08.05.1965
Sameinað þing: 49. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

Aluminíumverksmiðja

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er sáralitið, sem ég þarf við að bæta í sambandi við það, sem hv. 9. þm. Reykv. var nú að segja og um það, af hverju hann hafi farið frá, sá norski kollegi minn og þá m.a. vegna þess, að Trygve Lie hafði fengið fellda niður klásúlu um umboðslaun og annað og sett inn þar, sem var ákveðið um þau, umboðslaunin, ýmiss konar greiðslur fyrir tækniþjónustu o.s.frv., að það skyldu teknir upp nýir samningar. Já, þetta er alveg rétt. En mér er ekki kunnugt um, að það sé búið að taka upp neina nýja samninga. Hvort þeir verða nokkurn tíma teknir upp, skal ég ekki segja, en ég dró enga dul á það, að þetta voru samverkandi ástæður, illa gerður samningur og svo það að leyna því, sem illa var gert, fyrir Stórþinginu. Og það var líka af alveg sérstökum ástæðum, sem þetta mál kom upp, vegna stjórnarskiptanna, sem voru í Noregi, þegar hægri stjórnin komst til valda í nokkurra mánaða tíma. En þetta skiptir ekki svo miklu máli í þessu sambandi.

En ég vil segja eitt, að um það, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði, að það væri eitt og hið sama, alúminíumverksmiðjan og höfnin, þar er ég algerlega á annarri skoðun. Ég skal ekki segja neitt frekar um það, að hve miklu eða litlu leyti við getum notað höfnina til annarra þarfa, þegar þar að kemur, en það er langt í frá í mínum huga, að þetta sé eitt og hið sama.

Þá er hv. 3. þm. Reykv. óánægður yfir almennum pólitískum aðdróttunum af minni hálfu í sinn garð og hann telur sig kannske ekki hafa verið með neinar aðdróttanir í minn garð og annarra í ríkisstj., sem berum ábyrgð á þessum hlutum, sem hér er um að ræða. En ef það er ekki að finna í hans ræðu, þá skil ég ekki mál manna.

Varðandi stærðina, 160 þús. tonna verksmiðju möguleika og reikningsdæmið á grundvelli þess, þá var eins og hv. þm. reiknaði með því og gengi út frá því sem gefnu og út frá þeirri forsendu reiknaði hann hina miklu hlutdeild útlendinganna í fjárfestingunni í íslenzku atvinnulífi. En sannleikurinn er sá, að þó að það hafi komið fram hjá Svisslendingunum og þess vegna er það tíundað hér á bls. 24 í skýrslunni, að þeir vildu gjarnan hafa rými til þess, ef svo vildi verkast, að stækka verksmiðjuna upp í 160 þús. tonn, þá hefur í okkar hugum, sem að þessu stöndum, ríkisstj., sem ber auðvitað mesta ábyrgð á þessu, sem er hér lagt fram, alls ekki verið um meira að ræða, en 60 þús. tonn og það hefur verið mín skoðun, að engan veginn gæti verið um annað að ræða, fyrr en þá þeir, sem um þessi mál fjalla síðar, eftir að reynsla væri fengin af starfsemi þessara aðila, teldu, að það væri ástæða til þess og gæti verið hagkvæmt fyrir okkur að veita einhverja stækkun. Þetta kemur alveg greinilega fram í þessari mgr., sem ég vildi nú mega taka upp úr skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 24, það er síðasta mgr. Þar segir: „Að lokum er rétt að benda á, að líklegt er, að Swiss Aluminíum mundi vilja teygja sig lengra, ef það fengi um leið fyrirheit um möguleika til stækkunar verksmiðjunnar með sæmilega hagstæðum kjörum,“ þ.e.a.s. teygja sig lengra, gefa hærra rafmagnsverð, eitthvað betri kjör o.s.frv. Svo segir: „Það hefur hins vegar verið skoðun n., að Íslendingar ætti ekki að binda sig í þessu efni nema sem allra minnst. Vegna þess að fyrsti áfanginn í stórvirkjunarmálunum er sérstaklega erfiður hjalli fyrir Íslendinga, mundu þeir samningar, sem nú virðast mögulegir, geta orðið Íslendingum mjög hagstæðir. Á hinn bóginn er engin ástæða til þess, að jafngóð kjör yrðu í boði, ef til stækkunar kæmi, enda yrðu þá viðhorfin í virkjunarmálunum allt önnur en nú er.“ Það er auðvitað mergur málsins í þessu, að það verður að meta aðstæðurnar í þessu sambandi, bæði efnahagsaðstæður, virkjunarmál og annað, þegar þar að kæmi og við getum ekki núna, þegar við erum að tala um að setja upp verksmiðju, 60 þús. tonn, rökrætt dæmið út frá því, að það sé komin 160 þús. tonna verksmiðja o.s.frv., á meðan ekkert liggur fyrir um það. Ég veit, að það mætti segja sem svo: Þetta er bara fyrsta skrefið, en svo verður haldið áfram og áfram. — En það verður ekki haldið áfram, ef Íslendingar sjálfir vilja ekki halda áfram og það verður sem sagt ekki haldið áfram, ef aldrei verður byrjað og við erum ekki byrjaðir enn. Við erum að glíma við að reyna að ná þeim samningum, sem við teljum, að okkur sé stætt á og það er alls ekki nein vissa fyrir því í dag og það getur vel svo farið, að við kynnum að vera í þeirri aðstöðu, að við vildum gera samning, sem við hins vegar ættum ekki kost á að gera. Ég held, að málið liggi þannig fyrir. Það hefur ekki verið svo mikið framboð af erlendum aðilum, sem vildu koma upp hér atvinnurekstri eins og þessum, að það er þvert á móti því, sem hv. 3. þm. Reykv. gaf í skyn, að menn hefðu falazt mikið eftir þessari aðstöðu hér.

Ég læt svo máli mínu lokið, en ég vil að sjálfsögðu endurtaka það, sem ég sagði, að það skal ekki standa á mér að taka til greina allar þær aths., sem fram koma í þessu máli og eru á rökum reistar.