08.05.1965
Sameinað þing: 49. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

Aluminíumverksmiðja

Bergur Sigurbjörnsson (frh.):

Herra forseti. Í samningum Norðmanna um 60 þús. tonna alúminíumverksmiðju í Noregi við svissneska fyrirtækið Swiss Aluminium er kveðið á um nokkur atriði, sem ekki virðast hafa komið til athugunar eða umræðu í þeim samningaumleitunum, sem farið hafa fram milli íslenzkra stjórnarvalda og þessa sama svissneska fyrirtækis. Það er litið svo á, að vinnan við alúminíumverksmiðju sé öðrum atvinnugreinum fremur heilsuspillandi og því þörf sérstakra ráðstafana og ákvæða einmitt í sambandi við þessa starfsemi. Þannig hafa Norðmenn samið um það við hið svissneska fyrirtæki, að alúminíumverksmiðjan í Noregi byggi sérstakt sjúkrahús á verksmiðjusvæðinu, sem geti bæði veitt hjálp, þegar slys ber að höndum og eins séu þar sjúkrastofur fyrir aðra sjúklinga. Sömuleiðis er um það samið, að alúminíumverksmiðjan myndi sjóð, sem endurgreiði norskum sjúkrasamlögum þann kostnað, sem veikindi starfsmanna fyrirtækisins hafa í för með sér og annan sjóð, sem tryggi afkomu fjölskyldna þeirra manna, sem í verksmiðjunni vinna. Á ekkert af þessum atriðum virðist hafa verið minnzt enn í viðræðum hæstv. ríkisstj. Íslands við hið svissneska fyrirtæki og væri þó sennilega ekki minni þörf á, að um þetta væri eitthvað samið og um þetta hefði verið rætt hér, en í Noregi. Og vissulega ber okkur að hafa í huga hina miklu reynslu Norðmanna í þessum efnum. Þeir hafa um langt skeið rekið alúminíumverksmiðjur og vita, hvað hér er að gerast. Þá er um það ákvæði í norsku samningunum, að alúminíumverksmiðjan skuli koma upp mannvirkjum, sem þarf til þess að eyða reyk og gasi, svonefndu flúor, sem talið er hættulegt umhverfinu, bæði gróðri og öðru og rækilega gengið frá því, að þetta verði gert. Einnig eru ákvæði um það, að því sveitarfélagi, þar sem verksmiðjan er byggð, skuli tryggð réttindi til þess að fylgjast með, að frá þessu sé tryggilega gengið og af starfsemi verksmiðjunnar leiði enga hættu fyrir umhverfið. Er þar ákveðið, að verksmiðjan greiði kostnað norskra aðila við allt slíkt eftirlit. Hér í skýrslu hæstv. ríkisstj. er beinlínis tekið fram, að um það hafi verið rætt, að ekkert yrði gert til þess að hindra skaðsemi af reyk frá verksmiðjunni á landi, en hins vegar rætt um, að efni frá henni bærust ekki út í sjó. Þá er í norsku samningunum atriði, sem má segja að sé ekki stórvægilegt, en þar er svo ákveðið, að verksmiðjan greiði norska ríkinu ákveðið fastagjald fyrir raforkunotkun auk þess verðs, sem verksmiðjan borgar fyrir rafmagnið. Þetta gjald er 2 kr. norskar á hverja kwst. á ári og samsvarar, miðað við þá orkunotkun, sem hér er um að ræða, 11/2 millj. rúmlega á ári. Þetta er ekki stórt atriði, eins og ég tók fram, en þó ekki sama, í hvaða vasa þessi skildingur lendir, hvort hann fer eins og margt fleira til þess að bæta aðstöðu og ágóða hinna erlendu aðila af starfsemi verksmiðjunnar eða til ríkisins, sem heimilar hana í landi sínu. Einnig eru í norsku samningunum mjög ýtarleg ákvæði um sektir, dagsektir, ef verksmiðjan brýtur ákvæði samninga og á hún samkv. þessum samningum, þegar um fyrsta brot er að ræða, að borga 200 kr. norskar á dag, en þær sektir fara síðan vaxandi við endurtekin brot.

Ýmis fleiri ákvæði eru einnig í þessum samningum, sem of langt mál er að rekja og skal ég ekki tefja umr. með því. Heildarniðurstöðurnar af þessum samanburði á þeim drögum að samkomulagi, sem hér hefur verið lagt fram, eða upplýsingum, sem hæstv. iðnmrh. taldi í ræðu sinni áðan, að gætu orðið grundvöllur beinna samningaviðræðna og samningar yrðu byggðir á, leiða það í Ijós, að tekjur Norðmanna af slíku fyrirtæki eru samkv. hinum norska samningi til muna meiri árlega en yrði, ef í megindráttum yrði farið eftir þeirri skýrslu, sem hér liggur fyrir. Eins og ég sagði áðan, gera Norðmenn ráð fyrir því samkv. mjög nákvæmum áætlunum, að þeir muni hafa um 80 millj. kr. norskar á ári í tekjur af verksmiðjunni, sem í íslenzkum krónum yrðu um 480 millj. En samkv. þeirri hámarksáætlun, sem hér er gert ráð fyrir, eru það 300–350 millj., sem Íslendingar mundu fá, ef samið yrði eftir þeim línum, sem hér eru lagðar, en þar mun vera um brúttótekjur að ræða, en ekki nettó.

