08.05.1965
Sameinað þing: 49. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2193 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

Aluminíumverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Í upphafi þessarar skýrslu er frá því skýrt, að sett hafi verið upp sú stóriðjunefnd, sem við könnumst við og hún hafi átt að athuga, hvort unnt væri og hagstætt að koma hér á landi á alúminíumverksmiðju eða öðrum orkufrekum iðnaði. Ég vildi leyfa mér að spyrja: Hvað hefur þessi stóriðjunefnd gert í því sambandi til að athuga fleira, en þennan alúminíumiðnað? Mér er ósköp vel kunnugt um það, að á síðustu 10 árum hafa erlendir alúminíumhringir, bæði brezkir og amerískir, nokkrum sinnum borið víurnar í íslenzk vatnsföll og sömuleiðis hafa íslenzkir — ja, hvað á ég að kalla það, áhugamenn um erlenda fjárfestingu gengið með grasið í skónum, á eftir sérstaklega amerískum alúminíumhringum til þess að reyna að fá þá til þess að festa sitt fé hér. Og mér finnst ákaflega hart, ef þessi stóriðjunefnd hefur ekkert gert annað, en að halda áfram að athuga um þennan alúminíumiðnað og ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það. Okkur var haldið utan við þessa n., Alþb.-mönnum, ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það, hversu margar athuganir hafa verið gerðar þar á ýmsum öðrum hugsanlegum stóriðjuframkvæmdum hér á Íslandi. Þó að við hugsum um slíka stóriðju, þá þýðir það ekki, að við viljum endilega fara að ráðast í hana nú, heldur hitt, að við viljum fá að fylgjast með því, hvað er að gerast í veröldinni, til þess að það, sem við gerðum, þegar við ráðumst í það, yrði af einhverju viti.

Ég hef nokkrum sinnum bent á það, þegar þessi mál hafa verið rædd hér, að sérstök iðngrein, sem er að ryðja sér mjög til rúms og kölluð er á erlendu máli petrolkemi, sem byggist á því að kljúfa olíuna og vinna úr henni ýmis efni, hún mundi vera mjög athugandi fyrir okkur, þegar að því kæmi, að við vildum ekki lengur eða gætum ekki lengur notað okkar eigin íslenzku hráefni, fiskinn, landbúnaðarvörurnar og annað slíkt og þyrftum að fara að flytja inn útlend hráefni til að vinna úr. Olían hefði þá, þá aðstöðu fyrir okkur, að hún er ákaflega þægileg til flutnings og lítill vandi að skipa henni upp og við höfum hér mikið af geymum, sem við getum hagnýtt í slíku sambandi og svo er hitt, að úr olíunni, þegar hún er klofin nú, er hægt að vinna í fyrsta lagi þau efni, sem nú er farið að nota bæði í byggingarefni og annað slíkt og þau efni, sem koma í staðinn fyrir stál og annað þess háttar og hins vegar efni, sem hægt er að nota í föt og annað þess háttar. Plast, nælon og annað þess háttar eru nú orðin þau töfraefni, sem unnin eru að mestu leyti úr olíu, þannig að með þeim er hægt að skapa alveg nýjar iðngreinar, sem að mörgu leyti mundu liggja mjög vel fyrir okkur. Og þegar við erum að athuga um stóriðju, sem við viljum fara að leggja í og nútímaiðju í þessu sambandi, þá má ekki gleyma því, að allt það, sem við stöndum frammi fyrir og nú er að gerast í sambandi við elektronik, eins og Ameríkanar kalla það, allt það, sem heitir reikniheilar og annað þess háttar, er að umskapa allt, sem heitir möguleikar á stóriðju og þessir hlutir gerast á þessum áratug, þannig að ef við ætlum að byggja á því, sem væri skynsamlegast að leggja í, í þessum efnum, þá er það fyrst og fremst mannvitið og þekkingin sjálf, sem við þurfum að leggja þarna til grundvallar. Og mér þætti ákaflega vænt um að fá að vita það, hvort þessi stóriðjunefnd hefur hugsað nokkurn skapaðan hlut um öll þessi atriði.

Það er það fyrsta, sem slík n. yrði að gera sér grein fyrir, hve stórkostlegar breytingar eru fram undan í öllu því, sem heitir tækni í heiminum og hvernig verði að reyna að samræma það, sem Íslendingar gera við þá þekkingu, sem þar er um að ræða. Við höfum aldrei fengið neinar upplýsingar frá þessari stóriðjunefnd. Hún hefur ekkert lagt fyrir. Við höfum ekki neina hugmynd um; hvort hún hefur nokkra hugmynd um nokkurn skapaðan hlut í þessu eða hvort hún hefur látið svo lítið að athuga þær ábendingar; sem hér hafa komið fram. Hins vegar er hér lagt fyrir okkur, að það sé farið að semja við ákveðinn alúminíumhring, og í samninganefnd sem þessa hafa verið settir menn eins og dr. Jóhannes Nordal og Steingrímur Hermannsson. M.ö.o.: þar sem verið er að semja við einhverja kaldrifjuðustu fjármálamenn í veröldinni, einhvern part af þeim einokunarhring, sem voldugastur og sterkastur er í heiminum, hvað það snertir að einoka undir sig svo til allt, sem unnið er á þessu sviði; því að það gera alúminíumhringarnir, þá eru settir í þetta hérna heima hálfgerðar prófessoratýpur eða þá hins vegar menn, sem eru upplagðir agentar fyrir útlenda auðvaldið, þ.e.a.s. menn, sem eru vissir með, eins og við sjáum strax af þessum samningsuppköstum, sem hér liggja fyrir, að gera undireins allar þær vitleysur, sem hægt er að gera af Íslendinga hálfu og kjafta úr sér allt vit, þegar þeir eiga að tala við þessa menn, þannig að ef hæstv. ríkisstj: dettur í hug á eftír, að fara að ráða til þessa, við skulum segja einhverja harðsvíraða lögfræðinga utan úr heimi, sem kynnu einhver tök á þessum auðhringum, sem þarna er um ræða, þá mundu þeir standa uppi eins og glópar, af því að þessir Íslendingar, sem í þetta eru settir, eru búnir að kjafta eins og vitleysingar. M.ö.o.: þegar farið er að ráðast í það að fara að gera svokallaða samninga við svona hring, þá eru settir í þetta menn, sem auðsjáanlega hafa ekki hundsvit á því eða skilja, hvernig eigi að semja við svona aðila og vara sig þess vegna ekki á neinu af því, sem erlendir menn mundu vara sig á og svo er passað um leið, að þeir menn, sem eru gagnrýnir á þessa hluti, sem hafa varað við þessu frá upphafi, séu hvergi látnir korna þarna nærri. Það hefði kannske mátt nota þeirra andúð gegn þessu, til þess að láta þá benda þessum blessuðum sakleysingjum, ef maður talar linlega um þá, á það, sem þeir hefðu kannske fengizt til þess að sjá, ef andstæðingar þessa máls hefðu verið með frá upphafi.

