðið fordæmi um fleiri samninga við erlenda aðila, en einnig dæmi um það, hvernig ekki ætti að halda á málum í samningum við erlenda aðila og um hvað Íslendingar ættu ekki að semja. Þess vegna verður að vænta þess, að Alþ. gefist meiri tími til að ræða þetta mál, en þau sálsýkisvinnubrögð, sem einkenna þingstörfin núna síðustu dagana, benda til. Því verður ekki trúað með nokkru móti, að frá máli eins og þessu verði gengið, án þess að það sé rætt frá atriði til atriðis og hér koma margir tugir eða hundruð atriða til greina, stórra og smárra, sem verður að ganga vandlega og nákvæmlega frá og því verður ekki trúað, að íslenzk ríkisstj., hver sem hún er, vilji í þessum efnum gera verri samninga fyrir okkar hönd, en ríkisstj. í nágrannalöndum okkar hafa gert fyrir hönd sinna þjóða og því verður ekki heldur trúað, að nokkur ríkisstj. á Íslandi berji svona stórmál í gegn með litlum meiri hl. á Alþ. og gegn mikilli og alvarlegri andstöðu þjóðarinnar. Það verður að treysta því, að allir aðilar, sem að þessu máli vinna, sýni þá sjálfsögðu ábyrgð gagnvart þjóð sinni að ganga frá þessu máli þannig, að sem allra flestir geti orðið sammála um, að það skuli gengið frá því á þann veg, sem gert verður.

Ég skal taka það fram strax í upphafi, að ég tel algerlega rangt og hættulegt að vera með hreina fordóma um það, hvort við eigum að hagnýta okkur erlent fjármagn í atvinnurekstri á Íslandi. Ég tel það út af fyrir sig jafnhættulegt og rangt eins og að vera með fyrirframsannfæringu um það, að þetta skuli menn gera, menn skuli nú grípa hvert einasta tækifæri, sem býðst til þess að ná í slíkt fjármagn án tillits til þess, hvaða afleiðingar það hefur í för með sér. Og ég verð því miður að segja, að í áróðri ákveðinna aðila að undanförnu fyrir alúminíummálinu hefur því miður gætt allt of mikið þessarar fyrirframsannfæringar, fyrirframsannfæringar um það, að hér væri á ferðinni gott og sjálfsagt mál og nauðsynlegt mál, löngu áður en þessir aðilar höfðu nokkur tök á því að kynna sér efnislega þær umr., sem að sumu leyti hafa farið fram og að sumu leyti hljóta að vera eftir. Og þannig má ekki ræða slíkt mál sem þetta.

Það er alveg augljóst og hlýtur að vera, jafnt stjórnarandstæðingum sem stjórnarsinnum, að efnahagskerfi okkar er svo smávaxið, að við þurfum að hafa meiri gát á í umr. og samningum um svona hluti, en allar nágrannaþjóðir okkar, hvað þá stærri þjóðir, að hér verður fyrst og fremst að kanna burðarþol íslenzkra atvinnuvega í þessu sambandi, hvort það kiknar ekki undan því álagi, sem á það er lagt, þegar í svona stóra hluti er ráðizt innan þessa litla kerfis. Höfuðröksemd talsmanna stóriðju á Íslandi hafa verið þau, að við gætum ráðizt í þessa hluti og ættum að geta, eins og Norðmenn hefðu gert allt síðan nokkru eftir aldamótin. Það er að vísu dálítið ólíku saman að jafna íslenzku og norsku efnahagskerfi. Það er nokkuð annað, hvað íslenzkt efnahagskerfi eða norskt þolir í þessu sambandi. En engu að síður er rétt að hlusta á röksemdir í þessum efnum og athuga gaumgæfilega, hvað Norðmenn hafa gert og hvernig þeir hafa gengið frá þessum málum. Og nú vill svo til, að ég hef hér undir höndum samninga þá, sem Norðmenn hafa gert um alúminíumvinnslu í Noregi við sömu aðila og verið er að semja hér og það er því ástæða til að bera þessa samninga nokkuð saman. — (Dómsmrh.: Bera hvaða samninga saman? ) — Samninga þá, sem Norðmenn gerðu við sama fyrirtæki um 60 þús. tonna alúminíumverksmiðju í Noregi og sömu aðila, Swiss Aluminium, sem við erum að semja við nú. Þessir samningar Norðmanna eru í þrennu (Dómsmrh.: Bara svo að ég fylgist með, hvaða samninga á að bera saman? ) Samninga, sem Norðmenn hafa gert og það uppkast að samningum eða þær upplýsingar, sem fyrir liggja sem drög að samningum við sama fyrirtæki. Norsku samningarnir eru þrír, það er samningur um rafmagnsleigu, dags. 26. apríl 1962, samningur um byggingu alúminíumverksmiðju, dags. 20. maí 1962, og endurskoðun á þeim samningi, dags. 2. okt. 1963.

