07.12.1964
Efri deild: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2261 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

Olíugeymar í Hvalfirði

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þar sem umr. hafa hér verið vaktar um fyrirhugaðar framkvæmdir NATO í Hvalfirði, þykir mér rétt að undirstrika og rifja upp með örfáum orðum, hver afstaða Framsfl. hefur verið og er til þvílíkra framkvæmda. En eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., kom þetta mál fyrst á dagskrá sumarið 1963, þó að það ætti sér að vísu nokkuð lengri aðdraganda, eins og ég mun síðar nokkuð að víkja. En þá, þann 7. ágúst, var gefin út sú fréttatilkynning frá utanrrn., sem hæstv. ráðh. las hér áðan. Framsóknarmönnum þótti þessi tilkynning, þegar þeir heyrðu hana, þannig vaxin, að ástæða væri til að athuga nánar, hvað þar byggi á bak við. Þess vegna óskuðu fulltrúar Framsfl. eftir viðtali víð hæstv. utanrrh., hvað hann fúslega lét í té og gengu á hans fund 8. ágúst eða strax daginn eftir að þessi fréttatilkynning var birt, og leituðu upplýsinga hjá honum um þær samningaviðræður, sem yfir hefðu staðið að undanförnu. Utanrrh. gaf þá þær upplýsingar, að viðræður hefðu farið fram um, að ég held að segja megi, allverulega stækkun eða ný mannvirki í Hvalfirði, þar sem hann nefndi, ef ég man rétt, að rætt hefði verið um byggingu 25–28 olíugeyma. Enn fremur hefði verið rætt um og viðræðurnar snúizt um byggingu á hafskipabryggju eða hafskipabryggjum, þar sem stór skip gætu bæði landað olíu og tekið á móti olíu og í þriðja lagi, að það hefði verið rætt um byggingu eða steypu og festingu legufæra í botni Hvalfjarðar, þar sem stór skip gætu við legið, en tók þó jafnframt fram, að notkun slíkra legufæra mundi, ef til kæmi, verða háð samþykki ríkisstj. hverju sinni. Þá upplýsti ráðh., að ríkisstj. mundi ekki telja sér skylt að leggja þessa samninga, sem gerðir kynnu að verða, fyrir Alþingi til samþykktar.

Að fengnum þessum upplýsingum hélt framkvæmdastjórn Framsfl. fund næsta dag á eftir, 9. ágúst og gerði þá ályktun um þetta mál og sendi þá ályktun þegar í stað til utanrrh. Í upphafi þeirra ályktunar og þess bréfs, sem ríkisstj. var þá sent, var það nokkuð rakið, að áður fyrr og nokkur ár þá að undanförnu, þó að nokkurt hlé kunni að hafa verið á því um sinn, hafði verið eftir því sótt af hálfu Atlantshafsbandalagsins eða varnarliðs Bandaríkjanna fyrir þess hönd að fá að gera hernaðarleg mannvirki í Hvalfirði. Það var minnt á þetta í þessari samþykkt og jafnframt minnt á, að þessum tilmælum hefði jafnan verið eindregið vísað á hug. Síðan sagði svo í þessari ályktun, að í tilefni af viðræðum Atlantshafsbandalagsins og ríkisstj. lýsir Framsfl. sig andvígan því, að aukinn verði herbúnaður í Hvalfirði með byggingu nýrra flotamannvirkja eða á annan hátt og skorar á ríkisstj. að ljá ekki máls á samningum um slíkt. Eins og hæstv. ráðh. vék að í ræðu sinni hér áðan, bar svo hv. 1. þm. Austf., formaður Framsfl., fram fsp. um það í þingbyrjun, þá næsta haust, hvað þessum samningsviðræðum liði og var í sambandi við þá fsp. og þær umr., sem þá fóru fram, undirstrikuð og lögð áherzla á þessa afstöðu Framsfl. til þessa máls.

