08.05.1965
Sameinað þing: 49. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2214 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

Aluminíumverksmiðja

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er nú sitt hvað, sem fram hefur komið í ræðum manna, eins og vænta mátti. Það er kannske rétt að víkja fyrst að síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Reykv. (EOl). Hann talaði þannig áðan, að ég er farinn að fá miklu sterkari sannfæringu fyrir, að málið sé gott, en ég hafði, áður en hann talaði. Ég marka það af því, að þessi tónn er í honum, þessi hamur er á honum, sem hann talaði í hér áðan. Hann spurði fyrst í ræðu sinni, hvort ekkert fleira hefði veríð athugað í sambandi við orkufrekan iðnað hér, en að koma upp alúminíumverksmiðju. Hann sagði, að þm. hefðu aldrei fengið nokkurn skapaðan hlut frá stóriðjunefnd. Við fengum nú mjög ýtarlega skýrslu frá stóriðjunefnd og þessi hv. þm. líka um miðjan nóv. s.l. og í þessari skýrslu, sem hv. þm. er búinn að hafa undir höndum frá því sem sagt í nóv., stendur m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin (þ.e. stóriðjunefnd) hefur í störfum sínum reynt að gera sér grein fyrir, hvaða möguleikar aðrir til orkufreks iðnaðar væru fyrir hendi hér á landi. Til að fá sem gleggstar upplýsingar hér að lútandi kom nefndin því til leiðar, að 4 sérfræðingar frá norsku fyrirtækjunum Norsk Hydro og Electrokemisk A/S komu hingað til landsins í desember 1961 nefndinni til ráðuneytis og til þess að gefa sérstaka álitsgerð um hina ýmsu möguleika til orkufreks iðnaðar, sem til greina kæmu hér á landi. í skýrslu hinna norsku sérfræðinga er vikið að möguleikum til áburðarframleiðslu, vinnslu á magnesíum, klór og natrónlút, kalsiumkarbid, fosfór, þungu vatni og járnblöndum auk alúminíums. Voru hinir norsku sérfræðingar þeirrar skoðunar, að alúminíumvinnslan væri sú tegund orkufreks iðnaðar, sem helzt kæmi til greina á íslandi, eins og öllum aðstæðum er háttað. Allar frekari athuganir á viðræðum n. hafa stutt þessa skoðun. Sú leið virðist að vísu enn vera hugsanleg að halda áfram að auka framleiðslu köfnunarefnisáburðar með raforku fyrir innanlandsmarkað, enda þótt nú sé talið ólíklegt, að sú leið verði valin. Um meiri háttar áburðarvinnslu, sem gæti orðið undirstaða stórra virkjunarframkvæmda, virðist alls ekki geta orðið að ræða.“ Hér lýkur þessari tilvitnun.

Allan þann tíma, sem hv. þm. hefur haft þetta undir höndum, hefur hann ekki haft neitt fyrir því að spyrjast frekar fyrir, ef hann hefði haft hug á því, um þessar athuganir aðrar, sem vikið er að, en staðhæfir nú, að þm. hafi ekkert heyrt frá n. og alls ekki neitt um það, hvort þeir nokkurn tíma hafi hugsað sér eða verið gerð nokkur minnsta athugun á öðru, en alúminíumbræðslu hér á landi.

Þó að það sé ákaflega lítilfjörlegt atriði og komi þessu ekki mikið við, kann ég ekki við að láta það alveg athugasemdalaust fara fram hjá hv. þm., þegar hv. 3. þm. Reykv. er að vitna í Jón Þorláksson og taka sundurlaus ummæli úr þingræðum hans hér máli sínu til stuðnings. Það hafa gert aðrir í hans flokki, þó að miklu minni menn séu fyrir sér og var miklu afsakanlegra. Var það leiðrétt á sínum tíma í Morgunblaðinu, þar sem greinilega kom fram, að þær tilvitnanir, sem þar var vitnað til, voru bæði slitnar úr samhengi og úr fellt það, sem breytti algerlega meiningu í þessari ræðu Jóns Þorlákssonar. Að sjálfsögðu er hægt að athuga það nánar, en ég hef fyrir mér hérna ummæli úr þessari sömu ræðu, sem sýna nokkuð annað viðhorf Jóns Þorlákssonar til málsins og ég skal leyfa mér aðeins — með leyfi hæstv. forseta — að vitna til þess, þar segir Jón Þorláksson: „Það eru þá í stuttu máli 3 höfuðatriði, sem útheimtast, til þess að orkan verði sem ódýrust, að fallvötnin séu sem hagkvæmust til virkjunar” o.s.frv. „og orkuverin séu sem stærst, svo að virkjunarkostnaðurinn á hvert hestafl geti náð lágmarki eftir stærð orkuverksins og í þriðja lagi, að nægilega mikill hluti orkunnar sé frá upphafi seldur til fastrar iðju, sem geti borið fyrirtækið uppi fjárhagslega að sínum hluta og stutt fyrirtækið að öðru leyti með því að nýta að nokkru leyti afgangsorkuna frá almenningsþörfunum,” eins og hér er stefnt að og er að öllu leyti í samræmi við það, sem hér kemur fram. Jón Þorláksson vitnar til þess í þessari ræðu sinni, að það hafi verið hindrun fyrir stóriðjuna á þeim tíma, hræðslan við innstreymi útlendinganna, eins og við höfum heyrt, að fram hefur komið í ræðum manna hér í dag, ef stóriðja væri hafin. Hann segir, að þetta hafi stafað að miklu leyti af því, að miðað var við miklu stærri fyrirtæki á þessu sviði, en þörf væri á og upphaflega var til ætlazt. „En það þarf varla að taka það fram,” segir Jón Þorláksson, „að sú hræðsla er algjörlega ástæðulaus,” þ.e.a.s. hræðslan við innstreymi útlendinganna, „og óþarft að setja hana í samband við okkar fyrirætlanir.“

