08.05.1965
Sameinað þing: 49. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2225 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

Aluminíumverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af því, sem hæstv. ráðh. sagði.

Það var í fyrsta lagi viðvíkjandi því, sem hann las upp um skýrslu stóriðjunefndar ríkisins, sem þar er á bls. 15, hvað hún hefði athugað, það var áburðarframleiðsla og magnesíum o.s.frv. Um hvert einasta af þessum atriðum, sem stóriðjunefndin virðist þarna hafa athugað og verið hefur í skýrslum norsku sérfræðinganna, um hvert einasta af þessum atriðum voru skýrslur til áður, sem atvinnumálanefnd ríkisins hafði látið gera og fengið íslenzka sérfræðinga til að gera, rætt heilmikið um og athugað verulega um og um þungavatnið var búið að gera meira að segja í sambandi við vestur-evrópskar nefndir alveg sérstakar athuganir hér á árunum, sem ef ég man rétt hafa komið hér fyrir þingið á sínum tíma, þannig að í þessu fólst ekki neitt nýtt. Stóriðjunefndin hefur þarna ekki athugað neitt, sem ekki var til áður. Ég á megnið af þessum skýrslum, sem gerðar voru. Það sem ég var að ætlast til var, hvort stóriðjunefndin hefði athugað eitthvað fleira, en búið var að athuga, eitthvað nýtt í þessu og sérstaklega af því að ég benti á eitt atriði í því og það var þessi petrolkemi. Ég er búinn að reyna að gera nokkuð ýtarlega grein fyrir því, hvaða hagsmunir gætu verið í því fyrir okkur og því hefur auðsjáanlega ekki verið sinnt. Þar held ég þó líka, að sé um að ræða, að við hefðum þó nokkurn markað fyrir rafmagn og jafnvel að ýmsu leyti markað, sem getur verið nokkru praktískari. Í sambandi við alúminíum verðum við að skaffa rafmagn, sem verður að notast allan tímann og koma upp alldýrum fyrirtækjum sem varastöðvum handa hringnum og verðum jafnvel skaðabótaskyldir, ef erfitt verður með þá rafmagnsframleiðslu. Hins vegar held ég í sambandi við petrolkemiuna, að þá hefðum við a.m.k. á vissum stigum þar möguleika til þess að nota að vísu mjög mikið rafmagn, sem við gætum notað, þegar okkur þóknaðist og skrúfað fyrir þess á milli.

Þá kom hæstv. ráðh. inn á þetta með Jón Þorláksson. Þessi atriði viðvíkjandi Jón Þorlákssyni voru alveg skýr. Jón tók alveg greinilega afstöðu gegn því, að útlendingar gætu virkjað þetta þá og stóð einmitt að þeirri tillögu, sem gerbreytir þá fossalögunum, að ríkið eitt réði virkjuninni, sem varð til þess, að útlendingar virkjuðu ekki. Þeir vildu sem sagt, að það væri ríkið, sem réði virkjuninni og vildu helzt meira að segja, að ríkið ætti fossana og þessi afstaða þá var nægileg til þess að afstýra, að erlent fjármagn lenti hér í fossunum eða gæti hagnýtt þá, svipti þá bókstaflega valdinu yfir þeim.