Þarna er sem sé um mál að ræða, þar sem hæstv. ríkisstj. bar fyrst af öllu að reyna að sjá til þess að, að þessum samningum væri almennilega unnið. Og mér sýnist það strax á fyrstu síðunni, að þá komi það í ljós, að þarna hefur sem sé verið stokkið til að reyna að elta þær hugmyndir, sem fyrir löngu hafa komið fram og við höfum orðið varir við og við höfum alltaf séð, hvaða hættu hefðu í för með sér. Ég vil þess vegna segja það, að með því, sem hér er að gerast, ef þessu verður haldið áfram, sem hér er nú hafið, er verið að gera algerlega ný tímamót í Íslandssögunni. Það urðu hér mikil tímamót 1940, þegar erlendur her kom í fyrsta skipti hingað til lands og lagði undir sig landið og við það hernám höfum við ekki losnað síðan og það er nú á aldarfjórðungi búið að hafa stórkostlega spillandi og eyðileggjandi áhrif á okkar þjóð og lítillækka hana og stofna henni í hættu móralskt séð, sem við sjáum ekki enn þá, hvernig við komumst fram úr. Ef úr því verður, sem hér er til stofnað, er hafið nýtt tímabil enn þá hættulegra. Fram að þessu höfum við verið tiltölulega efnahagslega sjálfstæð þjóð, vegna þess að við höfum verið svo að segja eina þjóðin í Evrópu, sem hefur sjálf átt atvinnutæki. Ísland hefur verið einstakt land í Evrópu hvað það snertir, að hér hefur svo að segja ekkert útlent auðvald verið síðan 1940. Það, sem þess vegna vofir yfir nú, er, að hér verði nú framkvæmt, ef úr þeim samningum verður; sem hér verður stofnað til, eins konar atvinnulegt hernám, sem fyrir fram sé slegið föstu, að verði til 25–40 ára, og felst í því að skipuleggja arðránið á íslenzkum auðlindum og á íslenzku fólki, á suðlindunum annars vegar með því að sölsa undir erlenda auðhringi ódýrasta aflið, sem Ísland getur framleitt og fólkinu hins vegar með því að ræna það þessu afli og láta það borga rafmagnið á næstu 25–40 árum með þrefalt hærra verði a.m.k., en hringurinn mundi borga það og með miklu hærra verði, en hefði þurft að borga það annars. Þess vegna ber að ræða þetta mál frá því sjónarmiði, hvort við séum á því að brjóta nú blað í Íslandssögunni til ills, að í staðinn fyrir að losna við það hernám, sem við höfum haft hér undanfarin 25 ár með þess siðspillandi áhrifum, verði nú innleitt það hernám í atvinnulífinu, sem hér er lagt til, með því að hleypa útlendu auðvaldi inn í landið. Það á að binda þetta með samningi, ef úr þessu verður, til 25–40 ára, sem þýðir það sama, sem að alla næstu kynslóð skuli erlendur auðhringur sölsa undir sig bezta fossaaflið, sem hér er til, með álíka aðstöðu og hann hefði eignazt það fossaafl. Það þýðir, að það eigi að afhenda erlendum auðhringi ódýrasta rafmagn, sem hægt er að framleiða á Íslandi og verður hægt að framleiða og ódýrasta rafmagn, sem hægt er að framleiða í Evrópu núna. Það þarf að fara alla leið suður í Afríku, í stórárnar þar, til þess að finna ódýrara rafmagn. Við eigum síðan, Íslendingar, að taka á okkur alla áhættu af virkjuninni. Útlendi auðhringurinn á að setja á okkur alla áhættuna af öllum verðhækkunum — og eins og víða kemur fram og ég mun síðar koma að — af öllum markaðskreppum eða að meira eða minna leyti. Það þýðir, að þessi útlendi auðhringur á að fá til sín svo að skiptir hundruðum þús. kw. af ódýrasta rafmagni, sem Ísland getur framleitt, upp á okkar áhættu. Hann á ekki einu sinni sjálfur að eiga það á hættu að virkja þetta og borga það, sem það kostar. Það virðist eiga að semja við hann fyrir fram. Og til þess að gera þetta, eigum við að leggja fram frá 2.000 millj. kr. allt upp í 5.000 millj. kr., svo framarlega sem allt yrði virkjað, sem þessi hringur vildi fá,og þetta eigum víð að taka að láni erlendis með rándýrum eða mjög erfiðum kjörum eða allt að 51/2% vöxtum. Allri þessari áhættu á að skella á Íslendinga til þess eins að leyfa erlendum auðhringi að ræna okkar auðlindum. Og þannig á að tryggja þetta til 25–40 ára. M.ö.o.: einhverja af þeim dýrmætustu auðlindum, sem um er að ræða, eigum við að ofurselja á þennan máta. Það, sem okkur var forðað frá að gera fyrir 45 árum, þegar búið var að selja meginið af fossunum, erum við nú að byrja að gera sjálfir og undir enn hættulegri kringumstæðum.

Hver er þá þessi 25 ára tími, svo að við tökum styttra skeiðið, sem við stöndum núna frammi fyrir og er að hefjast? Þetta 25 ára skeið verður langsamlega mesti umbyltingartími mannfélagsins í tæknilegum efnum. Á þessu skeiði munu verða sköpuð efni, sem við þekkjum yfirleitt ekki núna, eins og þegar er nú, að um 60% af þeim efnum, sem notuð eru í iðnaðarlega allfullkomnum ríkjum, voru ekki til um síðustu aldamót. Og þá ættum við að fara að ofurselja einar dýrmætustu auðlindirnar, sem við höfum, í heila kynslóð í hendurnar á erlendum hring, getandi sjálfir ekki haft nokkurn skapaðan hlut upp úr því og eigandi aðeins á hættu að geta á því tapað, því að þannig er auðsjáanlega nú þegar frá þessu gengið.

Hverjar hljóta að verða þær þjóðfélagslegu afleiðingar af því að hleypa slíkum erlendum auðhring, eins og hér er um að tala, inn í landið og tryggja honum hér sérréttindi í 25 ár? Þessi erlendi auðhringur talar um að festa nú þegar 2.500 millj. ísl. kr. í sínum hluta hér, í sínum verksmiðjum, og svo framarlega sem úr því yrði, að hann fengi hér að byggja alúminíumverksmiðju, sem ætti að framleiða allt upp í 160 þús. tonn á ári, eins og hann hefur jafnan látið í Ijós, mundi það þýða, að hann mundi leggja í þetta fjármagn, sem væri um 7.000 millj. kr., bara í alúminíumverksmiðjurnar. En á sama tíma, ef hann legði lægri upphæðina fram, 2.500, mundum við verða að leggja fram allt upp í 2.000 millj. kr., og ef hann færi allt upp í 7.000 millj., mundum við verða að leggja fram um 5.000 millj. kr.

Nú skulum við athuga, hvernig yrði aðstaða þessa hrings, þegar hann væri búinn að leggja fram, hvort þetta væru nú 2.500 millj, kr. eða mun meira, í fyrirtæki hér innanlands. Slíkur hringur yrði það langsamlega sterkasta vald, sem til væri í íslenzku atvinnulífi. Allt okkar fjármagn í öllum okkar skipum, öllum okkar fiskiskipum og öllum okkar fiskiðnaði, er hátt metið 3.000 millj. kr., — ég býst við, að það sé langt of hátt metið. Og iðnaðurinn allur saman kemst vart upp í slíkt, 5–6 þús. millj. kr., munu núna vera það fjármagn, sem er í öllum íslenzkum fiskveiðum, fiskiðnaði og iðnaði. Og af þessum 5–6 þús. millj. kr., sem við Íslendingar höfum fest í þessum okkar atvinnuvegum, er einkafjármagnið í þessu ekki nema nokkur partur, ég þori ekki að segja, hve mikill. Það er varazt að láta menn hafa nákvæmar hagskýrslur um þetta. En lán bankanna í þessum atvinnugreinum eru ekkert smáræði. En jafnvel þótt menn reiknuðu með, að íslenzkir atvinnurekendur ættu um 3 þús. millj. kr. af þessu, sem ég býst við, að sé fullhátt metið, sjáum við, að þessi hringur, undireins og hann væri kominn hér inn, á álíka fjármagn hér og allir íslenzkir atvinnurekendur, eins og öll íslenzk borgarastétt til samans. Og ég verð að segja, að ég á bágt með að skilja þá sjálfstæðistilfinningu hjá íslenzkri atvinnurekkendastétt, að hún óski eftir að fá slíkan aðila inn í sitt land.

Hvað gerist, um leið og slíkur aðili, erlendur auðhringur með 2500 millj. kr. eign, er setztur að hér suður í Straumsvík? Hvað gerist? Ég býst við, að það sé enginn maður hér inni, — það eiga allir hér að heita stjórnmálamenn, — það blindur, að hann geri sér ekki ljóst, að samstundis er þetta félag orðið mesta áhugafélag í íslenzkum stjórnmálum, sem til er. Það er enginn aðili á Íslandi, sem á eins mikið undir þróun íslenzkra stjórnmála og þessi auðhringur, þegar hann er búinn að eignast hér 2–3 þús. millj. kr. fyrirtæki, — enginn aðili. Jafnvel öll íslenzk borgarastétt samanlögð hefur ekki eins mikilla hagsmuna að gæa. Það þýðir, að þessi erlendi auðhringur hefur þar með fengið áhuga á íslenzkri pólitík. Þessi erlendi auðhringur skilur það undireins og er nú þegar byrjaður að skilja það, svo sem sjá má af Morgunblaðinu og þess síðum þessa dagana, að hann þarf að hafa áhrif í íslenzkum stjórnmálum. Hann þarf í fyrsta lagi að tryggja sig gegn íslenzkri löggjöf, sem væri hagsmunum hans hættuleg. Hann á 3.000 millj. kr. og ætlar sér að eiga allt upp í 7.000 millj. kr. undir því, hvernig íslenzk löggjöf verður á næstu 25 árum. Það þýðir, að hann reynir að tryggja sér ítök í fyrsta lagi í íslenzkum blöðum. Það er e.t.v. ekki mjög erfitt fyrir hann. Ætli Vísir þurfi ekki t.d. á peningum að halda núna? Ætli það verði mikill vandi fyrir eitt auðfélag upp á 2.500 millj. kr. að kaupa upp einhver smáblöð hérna, dagblöð og annað slíkt og sjá um að gera þau að þó nokkuð miklu valdi í íslenzkum stjórnmálum? Við skulum muna eftir því, að það voru hérna nokkrir pínulitlir heildsalar, pínu-, pínulitlir heildsalar 1920 og nokkrir fleiri hálfdanskir, sem ákváðu það, að þeir þyrftu hér að eignast dagblað og fóru til Vilhjálms Finsens og hótuðu honum því, að svo framarlega sem hann seldi þeim ekki Morgunblaðið, mundu þeir hætta að auglýsa hjá honum og stofna eigið dagblað hér og Vilhjálmur Finsen sá fram á, að þar með mundi hans Morgunblað vera fjárhagslega eyðilagt. Hann gafst upp, segir frá þessu í endurminningum sínum, sem prentaðar eru, og endar þennan kafla með því að segja: „Þannig komst mitt hjartans barn í hendurnar á kaupmannavaldinu í Reykjavík.“ Það voru litlir karlar, þeir sem þá keyptu Morgunblaðið. Sá aðili, sem kæmi hér inn núna með 2.500 millj. kr. auðmagn, sem hann ætlaði sér að auka hér, er enginn smákarl og hann mundi þurfa meira en einhver smáblöð, sem væru 4–8 síður, til þess að tryggja sína hagsmuni. Við skulum gera okkur ljóst, að við erum, eins og Diogenes sagði, þegar hann var í tunnunni forðum: Hver vill kaupa sér herra? — Við erum að kaupa okkur herra hér inn, ef við ætlum að fara að hleypa svona erlendu auðmagni inn í landið, eins og þetta auðfélag, sem þarna á í hlut. Og þessi sami aðill, sem mundi hafa áhuga hér á að móta almenningsálitið á Íslandi, mundi á sama hátt hafa áhuga á íslenzkum stjórnmálaflokkum og tryggja sér ítök í þeim, og fengi hann það ekki í þeim flokkum, sem fyrir eru, mundi hann sjá um að skapa sér flokka og hver sá, sem á dagblað hér í Reykjavík, getur séð um að skapa sér hér stjórnmálaflokk.