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri í sambandi við það, sem vitnað hefur verið í Jón Þorláksson, en annars fjallar sú ræða hans öll um allt annað mál, en við erum að ræða um, allt annað mál, eins og hv. þm. skýrði alveg réttilega frá og þess vegna hefur það ákaflega lítinn tilgang í einu eða öðru sambandi að vitna til hennar, þegar við erum að ræða um mál, sem er allt annars eðlis, en hann var þá að tala um.

Hv. þm. var tíðrætt um prófessora og agenta. Agenta þekkir hann nú kannske eins vel og hver annar, sérstaklega fyrir erlenda valdinu. Hann talaði af mikilli fyrirlitningu um þá dr. Jóhannes Nordal og Steingrím Hermannsson í stóriðjunefnd. Nú er Steingrímur Hermannsson ekki í stóriðjunefnd. Hann hefur verið í viðræðum með fulltrúum frá stóriðjunefnd frá því í nóvember s.l. sem framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins. Aðrir í stóriðjunefnd voru m.a.: ég fram til ársloka 1963, þegar Magnús Jónsson alþm. tók þar við, Sveinn Valfells, sem ég veit, að hv. þm. er að góðu kunnur. Þótt hann nefndi ekki okkar nöfn, var vitnað til þessara manna, sem ríkisstj. hafði fengið sér til ráðuneytis í stóriðjunefnd, eins og blindra kettlinga, svo að notuð séu hans orð og þessir menn kjöftuðu alveg eins og vitleysingar, sagði hv. 3. þm. Reykv. Skyldi nú einhverjum hafa dottið í hug, þegar hann hlustaði á ræðu þessa hv. þm.: Maður, líttu þér nær?

Það var furðulegt að hlusta á reikningsdæmisteoríuna hjá þessum hv. þm. um 160 þús. tonna alúminíumverksmiðju á Íslandi, sem enginn er að tala um og erlent fjármagn, sem væri meira á örfáum árum, 4–5 árum, a.m.k. helmingurinn af öllu fjármagni í íslenzkum atvinnugreinum og myndirnar, sem hann var að draga upp af þessari óskaplegu hættu. Hv. þm. sagði: Hver vill kaupa sér herra? Ég skal ekki svara þeirri spurningu. En ég veit, að hann vill ekki kaupa sér herra, hann hefur aldrei þurft að kaupa sér herra, hann hefur fengið hann ókeypis, eftir að kommúnisminn bjó um sig nógu rækilega í hans hugskoti og það kemur ósköp greinilega fram í ræðuhöldum hans í máli eins og þessu.