Í skýrslu hæstv. ríkisstj. um stóriðjumálið á bls. 3 er greint frá því, að hér eigi að stofna hlutafélag erlendra aðila á Íslandi, sem erlendir aðilar eingöngu eigi og að hlutafé þess muni verða allt að 1.250 millj, ísl. kr. Hér er e.t.v. um að ræða meginatriði málsins þegar í upphafi. Það heitir svo í skýrslunni, að þetta hlutafélag eða dótturfélag svissneska félagsins eigi að vera íslenzkt hlutafélag, sem lúti íslenzkum lögum. Þetta er orðaleikur og hártogun. Hér er um erlent hlutafélag að ræða, þó að það lúti íslenzkum lögum. Hvernig gætu menn hugsað sér erlent hlutafélag hér á landi, sem lyti öðrum lögum en íslenzkum? En það þyrfti að vera mögulegt, ef þetta erlenda félag gæti heitið íslenzkt hlutafélag, þegar Íslendingar eiga ekkert hlutafé í því.

Hér er komið að atriði, sem strax í upphafi gerir þessa hluti allt aðra, þessa fyrirhuguðu samninga hér á landi allt aðra, en þá samninga, sem Norðmenn hafa gert til þessa. Til þessa hafa Norðmenn ævinlega átt meiri hluta af hlutafé fyrirtækja, sem byggð voru með þátttöku erlends fjármagns. Alúminíumverksmiðjan, sem nú er verið að byggja í Noregi samkv. þeim samningum, sem ég hef hér undir höndum, var í upphafi hugsuð þannig, að Norðmenn ættu helming hlutafjár og erlendir aðilar helming, en Norðmenn hefðu samt sem áður meiri hluta í stjórn félagsins og meiri hl. atkv., þar sem þeirra hlutabréf skyldu verða forgangshlutabréf. Hlutafé í þessari verksmiðju, sem á að verða 60 þús. smál. eins og hér, var ákveðið með samningi 100 millj. norskar kr., eða rúmar 600 millj. ísl. kr. og vekur það strax athygli, hvað látið er að liggja, að hlutafé hér eigi að vera miklu hærra, en í Noregi. Gæti manni e.t.v. dottið í hug, að þetta væri m.a. gert til þess að sýna Íslendingum fram á það, að svona risafyrirtæki hefðu þeir ekkert bolmagn til að eignast nokkurn tíma? Nú var þannig frá þessum samningum gengið í Noregi, sem er einstætt í atvinnusögu Norðmanna, að þegar Norðmenn fengu að kynnast samningunum, fengu þeir ekki trú á því, að þetta fyrirtæki yrði arðbært, því að Svisslendingarnir höfðu náð of hagkvæmum samningum og ætluðu að nota fyrirtækið fyrir mjólkurkú í þágu Swiss Aluminíum. Fresturinn, sem þeir fengu til þess að kaupa hlutabréf, leið því án þess að norskir menn skrifuðu sig fyrir meira en 2.6 millj. norskra kr. af hlutafénu og norski Kreditbankinn fyrir 3 millj. í viðbót. Þetta þýddi það, að samkv, samningnum höfðu Svisslendingarnir rétt á að kaupa öll önnur hlutabréf.