Engu að síður vildi ég mega taka fram, að ég tel viðræður hæstv. ríkisstj. við hið erlenda fyrirtæki að ýmsu leyti jákvæðar. Það er auðvitað sjálfsagt fyrir okkur og nauðsynlegt að kanna slíka möguleika, sem fyrir hendi eru, og ræða þá, þótt ekki væri til annars, en að komast að þeirri niðurstöðu, hvað við eigum ólært í þeim efnum að fást við svona samninga og afla okkur þá um leið upplýsinga, sem við getum fengið. Og mér sýnist hafa komið ákaflega áþreifanlega ljós í þeim umleitunum, sem hér hafa farið fram um það, hvað okkur ber að forðast og hvað það er af þeim möguleikum, sem til greina kæmu í sambandi við erlent fjármagn, sem okkar litla þjóðfélag ræður ekki við, því að vissulega verðum við að treysta því, þó að svona umræður fari fram í fullri alvöru og samningaumleitanir fari fram í fullri alvöru af beggja hálfu, að þá komi aldrei til þess, að íslenzk stjórnarvöld geri samning við erlenda aðila, sem gæti verið eins og lýsandi viti í 45 ár um það, hvernig við mættum ekki semja og hvernig við ættum ekki að semja.

Hitt er svo að sjálfsögðu aðalatriðið, að við gerum það upp við okkur einmitt í sambandi við svona samningaumleitanir, hvort nokkur nauðsyn er á því, að erlent fjármagn flytjist hingað til lands í íslenzka atvinnuvegi í stórum stíl og hvenær og við hvaða skilyrði slíkt kæmi helzt til greina. Og um það hljóta út af fyrir sig allir að vera sammála, að þegar spenna er mjög mikil í íslenzku atvinnulífi, þegar allar eða flest allar atvinnugreinar okkar vantar vinnuafl, ekki aðeins í dag, heldur fyrirsjáanlega um næstu ár, skortir mjög mikið vinnuafl, þá muni einmitt ekki rétti tíminn til að auka á þessa spennu með miklum fjárfrekum og fólksfrekum framkvæmdum erlendra aðila í landinu. Og við verðum einnig að komast með einhverju móti fram hjá því að einblína á einn möguleika, eins og annað kæmi ekki til greina. Við verðum að athuga, hvort ekki sé um fleiri leiðir, fleiri möguleika að velja, ef við teljum á annað borð nauðsyn á að ráðast í einhverja slíka hluti eins og hér hefur verið rætt um og vega og meta, hverjir af þeim möguleikum, sem fyrir hendi kunna að vera á hverjum tíma, eru æskilegastir, valda minnstu tjóni í okkar þjóðfélagi og gætu á einn eða annan hátt stutt við bakið á íslenzkum atvinnuvegum í stað þess að brjóta þá niður. Og eins og nú standa sakir vildi ég mega segja í sambandi við þá möguleika, sem á undanförnum árum hafa verið ræddir í þessu þjóðfélagi í sambandi við erlent fjármagn til stórra framkvæmda, eins og alúminíumvinnslu, olíuhreinsun og ýmislegt fleira, sem kæmi til greina, þá hygg ég, að augu okkar hefðu fyrr átt að beinast að t.d. olíuhreinsunarstöð, en alúminíumvinnslu, því að slík stöð gæti þó á ýmsan hátt eða væri líkleg til að stuðla að ákveðinni tryggingu fyrir íslenzka atvinnuvegi, fyrir íslenzka útgerð, ef einhverja þá atburði bæri að höndum, sem við vonum nú að ekki verði, en gætu torveldað aðflutninga hingað. Og ég held, að það hefði verið miklu skynsamlegra fyrir núverandi stjórnarvöld að leggja fram einhverja skýrslu um viðræður í slíku efni. Það er að öllu leyti minna mál, sem mundi ekki valda annarri eins spennu í þjóðfélaginu og greinilegt er, að það stóra fyrirtæki, sem hér um ræðir; mundi gera, auk þess sem slíkt fyrirtæki yrði sennilega að öllu samanlögðu hagkvæmara. Mér er mikið til efs, að það sé nokkur atvinnugrein á íslandi, sem mundi gefa þjóðinni jafnlítinn arð fyrir jafnmikla fjárfestingu og um er að ræða í alúminíumvinnslunni eins og einmitt þessi alúminíumverksmiðja. Það er talað um, að fjárfesting verksmiðjunnar verði 2.500 millj. og ég held, að hvergi í þjóðfélagi okkar væri hægt að leggja annars staðar 250 millj. í uppbyggingu og skipulagningu á einum atvinnurekstri þannig, að gjaldeyristekjur okkar, að ég ekki tali um þjóðartekjur, yrðu ekki margfaldar á við það, sem þarna er um að ræða, og er þá íslenzkur landbúnaður langt frá því undanskilinn.

Að lokum vildi ég aðeins hvetja til þess, að menn færu með sérstakri gát að þeim hlutum, sem hér er verið að ræða um. Hér er um að ræða samning til mjög langs tíma, sem við losnum ekki við, eftir að búið er að gera hann, hvernig svo sem hann reyndist okkur, fyrr en eftir 45 ár. Og á þeim tíma gætu svo alvarlegir hlutir gerzt í sambandi við þetta, að mér þætti ólíklegt, að nokkur þeirra, sem nú hefur þó mestan áhuga á þessu fyrirtæki, vildi stuðla að þeim hlutum.