En af hverju stafar þessi ofsalegi ótti við erlenda valdið, við erlent auðmagn? Þekkir þessi hv. þm. kannske manna bezt skaðleg áhrif hins erlenda valds og er hann að vara okkur við sinni eigin reynslu? Er samvizkan að slá þennan hv. þm. og ætlar hann svo að láta það bitna allt á okkur, sem ætti að vera hjá honum eintal sálarinnar? Hann talaði af slíkum fjálgleik um vísindi og efnafræði og þróun í þessu, tækniþróun og annað slíkt, eins og hann hafi safnað í sig öllu viti, ekki aðeins allra alþm., heldur einnig meira og minna allra landsmanna og allra landa. Það er ekki ónýtt að vera svona alvitur og vita svona feiknalega mikið um, hvernig hlutirnir eiga að gerast og ekki gerast. Hann sagði, að 25 ára skeiðið, sem við eigum fram undan núna, mundi áreiðanlega verða mesti umbyltingatími í tækni og tækniþróun og þá ættum við að fara að ofurselja okkar dýrmætustu auðlindir erlendum auðhringum. Nokkru seinna sagði hann náttúrlega, að það lægi ekkert fyrir um það, að t.d. kjarnorkan gæti orðið ódýrari en rafmagn, en vetnisorkan, ef hægt væri að nota hana í friðsamlega þágu, þá væri fengin orkan. Hvernig stendur á því, að hann veit svona ákaflega vel um kjarnorkuna, að einmitt liggi ekkert fyrir um það, þegar þeir menn, sem þó fylgjast nokkuð með því, sem skrifað er í erlend tæknitímarit á þessu sviði, hvað eftir annað staðhæfa það, að það megi búast við því innan skamms, kannske 10 ára, segja sumir, 20 ára, segja aðrir, 30 ára, segja hinir þriðju, þá er kjarnorkan orðin ódýrari en bæði vatnsorkan og eldsneytisstöðvarnar. En það verður samt sem áður engin orka ódýrari, en vatnsorkan, sem búið er að skrifa niður, og það er ekki fráleitt, sem fram kemur í hugleiðingum stóriðjunefndar, að það kunni að skipta nokkru máli einmitt, að við Íslendingar getum virkjað með tilstuðlan erlends fjármagns meiri orku núna, en við ella gætum sjálfir, vegna þess að eftir tiltekinn tíma eigum við þessa orku sjálfir og getum þá væntanlega keppt við hvaða aðra orku sem við í dag a.m.k. sjáum fyrir, að standi til boða í heiminum.

Ég vil aðeins segja nokkur orð í sambandi við það, sem hann vék að, því að við gerðum ráð fyrir, að alúminíumverksmiðjan væri yfirleitt rekin með fullum afköstum, nema sérstakir markaðsörðugleikar komi til. Eins og hann vék að, höfum við okkar tryggingu fyrst og fremst í því, að þó að enginn markaður verði fyrir alúminíum og rekstur þessarar verksmiðju leggist þar af leiðandi niður, er verksmiðjan skuldbundin til þess að kaupa rafmagnið, þó að hún noti það ekki, og verksmiðjufyrirtækið að setja að okkar dómi sjálfra fullnægjandi tryggingar fyrir því að slíkt verði gert. Í þessu felst okkar trygging og á þessu er t.d. mikill munur eða þeim samningum um raforku, sem Norðmenn hafa gert, því að þar getur svissneska fyrirtækið sagt upp orkusölunni eftir 10 ár og þeir geta þá kannske sett upp kjarnorkuofn þar, ef það væri ódýrara eða einhverja aðra orku. En þetta geta þeir ekki hér hjá okkur og ekki notað neina aðra orku og eru skuldbundnir til þess að borga fyrir íslenzku raforkuna, enda þótt þeir noti hana ekki.

Ég skal svo ekki elta ólar meira við það, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Reykv. Mér gengur alltaf ágætlega að komast að niðurstöðu með hv. þm., þegar við tölum saman einslega, en okkur gengur alltaf mjög illa að koma okkur saman, þegar við erum í ræðustólnum. Það hefur verið svona um 20 ára skeið hér á þingi og það er víst ekkert við því að segja og verður svo að vera.

Ég skal svo víkja nokkuð að ræðum hv. þm. í dag. Fyrstur talaði hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson. Hann dró saman í sjö liðum niðurstöður úr ræðu sinni og mig langar til þess að víkja að hverjum lið fyrir sig, aðeins stuttlega, en það má segja, að í þessum niðurstöðum hafi hann dregið saman efni sinnar ræðu. Hann sagðist mótfallinn fyrir hönd Alþb. þeim vinnubrögðum, sem við hefðu verið höfð. Það hefði verið pukrað með málið og upplýsingum haldið leyndum fyrir alþm. Það ætti að halda áfram þessum sama óþingræðislega og ólýðræðislega hætti. Þessum ásökunum vísa ég í einu og öllu heim til föðurhúsanna. Hv. þm. lagði áherzlu á að skýrsla ríkisstj. hefði verið lögð fram á fjögurra ára afmæli stóriðjunefndar og af því átti að marka, að mikið hefði verið gert á þessum langa tíma, sem enginn hefði fengið að vita um. Í þessu sambandi finnst hv. þm. 4 ár langur tími. En það kemur ekki heim við fullyrðingar flokksbræðra hans um það, hversu óðfúsir og óþreyjufullir við séum og fyrirhyggjulitlir í að hleypa erlendu fjármagni inn í landið, eins og þeir orða það. Það hefði ekki átt að taka okkur 4 ár, ef við værum svo ginnkeyptir fyrir þessu sem menn vilja vera láta. En látum það liggja á milli hluta. Hv. þm. veit, að þessi skýrsla er ekki fyrsta vitneskja þm. um þetta mál. Reyndar gat hann þess líka sjálfur, að svarað hefði verið fsp. um málið, áður á Alþingi og það rætt utan dagskrár. Enn fremur er það kunnugt, að meginefni þessara skýrslna var afhent hv. alþm., eins og ég hef áður sagt, um miðjan nóvember og síðan hafa þeir fengið viðbótarskýrslur um efni viðræðna við Swiss Aluminium og fulltrúa Alþjóðabankans, sem fram fóru eftir það. Því fer svo fjarri, að pukrað hafi verið með málið, að ég fullyrði, að það sæti óvanalegri meðferð um málefni, sem ríkisstj. vinna að, að því leyti, hvað það hefur verið upplýst, áður en það er fram lagt til þinglegrar ályktunar.