Þegar málum var svona komið, hófust miklar deilur um málið í Noregi, sem enduðu með því, að iðnmrh. Noregs, sem frá samningum hafði gengið, Kjell Holler, átti ekki afturkvæmt í ráðherrastól. Við hans sæti tók Trygve Lie, og honum tókst með samningum 2. okt. 1963 að tryggja það, að Norðmenn skyldu þrátt fyrir allt fá að kaupa 20% af hlutabréfum í fyrirtækinu, en fá 21% atkv., sem þýddi samkv. samningum um hlutafélagið, að í öllum meginmálum fyrirtækisins fengu Norðmenn úrslitavald, þar sem 80% atkv. þarf til að ráða niðurstöðu í öllum meginmálum, svo sem breytingu á fyrirtækinu, úthlutun arðs o.s.frv. Og Norðmenn fengu einnig samkv. þessum samningi meiri hluta stjórnar félagsins, sem situr þar í krafti þessa norska úrslitavalds. Hér er gert ráð fyrir í skýrslu hæstv. ríkisstj., að meiri hl. í stjórn fyrirtækis yrðu Íslendingar, en þeir Íslendingar fara ekki með Íslenzkt vald. Og það yrði sjálfsagt sögulega séð fróðlegt að sjá það, hvaða Íslendingar vildu setjast á þessa stóla og rétta upp hendur á þessum fundum í krafti erlendra hlutabréfa. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma heyrt það eða séð í ræðum eða ritum manna um stóriðju á Íslandi, að hún skyldi framkvæmd eða um hana skyldi samið á þann hátt, að erlendir aðilar ættu allt fyrirtækið og stjórnuðu því. Þvert á móti held ég, að allir menn hafi gert ráð fyrir því, að þessari meginreglu Norðmanna yrði fylgt, að Íslendingar ættu a.m.k. helming hlutafjár, með þessari einu undantekningu í Noregi, sem ég hef nú greint frá, sem kostaði iðnmrh. Noregs, sem gekk frá samningunum, embættið. En það, sem kostaði iðnmrh. Noregs embætti og ráðherrastól, virðast íslenzk stjórnarvöld, samkv. skýrslu ríkisstj. til Alþ. um athugun á byggingu alúminíumverksmiðju á Íslandi, ætla að bera á silfurfati fram fyrir hina erlendu aðila og bjóða þeim. Ef svona hefði verið gengið frá málum í norsku samningunum, er alveg óefað, að það hefði kostað alla ríkisstj. þar völdin og stólana. Og ég er á þeirri skoðun, að Íslendingar verði að staldra alvarlega við, áður en þeir gera slíkan samning við erlenda aðila, þeir reisi sem sagt hér og eigi fyrirtækið, en Íslendingar enga hlutdeild í því á neinn hátt. Ef við viljum nota fordæmi Norðmanna um að semja við erlenda aðila, erlenda fjársterka aðila um atvinnufyrirtæki í landi okkar, skulum við líka gæta að því, hvort okkur er ekki hagkvæmt að miða við þá hagkvæmustu samninga, sem Norðmenn hafa gert fyrir sína hönd í slíkum málum.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta atriði, því að fleiri atriði þarf að drepa á. Í skýrslu hæstv. ríkisstj. er rætt um orkukaup alúminíumverksmiðju og orkuverð. Þar sem hér er um að ræða jafnstóra verksmiðju og þá, sem Norðmenn hafa samið um nýlega, er eðlilegt að bera þetta tvennt saman. Samningur Norðmanna um leigu á rafmagni til þessarar verksmiðju hefst með því, að þar er samið um, að alúminíumverksmiðjan fái 130 þús. kw. á ári til sinna nota og er talið, að a.m.k. fyrst um sinn, á fyrstu áföngum verksmiðjunnar, kunni þetta að reynast of litið rafmagn, þannig að í 3. gr. rafmagnssamningsins eru sett sektarákvæði gagnvart alúminíumverksmiðjunni, þar sem hún á að borga ákveðna sekt, 1 kr. norska af kw. á sólarhring, ef hún notar meiri orku en sem svarar sólarhringshlut af þessum 130 þús. kw. Hér er aftur á móti gert ráð fyrir nokkru minni orku til verksmiðjunnar og er að vísu munurinn ekki mjög mikill. En þetta telja Norðmenn sem sagt lágmark, miðað við sína reynslu af málinu og þá fer, eins og hér hefur komið fram í umr., að vandast dálítið málið í sambandi við orkuþörf okkar sjálfra. Ef við af 210 þús. kw. orkuveri eigum að selja stóriðjunni 130 þús. kw., eigum við ekki nema 80 þús. kw. eftir og mundi það samkv. áætlun um orkuþörf okkar sjálfra ekki nægja okkur nema í rúmlega 6 ár; þannig að við yrðum miklu fyrr en ella að grípa til þess að virkja fallvötn, sem samkv. þessari skýrslu eru talin miklu óhagstæðari, en Búrfellsvirkjun. Og þetta er auðvitað atriði, sem verður ekki komizt hjá að athuga og rannsaka mjög gaumgæfilega.

Um verðið á raforkunni er það að segja, að það er hér í skýrslu hæstv. ríkisstj. tengt meira og minna skattlagningu fyrirtækisins, þannig að það er gert ráð fyrir, að verði orkan 3 mill á fyrstu vinnslustigum verksmiðjunnar, lækki skattar verksmiðjunnar sem þessu nemi, þannig að þetta tvennt er tengt saman. Og það liggur ljóslega fyrir, hvers vegna þetta er tengt svona saman. Alþjóðabankinn hefur haft hönd í bagga með þessum samningum, fylgzt með þeim nokkuð af sinni hálfu og það kemur greinilega í ljós, að Alþjóðabankinn reiknar með að lána til verksmiðjunnar. Hann vill þess vegna a.m.k., að frá samningum sé gengið þannig, að lánin, sem hann veiti, séu nokkurn veginn tryggð. Þess vegna beinir hann því aftur og aftur til íslenzku samningamannanna, að þeir verði að reikna með hærra verði á raforkunni, en þeir virðast hafa getað hugsað sér að fallast á. Aftur á móti kemur það líka jafngreinilega í ljós, að Alþjóðabankinn er auðvitað ekki að hugsa um heildarútkomu íslenzks þjóðfélags út úr samningunum eins mikið og það lán, sem hann veitir sjálfur og vill fá endurgreitt. Þess vegna skýtur þessi hugmynd upp kollinum, að tengja þetta tvennt saman, annars vegar verðið fyrir raforkuna, sem á að standa undir lánum, afborgunum og vöxtum af lánum til erlendra lánastofnana og hins vegar skattana, sem hefðu átt að renna inn í íslenzkt þjóðfélag fyrir ýmsa aðra þjónustu og fyrir aðra hluti, sem þetta erlenda fyrirtæki hlýtur að njóta hér hjá okkur. Og satt að segja finnst mér það dálítið áberandi í skýrslu hæstv. ríkisstj., hvað Alþjóðabankinn eða fulltrúar frá honum hafa í þessu sambandi staðið sig miklu betur fyrir okkar hönd, en hinir íslenzku samningamenn. Það kemur fram á bls. 26 og sérstaklega 27 og 28, hvað Alþjóðabankinn leggur mikla áherzlu á þetta fjárhagslega öryggi og hann telur, að láta þurfi Svisslendingana standa frammi fyrir því að taka afstöðu til ákveðinna hluta, leggja sig ekki of mikið í líma við að fórna og fórna til að fá þá til að gera samninginn, heldur setja þeim stólinn fyrir dyrnar og sjá, að hverju þeir vilja ganga og að hverju ekki. Vitanlega er ekki þægileg aðstaða fyrir alþjóðastofnun eins og Alþjóðabankann að setja það fram á mjög áberandi hátt, hvað hann vanmeti kunnáttu og getu okkar Íslendinga til að standa í svona samningum, en ég tel; að hann geri það þó eins skýrt og verður með því að áskilja sér rétt til að hafa sína fulltrúa við frekari framhaldsviðræður um málið.