Við höfum haft ofurlitið af spillingu að segja á undanförnum 25 árum á Íslandi. Hún hefur verið að aukast. En hún er víst smáræði í sambandi við það, sem um yrði að ræða, þegar auðhringur með 2.500 millj. kr. kapital til að byrja með væri farinn að hafa áhuga, ekki aðeins á íslenzku atvinnulífi, heldur íslenzku stjórnmálalífi og þess þróun og íslenzku almenningsáliti og þess gerð. Þetta yrði stórkostlegasti hagsmunaaðilinn í íslenzkri pólitík á næstu 25 árum, ef við hleyptum honum inn núna. Og það er bezt, að menn geri sér það strax ljóst, hvaða afstöðu þeir ætla að taka gagnvart honum, hvort þeir ætla að byrja með því frá upphafi vega að þjóna þessum auðhring með því að hleypa honum hér inn. Það þýðir ekkert að koma á eftir og þykjast ekkert hafa vitað og þykjast ekkert hafa séð, hvað menn væru að gera í þessum efnum.

Það eru einhver blessuð börn, sem tala hér um; að Norðmenn hafi hleypt inn útlendu auðmagni. Jú, vissulega hafa allar þjóðir í Evrópu hleypt inn meira eða minna útlendu auðmagni. En það auðmagn hefur hjá þeim verið kannske frá 5–10% af því fjármagni, sem verið hefur í þeirra atvinnulífi. Ef ég man rétt, er útlenda fjármagnið í Noregi einhvers staðar á milli 5 og 10% bara af fjármagninu í þeirra iðnaði. Ég held, að það sé rétt hjá mér og þá er skipaútgerðin og landbúnaðurinn og slíkt ekki með. Norsk borgarastétt, norsk auðmannastétt er sterk stétt, tiltölulega mjög þjóðlega hugsandi á margan máta, sem alls ekki lætur bjóða sér neina slæma skilmála. Það var rætt hér áðan af hv. 9. þm. Reykv., hvernig þeir brugðust við þessum skilmálum. Þeir höfðu nóga peninga, en þeim fannst skilmálarnir, sem þarna höfðu verið gerðir, slæmir, þá líta þeir ekki við þessu. Hér aftur á móti á Íslandi höfum við unga borgarastétt, sem eiginlega finnur ósköp lítið til sín gagnvart útlöndum, svo að vægt sé að orði komizt. Hún er stundum nokkuð frek gagnvart verkamönnum og öðrum launþegum og ég tala nú ekki um gagnvart ríkisstj. En mér finnst fara lítið fyrir hennar aðgát og sjáifstæðishugmyndum, þegar hún horfir framan í það auðmagn, sem nú er verið að setja hér inn. Og hvað á þetta auðmagn að verða mikill hluti af því auðmagni, sem er í íslenzkum iðnaði og íslenskum fiskveiðum? Þetta auðmagn á að verða 50% til að byrja með af því, sem þá yrði alls af auðmagni í íslenzkum iðnaði og íslenzkum fiskveiðum. Það þýðir, að frá því að Ísland væri frjálsasta land í Evrópu af erlendu auðmagni yrði Ísland háðasta land í Evrópu erlendu auðmagni. Það er alger bylting, sem gerð yrði með þessu, hvað snertir aðstöðu Íslendinga. Það yrði gerbylt öllu okkar efnahagslífi.

Ég veit, að menn segja: Ja, það eru ekki nema kannske 300–400 verkamenn, sem eiga að vinna þarna. — Valdið liggur ekki í því, hvað séu margir verkamenn. Valdið liggur í hinu, hvað er mikil eign, hvað er mikið fjármagn, sem þarna er og hvað sá fjármagnseigandi, sem þarna á í hlut, hefur þess vegna mikilla hagsmuna að gæta gagnvart íslenzkri löggjöf. Ég býst við, að menn hafi vissulega orðið varir við á undanförnum árum, að okkar íslenzka borgarastétt hefur vissan áhuga á íslenzkri löggjöf. Henni er ekki alveg sama um, hvort hún fær t.d. styrki eða hvort hún fær ekki styrki. Henni er ekki alveg sama, hvert gengið er. Henni er ekki alveg sama, hver launin eru. Hún hefur áhuga á þessu öllu saman. Það hefur varla farið fram hjá mönnum. Hvað halda menn þá um þessa aðila, þegar þeir væru komnir þarna inn?

Ég vil vekja athygli á því, að þetta Alþ. setur ekki lög fyrir næstu 25 ár. Það gera þeir Íslendingar, sem kosnir verða á þing hér á næstu 25–40 árum og þar getur komið fjöldinn allur af lögum, sem geta komið við hagsmuni þessa hrings á allan mögulegan máta. Það verður aldrei nokkurn tíma girt fyrir það með neinum samningi, hversu vitlaus sem hann verður, að það er ekki hægt að ná sér niðri á þessum hring á allan mögulegan máta, þegar vilji er fyrir hendi um það. Það velt þessi hringur. En hvað mun hann gera til að fyrirbyggja slíkt? Hann mun reyna að hafa áhrif á vilja þjóðarinnar. Hann mun reyna að villa um fyrir henni, þannig að hún verði svo blinduð í þessu, að hún sjái ekki, hvað til hennar friðar heyrir í þessum efnum. Hér verður komið upp blöðum, hér verður komið upp stjórnmálaflokkum eða stjórnmálaflokkar, sem fyrir eru, yfirteknir. Hér verður komið upp leppmennsku í stórum stíl. Hér er erindreksturinn þegar byrjaður fyrir þennan hring. Ef það verður ákveðið, að hlutfall erlends auðmagns í íslenzkum iðnaði skuli vera að 4–5 árum liðnum 50%, er Ísland ekki lengur efnahagslega sjálfstætt land. Þá eru komnir svo sterkir erlendir aðilar hér inn, að við ráðum lítt við þá með þeim áhrifatækjum, sem þeir hafa í sínum höndum til þess að geta ráðið almenningsáliti á Íslandi.

Við skulum muna eftir því, að prentfrelsið í okkar landi er fyrst og fremst prentfrelsi peninganna, þ.e. þeir, sem hafa næga peninga til þess að gefa út blöð, gefa þau út og þeir hringar, sem þurfa að horfa í peningana, geta leyft sér að gera hluti í þessum efnum, sem Íslendingar af sinni fátækt geta ekki leyft sér, þeir sem eru að berjast við að halda uppi blöðum, sem eiga að þjóna málstað verkamanna, bænda og annarra vinnandi stétta á Íslandi. Þess vegna geta erlend auðfélög skapað sér hér áhrifatæki, sem stórspilla okkar þjóð og móta almenningsálit, sem sé í þeirra þágu. M.ö.o.: ef horfið verður að þessu ráði, er verið að innleiða nýlendustefnu á ný á Íslandi og gera íslenzkar auðlindir að arðránslind fyrir erlent vald og gera íslenzkt fólk aftur háð erlendu valdi, gera Ísland aftur að landi, sem sé arðrænt af útlendingum. Hér hefur verið hrakið í þeim ræðum, sem hafa verið haldnar af hálfu stjórnarandstöðunnar, allmikið af þeim blekkingum og þeim áróðri, sem þetta mál hefur verið flutt með. Það hefur verið rakið, hvernig Alþingi hefur verið sniðgengið í þessum málum. Það hefur verið sýnt fram á, hvernig fólk hefur verið vélað og blekkt, sumpart af mönnum, sem eru nú þegar beinir erindrekar þessa erlenda hrings, sumpart af mönnum, sem hafa barnalega trú á erlendu auðmagni og halda, að það sé svo blessunarríkt fyrir okkar land, — menn, sem auðsjáanlega hafa ekki hugmynd um, hvað Ísland er ríkt í sínum fiskveiðum og hvað afköst þeirra Íslendinga, sem fiskinn draga úr sjónum, eru margfalt meiri en afköst flestallra annarra manna, jafnvel þótt þeir vinni með tiltölulega stórfelld tæki. Og hér hefur þegar verið rakið, hvernig allt, sem þeir menn, sem standa að þessum samningum, sem nú hafa verið gerðir, — þessir efnahagssérfræðingar ríkisstj., — hvernig þeir hafa reiknað allt hringjandi vitlaust út viðvíkjandi því, hvað íslenzkt efnahagslíf gæfi, en sleikja svo aftur á móti út um, þegar þeir eru með áróður fyrir því að fá útlent auðmagn inn í landið, sem við höfum svo að segja ekki nokkurn skapaðan hlut upp úr.