Hv. 9. þm. Reykv. (BergS) talaði mikið um samninga Swiss Aluminium við Norðmenn, um alúminíumbræðsluna í Haugsnesi. E.t.v. getur hv. þm. upplýst okkur engu síður um, hvenær norska stórþingið fékk skýrslu um þessa samninga? Var það löngu áður, en þeir voru gerðir? Var það skýrslugerð eins og hér um viðræður, sem e.t.v. gætu leitt til samninga, eða var e.t.v. bara lagt fyrir stórþingið frv. að samningi, þegar það var tilbúið? Eða fékk norska stórþingið e.t.v. ekkert að vita um málið fyrr en 11/2 ári eftir að samningar voru undirritaðir af norska iðnmrn.? Hvað hefði verið sagt, hefði ég nú farið svona að því að undirskrifa samningana fyrir 11/2 ári og væri núna að tala við hv. þm. um og upplýsa þá um samningagerðina? Við megum ekki standa okkur verr en Norðmenn, síendurtók hv. 9. þm. Reykv. Eigum við nú að fylgja slíku fordæmi? En svona var gangur málsins í Noregi.

Nei, við höfum farið öðruvísi að og ætlum að fara öðruvísi að. Eins og ég gat í dag um, hefur orðið samkomulag um það við Alþb., að það eða þingflokkur þess tilnefni tvo þm. til viðbótar í þmn., sem skipuð er þm. frá hinum þingflokkunum, til þess að fjalla um framhaldsundirbúning málsins fyrir næsta þing. Í þessu mundi felast, að þm. frá öllum þingflokkunum hefðu ekki aðeins aðstöðu til þess sjálfir að fylgjast með áframhaldandi gangi málsins, heldur að bera sig saman við sína flokksbræður um þau atriði, sem þeir vildu gera aths. við og kynna sér betur og koma á framfæri aths. við innan þmn. Hún er að vísu þannig skipuð, að þar ræður ekki afl atkv. Hún er kvödd til ráðuneytis til undirbúnings málsins fyrir þingið. En auðvitað kæmu öll þau sjónarmið fram hjá hverjum aðila sem væri í þessari n. gagnvart ríkisstj., áður en gengið yrði endanlega frá málinu, þegar að því kæmi, að það kynni endanlega að verða lagt fyrir Alþingi.

Ég kem þá að öðrum lið í niðurstöðum hv. 5. þm. Austf., að gefnar séu rangar upplýsingar í skýrslunni um hag okkar af verksmiðjunni og virkjunarmálin. Um þessi atriði má eflaust deila og allt of langt yrði að fara út í það nú. En ég fullyrði, að ekkert rangt sé vísvitandi sagt í skýrslunni um þessi atriði né nokkuð í þeim tilgangi að blekkja í málinu. Með þeirri málsmeðferð, sem viðhöfð er, gefst fulltrúum Alþb. nú nægur tími til þess í þmn. að fá nánari athugun eða grg. frá sérfræðingum, sem gert hafa áætlanir, sem þessar upplýsingar eru byggðar , og ég hef sjálfur sagt, að það væri til góðs, að það kæmu hér fram ábendingar og aths., sem tóm gæfist til þess að athuga betur og gætu orðið þeim til styrktar, sem áfram vinna að málinu.