Samkv. skýrslu ríkisstj. er ráðgert, að þessi samningur standi í 45 ár. Ég skal ekki fara mjög ýtarlega út í það, hvað þetta gæti í sambandi við rafmagnsverðið orðið okkur til mikils óhagræðis, hér hefur verið rætt um það af öðrum. Á hitt vil ég benda, að í norsku samningunum er Swiss Aluminium gerð grein fyrir því, að rafmagnsverð muni hækka í Noregi eins og aðrir þættir efnahagslífsins og fallast samningamenn Swiss Aluminium á það, að þeir muni ekki geta búizt við því að fá fast verð á rafmagni í Noregi lengur, en til 5 ára. Síðan megi gera ráð fyrir lágmarksverðhækkun 2% á þessu verði á ári næstu árin, sem þýðir um 22% hækkun á 10 árum. Hins vegar hafa þeir látið í Ijós ósk um það, að slíkar hækkanir verði ekki látnar dynja yfir þá eins og flóðalda, heldur reynt að jafna þeim út yfir öll árin.

Í sambandi við skatta fyrirtækisins má einnig minnast á það, að eftir þessari skýrslu hér frá hæstv. ríkisstj. er auðséð, að það á að reikna með 33% skatti sem hámarksskatti á alúminíumverksmiðjuna og honum breytt yfir í magnskatt. Í Noregi hins vegar hefur þetta svissneska fyrirtæki undirritað samning um að borga þar 54% skatt af tekjum; skattskyldum tekjum, áður en arður er dreginn frá þeim tekjum. Og þá hefur jafnframt verið um það samið, að þessi hringur, sem hefur ráð á öllu verðlagi á öllum framleiðslustigum í alúminíumframleiðslunni, skuli ekki geta notað þarna tilfæringar með verðlagi og hráefni eða á þeim framleiðsluvörum, sem framleiddar eru í Noregi, til þess að lækka tekjur sínar, heldur skuli norska verksmiðjan fá hráefni til alúminíumframleiðslunnar á heimsmarkaðsverði og óheimilt sé að selja framleiðsluvörur undir heimsmarkaðsverði nema með sérstöku samþykki iðnmrn. í Noregi hverju sinni, ef sérstaklega standi á. Og svissneski hringurinn hefur ekki samkv. þessum samningum Norðmanna söluumboð fyrir norsku verksmiðjuna nema í 15 ár, aðeins 15 ár. Eftir þann tíma eru Norðmenn frjálsir að því að taka söluna í sínar eigin hendur eða útvega sér annað söluumboðsfirma. Og að sjálfsögðu hafa þeir þar að auki allt eftirlit með bókhaldi og rekstri fyrirtækisins, þar sem þeir ;sitja í stjórn þess og þetta er norskt fyrirtæki, þótt svo óhönduglega hafi tekizt til með hlutaféð í þessu tilfelli eins og ég hef áður greint frá.

Þá kemur næst í skýrslu hæstv. ríkisstj. að aðflutningsgjöldum og öðrum greiðslum og er þá skemmst af því að segja, að hér á alúminíumverksmiðjan að fá mikil fríðindi, því að það er gert ráð fyrir því, að hún verði undanþegin öllum aðflutningsgjöldum og tollum af byggingarvörum o.s.frv. Í norsku samningunum hins vegar er það tekið fram hvað eftir annað, að verksmiðjan þar nýtur engra sérréttinda í þessum efnum. Þar er gert ráð fyrir að jafnaði 15% tolli á þeim vörum, sem þarf til byggingar verksmiðjunnar, að öðru leyti en því, að fram er tekið, að hráefni hennar muni vera tollfrjáls í Noregi og enn fremur er því lýst yfir í samningnum, að norska stjórnin hafi ekki í hyggju að tolla þessi hráefni, en hins vegar á það bent, að í norskum lögum sé heimild fyrir því að leggja toll á hráefni til alúminíumframleiðslu og norska stjórnin geti þess vegna ekki gefið bindandi loforð um, að það verði ekki gert á samningatímanum. Auk þess er um það samið, að alúminíumverksmiðjan kaupi efnivörur í Noregi, þó að þær séu allmiklu dýrar,i en erlend tilboð hljóða upp á, allt að 10%. Þó er veitt undanþága frá þessu ákvæði að því er snertir EFTA-löndin svonefndu, því að Noregur er aðili að þeim og í árslok 1966 verða allir tollar og svona ákvæði um sérfríðindi að falla niður á milli þeirra landa.