Það er mjög náin samvinna á milli allra þeirra hringa, sem þarna eiga í hlut, svo náin, að voldugasti hringur í þessum efnum, bandaríski hringurinn, kanadíski hringurinn, sem er partur af honum, franski hringurinn, brezki alúminíumhringurinn, sem nú nýlega var keyptur upp af Reynolds og þessi svissneski hringur vinna allir saman og hafa allir samráð um sína stórpólitík og á sumum sviðum, eins og t.d. í því, sem þeir núna eru að gera í sambandi við Guineu, þar sem þeir eru að stofna til 4.000 smál. framleiðslu af alúminíummálmi á ári, þar starfa þeir saman, amerísku hringarnir, með helminginn af hlutafénu, þessi svissneski hringur, sem við erum hér að tala um, brezki alúminíumhringurinn og franska félagið, sem þessi hringur var að hugsa um um tíma að hafa samstarf við. Þessi útlendi peningaaðall, sem á þessa hringi, stendur sem einn og voldugur aðili í allri alúminíumframleiðslu heimsins og hann notar þann hátt að etja smáríkjunum í heiminum hverju á móti öðru, láta þau undirbjóða hvert annað, sumpart til þess að losna við báxítið, eins og hann hefur gert gagnvart Jamaica og öðrum slíkum, sumpart til þess að bjóða fram rafmagnið, eins og hann gerir núna við löndin suður í Afríku, Guineu og önnur slík og eins og hann gerir við Norðmenn og Íslendinga. Þessi hringur er einokunaraðilinn. Í hans augum erum við og Norðmenn og þeir þarna suður í Guineu og annars staðar smákarlar, sem hann er að etja saman.

Þegar okkur voru afhentar leyniskýrslurnar upphaflega frá hæstv. ríkisstj., var leyndin á þeim tengd við það, að við værum að keppa við Norðmenn og þetta mætti ekki fara út, vegna þess að þá gætu Norðmenn hreppt hnossið og við orðið af því. Það var búið að telja þessum blessuðum sakleysingjum, Jóhannesi Nordal doktor og seðlabankastjóra og öðrum slíkum, trú um, að það væri slíkt hnoss að ná í viðskipti við þennan alúminíumhring, að það væri um að gera frá Íslands hálfu að undirbjóða í kapp við Norðmenn og aðra slíka, til þess að við hrepptum hnossið. Og eftir þessu hefur verið breytt. Við annars vegar og Norðmenn hins vegar höfum verið notaðir eins og hanar, sem att er saman, eða naut og við höfum auðsjáanlega undirboðið Norðmennina á öllum sviðum, sem hér er búið að rekja mjög greinilega, þ.e. í hreinum barnaskap. Í eltingarleik við þetta mýraljós hafa þessir svokölluðu samningamenn af Íslands hálfu verið svo áfjáðir í að fá þennan hring hingað til lands, að þeir hafa talið sjálfsagt að byrja að fyrra bragði að minnast á hluti, sem Norðmönnum hefði aldrei dottið í hug að minnast á. Ég get ímyndað mér, hvernig þessi útlendi peningaaðall hlæi að okkur, þegar við erum að ganga svona eftir þeim, með grasið í skónum og undirbjóða alla aðra eins og fáráðlingar. Þeir hugsa sem svo: Það er auðvelt að plata sveitamanninn þarna úti á Íslandi. Þeir eru auðsjáanlega ekki vanir að fást við kaldrifjaða auðhringa. — Og mér er sagt, að hæstv. ríkisstj. sé farin að opna augun fyrir þessu núna og sé núna að hugsa um að fara að fá útlenda harðskeytta lögfræðinga til þess að standa að þessum samningum. Ég er hræddur um, að það sé nokkuð seint. Þegar menn eru búnir að hafa fyrst samninganefndarmenn, sem hafa ekki hundsvit á því, sem þeir eru að ger, og kjafta frá sér allt vit og eru farnir að minnast á aðra eins hluti og þá, sem í þessu samningsuppkasti felast, er erfitt að draga sig til baka, nema bara að segja: Við ætlum ekkert að eiga við þetta meir. — Annars standa menn frammi fyrir því að gera þessa menn ómerka. Það er ákaflega leiðinlegt, því að þetta eru sumpart skikkanlegustu menn, — það er ósköp leiðinlegt að vera að gera þá ómerka að sínum orðum og það er miklu betra að segja þá bara undir eins: Nú viljum við ekki meira við ykkur eiga. Við finnum það, að andrúmsloftið er þannig á Íslandi, að við viljum ekkert undir því eiga að reyna að pína þetta í gegn. — Ég býst við, að menn sjái fram á það, að það verði marið í gegn hér á Alþ. að lokum, kannske með nokkurra atkv. mun og það má vera undarlegur auðhringur, sem vill eiga það undir því, hvernig kunni að skiptast í næstu kosningum á Íslandi, hvernig hans aðstaða verði hér.

Eitt af því, sem útlendir auðhringar fyrst og fremst spyrja að, þegar þeir eru að festa fé sitt í einu landi, það er, hvað það sé pólitískt tryggt, hvernig þeir geti tryggt sig gegn því, að þetta sé þjóðnýtt eða farið þannig að því á ýmsan máta, eins og alltaf er hægt, að þeir geti ekkert upp úr þessu haft. Ég held þess vegna, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur nú þegar að horfast í augu við, að við þennan hring eigum við ekkert að eiga meir. Okkur liggur ekkert á með þetta. Okkur eru þessar auðlindir okkar ekkert útfalar. Okkur er enginn akkur í að fara að setja 2.000 millj. kr. í að rafvirkja handa þessum hring og við getum fengið nóga peninga til þess að rafvirkja án þess að vera að rafvirkja handa honum. Við höfum nóg annað við 2.000 millj, að gera, sem við getum haft margfalt meira upp úr, m.a. með því að margfalda okkar flota og vinna betur úr okkar fiski. Og ég verð að segja, að lágt er þá íslenzk burgeisastétt farin að leggjast, ef hún ætlar nú að verða samsek um það að kalla þessa aðila hér inn í landið.

Þegar núv. Sjálfstfl., þá undir nafninu Íhaldsflokkur, var að hefja göngu sína, þá var Jón Þorláksson formaður hans, og það var Jón Þorláksson, sem þá var þegar einn af fremstu mönnum íslenzkrar borgarastéttar, sem tók þá afstöðu á því þingi, þegar útgert var um fossamálin 1923, að berjast gegn því, að útlendir auðhringar fengju að ná tangarhaldi á fossunum og þá flutti hann þau skilaboð í ræðu, sem hann flutti í Nd. Alþ. 3. maí 1923, skilaboð frá Guðmundi Björnssyni, sem hafði verið með honum ásamt Bjarna frá Vogi í fossanefndinni og myndað meiri hl. þar, — skilaboð, sem hljóðuðu svo:

„En nú vill hv. meiri hl.,” þ.e. þeirrar n., sem þá liggur fyrir þinginu, „fara þessa leið og gefa útlendingunum allan þann framtíðargróða, sem við getum haft af notkun fallvatnanna. Ég er ekki fyrir að nota stór orð, en get þó ekki látið hjá liða að flytja þessari hv. d. þá orðsendingu frá fyrrv. forseta Ed., fyrrv. meðnm. mínum, Guðmundi Björnssyni landlækni, eftir beinum tilmælum hans, að hann geti ekki skoðað þetta öðruvísi en föðurlandssvik.“

Síðan gerir Jón allýtarlega grein fyrir skoðunum sínum og Guðmundar Björnssonar og lýkur svo með þessu:

„Við fögnum og höfum enn trú á því, að sá tími komi, að unnt verði að ráða fram úr þeirri fjárhagslegu þraut að nota vatnsorkuna fyrir ljósgjafa og hitagjafa handa landsmönnum og við förum fram á það, að löggjafarvaldið sýni þá framsýni að taka tillit til nauðsynjarinnar á þessum framkvæmdum og leggja ekki stein í götu þeirra og við förum fram á það, að þeir jarðeigendur, sem kynnu að hafa gert sér vonir um að geta selt einhver vatnsréttindi, sleppi þeim vonum vegna nauðsynjar eftirkomendanna.“