Hv. 5. þm. Austf. taldi í þriðja lagi geta stafað mikla hættu eða miklar og hættulegar afleiðingar af svo mikilli fjárfestingu hér sunnanlands og truflanir í öðrum atvinnurekstri og þróun hans. Í þessu felst því raunar tvennt. Það er annars vegar hætta fyrir svokallað byggðajafnvægi og hætta fyrir þróun atvinnuveganna, sem hv. þm. víkur að. Okkur er öllum ljós fyrri hættan og fram kemur í skýrslunni, að ríkisstj. hyggst undirbúa fyrir næsta þing frv. að l. til þess að mæta þessari hættu, eftir því sem verða má. Um síðara atriðið er ég á gagnstæðri skoðun við hv. þm. Ég held, að rekstur alúminíumverksmiðju hér með þeim hætti, sem við ræðum hér um, taki ekki neitt frá neinum öðrum atvinnuvegi, a.m.k. augljóslega ekki fjármagn, því að ekki á að vera íslenzkt fjármagn í þessari alúminíumbræðslu. Hins vegar held ég, að það gefi okkur fjárhagslega bætta aðstöðu til eflingar öðrum atvinnugreinum með auknum lánsfjármöguleikum þeim til handa. Þetta er mín skoðun. Þarna erum við á öndverðum meiði og ég skal ekki hafa um það fleiri orð. En um vinnuaflið geta menn spurt og það er að vonum. Við sjáum í dag fréttir í blöðunum um, að það sé vinnuaflsskortur við höfnina og við vitum allir, að á undanförnum árum hefur verið vinnuaflsskortur hér. En í þessu sambandi vil ég segja þetta: Við skulum hafa það í huga, að við rekstur alúminíumverksmiðju mun ekki þurfa nema liðlega 10% af aukningu vinnuaflsins í landinu fyrst þegar hún hefur að fullu tekið til starfa og síðan stöðugt minna, stöðugt minnkandi hundraðshluti af vinnuaflsaukningunni, sem fer stöðugt vaxandi í okkar öru fólksfjölgun.

Þegar allur ráðgerður samningstími, sem er 45 ár frá fyrsta stigi þess, að verksmiðjan tekur til starfa og það er gert ráð fyrir, að hún

taki til fullra starfa 6 árum þar á eftir og þá mundi frá þeim tíma vera aðeins 39 ára samningstími, — þegar þessi samningstími er allur úti, mun láta nærri, að íslenzka þjóðin verði nærri 400 þús. manns. Það er vonandi, að enginn þeirra ungu, sem þá kemur á vinnumarkaðinn, þurfi að ganga atvinnulaus. En ekki er það öruggt án fyrirhyggju um eflingu nýrra atvinnugreina og vöxt þeirra, sem fyrir eru.

Fjórða niðurstaða hv. 5. þm. Austf. var sú, að hættan af erlendu fjármagni væri gífurleg og sérstaklega með tilliti til framhaldsins. Þarna erum við enn á öndverðum meiði. Við erum taldir litlir og lágkúrulegir að treysta ekki einvörðungu á sjálfa okkur og okkar eigið fjármagn. Mér finnst þeir minnstu karlarnir, langminnstu karlarnir, sem ekki treysta Íslendingum til þess að semja við erlenda öðruvísi, en að glata bæði virðingunni og jafnvel sjálfstæði, fjárhagslegu og pólitísku sjálfstæði þjóðarinnar.

Hv. 5. þm. Austf. telur í fimmta lagi enga nauðsyn að vera að hugsa um að gera atvinnulífið fjölþættara. Það rekur engin nauður til að vera að hugsa um þetta, segir hann. Það er svo mikil gróska í okkar atvinnulífi. — Ég veit, að það er mikil gróska í atvinnulífinu og hefur verið á tímum viðreisnarstjórnarinnar, og þurfti náttúrlega ekki að láta hv. þm. segja mér það. En hann fór nú samt sem áður heldur geyst, svo geyst, að hann var farinn að segja, að undanfarin 3 ár hefði orðið nærri 70% framleiðsluaukning í sjávarútveginum, þ. e. 20% aukning hvert árið, sagði hann. En ég vil bæta því við, að líklega hefur hann átt við 20% aukningu að meðaltali og ég sé, að hann samsinnir því. En því miður er það nú ekki svo vel. Hún mun vera rétt um 10% að meðaltali þessi 3 ár og er það að vísu geysimikil aukning. Það telst svo til, að hún hafi verið 11% árið 1963, 6.5% 1963 og 12% 1964, en aukning þjóðarframleiðslunnar í heild er ekki nema 5.7% s.l. 4 ár. Ég byggi þessar tölur á útreikningum Efnahagsstofnunarinnar, og þær sýna í heildinni, að það er full nauðsyn að hafa gát á öllu, ef við ætlum ekki að dragast aftur úr, heldur sækja á og kannske sækja fram úr, sem við helzt viljum, öðrum þjóðum og hafa nægileg verkefni fyrir okkar öru fólksfjölgun á komandi árum.

Sjötta niðurstaðan var sú, að hv. 5. þm. Austf. fyndist enginn stórhugur í fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum á grundvelli stóriðju. Um það skal ég ekkert deila við hann.

Sjöunda niðurstaðan og sú síðasta var, að Alþ. yrði að taka málið föstum tökum. Því er ég alveg sammála. Enn fremur, að við mættum ekki ljá fangstaðar á íslenzku atvinnulífi og erlendir nái hér úrslitaáhrifum. Um þetta er ég líka alveg sammála hv. þm.

Fleira er það ekki, sem mér finnst, að ég þurfi að tjá mig um úr ræðu hv. 5. þm. Austf. Þá tók til máls hv. 1. þm. Austf. Hann rakti fyrst stefnu Framsfl. varðandi erlent fjármagn í landinu, reyndar allt frá stofnun hans 1919.