Svo kom hæstv. ráðh. inn á spursmálið um samninganefndina og stóriðjunefndina og hélt, að ég hefði verið að skamma stóriðjunefndina sérstaklega, þar sem ég var að rífast út í samninganefndina og nefndi þess vegna 2 menn úr henni, þannig að það fór ekkert á milli mála, við hverja það var, sem ég þar átti, þannig að það var misskilningur, sem hann var að taka til sín í því. En svo sýnist mér á því, sem hæstv. ráðh. segir, að hann hafi alls ekki áttað sig á einum aðalhlutnum í því, sem ég kom með. Hann var að tala um, að það væru einhver óskapleg reikningsdæmi, sem ég hefði verið með, hefði verið að tala um allt upp í 160 þús. tonn eða möguleikarnir væru allt upp í það, sem væri hrein vitleysa og ég hefði talað þarna um margar, margar millj., sem ekki ættu neinn grundvöll. Í fyrsta lagi er þetta að segja í sambandi við 160 þús. tonn. Á bls. 24 í skýrslu stjórnarinnar hljóðar síðasta setningin í 3. kafla svo, með leyfi hæstv. forseta: „Kemur þetta m.a. í ljós af því, að fyrirtækið hefur lagt mikla áherzlu á, að nægilegt rými væri á verksmiðjusvæðinu til stækkunar, jafnvel upp í 160 þús. tonna ársframleiðslu.“ Það er sem sagt alveg greinilegt, að þessi hringur telur sig fá svo góð kjör á Íslandi, að hann vill jafnvel tryggja sér aðstöðu, að það bara hér syðra svaraði allt upp í 160 þús. tonna ársframleiðslu. Þetta var fyrst og fremst í sambandi við fjármagnið, sem í þessu væri bundið. Ef við erum með 60 þús. tonna alúminíumframleiðslu, er fjárfestingin í því 2.500 millj. Það hélt ég, að við værum sammála um. Ef um væri að ræða 120 þús. tonn, er fjárfestingin að líkindum upp undir 5.000 þús. millj. Ef um væri að ræða 160 þús. tonna ársframleiðslu þarna, yrði fjárfestingin milli 6 og 7 þús. millj. Þetta held ég, að sé rétt reiknað og mér sýnist hæstv. ráðh. koma þetta á óvart. Hann gerir sér ekki grein fyrir því, að þarna er um að ræða fjárfestingu, sem er svo gífurleg á íslenzkan mælikvarða, að þetta eina félag fjárfestir hér, ef reiknað er með þessu smæsta, sem það ætlar að byrja með, 60 þús. tonna ársframleiðslu, þá fjárfestir það álíka mikið og nú er í öllum íslenzkum sjávarútvegi og fiskiðnaði. Ef það fer upp í 120 þús. tonn, sem það talaði um í desember í vetur, ef ég man rétt, strax eftir að það sá, hve góðum samningum það gat náð, þá fer það upp í 5.000 millj. kr. fjárfestingu, sem er álíka og er í öllum fiskiskipaflotanum, fiskiðnaðinum og íslenzka iðnaðinum öðrum. Og ef það fer svo þar yfir, þá er þetta sem sagt orðið eins og 50% af öllum þeim iðnaði, sem þá væri til á Íslandi og allri fiskútgerð.

Ég býst við, að hæstv. ráðh. hafi ekki gert sér grein fyrir þessu hlutfalli og ég er hræddur um, að það séu fleiri, sem hafa ekki gert sér grein fyrir, hvílík gerbylting þetta er. Menn hafa talað um, eins og ég gat um í minni ræðu áðan, að það væru upp undir 10% af iðnaði Norðmanna erlent auðmagn, en menn hafa ekki gert sér grein fyrir, að þegar þetta væri komið hér inn, þá yrði þetta eins og 50% af öllum íslenzkum iðnaði, fiskiðnaði og sjávarútvegi.

Svo kom hæstv. ráðh. inn á spursmálið með kjarnorkuna, en nefndi sjálfur í því sambandi, að menn greindi mjög á um þetta. Það er rétt, sumir hafa haldið því fram, að kjarnorkan yrði ódýrari eftir 10 ár, aðrir segja það yrði eftir 20 ár, sumir eftir 30 ár. Menn eru ákaflega ósammála um þessa hluti, þannig að það að reyna að nota þetta fyrst og fremst sem rök, að við þurfum sendilega að koma ódýrustu raforkunni, sem við getum framleitt, út í útlendinga þess vegna, það á ekki við. Það eru hlutir, sem menn eru að reyna að finna upp á til þess að búa til rök, sem vantar fyrir þessu. Við getum virkjað fyrir okkur sjálfa eins og við viljum og náttúrlega mundum við þá skilja eftir það rafmagnið, sem okkur yrði ódýrast, láta það þá vera óvirkjað, ef einhver önnur ódýrari orka væri komin. En auðvitað eigum við að virkja fyrir okkur sjálfa allt, sem ódýrast er í þessum efnum. Hins vegar sagði ráðh., — kannske ég hafi verið óljós í orðum, þegar ég talaði um vetnisorkuna, — hann sagði, að ég hefði sagt, að hún yrði ekki virkjuð í friðsamlegum tilgangi. Það sagði ég ekki. Ég sagði aðeins, að það væri ekki enn þá, en hins vegar ef það yrði, þá mundu allir þessir hlutir gerbreytast, vegna þess að þá kemur til orkugjafi, sem er margfalt, margfalt ódýrari og gersamlega ótæmandi, þar sem allt hitt er að undantekinni vatnsorkunni náttúrlega meira eða minna tæmandi, þ. á m. kjarnorkan, vegna þess að úraníum er ekki ótæmandi.

