18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2239 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

Framkvæmd vegáætlunar 1964

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf, hefur gert þessa skýrslu um framkvæmdir í vegamálum á yfirstandandi ári að nokkru umtalsefni og hann hefur farið dálítið út fyrir framkvæmdirnar á þessu ári með því að tala um nokkra vegi, hvernig fjárhagur þeirra er, hvaða skuldir á þeim hvíla, og jafnvel, hvað fyrirhugað er að gera, en að sjálfsögðu kemur þetta allt fram í vegáætlun til 4 ára, þeirri till., sem lögð verður fram næstu daga.

Eins og hv. alþm. muna, var mikið rætt um það hér á síðasta þingi við setningu vegal., að það væri nauðsynlegt, að það kæmi fram í vegáætluninni, hvaða lán hvíldu á vegunum, hvaða vaxtakjör væru á lánunum o.s.frv., og höfðu menn þá auðvitað helzt í huga Reykjanesbrautina. Nú þykir mér það leiðinlegt, að hv. 3. þm. Vestf. vildi gefa í skyn, að það hefði verið farið út fyrir heimildir á þessu ári í sambandi við lántökur. Aðallántakan er til Reykjanesbrautar, hitt eru smámunir, sem hefur verið tekið til annarra vega á þessu ári og hv. 3. þm. Vestf. sagði reyndar hér áðan orðrétt, eftir að hafa fullyrt um heimildaleysið, að það hefði verið einróma samþykki Alþingis fyrir að taka lán til Reykjanesbrautar og ég vil upplýsa það, ef einhver er í vafa, að það hefur ekkert lán verið tekið til Reykjanesbrautar nema með heimild frá hv. Alþingi og þá finnst mér ekki, að við þurfum að vera að gefa það í skyn, að þar hafi verið um heimildarleysi að ræða, þó að það hafi ekki verið ákveðið í vegáætluninni þetta lán. Í sambandi við Reykjanesbrautina hef ég ekki tölurnar hjá mér um þetta, hvað mikið er í þennan veg komið, en það er eitthvað yfir 100 millj. Það er langleiðina búið að undirbyggja allan veginn, það er eftir að setja slitlag á 22 km kafla. En það er eitthvað talsvert á annað hundrað millj., sem komið er í veginn, geri ég ráð fyrir, því miður hef ég ekki þessar tölur, enda ætlaðist hv. þm. ekki til þess, að ég hefði þær handbærar. Það kemur alveg glögg grg. um þetta með vegáætluninni fyrir næstu 4 ár og einnig um aðra vegi.

Um Þrengslaveginn vil ég segja það, að það hvílir ekkert lán á honum. Það var tekið lán til vegarins 1963, en hluti af fjárveitingunni var notaður til þess að greiða það lán upp og ekki stofnað til neinna skulda á þessu ári til þess vegar.

Um Strákaveginn og Múlaveginn er það að segja, að þetta eru vegir, sem hafa verið á dagskrá og hv. alþm. hafa haft mörg orð um það, að þessum vegum bæri að ljúka og satt að segja bjóst ég við öðru, en því, að það væri nokkuð að því fundið, þó að það hefði verið ýtt á þessa vegi með smávegis lántöku og það hélt ég, að kæmi engum hv. alþm. á óvart. Það stendur til að ljúka Múlavegi á árinu 1965, sem er búinn að vera mörg ár í byggingu og það er rekið eftir Strákaveginum. Það er ákveðið að vinna að honum samkv. áætlun nú, eftir að undirbúningsrannsóknum er lokið.

Um Ennisveginn eða Ólafsvíkurveg er það að segja, að það var tekið lán til hans á árinu 1963 og lánið var vitanlega nokkru hærra en tilboðið, vegna þess að tilboðið miðaðist aðeins við það að gera veginn í brekkunni, en það var margs konar kostnaður annar í sambandi við þetta og vextir hafa ekki fallið á þessa skuld enn, vegna þess að hún var ekki tekin fyrr en seint á árinu 1963 og ég man ekki, hvernig þau lánskjör eru. Vitanlega fást engin lán nema borga vexti eftir tilskilinn tíma. En grg. um þennan veg kemur að sjálfsögðu með vegáætluninni, hvað mikið á veginum hvílir, hvaða greiðsluskilmálar eru og hvaða vaxtafótur er á láninu. Þetta mun allt koma nákvæmlega fram og verður ekkert undan dregið.