Afstaða flokksins nú er að sjálfsögðu óbreytt. Flokkurinn er andvígur þeim samningum, sem nú eru sagðir hafa verið gerðir um þessi efni, þó að vísu sé í þeim samningum gengið nokkru skemmra, a.m.k. að því er varðar tölu þeirra geyma, sem byggja á, heldur en rætt mun hafa verið um í öndverðu. En það breytir vitaskuld ekki eðli málsins. Og ég vil einmitt nota þetta tækifæri til þess að ítreka þessa afstöðu og stefnu Framsfl. til þessa máls.

En eins og kom fram í ræðum þeirra hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðh., er æðilangt orðið síðan fyrst var sett fram ósk af hálfu þeirra aðila, sem ég áðan nefndi, um hernaðarmannvirki í Hvalfirði. Þau tilmæli munu fyrst hafa komið fram, þegar Framsfl. átti aðild að ríkisstj. En þá strax var Framsfl. þeim tilmælum algerlega andvígur og beitti áhrifum sínum í þá átt, að þeim væri alveg hafnað. Ég skal ekkert um það fullyrða, af því að mér er ekki um það persónulega kunnugt, hver hefur verið afstaða fulltrúa annarra flokka þá í ríkisstj., en ég veit það og þori að fullyrða, að þessi var afstaða Framsfl. Niðurstaðan þá var og sú, að þessum málaleitunum var algerlega hafnað. Og þessi tilmæli munu hafa verið ítrekuð nokkrum sinnum, eftir því sem ég bezt veit, en niðurstaðan varð jafnan sú hin sama þar til nú á stjórnarárum núv. hæstv. ríkisstj.

Rökin fyrir því, að þessum tilmælum hefur verið hafnað, liggja nokkuð í augum uppi. Það var yfirlýst stefna, þegar Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu, að hér skyldi ekki staðsettur her á friðartímum. Þó að aðstæðurnar breyttust á þá lund, að ekki þótti fært að standa gegn því, að hér væri varnarlið staðsett vegna ófriðarhættu, sem þá var talin yfirvofandi, hefur stefna Framsfl, í sjálfu sér verið alveg óbreytt, að því er þetta atriði varðar, að hann vill ekki, að hér í landinu sé her á friðartímum. Og í samræmi við þá stefnu vill hann forðast allar aðgerðir, sem geta orðið til þess að torvelda það, að varnarliðið hverfi úr landinu svo fljótt sem ástæður annars leyfa að okkar dómi. En það er augljóst mál, að ef lagt er í miklar framkvæmdir og hernaðarleg mannvirki á stað eins og Hvalfirði, þá gæti það a.m.k. orðið til þess að torvelda það, að varnarliðið hyrfi af landi brott, þó að aðstæður breyttust þannig í veröldinni, að friðvænlegar horfði. Það er þess vegna nokkuð augljóst, að nýjar herstöðvar hér á landi, hvar sem væri og aukning herbúnaðar í Hvalfirði mundi ekki vera í samræmi við þá yfirlýsingu, sem gefin var á sínum tíma af fyrirsvarsmönnum þriggja stjórnmálaflokka. Enn fremur er það, að þegar á að meta þær framkvæmdir, sem nú hafa verið leyfðar, verður að líta á það, hvað farið hefur verið fram á áður í þessum efnum. En eins og hv. þm. sjálfsagt öllum er kunnugt, var það, sem á sínum tíma var farið fram á og var reyndar upplýst um það, ef ég man rétt, í umr. hér í fyrra, miklum mun meira, en þó nú hefur verið leyft. En ég a.m.k. óttast það, að þegar nú hefur verið fallizt á að stefnu til að veita bandalaginu eða varnarliðinu á þess vegum, þessa aðstöðu í Hvalfirði, sem hér er um tefla, muni þar aðeins vera um fyrsta skrefið að ræða, og ég óttast, að síðar meir muni koma fram tilmæli um aukningu á þessum mannvirkjum og þá held ég, að verði miklu verri aðstaða, en áður var, að standa gegn því, að þessi mannvirki séu aukin, þegar einu sinni er búið að leyfa byrjunina. Það verður hægara að sækja á og má sjálfsagt þá kannske benda á ýmis rök, sem frá sjónarmiði Atlantshafsbandalagsins gerðu það æskilegt, að stöðin þar væri aukin. Og þá væri synjun af hálfu íslenzkra yfirvalda kannske í litlu samhengi við það að leyfa þessar byrjunaraðgerðir, því að vitaskuld er hér verið að leyfa nýja mannvirkjagerð.