Hins vegar heyrðist mér á hæstv. ráðh. á þeim aðdróttunum, sem hann kom með í minn garð, sem er nú frekar óvanalegt, að hann sé að beita, þá skildist mér eiginlega á honum, að hann hefði ekki gert sér grein fyrir þeirri pólitísku hættu, sem af þessum hring stæði, rétt eins og hann áttaði sig ekki á, hvað sterkt vald þessi hringur yrði í efnahagsmálum á Íslandi. Eins hafði hann ekki gert sér grein fyrir þeirri pólitísku hættu, sem af þessu væri. Og þess vegna er eins og hann hafi nú reiðzt svona yfir því og þess vegna skellt fram ómaklegum aðdróttunum, þetta hafi komið svona við hjartað í honum og hann hafi ekki fundið neitt betra, en að reyna þannig að skammast. Ég held, að í þeim efnum sé rétt fyrir hæstv. ráðh, að athuga alveg rólega þessa hluti. Þetta eru hlutir, sem nokkuð er hægt að reikna út, rétt eins og allt annað. Hagsmunirnir segja til sín og þessir aðilar hafa sannarlega í öllum þeim löndum, þar sem þeir hafa haft einhverja aðstöðu, reynt að efla hana sem allra mest og tryggja og það er ákaflega eðlilegt út frá þeirra hagsmunasjónarmiðum, að þeir reyni að tryggja sig sem allra bezt. Þeir geta það ekki með öðru móti, en með því að blanda sér inn í pólitíkina.

Hæstv. ráðh. sagði, að hann vildi ekki leyna þingið neinu í þessum efnum. Það tek ég hann trúanlegan um, þótt hin gagnrýnin standi, að það sé seint, sem þetta kemur allt saman fram og okkur gefst tækifæri til þess að ræða það.

En ég vildi mælast til þess við hann um leið, að hann leyni ekki fyrir sjálfum sér hættunni, sem í þessu felst og reyni ekki að breiða yfir þá hættu með neinum almennum pólitískum skömmum, eins og annars viðgangast á milli blaðanna. Við eigum, Íslendingar, allmikið undir honum einmitt í þessum efnum, og ég vil þess vegna vonast til þess, að einmitt hann setji stolt sitt í það að reyna að bregðast þannig við bæði þeirri gagnrýni og þeim viðvörunum, sem fram koma, að hann athugi það ákaflega gaumgæfilega, en setji sig ekki í þær stellingar að reyna bara að verjast með almennum pólitískum skömmum. Við eigum svo mikið undir honum í sambandi við þetta mál, að við höfum ekki átt slíkt undir mönnum, síðan við stóðum frammi fyrir hernáminu á stríðsárunum og nú er aðstaðan sú önnur, að nú hefur hann aðstöðu til þess í fyrsta lagi að leyna þingið ekki þessu, leyna þessu ekki fyrir sjálfum sér og taka tillit til alls þess, sem fram kemur. Mesta hættan í þessu er sú, að áróðurinn, sem vissir erindrekar þessa hrings þegar hafa hér í frammi í blöðunum og þegar hafa smitað inn í þá n., sem sett hefur verið til samninga um þetta, — þessi áróður setji ríkisstj. í þá varnaraðstöðu, að henni finnist hún ekki geta annað metnaðar síns vegna en keyrt þetta mál í gegn og þar vil ég vonast til þess, að hæstv. ráðh. einmitt reynist það mikill maður, að hann geti, þegar hann sér það, að þetta mál sé of hættulegt fyrir okkar efnahagslega sjálfstæði og of hættulegt fyrir okkar pólitík, okkar pólitísku aðstöðu, þá geti hann fallizt á það að stöðva þetta mál.