Það, sem hann sagði í þessu sambandi, er mjög í samræmi við mínar skoðanir og var ekkert sérstakt atriði, sem þar á milli ber. Hann vék að því á einum stað í ræðu sinni, að á bls. 8 mætti skilja það, að Íslendingar hefðu gefizt upp við að ná eignarhlutadeild Íslendinga að loknum samningstímanum. Það er kannske rétt, að ég skýri svolítið nánar frá, en fram kemur í skýrslunni um þetta atriði, svo að á eftir verði þó ekki sagt, að hér hafi verið nokkur leynd af ríkisstj. hálfu. Ég held reyndar, að það komi fram, ef betur er að gáð, — jú, það kemur fram á bls. 8. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt er ljóst, að þeir mundu reiðubúnir til að afhenda Íslendingum endurgjaldslaust tiltekna eignarhlutdeild í verksmiðjunni, ef gerðir yrðu bindandi samningar til lengri tíma. Af hálfu íslenzku fulltrúanna hefur verið talið eðlilegra að láta með öllu ósamið um slík atriði, en leggja fremur áherzlu á að fá sanngjarnan samningstíma.“

Það er til þessa, sem hv. þm. vitnaði og það er rétt, eins og segir þarna, að þessir viðsemjendur mundu vera reiðubúnir til þess, að Íslendingar eignuðust tiltekið eignarhlutfall, einn þriðja eða helminginn af verksmiðjunni að samningstímanum loknum. En okkar skoðun var sú og þetta kom fram á viðræðufundunum, sem voru haldnir hér í Reykjavík, og ég lagði á það sérstaka áherzlu, að um þetta skyldum við ekkert semja. Við getum skrúfað fyrir rafmagnið, þegar samningstíma er lokið. Við höfum enga skuldbindingu til þess að láta þeim í té meiri orku, enga nýja orku og þeir geta ekki heldur án okkar leyfis komið með neina nýja orku. Ég taldi því, að málið væri á þessum tíma algerlega í okkar höndum og við ættum ekkert að tala nú um 1/3 eða einhvern hluta sem okkar eign að þessum tíma liðnum. Ef þeir, sem þá fjölluðu um þessi mál, vildu reka þessa verksmiðju áfram, er það mín skoðun, að Íslendingar hefðu svo sterka aðstöðu, að það væri langbezt að láta þá um það og óumtalað nú. Þetta er efni þessa máls. En það er engin uppgjöf í þessu, síður en svo, eða það er mín skoðun, að það sé ekki.

Þá spurði hv. 1. þm. Austf., hvað kæmi aðallega til greina að vinna úr alúminíummálmi hér og af hvaða stærðargráðu kynni að verða slíkur rekstur. Að þessu er vikið nokkuð í skýrslunni og fyrir tilstuðlan bæði mína og stóriðjunefndar tóku þessir fulltrúar Swiss Aluminium, sem voru hér í viðræðunum síðast, upp samband við Félag ísl, iðnrekenda til þess að ræða þessi mál. Ég taldi eðlilegra, að iðnrekendur sjálfir kynntu sér þessa möguleika, og það hafa síðar verið hér uppi menn frá þeim til þess að athuga aðstæðurnar hér á landi og það mun standa fyrir dyrum, að fulltrúar frá íslenzkum iðnrekendum fari í kynnisför, þar sem slík vinnsla úr alúminíummálmi á sér stað á vegum Swiss Aluminium. Ég þori ekki að svara þessari spurningu og hef aldrei viljað gera neitt mikið úr þeim möguleikum, sem í þessu kynnu að felast. Ég get játað það alveg, að ég hef verið svolítið varasamur í því efni, vegna þess að ég minnist þess, að þegar áburðarverksmiðjan var sett upp, var talað um margvíslega efnavinnslu, nýjar atvinnugreinar sem kynnu að koma upp samhliða henni eða eftir að hún væri farin að starfa og okkur var sagt af mörgum sérfræðingum, að möguleikar væru til slíks. Það hefur ekkert orðið, en hér horfir að vísu öðruvísi við. Málið virðist upplagðara. Það er alveg tiltekinn málmur, sem þessi verksmiðja bræðir sem iðnrekendur hér vita alveg hver er og úr honum er hægt að vinna ýmislegt hér, svokallaða prófíla í glugga, hurðir og annað slíkt, plötur á þök og ýmislegt annað í byggingariðnaðinum, umbúðir, dósagerð og því um líkt. Ég hef talið, að þetta mál ætti að athuga af íslenzkum aðilum, iðnrekendum og hverjum sem hefðu áhuga á því, og vil ekki gylla það og hef aldrei viljað gylla það fyrir neinum, hversu mikið gæti úr þessu orðið og mín afstaða til þessa máls hefur verið alveg óháð því. Ég mundi gleðjast yfir því, ef svo færi, að þetta mál kæmist í framkvæmd, að hér yrði hliðarvinnsla, sem yrði hagkvæm fyrir íslenzkan iðnað og margir hafa haldið, að slík starfræksla hér eins og alúminíumbræðsla gæti að ýmsu leyti aukið tækniþekkingu okkar og stutt okkur tæknilega og fjárhagslega í okkar íslenzka iðnaði. Ég þori ekki að segja meira um það, en ég hef þegar gert og vil ekki vekja neinar tyllivonir um það.