Þegar íslenzk borgarastétt hóf göngu sína, hafði hún enn þá á árunum 1920–1923 það stolt, skulum við segja, að hún vildi sjálf og þeir, sem við tækju af henni, fá að sitja að, íslenzkum auðlindum, en ekki glopra þeim í hendurnar á útlendum auðkýfingum. Bjarni frá Vogi hafði sagt þetta sama, þegar baráttan byrjaði í þinginu 4 árum fyrir 1923, 1919 og þá hafði hann seinast út af sérleyfislögunum sagt þessi orð, — það var í ræðu 18. sept. 1919, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessar vífilengjur um, að sérleyfislög eigi ekki að samþykkja nú, eru því til þess eins fram bornar, að fossafélögin geti grætt sem mest á bralli því, sem þau hafa haft hér í frammi með því að senda hingað leynilega sendimenn til þess að ginna þessa hluti út úr fáfróðum mönnum fyrir smámuni. Það er því til góðs þjóðum þessara félaga, sem eiga hér bæði heil blöð og venzlamenn og nú er að sjá, að eigi suma þm. líka. Þetta er það, sem orsakar allt hatrið og allar skammirnar, sem dynja á okkur, meiri hl. fossanefndar, í blöðum þessara þjóna erlendra auðkýfinga.“

Þessi voru orð Bjarna frá Vogi. Þeim mönnum úr íslenzkri borgarastétt, sem höfðu tekið þátt í því að heyja íslenzka sjálfstæðisbaráttu, var það ljóst, að það átti ekki að glopra þessum auðlindum út úr höndunum á okkur. Og mér finnst það hart, ef það á nú að fara að ofurselja í hendurnar á erlendum auðhring á miklu hættulegri máta, en jafnvel þá var hugsað þessar auðlindir, sem þarna er um að ræða. Kjörorðið var þá enn þá: Ísland fyrir Íslendinga. Nú virðist það fara að verða það, að Ísland eigi að verða fyrir erlenda auðhringa.

Það var spurt að því áðan af hv. 1. þm. Austf., á hvern hátt hæstv. ríkistj. hefði hugsað sér það, að Ísland gæti komizt inn í þennan atvinnurekstur. Og hv. 1. þm. Austf. sá enga möguleika á því, og ég býst við, að það sé nokkurn veginn rétt hjá honum. Það eru engir möguleikar á því á neinn venjulegan máta. Ef svona samningar eru gerðir nú, þá væri aðeins eitt eftirskilið þeim, sem á eftir koma, þeirri kynslóð, sem kæmi til með að glíma við afleiðingarnar af slíkum samningum og það væri fyrr eða síðar skaðabótalaust eignarnám á eignum slíks hrings og það er það sverð, sem kemur til með að hanga yfir höfði þessara útlendu auðkýfinga næstu 25–40 ár, að íslenzk þjóð muni taka þessar eigur skaðabótalaust eignarnámi, vegna þess að þessi hringur sé þá búinn að féfletta Íslendinga svo lengi sakir fáfræði þeirra aðila, sem gerðu þá samninga, sem nú stæði til að gera, að hann væri búinn að fá fullkomlega borgað það, sem hann hefði lagt í þessa verksmiðju, með þeim gróða, sem hann hefði haft af íslenzku rafmagni, sem er 30% af öllum kostnaði hans á þessum tíma, öllum framleiðslukostnaði hans, og það er það, sem kemur til með að verða barizt um á næstu áratugum, ef þessum hring verður hleypt hér inn í landið nú.

Við höfum áður knúið það í gegn, Íslendingar, að við fengjum skaðabótalaust í okkar hendur það, sem áður var stolið af okkur, það, sem kaþólska kirkjan hafði sölsað undir sig af íslenzkum jarðeignum og það, sem konungur hafði síðan lagt undir sig. Það knúðu Íslendingar fram, að var afhent sem íslenzkar þjóðjarðir, án þess að fyrir það væri greitt. Og það eru nóg ráð í íslenzkri löggjöf til þess að gera félög eins og þau, sem hér er talað um, réttindalaus, hvaða samningar sem eru gerðir. Það er líka hægt að breyta íslenzkri stjórnarskrá þannig, að þessir aðilar hafi hér enga tryggingu. Þótt það standi í núverandi stjórnarskrá, að það skuli borga öllum fullar bætur, þá er hægt að breyta þeirri stjórnarskrá þannig, að þegar útlendir aðilar eigi í hlut, skuli slíkt ekki gilda. Íslendingar hafa nóga aðstöðu til þess að breyta slíku, svo framarlega sem útlendum hring með hans aðstöðu til blaðaútgáfu og flokkastarfsemi og áhrifa á íslenzkt almenningsálít tekst ekki að spilla svo íslenzkri þjóð, að hún hafi ekki samsvarandi sjálfstæðistilfinningu gagnvart útlendingum og við höfðum á 19. öld og framan af þeirri 20.

Það er vitanlegt, að við þurfum, áður en 25 ár eru liðin, sjálfir á þessu rafmagni að halda og verðum farnir að virkja þá miklu, miklu dýrara rafmagn, en þetta. Og þeir menn, sem þá eiga að borga það dýra rafmagn, koma til með að segja: Ég heimta, að það sé stöðvað rafmagn til þessa hrings, sem selt er fyrir smánarverð. — Og þeir koma til með að finna aðferðir til þess.

Þar að auki vil ég segja það og aðvara núverandi valdhafa, að það hefur enginn maður rétt til þess að gera samning til þess að ætla að binda komandi kynslóðir. Það er hægt að reyna að finna út lagalegar refjar til þess, en það er enginn siðferðilegur réttur til þess, ekki nokkur. Menn geta gert milliríkjasamninga við annað ríki, þar sem ríkið getur staðið erfiðlega að vígi, vegna þess að ríkið er ákveðið vald gagnvart okkur. En það er ekki hægt að gera slíka samninga gagnvart einu litlu hlutafélagi og ekki heldur stóru, sem ætlar að starfa undir íslenzkum lögum, hvernig sem íslenzkum lögum og íslenzkri stjórnarskrá kann að verða breytt. (Gripið fram í.) Nei, ríkið er voldugt, það er hægt að gera milliríkjasamninga. En það verða ekki gerðir milliríkjasamningar um þetta. Það er hægt að gera samning eins og gerður var núna við England í sambandi við landhelgina og það skapar okkur vissa erfiðleika, þegar við eigum að fara að sækja undir dómstól í Haag og annað slíkt. En það er ekki hægt að gera samning við hlutafélag. Eitt ríki gerir ekki slíkan samning við eitt hlutafélag.

Hv. 5. þm. Vesturl. var að tala hér um það, að ýmsar þjóðir væru nú að lokka til sín útlent auðmagn. Það eru fleiri þjóðir nú, sem eru að þjóðnýta útlent auðmagn í sínum löndum, miklu fleiri. Og það er háttur, sem kemur áreiðanlega á næstu 25 árum, til með að verða miklu algengari, að þjóðir hagnýti það erlenda auðmagn, sem í þeim löndum er.

Hv. 5. þm. Vesturl. talaði hér áðan um það, eins og hann sagði orðrétt, að ef Einar Benediktsson og þeir, sem með honum stóðu í kringum 1920, hefðu fengið að gera það, sem þeir þá höfðu ætlað, hefði það verið mjög gott. Það er máske athyglisvert, að upp úr þeim mönnum, sem lítið virðast þekkja til íslenzkrar sögu, skuli gloprast svona nokkuð og dæmi um það, hve þekkingarleysið á íslenzkri sögu er mikið, enda varla von, að það sé stórkostlegt, ef Háskóli Íslands hefur ekki treyst sér til þess að kenna neina Íslandssögu eftir 1904. Það, sem var að gerast eftir 1920, var alveg þveröfugt. Það var stórkostleg hætta á ferðum þá. Þá var búið að selja alla íslenzka fossa að Soginu undanteknu í hendurnar á útlendum félögum og félögum, þar sem útlendingar áttu yfirgnæfandi meiri hl. og það, sem hefði gerzt og þá, sem var verið að knýja í gegn á Alþingi þá, var að þessir erlendu aðilar, sem áttu fossana, fengju að virkja þá, þeir fengju að virkja þá og hagnýta þá, og Titan, sem var útlent félag, hafði þá þegar með áætlun Sætersmoen gert áætlun um 6 virkjanir í Þjórsá, sem Titan átti, þar sem þurfti 2.000 verkamenn til þess að vinna að því að koma þeim virkjunum upp og þar sem meiningin var að koma upp áburðarverksmiðju og öðru slíku. Hvað hefði gerzt, ef þetta hefði orðið? Hv. 5. þm. Vesturl. hélt, að þá hefði þetta allt verið í þessu fína lagi og við verið búnir að eignast þetta allt saman. Það, sem hefði gerzt, hefði verið þveröfugt. Það, sem hefði gerzt, væri það, að þessir stóru erlendu aðilar hefðu eignazt öll þessi fyrirtæki, sem þarna var um að ræða, í þjónustu þessara útlendu aðila hefði starfað þorrinn allur af íslenzkum verkalýð. Þessir útlendu aðilar hefðu átt fossana, verksmiðjurnar,og þeir hefðu komið sér upp miklu sterkari blöðum og flokkum á Íslandi, en dönsku heildsalarnir réðust í að gera 1920, þegar þeir keyptu Morgunblaðið, eins og ég sagði frá áðan. Þessir útlendu aðilar hefðu orðið sterkustu aðilarnir í íslenzkri pólitík. Og þeir hefðu mótað almenningsálít meira og minna á þessum 25 næstu árum. Mér er spurn, hvort Ísland hefði orðið lýðveldi 1944, ef danskt auðmagn hefði verið svo sterkt hér, að það hefði ráðið hér bæði voldugum blöðum og flokkum. Og ég held, að Jón Þorláksson og Bjarni frá Vogi og þeir menn, sem hér á Alþingi báru gæfu til þess að smeygja einni brtt. inn í fossalögin 1923 um, að ríkið eitt mætti virkja fossana, þótt útlendingarnir ættu þá, — ég held, að þeir hafi gert rétt með því að hindra þessa þróun útlends fjármagns í íslenzku atvinnulífi. Ég held, að það hafi verið blessunarríkt fyrir Ísland og það hafi þýtt, að Íslendingar sjálfir hafa þróað sitt atvinnulif og eiga sjálfir sín atvinnutæki og eru þess vegna efnahagslega með sjálfstæðustu þjóðum í Evrópu í dag.