Eins og ég sagði áðan, hafa bráðabirgðalánin verið lækkuð um liðlega helming á þessu ári miðað við það, sem þau voru í árslok 1963. Og þeirri meginreglu hefur verið fylgt að endurnýja þessi bráðabirgðalán að helmingi eða jafnvel 2/3. Þetta hefur ekki verið gert í heimildarleysi. Ég man það, að þegar við vorum að ræða um þessi mál hér við setningu vegáætlunarinnar fyrir þetta ár, þá kom það fram hjá mörgum hv. þm., að þeir kviðu því, ef þess yrði krafizt að greiða upp bráðabirgðalánin á árinu, það mundi leiða til þess, að framkvæmdir drægjust saman. Ég varð að lýsa því hér yfir í hv. Alþingi, að það yrði samkomulag um það, að þessi lán yrðu endurnýjuð með þeim hætti, sem hér hefur verið gert, ekki ef til vill alveg á sama vegi, heldur að í hverju kjördæmi þyrfti skuldin ekki að minnka um meira en 1/3 eða helming. Og nú er það svo, að það eru tvö eða þrjú kjördæmi, sem skulduðu mest 1963, höfðu fengið mest bráðabirgðalán til 1963. Það eru þau sömu kjördæmi, sem skulda mest núna. Þessi kjördæmi hafa lækkað bráðabirgðalánin um 1/3 og jafnvel helming. Ég held, að ef hv. 3. þm. Vestf. meinar það, sem ég held að hann geri ekki, en orðin voru þannig, að það hefði jafnvel mátt skilja það, að í framkvæmdinni í sambandi við endurnýjun lánanna hefði verið beitt einhverri hlutdrægni, — ég segi það, að ef hann meinar það, sem ég held að hann hafi ekki gert, þá væri æskilegt, að hann teldi upp þá vegi og þau kjördæmi, þar sem hlutdrægni hefur átt sér stað. En ég endurtek, að ég held, að hann hafi ekki meint þetta, og þess vegna frá minni hendi, ef það kemur í ljós, að hann hefur aðeins meint vel og eyra mitt hefur gripið þetta skakkt, þá skal ég láta þetta gott heita. En ef á að gefa það í skyn, að um hlutdrægnislega framkvæmd hafi verið að ræða, þá held ég, að hv. þm. verði að hafa greinargerðina ljósari.

Með því, sem ég hér hef sagt, ætla ég, að framkvæmdin hafi verið eins nákvæm samkv. vegáætluninni og í samræmi við vegalögin og hægt er að ætlast til. Ég gat um það áðan, að það gæti verið dýrt og óþægilegt að hætta við verk, þegar fjárveitingin er búin, ef það kostar kannske aðeins 10 þús. kr. að ljúka því. Þá gæti verið dýrt að þurfa að fara með vinnuflokk á næsta ári og vélar til þess að ljúka þessu verkí. En vitanlega er sjálfsagt að halda sér við áætlunina eins nákvæmlega og mögulegt er. Og ég get vel sætt mig við það, að sú skýrsla, sem hér hefur verið lögð fram, sé gagnrýnd á einhvern hátt, að það sé óskað eftir því, að hún sé fyllri, að hún sé nákvæmari og hún sé jafnvel með öðru sniði. Þetta er fyrsta skýrslan, sem gerð er um framkvæmd vegamála og það er þess vegna ekkert óeðlilegt, þó að brtt. kæmu fram um það, og sjálfsagt að læra af reynslunni í því efni og breyta um búning skýrslunnar, ef það kemur í ljós, að það sé betra að hafa annan hátt á.

Ég sé t.d. ekkert athugavert við það að gera grein fyrir því, hvernig viðhaldsfénu hefur verið varið, ef þess er óskað. Og í sjálfu sér er ekki nema eðlilegt, að það sé gert. Það er heldur ekkert leyndarmál og ekkert óeðlilegt við það að gera grein fyrir því, hvað hefur farið mikið fé í snjómokstur og hvaða vegir hafa verið mokaðir. Þetta getur ekki verið neitt leyndarmál. Og ef hv. Alþingi óskar eftir því að fá slíka skýrslu og sundurliðun á því öllu, þá sé ég ekki, að það eigi að vera neitt til fyrirstöðu með það. Það hefur ekki verið minnzt á það fyrr og þess vegna er þetta ekki í skýrslunni nú, en það getur ekki verið neitt því til fyrirstöðu, að þetta verði með.

Ég ætla, að um það, sem hv. 3. þm. Vestf. gerði hér að umtalsefni áðan og hann hefur ekki fengið nægilega greið svör um hjá mér nú, eins og hann ætlaðist ekki til, þá muni hann fá þau svör á skýran hátt, þegar till. til vegáætlunar næstu 4 ára verður lögð fram nú innan skamms og ég sé því ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það, sem hv. þm. sagði.