Ég skal koma nokkrum orðum að hv. 9. þm. Reykv. Hann var mikið að bera saman samninga, sem Norðmenn hafa gert. Ég vék nú svolítið að því áðan, hvernig þessir samningar urðu til, með töluvert öðrum hætti, en til er stofnað af okkur Íslendingum. Hann sagði, að þar væri það norskt hlutafélag, enda væri þar norskt hlutafé og þó að það væri lítið, norska hlutaféð, hefði það þó vald á hluthafafundum, hér væri aðeins um erlent félag að ræða og hér hefðumst við ólíkt að. Hér skal ég lýsa því alveg hreinlega yfir, að það er mín einlæg skoðun, að það sé miklu eðlilegra fyrir okkur að blanda okkur alls ekki í neinn félagsskap um þessa alúminíumbræðslu við Swisslendingana. Þetta er mín skoðun. Og ég get getið þess, að ég hef átt viðræður um þetta við menn, sem hafa unnið við þetta alla sína ævi eða eftir að Norðmenn fóru að setja upp alúminíumbræðslur. Og einn af þeirra fremstu mönnum á þessu sviði var ekkert hikandi um það, að hann taldi okkar fyrirætlanir um að semja bara við erlenda félagið, um að reka verksmiðjuna hér án þess að vera á nokkurn hátt riðnir við þann rekstur sjálfir, það sýndist honum miklu hyggilegra. Og þetta er m.a. af því, að við mundum hafa svo veika aðstöðu í svona rekstrarfélagi, sem er aðeins ein grein af mörgum af sama stofni, eins og gerð var grein fyrir hér af hv. 5. þm. Vesturl. í dag, frá því að vinnslan byrjar í námunum, málmgrýtinu og svo þegar unnið er það alúmína, sem er það hráefni, sem hingað verður flutt, síðan er unninn málmurinn, svo er unnið úr málminum, og ég held, að við yrðum að horfast í augu við miklu, miklu meiri og margvíslegri erfiðleika að þykjast vera einhverjir hluthafar í þessu fyrirtæki og það hefur frá öndverðu verið mín skoðun. Hitt dreg ég ekki dul á og ég hygg, að það komi einhvers staðar fram í skýrslunum, að það hafi ekki verið nein fyrirstaða af hálfu Svisslendinganna, að við værum þarna hluthafar og þá helzt að einhverju verulegu marki. Það er þá áreiðanlega meira vegna þess, að við, sem að þessu höfum unnið, höfum heldur viljað hafa þann hátt á. Þess vegna kýs ég heldur okkar hátt en Norðmannanna.

Hv. þm. sagði, að norskur ráðh. hefði ekki átt afturkvæmt í embættið vegna norsku samninganna, sem væru þó miklu hagstæðari en okkar. Um það má náttúrlega lengi deila. Við höfum enga samninga gert. Hvernig okkar samningar verða, getur enginn sagt um. En hann miðaði í þessu sambandi við ráðagerðir, sem væru í skýrslunni. Um það má lengi deila, og hann sagði, að nú ætti að bera á silfurfati fram hér það, sem hefði kostað erlendan ráðh., norskan ráðh., embættið og ef það hefði verið farið að í Noregi eins og hérna, hefði það kostað alla ríkisstj. ráðherrastólana. Sannleikurinn er sá, að það, sem kostaði ráðh. embættið, var ekki aðeins það, að það voru léleg ákvæði í samningnum, heldur það, að það varð uppvíst, að hann hafði leynt þingið veigamiklum atriðum í þessu máli. Og það er þess vegna, sem hann átti ekki afturkvæmt. Ég veit ekki til þess, að ég hafi leynt þingið neinu og ég mun ekki leyna þingið neinu í þessu máli.

Allt var nú á ógæfuhliðina fyrir okkur hjá þessum hv. þm., við værum með ráðagerðir um að eiga höfnina sjálfir. Norðmenn væru það sniðugir, að þeir létu fyrirtækið eiga höfnina sjálft og leggja vegi og brýr o.s.frv. En hérna ber að sama brunni. Við vildum eiga höfnina sjálfir og fannst það miklu mannalegra að eiga höfnina sjálfir og leigja þeim afnot af höfninni, heldur en láta þá byggja höfnina og nota hana, svo að það er hreinlega vegna vilja okkar, sem að þessu höfum staðið, að þessi háttur sé á, en ekki það, að þeir hafi fengið okkur til þess að taka að okkur að gera eitthvað það, sem þeim hafi verið ætlað að gera í Noregi.