Ég vona, að menn séu ekki búnir að gleyma því, að við keyptum Þjórsá 1948 af Titan á 3 millj. kr. Þessi Búrfellsvirkjun, sem við erum að ræða í dag; sem við komum til með að ræða á næstunni, byggist á því, að við keyptum Þjórsá fyrir 3 millj. kr. En við vorum búnir í 28 ár að eyðileggja það fyrir Titan, að þeir gætu notað Þjórsá, með þessari litlu brtt. í fossalögunum. Og hefði Titan þess vegna átt Þjórsá og önnur útlend félög aðra íslenzka fossa; að Soginu einu undanteknu, þá hefðu þær virkjanir, sem við hefðum þurft að ræða um í dag, ekki verið ræddar hér á Alþ. Þá hefðu þessir aðilar samið við þessa útlendu aðila um þessa hluti. Við hefðum verið eins og nýlenda, nema okkar sjálfstæðishreyfing í formi baráttu fyrir þjóðnýtingu á þessum hlutum, þjóðnýtingu á ánum, þjóðnýtingu á fossaaflinu, þjóðnýtingu á verksmiðjum, hefði fengið þá útrás, að við hefðum lagt í það að þjóðnýta þetta og þannig gekk þetta í íslenzka eign. Ég held þess vegna, að það geti verið gagnlegt að ræða það, sem gerðist 1923 og það, sem afstýrt var þá, ef menn hafa svona rangar hugmyndir um, hvað þá hafi raunverulegt gerzt, eins og hv. 5. þm. Vesturl. sýndi hér áðan, því að við eigum einmitt að læra af því, sem þá gerðist, í því, sem við gerum nú og við skulum heldur láta svo og svo mikið af okkar vatnsorku vera ónotað og geyma handa okkar eftirkomendum, sem vissulega þurfa á henni að halda, heldur en að glopra henni út úr höndunum á okkur og þeim og fá þar með jafnvel voldugan einokunarherra inn í landið til að drottna yfir okkur.

Hv. 5. þm. Vesturl. var, eins og sumir sérfræðingarnir hafa gert, að hræða okkur á því, að kjarnorkan yrði bráðlega svo ódýr, að við ættum að koma fossaflinu sem fyrst í lóg. Það liggur ekkert fyrir um það, að kjarnorkan verði á næstunni svo ódýr, að hún verði ódýrari en annað, — ekki nokkur skapaður hlutur. Og þar að auki skulum við minnast þess, að til kjarnorkunnar þarf úraníum, þarf erlent efni, en okkar eigin fossar eru innlendur kraftur, sem við getum notað. Það er hins vegar annað til, sem getur gerbreytt þessu. Ef vetnisorkan verður beizluð í friðsamlega þágu, breytir það öllu spursmáli um orkugjafa í veröldinni. Þar er hlutur, sem gerbreytir öllu saman. En það er mikil spurning, þótt hægt verði að nota það í vetnissprengjur, hvort hægt verði að nota það til friðsamlegrar orku. En þá yrði það sú langódýrasta og ótæmandi orka, sem mundi slá allt annað út, þannig að það mundi gerbreyta öllum efnahagslegum grundvelli að allri orkuframleiðslu yfirleitt í veröldinni, vegna þess að það gerði svo að segja alla orku ókeypis og skapaði grundvöll fyrir slíkum allsnægtum hjá mannkyninu hvað það snertir, að alveg sérstök tímabil mundu þar upp renna.

Hv. 5. þm. Vesturl. varaði hins vegar á ýmsan hátt við þeim hættum, sem í þessu fælust. Og eitt af því, sem hann virtist treysta á og mér skildist, að Alþfl. treysti á í þessum efnum, væri sú sterka þjóðernistilfinning Íslendinga. Við skulum ekki treysta of mikið á hana. Það er líka hægt að brjóta hana niður á 25—40 árum, ef erlendur auðhringur, sem er ríkari og voldugri, en öll íslenzk borgarastétt samanlögð, getur beitt hér fyrir sig blöðum og flokkum í heila kynslóð til þess að móta þá kynslóð, sem hér er að vaxa upp.

Hv. 5. þm. Vesturl. kom enn fremur inn á það í sambandi við þá hættu, sem er mjög greinilega að eyða dreifbýlinu, að hann vonaðist eftir, að landsfjórðungarnir þrír, sem urðu að blæða fyrir þetta, mundu sætta sig við það með þessu litla, sem í þá væri hent í sambandi við framkvæmdasjóðinn. Við skulum ekki vera með neinar tálvonir í þessum efnum og því síður blekkingar. Ákvörðunin um byggingu alúminíumverksmiðju í Straumsvík þýðir ákvörðun um að eyða í hraðara mæli, en gerzt hefur á undanförnum áratugum, þremur landshlutum í landinu, þ.e.a.s. bein ákvörðun, sem hver þm. hlýtur að taka þátt í að gera vitandi vits, alveg óhjákvæmilega. Menn geta ekki verið svo blindir, að menn sjái ekki, hvað þarna vofir yfir. Ef það eru t.d. einhverjir þm., sem væru eitthvað að hugsa, við skulum segja viðvíkjandi íslenzkri bændastétt eða slíku, þá skulum við gera okkur grein fyrir, hvað það er, sem vofir yfir á næstu 10–15 árum í slíkum efnum í sambandi við þá tæknibyltingu, sem er að gerast hjá mannkyninu. Bændurnir eru taldir um 13% á Íslandi núna. Ég held, að í Svíþjóð séu þeir í dag um 9.%, og Svíar reikna með því; að innan áratugs sé bændastéttin í Svíþjóð komin niður í 4% af íbúum landsins. M.ö.o.: það, sem hér mundi vofa yfir í sambandi við svona ráðstafanir, eins og þarna er gert, er kerfisbundin eyðing á þessum landshlutum og sérstaklega hröð eyðing á bændastéttinni. Það er varla ástæða til þess, þegar búið er að flytja 9/10 af öllum Íslendingum til svæðisins við Faxaflóa, annað en hafa svo að segja allan íslenzkan landbúnað á Suðurlandsundirlendi, allt annað mundi verða tæknilega mjög ópraktískt, séð frá hálfu þeirra efnahagssérfræðinga, sem ættu þá að fara að ráða Íslendingum, þannig að við skulum alveg horfast í augu við, hvaða ráðstafanir er verið að gera með þessu.