Hér er því greinilegt, eins og víða annars staðar í þessari skýrslu hæstv. ríkisstj., að svissneska fyrirtækið fær til muna betri aðstöðu á Íslandi eða fengi, ef fylgt yrði þessari skýrslu í samningagerðinni, til muna betri aðstöðu, en í Noregi. Og það kemur líka fram ábending um það í þessari skýrslu frá Alþjóðabankanum, að svo kunni að vera, að við séum að gefa þessu svissneska fyrirtæki, veita því, of góða aðstöðu og það muni hagnast of mikið á samningunum, ef þeir verði gerðir út frá þeim forsendum, sem þessi skýrsla skýrir okkur frá.

Af þeim atriðum, sem meginmáli skipta í skýrslu hæstv. ríkisstj., segir þessu næst frá lóð og hafnarmannvirkjum, að íslenzka ríkið muni byggja hafnarmannvirki á verksmiðjustaðnum. Í norsku samningunum er þetta í 10. gr. og þar er um það samið, að verksmiðjan byggi sjálf alla vegi og öll þau mannvirki önnur, sem tilheyra verksmiðjunni, einnig hafnargerðir, en jafnframt um það samið, að Norðmönnum skuli heimil frjáls afnot af þessum mannvirkjum, nema það hindri eða trufli starfsemi verksmiðjunnar verulega. Þetta er því nokkuð á annan veg í norsku samningunum, en þessari skýrslu hæstv, ríkisstj. og enn hallar þetta á ógæfuhliðina fyrir okkur, því að enda þótt tekið sé fram, að alúminíumverksmiðjan skuli greiða hafnargjöld, þá má, ef að líkum lætur, gera ráð fyrir, að þeim verði ekki síður, en rafmagnsverðinu, stillt mjög í hóf, þannig að þau fái seint risið undir byggingarkostnaði þessara hafnarmannvirkja. Og í sambandi við þetta er rétt að vekja athygli á því, að þótt mörg atriði séu hér, sem eru á annan veg, en er í Noregi, eru meginatriðin þó þau, að í Noregi er um norskt fyrirtæki að ræða, sem hagar allri sinni framleiðslu nákvæmlega eins og hvert annað norskt fyrirtæki, sem framleiðir til útflutnings, þannig að allur gjaldeyrir, sem fæst fyrir framleiðsluafurðir fyrirtækisins, kemur inn í norska banka, og norskir bankar ábyrgjast síðan að greiða hráefni, vexti af lánum, tækniaðstoð til hins erlenda fyrirtækis, arð til erlendra hluthafa, þegar og ef um hann verður að ræða og alla aðra hluti. Afgangurinn verður síðan eftir í Noregi. En hér er þetta ekki hugsað á þennan veg eða ómögulegt að skilja það af þeirri skýrslu, sem hér liggur fyrir.

Þá er rætt í þessari skýrslu nokkuð, um gjaldeyristekjur af þessari alúminíumverksmiðju og það hefur löngum verið ein aðalröksemd þeirra, sem mæla fastast með alúminíumverksmiðjunni hér, að hún sé svo þýðingarmikil í sambandi við gjaldeyrisöflun okkar og að hún hafi í för með sér ákveðið öryggi fyrir okkur Íslendinga í sambandi við gjaldeyrismál okkar. Hér í skýrslunni segir, að hreinar árlegar gjaldeyristekjur af rekstri 60 þús. tonna verksmiðju séu áætlaðar 300–350 millj. kr. á ári. Ég tel nú einna líklegast, að hér sé um prentvillu að ræða í skýrslunni, að þetta eigi að vera árlegar brúttó-gjaldeyristekjur og það hlýtur eiginlega að vera svo. Það er einhver misskilningur þarna á ferðinni. Skal ég síðar aðeins víkja að því. En segjum, að þetta væri nú samt sem áður rétt, það væri um að ræða 300–350 millj. kr. árlegar gjaldeyristekjur af verksmiðjunni. Er þá í þessum 300–350 millj. kr. falið svo ákaflega mikið öryggi fyrir okkur í sambandi við gjaldeyrismál okkar, gjaldeyrisþarfir okkar? Brúttó-gjaldeyristekjur okkar 1963 munu hafa verið um 6.100 millj. og fara vaxandi. Brúttó-gjaldeyristekjur okkar fyrir útflutningsvörur aðeins 1964 voru tæpar 4.800 millj., en brúttó-gjaldeyristekjurnar munu hafa verið um 6.500 millj. eða þar yfir. Og þó að þessar tölur um gjaldeyristekjur af verksmiðjunni væru nú hreinar, eins og stendur, þá er þetta þó innan við 5%° af brúttó-gjaldeyristekjum okkar, eins og þær eru í dag og fer minnkandi, hlutfallslega minnkandi væntanlega, nema einhver ráðstöfun verði gerð til þess að draga úr gjaldeyrisöflun útflutningsatvinnuvega okkar. Er þá svo ákaflega mikil trygging í þessum 350 millj., þegar dæmið er þannig skoðað í ljósi staðreyndanna? Með sama hraða í þróun útflutningsatvinnuvega okkar og verið hefur síðustu árin, þá verða ekki nema 4–5 ár, þangað til brúttó-gjaldeyristekjur okkar væru komnar í 10–12 þús. millj., eða segjum, að eftir 10 ár verði þær komnar það. Þá sjáum við, hvað þetta er lítill hluti, sem þarna er um að ræða og þó enn þá minni, ef athugað er, að hér mun vera átt við brúttó-gjaldeyristekjur af verksmiðjunni, en ekki hreinar gjaldeyristekjur.