Eins var það með gjaldeyrinn, þegar hv. þm. kom að því, að hann kæmi inn í norska banka, svo færi hann í greiðslur, afborganir og vexti af lánum og vinnulaun og allt mögulegt og svo það, sem afgangs er, hvað um það? Það er eftir í Noregi. Eftir þessu virðist hv. þm. endilega vilja, að Swiss Aluminium eða þetta verksmiðjufyrirtæki eignist smátt og smátt innstæður í íslenzkum bönkum. Auðvitað væri það gott út frá sjónarmiði þeirra manna, sem vildu þeirra ítök sem mest hér. Þeir gætu þá borgað meira í blöðin og pólitísku flokkana, eins og hv. 3. þm. Reykv. vék að, eða a.m.k. með hægara móti en ella. Þetta höfum við ekki lagt neina áherzlu á, að þeir færu að fá betri aðstöðu til þess að auka ítök sín hér, en ella mundi vera.

Hv. 3. þm. Reykv. vék að því í enda sinnar ræðu, að hann vonaðist til þess, að tillit væri tekið til þess, sem fram hefði komið í umr. hér. Og við munum gera það auðvitað, sem að þessum málum stöndum, við munum taka tillit til alls þess, sem fram hefur komið og þeirra vísbendinga, sem við teljum, að séu á rökum reistar og til góðs fyrir málið. Og ég lét í ljós þá von mína í dag í þeim fáu inngangsorðum, að þessar umr. mættu verða gagnlegar. Ég held, þegar á allt er litið og ýmislegt er vinzað frá, sem eins og gengur og gerist kemur nú fram í máli manna og þegar mönnum hleypur kapp í kinn, að það hafi verið mjög gott, að þessar umr, fóru einmitt hér fram á þessu stigi málsins og þær fara fram á mjög heppilegum tíma, þegar fulltrúar frá Alþb. koma inn í þmn. og þmn. á nú að fara að athuga sinn gang á öðrum grundvelli, eins og ég orðaði það í dag, heldur en fram til þessa hefur verið unnið, því að það hefur verið unnið aðeins á viðræðugrundvelli, en það verður að ætla, eða það hefur verið mín skoðun, að málin væru nú komin á það stig, að við ættum að fara að freista þess að gera uppkast eða frumdrög að samningnum. Ég held, að með þeim ráðagerðum, sem nú eru uppi, geti allir þingflokkar fylgzt með þeim undirbúningi, áður en þing kemur saman. Það eru að sjálfsögðu takandi til athugunar öll þau samráð, sem hv. 3. þm. Reykv. var að tala um að hafa við þingflokkana, áður en frv. að svona samningum væri lagt inn í þingið og menn stæðu þá bara andspænis því að segja já eða nei við samningnum. Hinu skal ég ekki neita og maður tekur það þá til nánari athugunar, að í mínum huga var það, að það mætti takast fyrir þingið að ganga frá í samráði við þessa þmn. samningsuppkasti, sem yrði undirritað með fyrirvara um það, að Alþ. staðfesti eða samþykkti samningana. Ég held, að það sé erfitt að hafa nokkurn annan hátt á, heldur en að á einhverju stigi málsins komi samningarnir í því formi, ef menn komast svo langt, fyrir þingið og ég verð að segja það, að mér finnst, að ég hafi gert alla þá tilraun, sem hugsanleg er, til þess að hafa samráð við þingflokkana, sem einmitt hv. þm. var að óska eftir, áður en þessi formlega framlenging slíkrar samningagerðar kæmi til. Það eru fleiri samningar, eins og ég sagði í dag, heldur en aðeins sá almenni samningur við alúminíumfyrirtækið. Það er þá náttúrlega ekki sízt og kannske fyrst og fremst raforkusölusamningurinn, sem mundi verða gerður á vegum væntanlegrar stjórnar Landsvirkjunar og mér telst svo til, að það séu líka fulltrúar allra stjórnmálaflokka í þeirri stjórn, eins og hún er ráðgerð. Þegar á allt er litið, finnst mér ekki maklegt að ásaka okkur fyrir pukur og leynd í þessu máli, heldur þvert á móti og ég hef alltaf frá öndverðu og gerði það á þinginu, þegar það var rætt í fyrra, lagt megináherzlu á, að það mætti takast sem víðtækust samstaða um jafnstórt mál og hér er um að ræða og það verður svo að arka að auðnu, við getum ekki beðið eftir, að við séum allir sammála frekar í þessum málum en öðrum.