Það er öllum ljóst, að það er engin þörf á neinni alúminíumverksmiðju hér suður frá upp á atvinnu eða neitt slíkt. Það er ekki nokkur þjóðhagsleg þörf á henni, hún er ekki til. Þetta er aðeins bein ráðstöfun til þess að hraða eyðileggingu landsbyggðarinnar miklu meira, en gert hefur verið. Það er alveg gefið, að með svona ráðstöfunum væti verið að vinna að því að drepa íslenzka atvinnuvegi. Við skulum gera okkur það ljóst. Menn eru hér að tala um áætlanir og hér var jafnvel hæstv. fjmrh. að lesa fyrir okkur áætlanir áðan. Allar þessar áætlanir, — og það hélt ég nú, að hæstv. ríkisstj. væri farin að skilja, — eru tómt bull og blekking, á meðan ekki er nein heildaráætlun til um fjárfestinguna í landinu. Að búa til áætlanir, t.d. um þriðjung af fjárfestingunni, eins og ráðh. var að tala um áðan, án þess að hafa hugmynd um, hvernig fjárfestingin eigi að vera, það er tóm vitleysa, sem þýðir aðeins, að einu ári eða tveimur eða þremur síðar segja menn: Þessa áætlun, ef hún yrði bara til eins árs, verðum við á miðju næsta ári að skera niður um 20%. Við erum búnir að lifa það varðandi fjárlög, sem við vorum að afgreiða, að ákvörðun um niðurskurð á þeim var tekin nokkrum mánuðum seinna. Það vinnur engin þjóð af viti með svona aðferðum, eins og gert er á Alþingi Íslendinga. Það hefur hver einasta þjóð, ekki bara í Austur—, heldur líka í Vestur-Evrópu, tekið upp meira eða minna heildaráætlun um sinn búskap. Og það hefur á þessu þingi verið gerð tilraun til þess að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstj. um, að þetta væri nauðsynlegt á Íslandi líka. Hún hefur núna ráðizt í að ætla að fara að leggja í þessa alúminíumverksmiðju hér og þessa stóru Búrfellsvirkjun án þess að samrýma á nokkurn hátt í eina 10 ára áætlun. Hér er verið að vinna eins og blindir kettlingar, þannig að menn bara reka sig á það allt í einu, þó að núna séu þeir kannske fullir af hugmyndum um að viðhalda okkar gömlu atvinnuvegum, sjávarútvegi, landbúnaði o.s.frv., — reka menn sig allt í einu á, að þessir atvinnuvegir bara detta niður. Eða muna menn ekkert eftir því, að það hafi haft nein áhrif á útgerðina við Faxaflóa, þegar 3.000 menn voru á Keflavíkurflugvelli, þegar sjómennirnir fóru af bátunum og ekki var hægt að manna þá, af því að þeir höfðu betri laun á Keflavíkurflugvelli? Það hefur ekki verið hægt að koma neinu viti fyrir hæstv. ríkisstj. í því að reyna að koma hér á heildaráætlun um þessi störf. Og hennar ákvarðanir nú, ef hún ætlar að leggja út í það fyrst að undirbúa þá stóru Búrfellsvirkjun, eins og hún er að og síðan alúminíumverksmiðju í sambandi við hana, — þær þýða að segja við íslenzkan verkalýð: Spennið þið nú upp allt kaup, eins og þið frekast getið, því að hér á að hafa uppboð á öllu vinnuafli. — Og vafalaust verður það skilið þannig af öllum. Það er búið að vera í fullum gangi nú og hæstv. ríkisstj. gerir sínar ráðstafanir til þess að margfalda það uppboð. Lögmál framboðs og eftirspurnar koma til með að verka í þjóðfélaginu og það sæmir sízt af hálfu þeirra manna, sem prédika það mest, að vera að tala eitthvað um eða undrast eitthvað yfir því, að það verði margfaldað kaupið í landinu á næstunni. Það gerist af sjálfu sér og án allra samninga verkalýðsfélaga, alveg eins og kaup Dagsbrúnarmanna í dag er upp í 60 kr. í stað 35, eins og stendur í einhverjum töxtum, sem ekkert verður að marka, þegar þessir hlutir koma, um hvað sem samið er.

Svo rekum við okkur á það í öllum þessum skýrslum, sem hérna liggja fyrir, að það virðist svo sem Alþjóðabankinn hafi alveg sérstaklega áhuga á þessum málum og jafnvel það virðist vera svo, að þessi sami Alþjóðabanki ætli sér að lána jafnvel til þessa svissneska hrings líka, þannig að hann hafi hagsmuni af hvoru tveggja, hvernig allt gengur.

Ég hef áður lent ofurlítið í því að eiga við slíka samninga, þegar Alþjóðabankinn er annars vegar. Það var þegar hann var að setja Sogsvirkjuninni stólinn fyrir dyrnar um, hvernig rafmagnsverð skyldi ákveðið til áburðarverksmiðjunnar, í 15 ára samningi um hana. Þá hótaði Alþjóðabankinn því, að hann lánaði Sogsvirkjuninni ekki til Írafossvirkjunarinnar, nema því aðeins að hún féllist á samning til 15 ára um rafmagnsverðið til áburðatverksmiðjunnar og kúskaði þar fram mjög lágt verð. Þessi banki er um leið að kúska okkur til þess að fallast á vexti, sem eru 151/2%, þ.e.a.s. rándýr lán og það til langs tíma, á sama tíma sem við þyrftum ekki á neinu slíku að halda. Við fjárfestum á ári 5.000 millj. kr. núna, á þrem árum 15 þús. millj. kr. Sú fjárfesting, sem væri t.d. upp á 2.000 millj. kr. í virkjunum, þó að við virkjum svo mikið fyrir okkur sjálfa, en við skulum bara virkja um 1.000 millj. kr. fyrir okkur sjálfa, þá er það barnaleikur fyrir okkur meira að segja að leggja þetta fram sjálf, ef við viljum, ef við bara höfum stjórnað okkar fjárfestingu og þurfum ekki að taka þetta að láni erlendis með 51/2 % vöxtum í mynt, sem við síðan sífellt hækkum í verði, þar eð við erum að borga alltaf upp aftur og aftur sama lánið, eins og reynslan sýnir. Alþjóðabankinn hefur á tvennan hátt áhuga á okkur. Hann er að arðræna okkur með því að kúska okkur til þess að taka hjá sér lán með 531/2 % til þess að virkja handa sjálfum okkur og hann vill í öðru lagi kúska okkur til þess að taka lán með 51/2 % til þess að virkja handa hring, sem hann er að lána og útvega þeim hring sem ódýrast rafmagn. Og það er alveg sérstaklega eftirtektarvert, að því er virðist, að þessi Alþjóðabanki er hvað eftir annað að skipta sér af því, hvernig þessir samningar séu gerðir og alveg sérstaklega með eitt fyrir augum og það er hvað snertir markaðsörðugleika þessa hrings, sem líka er skjólstæðingur þessa Alþjóðabanka. Á bls. 3 í stjórnarskýrslunni stendur: „Er til þess ætlazt af hálfu Íslendinga, að verksmiðjan verði jafnan rekin með fullum afköstum, eftir því sem tæknilegar aðstæður leyfa, nema sérstakir markaðsörðugleikar komi til.“ Hver setur þetta inn í þessa skýrslu: „nema sérstakir markaðsörðugleikar komi til“? Það er ætlazt til þess af Íslendinga hálfu, að þetta sé rekið með fullum afköstum, nema „sérstakir markaðsörðugleikar komi til“. Eru það Íslendingar, sem setja þetta inn, að það eigi að reka þetta með fullum afköstum, nema sérstakir markaðsörðugleikar komi til? Erum við að setja þetta inn í þetta samningsuppkast? Er það okkar að hugsa um slíkt?

Þá er á bls. 6 í sambandi við grunnskattinn líka talað um, hvort hann verði háður breytingum til hækkunar eða lækkunar í samræmi við breytingar á heimsmarkaðsverðinu. Og áfram er þar um heimsmarkaðsverðið og hvað það eigi að vera og miðað við ákveðið. Eru það íslenzkir hagsmunir að vera að setja þetta inn í? Hvað varðar okkur um aðstöðu hringsins, verð hans, markaðsörðugleika hans og verðið á hans vöru? Það er annar aðili, sem varðar um það, þ.e. Alþjóðabankinn. Hann er að lána hringnum og hann hefur áhuga á þessu, og hann vill koma áhættunni af markaðssveiflunum yfir á okkur Íslendinga.

Á bls. 9 er þetta sama endurtekið: „með fullum afköstum“. Hringurinn er að tryggja sig í sambandi við bæði skatta og öryggi með reksturinn um markaðsörðugleika. Hvað stendur í þeim tímaritum, sem fylgjast einna bezt með því, sem er að gerast í heiminum núna sem stendur? Það er gengið út frá því vegna þeirrar miklu fjárfestingar, sem nú á sér stað í þessum efnum, ekki sízt í Afríku, þar sem þessir hringar standa saman að þessu, að 1966 geti orðið nokkrar erfiðleikar með sölu á alúminíum, að framleiðslan geti farið að minnka, markaðurinn geti minnkað, vegna þess að þá verði búið að tvöfalda framleiðslumöguleikana á alúminíum utan Norður-Ameríku. Það var kominn upp ótti um það 1963, að á árinu 1966 geti orðið verðfall á alúminíum. Ef ég man rétt, er það 1965 sem þeir eru að verða búnir með sínar stóru verksmiðjur í Guineu og þá væri komið á markaðinn margfalt meira alúminíum, en framleitt hefur verið áður. Líka er eitt 60 þús. tonna fyrirtæki að taka til starfa 1965 í Suður-Ameríku.