Sveifla til eða frá í síldarvertíð getur þýtt einn milljarð í gjaldeyristekjum okkar meira eða minna, svo að þá sjáum við, að hér eru engir stórir hlutir á ferðinni og eru þeir þó enn þá minni en gert ér ráð fyrir í þessari skýrslu. Það er t.d. reiknað með 150–200 millj. kr. á ári í vinnulaun sem hreinum gjaldeyristekjum. Norðmenn skýra frá þessu í skýrslum sínum eins og gert er hér. Þar er einnig gert ráð fyrir, að 450 menn starfi við verksmiðjuna, eftir að hún er tekin til starfa að fullu, eins og gert er ráð fyrir í skýrslu hæstv. ríkisstj., þ.e.a.s. það er gert ráð fyrir þessu af hálfu Svisslendinganna. Norðmenn hafa vefengt þessar tölur, véfengt þessa áætlun. Þeir hafa talið, að lágmark starfandi manna við verksmiðjuna, eftir að hún væri tekin til starfa, yrði 700 manns. Svisslendingar hafa svarað því til, að það væri ekki ólíklegt, að það þyrfti 700 manns, á meðan verið væri að þjálfa starfsliðið. En þegar norskir menn hefðu fengið fulla þjálfun við þessi störf, ætti að vera hægt að koma þeim niður í 450. Norðmenn hafa bent á það, að í tveimur starfandi alúminíumverksmiðjum í Noregi, sem framleiða 125 þús. tonn samtals, eru bundnir 300 norskir menn, beint í verksmiðjunum og óbeint í alls konar þjónustustarfsemi vegna þeirra. En Norðmenn telja sig munu fá í gjaldeyristekjur af 700 mönnum á ári aðeins 14 millj. norskra króna, miðað að vísu við vinnulaun í Noregi eins og þau voru 1961. En þessar 14 millj. norskra króna þýða ekki nema 84 millj. íslenzkra króna og eru fyrir 700 menn, en ekki 450. Samsvarandi hlutfall fyrir 450 menn yrði 54–55 millj. hér í staðinn fyrir 150–200 millj. Nú hefur að vísu kaupgjald í Noregi hækkað frá 1961 eitthvað lítils háttar og gerum ráð fyrir því, að það hafi hækkað það mikið, að fyrir þessa 700 menn, sem þeir telja sig þurfa að binda í verksmiðjunni, fengju þeir sem svaraði 100 millj. ísl. kr. á ári. En þá sjá menn, að allmikill munur er á því og þeim tölum, sem gert er ráð fyrir í þessari áætlun og auðvitað er það ljóst, að brúttótekjur af orkusölunni eru ekki nettógjaldeyristekjur fyrir okkur. Það mundi því ekki fráleitt að gera ráð fyrir því, að hreinar gjaldeyristekjur okkar af 60 þús. tonna alúminíumverksmiðju, miðað við það, að samið væri eins og þessi skýrsla gerir ráð fyrir að gert yrði í megindráttum, yrðu um 150–200 millj. kr. á ári. En Norðmenn hafa líka gert upp hreinar gjaldeyristekjur sínar af 60 þús. tonna alúminíumverksmiðju og þeir hafa gert ýtarlega grein fyrir þessu lið fyrir lið, hvað þeir fá, — ekki í örfáum orðum eins og hér er gert, heldur sundurliðað þetta á pappírunum lið fyrir lið. Og þeir gera ráð fyrir að fá nettó-gjaldeyristekjur fyrir þessa verksmiðju sem svarar 480 millj. ísl. kr. á ári, eða 80 millj. norskar krónur og á 10 árum 800 millj. norskra króna eða 4800 millj. ísl. kr. Segjum, að við fengjum 1.500-2.000 millj. Þá yrði munurinn á norska samningnum og þeim íslenzka, eftir því sem hér liggur fyrir, um 2.860–3.300 millj. kr. óhagkvæmari útkoma fyrir okkur, en fyrir Norðmenn. Á þessum grundvelli getum við auðvitað ekki samið. Um það hljóta allir að vera sammála. En ef menn vilja samt halda áfram að reyna að semja og bæta það, sem hér liggur fyrir þá teldi ég nauðsynlegt, að þeir gerðu sér grein fyrir þessum hlutum, hvernig þeir standa í Noregi, um hvað Norðmenn hafa samið. Ákveðnustu talsmenn erlendrar stóriðju hér geta ekki boðið þjóðinni upp á neina samninga um hana, fyrr en þeir hafa tryggt það, að þeir hafi ekki miklu lakari útkomu að bjóða en norska ríkisstj. hefur boðið sinni þjóð.