Ég ætla alls ekki að fara að ræða það hér, sem hæstv. ráðh. var að víkja að í sinni ræðu, að blanda saman þeirri olíustöð, sem þar hefur verið og þessum framkvæmdum, sem nú á að gera.

Af því, sem ég hef hér drepið á, vona ég, að það sé ljóst, sem reyndar var áður af fyrri umr., sem farið höfðu fram hér um þessi mál, hver afstaða Framsfl. hefur verið og er til þessara mála, að hann er því andvígur, að þessi hernaðarmannvirki eða mannvirki, sem nota má í sambandi við hernað, séu reist þarna í Hvalfirði. Það má vitaskuld segja, að þegar litið er á þessar framkvæmdir út af fyrir sig einangraðar, sé þarna ekki um stórkostlegar framkvæmdir að tefla. En það væri að mínum dómi óskynsamlegt að líta þannig á, heldur er rétt að gera sér þegar ljóst í upphafi, hvern dilk þetta muni draga á eftir sér.

Ég vil svo að lokum undirstrika það, sem kom reyndar líka fram í umr. á Alþingi í fyrra, að Framsfl. taldi þá og telur enn sjálfsagt, að um mál þetta væri fjallað á Alþingi, áður en frá samningum væri gengið. Og alveg sérstaklega vil ég benda á að hvernig sem menn annars kunna að líta á þetta mál og hvort sem menn telja, að Alþingi eigi stjórnskipulegan rétt á því að fjalla um það eða ekki, þá getur hitt ekki vafizt fyrir neinum, að það er skylt samkv. lögum að leggja þetta mál fyrir utanrmn. Það er svo augljóst, að um það getur engin deila orðið, því að utanrmn. á ekki aðeins að fjalla um þau mál, sem eru þingmál í venjulegri merkingu, hún á ekki aðeins að fjalla um þau mál, sem lögð eru fyrir Alþingi, heldur á hún að vera ríkisstj. til ráðuneytis um utanríkismál jafnt um þingtímann sem utan þingtímans. Það á að bera undir hana utanríkismál almennt og það er engum blöðum um það að fletta, að þetta mál er þannig vaxið, að það hefði átt að bera undir utanrmn. og það verður að telja það mjög miður farið, að hér hefur ekki verið farið að lögum í þessu efni, vegna þess að ef málið hefði verið borið undir utanrmn., áður en frá samningum var gengið, svo sem nú virðist hafa verið gert samkv. tilkynningu ríkisstj., þá hefði það gefið fulltrúum stjórnarandstöðunnar í utanrmn. færi á að kynna sér málið, áður en það var komið á það lokastig og þá hefði það gefið þeim færi á því að hreyfa málinu hér á Alþingi, þannig að Alþingi hefði þá enn á ný getað átt þess kost að taka afstöðu til þess, áður en frá samningum væri gengið. Ég vil þess vegna alveg sérstaklega mælast til þess, að hæstv. ráðh. geri grein fyrir því, hvers vegna málið var ekki lagt fyrir utanrmn., en að því vék hann alls ekki í sinni frumræðu, þó að hann leitaðist við að færa fram þau rök, sem færð voru fram í fyrra fyrir því, að ekki þyrfti samkv. stjórnarskránni að leggja málið fyrir Alþingi. En hvað sem allri stjórnarskrá líður í þessu sambandi, þá held ég, að fram hjá því verði ekki komizt, að málið hefði átt að leggja fyrir utanrmn.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri að sinni. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja frekar, hver afstaða Framsfl. hefur verið, nema þá tilefni gefist til þess að fara nánar út í þau efni.