Þarna eru á ferðinni hlutir, sem við Íslendingar höfum enga ástæðu til þess að taka tillit til. Ef þessi hringur heimtar af okkur, að við leggjum í 2.000 millj. kr. fjárfestingu handa honum til þess að tryggja hann með rafmagn, þá varðar okkur ekkert um það, hvort hann selur sitt alúminíum eða hvort hann tapar á því eða græðir. Við verðum að hafa öryggi fyrir einu og það er, að hann borgi þetta upp í topp, þó að hann reki ekki verksmiðjuna og það eru vissar tilhneigingar hér til þess að reyna að tryggja þetta, en samt er alltaf verið að skjóta inn öðru hverju í sambandi við vissa hluti, að þarna sé hægt að fá undanþágu, ef um sérstaka markaðsörðugleika er að ræða.

Alúminíum hefur verið málmur, sem hefur aukizt alveg gífurlega framleiðsla á, á undanfárnum áratugum, jókst ekki minnst á stríðsárunum, þegar Bandaríkjastjórn átti í sinni hörðu baráttu við alúminíumhringina, sem vildu ekki auka framleiðsluna út af óttanum við, að það yrði allt of mikil framleiðslugeta eftir stríð.

Alúminíum er hins vegar málmur, sem er ákaflega háður hergagnaframleiðslunni og það er vitanlegt, að svo framarlega sem friðvænlega fer að líta út í heiminum, er hættan á verðfalli á alúminíum alveg gífurleg. Bandaríkjastjórn hafði fyrir 2 árum, meira en tveggja ára birgðir af báxit og gífurlegar birgðir bæði af alúmína og alúminíum, sem hvað eftir annað hefur verið óttazt, að hún skellti á markaðinn í heiminum. Alúminíumhringurinn annars vegar og Bandaríkjastjórn hins vegar eru þess vegna aðilar, sem geta alveg gerbreytt öllum aðstæðum í þessum efnum, þegar þeim þóknast. Alúminíum er hins vegar málmur, sem notaður er ákaflega mikið í sambandi við flugvélaframleiðsluna og alveg sérstaklega í sambandi við herflugvélaframleiðsluna og svo framarlega sem samningar tækjust um það að fara að stórminnka þá framleiðslu á næstu árum, er gefið, að gerbreyting mundi verða um allt viðhorf um alúminíum og þess framleiðslu í heiminum. Hins vegar er vitanlegt, að plast er hlutur, sem núna er að vinna álíka á, í veröldinni og stálið á síðari hluta 19. aldarinnar og alúminíum á tímabilinu 1930–1960, og menn vita, að plast er farið að koma í staðinn fyrir stál, af því að það er sterkara, en léttara, plast er farið að koma í staðinn fyrir tré, af því að það fúnar ekki, plast og nælon og allir mögulegir hlutir, sem úr þessu eru unnir, eru farnir að koma í staðinn fyrir vefnað, farnir að koma í staðinn fyrir ull, m.ö.o. þau töfraefni, sem nú er verið að framleiða í þessu, liggja á sviði plastsins, en ekki á sviði alúminíums og ef Íslendingar ætla sér, — við getum vel beðið í þessum efnum, okkur liggur ekkert á með neitt af þessu, við getum alveg eins eftir 10 ár lagt í það og hugsað okkar mál almennilega, — ef við ætlum okkur að fylgjast með í því, sem er að gerast í heiminum, en ekki vera með þeim síðustu og grípa í rassinn á þessu öllu og fara svo á rassinn með það allt saman, þá eigum við að athuga þessa hluti. Hins vegar hefur þetta mál verið sótt af ofstæki og það mátti greinilega sjá það ofstæki af hálfu þess skriffinns, sem skrifaði í Morgunblaðið í þessum efnum, sem sjálfur er umboðsmaður fyrir alúminiumhring hér á Íslandi. Þarna er verið að vinna vitandi vits af hálfu manna, sem eru erindrekar útlendra auðhringa, til þess að reyna að blekkja Íslendinga inn á hluti, sem eru stórhættulegir fyrir okkur og við þar að auki höfum ekki nokkra hagsmuni af. Þess vegna er það svo, að í þessu máli, sem núna kemur svona seint fyrir þingið, á ekki að gera neitt meira, fyrr en búið er að ræða þetta eins og mönnum sæmir. Það er ekki sæmilegt að ræða svona mál eina kvöldstund. Það var máske skiljanlegt, þegar hernámið var framkvæmt hér 1940, að það væri komið mönnum að óvörum. Það var líka skiljanlegt, þegar Bandaríkjamenn tóku við því hernámi, að ríkisstj. Íslands væru settir úrslitakostir með 24 klst. fresti og ríkisstj. gert annaðhvort að ganga að þessu eða herinn væri settur á land í banni hennar. Þarna var um stríðstíma að ræða og stríð og voldugir aðilar, sem vildu ekki láta komast upp um, hvað þeir voru að gera og íslenzka ríkisstj. hafði kannske ýmsar afsakanir. Það var lítið land og vopnlaust, sem var verið að níðast á og það var lítil aðstaða til að hugsa um málið. Hnífurinn var í hálsinum á þjóðinni, eins og einn þm. Sjálfstfl. komst að orði, þegar hann gerði grein fyrir því, að hann sagði já, en vildi hafa sagt nei.

En hér er ekki um neitt slíkt að ræða. Okkur er engin þörf að ganga inn á þetta, — ekki nokkur þörf, Við getum alveg rólega hugsað þetta mál. Og ég vil leyfa mér að álíta, að hæstv. ríkisstj. hafi verið meira eða minna hlunnfarin í þessu máli af hennar eigin sérfræðingum, sem hafa ekki staðið í stöðu sinni, sem hafa verið áhugamenn um að fá þennan alúminíumhring hér inn í landið, sem hafa verið þekkingarlitlir á ferli slíkra hringa og aðferðum þeirra og hafa ekki skilið, hvernig aðstaðan er í veröldinni í þessum málum og gera sér ekki ljóst, hvaða afleiðingar slíkur verknaður hefur.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vonast til þess, að hæstv. ríkisstj. sjái að sér í þessu máli, henni skiljist það, að þetta er ekki mál, sem leyfilegt að að hroða af, hvorki á einu ári né tveim, heldur mál, sem á að fá þaulrætt í þinginu, áður en ríkisstj. tekur sjálf ákvörðun sína. Þess vegna vil ég eindregið óska þess og vona það, að hæstv. ríkisstj. detti ekki í hug að framkvæma nú samninga í þessum efnum, áður en næsta Alþ. kemur saman, og hafa þann hátt á að leggja siðan slíka samninga fyrir þetta þing sem raunverulega orðinn hlut frá sinni hálfu. Við vitum, að þó að slíkir samningar séu gerðir með því fororði, að þeir séu ekki gildir, fyrr en Alþ. hefur samþykkt þá, getur engin ríkisstj., sem hefur meiri hluta í sínu þjóðþingi, verið þekkt fyrir að gera slíka samninga við erlendan aðila og geta ekki komið þeim í gegn á eftir. Sá siðferðilegi þrýstingur, sem slík ríkisstjórn mundi leggja á sína þm., þegar hún væri búin að gera slíka samninga, er svo sterkur, að þeir mundu að öllu jöfnu bogna fyrir slíkum þrýstingi, jafnvel þótt á móti vilja þeirra væri og þeir mundu á eftir segja frammi fyrir dómstóli sögunnar: Við gátum ekki annað gert, en að treysta okkar forráðamönnum. — Þess vegna er það, að ábyrgðin mundi hvíla á hæstv. ríkisstj.

Ég er ofurlítið kunnugur því, hvernig íslandi er stjórnað og hefur verið stjórnað síðustu 25–30 ár. Íslandi hefur verið stjórnað þannig, að ráðh. hafa sjaldnast gefið sér tíma til að hugsa um, hvernig eigi að stjórna því, vegna þess að þeir eru svo önnum kafnir við þær daglegu afgreiðslur og þeim hættir þess vegna við að treysta meira eða minna á hina og þessa sérfræðinga, sem þeir fela hin og þessi mál að athuga, en sérfræðinga, sem hafa ekki til að bera þann pólitíska þroska, sem ætlazt er til, að íslenzkir ráðh. hafi. Þess vegna hafa verið gerðar svo hrapallegar villur í íslenzkri pólitík á síðustu 25 árum, sem þeir menn, sem hafa gert þær, hafa iðrazt eftir, en kunna ekki við að viðurkenna seinna meir, vegna þess að þeir gerðu það í góðri trú og án þess að hafa næga þekkingu á þeim málum, sem um var að ræða. Ég vil þess vegna eindregið leyfa mér að vonast til þess, að hæstv. ríkisstj. athugi nú eftir þessa fyrstu stuttu umr., sem fram hefur farið um þetta veigamikla mál hér á þinginu, athugi þetta mál það vel og ræði þetta mál það vel við alla flokka þingsins, áður en hún sjálf tekur ákvarðanir í því og bindur þannig móralskt meiri hl, þings, þó að hún geri það ekki formlega, að það gefist tækifæri til þess, sem frá mínu sjónarmiði væri að koma vitinu fyrir hæstv, ríkisstj. um að gera ekki þennan hlut.