Þá er einnig í skýrslu hæstv. ríkisstj. rætt allmikið um eitt meginvandamál, ef til framkvæmda kæmi í þessu efni, en það er vinnuaflsskorturinn. Hér er sýnilega ekki gert allt of mikið úr þessu vandamáli. Það er t.d. í sambandi við vinnuaflsþörf við starfrækslu verksmiðjunnar reiknað með því algera lágmarki, sem svissneska fyrirtækið telur nauðsynlegt, eftir að búið er að þjálfa menn í þessum störfum og það er langt fyrir neðan það vinnuafl, sem þarf, á meðan menn eru að læra til þessara starfa og það tekur sinn tíma. Það er ekki aðstaða til að ræða það í sjálfu sér, hvort upplýsingar þær; sem hér liggja fyrir um vinnuaflsþörf við byggingarframkvæmdir bæði orkuversins og verksmiðjunnar, eru einnig í lágmarki eða langt fyrir neðan það, sem raunverulega verður, þegar farið yrði að vinna að þessum framkvæmdum. En þó að þessar tölur hér séu réttar, þá er um svo stóra hluti að ræða, að það er allsendis óvíst, hvort hreinar gjaldeyristekjur okkar yxu nokkuð fyrsta kastið við tilkomu alúminíumverksmiðju. Það gæti alveg eins farið svo, að þær minnkuðu. Pressan á vinnumarkaðinum er slík í dag og verður á næstu árum, að tvö stór fyrirtæki, sem soguðu til sín það vinnuafl, sem hér er um að ræða, mundu valda endanlega mjög miklum og alvarlegum áföllum í útflutningsframleiðslu okkar. Þetta væri tiltölulega auðvelt að leysa, ef hér væri einræðisríki, ef hér væri hægt að leggja niður ákveðin fyrirtæki og taka mannaflann úr þeim og færa yfir. Hér er sem betur fer ekkert slíkt vald til, en það hefur það í för með sér, að vinnuaflið streymir ekki frá einu eða tveimur eða nokkrum fyrirtækjum algerlega, heldur kemur einn maðurinn úr þessari áttinni, annar úr hinni, þannig að öll heildin í þjóðfélaginu, allt framleiðslukerfið, getur starfað með hálfum eða stórminnkuðum afköstum og það getur þýtt miklu stærri hluti gjaldeyrislega séð, en þær milljónir, sem verið er að tala um að alúminíumverksmiðjan muni færa okkur í þjóðarbúið.

Það hefur verið haldið uppi í ákveðnum blöðum áróðri um það, að við hefðum ekkert að óttast í þessu sambandi, því að nú kæmust svo margir menn á tvítugsaldur á næstu árum, að hér yrði miklu meira vandamál að sjá þessum mörgu nýju höndum fyrir arðbærum verkefnum. Þetta er að sjálfsögðu marklaust bull, ef ekkert verður annað með það gert, en bara að birta það í blöðum. En ef farið verður að byggja alvarlegar ákvarðanir á þessum og þvílíkum vangaveltum, er þetta miklu verri hlutur og getur dregið miklu alvarlegri dilk á eftir sér. Atvinnuleysi er ekkert vandamál í dag og verður ekki á Íslandi á næstu áratugum. Hér verður hitt sífellt vaxandi vandamál, að okkur vantar fólk til að vinna,og þá gætu, ef við rösum um ráð fram og byrjum á framkvæmdum, sem við hefðum ekki vinnuafl til, blasað við okkur enn ný vandamál, sem við höfum sem betur fer ekki kynnzt og ekki þurft við að stríða hingað til, þ.e.a.s. vandamálið að fara að flytja inn vinnuafl. En í þeim efnum þyrftum við ekki að gera ráð fyrir að fá neitt mannbætandi lið hingað, enda ætti öllum að vera augljóst, að jafnlítil þjóð og við Íslendingar erum, þolir ekki slíkar tilfæringar.

Við höfum fengið nokkuð af þessum stóru árgöngum, sem talað er um í áróðrinum fyrir alúminíumverksmiðjunni, til þess að menn verði ekki hræddir um það, að allt fari nú á bólakaf, ef í þetta verði ráðizt, — við höfum fengið nokkra af þessum árgöngum og ástandið er þó þannig í dag, að mér er kunnugt um dæmi þess, að nú er verið að bjóða 14—15 ára drengjum upp í 45 kr. kaup á tímann í þeim fyrirtækjum, sem verst eru á vegi stödd með vinnuafl. Ég skal nefna eitt dæmi því til sönnunar, hvað hér gerist á næstu árum, bara eitt lítið dæmi. Það er ekki langt síðan hæstv. ríkisstj. fékk norskan sérfræðing til að gera áætlun um fjölgun bifreiða á Íslandi fram til 1980 eða svo og þessi sérfræðingur komst að þeirri niðurstöðu, ef ég man rétt, ég þori nú ekki að ábyrgjast, að ég fari rétt með tölur, en sú áætlun er birt í riti Framkvæmdabankans, — úr þjóðarbúskapnum og þar geta menn séð tölurnar, — en mig minnir, að hann hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að bílum á Íslandi mundi fjölga um 65 þús. á þessu tímabili. Menn geta gert sér grein fyrir því á þessu litla dæmi, hvað inn í svona þjónustustarfsemi sogast miklu fleiri menn á næstu árum, en nokkurn tíma hefur gerzt í okkar þjóðarsögu. Hér er aðeins um eina grein að ræða. Á síðustu árum höfum við fengið aðra grein, sem nú þegar hefur tekið til sín 100– 200 manns, nefnilega flugið. Það á eftir að vaxa. Grein eftir grein af þessum þjónustuiðnaði í þjóðfélaginu kallar á nýtt vinnuafl. Við höfum byggt upp fiskiskipaflota og vélaflota bæði í iðnaði og landbúnaði. Þetta er enn þá tiltölulega nýtt. Á næstu árum kallar þetta á enn meira vinnuafl í þjónustu við þessa tækni og ný og aukin tæki frá ári til árs kalla alltaf á meira og meira vinnuafl og útkoman er sú, að það verður sáralítið eða ekkert eftir, sem veldur neinni aukningu á erfiðisvinnumarkaði. Enda er mér nær að halda, að t.d. skráðir sjómenn í dag og 1955 séu nákvæmlega jafnmargir. Og þó að það sé auðvitað út af fyrir sig rétt, að það komast á tvítugsaldur stærri árgangar á næstu 20 árum en voru á s.l. 20 árum, þá er bara þess að gæta, að þessir árgangar fara til starfsemi, sem ekki var til hér á landi fyrir 20 árum. Nýjar atvinnugreinar, aukin kennsla vegna þessara stóru árganga tekur til sín sinn hlut af þeim o.s.frv. Þess vegna má ekki blekkja sig með því að hér sé ekkert vandamál á leiðinni. Hér er kannske eitt höfuðvandamálið á ferðinni.

En ég er því miður hræddur um, að sumir menn hér á landi séu svo bjartsýnir á ágæti þess að fá hingað erlent fjármagn og svo ákafir í áróðri sínum fyrir því að berja í gegn, að það skuli leyft hér, að þeir líti alveg yfir allar þessar staðreyndir, að þeir afgreiði þær með einhverjum blekkingavaðli eins og þeim, sem maður hefur lesið um þessa stóru árganga í blöðunum að undanförnu og raunar örlar á hér í þessari skýrslu hæstv. ríkisstj., enda allt frá sama brunni.

Ég hef nú rakið nokkur atriði, sem er hægt að bera beinlínis saman í skýrslu hæstv. ríkisstj. um stóriðjuna og í þeim samningum sem Norðmenn hafa gert nú síðast um þessi mál og ég hef undir höndum. En einmitt þeir samningar eru verstu samningarnir, sem Norðmenn hafa gert í þessu efni, svo að hæstv. ríkisstj. er ekki gert rangt til með að bera saman við þá. Og útkoman er öll á eina lund: Norðmenn hafa þrátt fyrir allt gert mun betri samninga heldur, en hér er talað um í skýrslu hæstv. ríkisstj. og beinlínis í ræðu hæstv: iðnmrh. sagt, að þetta væri allt saman það vel á veg komið, nú gætu orðið þáttaskipti; nú mætti fara inn á samningaleiðina með þetta veganesti. En eftir eru enn nokkur atriði, sem ekki er hægt að bera saman í sjálfu sér í skýrslu hæstv. ríkisstj. og samningum norsku ríkisstjórnarinnar, þar sem þessi atriði eru ekki til í skýrslu hæstv. ríkisstj. Það er í fyrsta lagi. (Forseti: Ég bið hv. ræðumann velvirðingar á því, að ég trufla hann í ræðu hans, en það var ætlunin, að þessi fundur stæði ekki nema til kl. 5 og ef hann á mikið eftir af mál sínu, vildi ég fara þess á leit við hann, að hann gerði hlé á ræðu sinni.) Já, ég mun nú eiga nokkuð eftir. [Frh.]