07.12.1964
Neðri deild: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2271 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

Olíugeymar í Hvalfirði

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég sé mig tilneyddan til að kveðja mér hljóðs utan dagskrár, þar sem þeir atburðir hafa gerzt, er Alþingi hlýtur að láta sig nokkru varða. .Ég á þar við tilkynningu ríkisstj. s.l. föstudag um, að gerðir hafi verið samningar um olíustöð fyrir herskip Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði. Þegar ég segi, að Alþingi varði þetta mál, þá á ég ekki aðeins við, að hervæðing Hvalfjarðar sé stórmál, stórháskalegt mál, sem allir hv. þm. hljóti að hafa áhuga á. Ákvörðunin um nýjar herstöðvar í Hvalfirði er óhugnanleg staðreynd, á sama tíma og friðarhorfur í heiminum fara batnandi og aðrar smáþjóðir reyna að hreinsa sig af óþverrabælum erlendra herstöðva. En það er ekki einungis þess vegna, sem Alþingi varðar þetta mál. Hvalfjarðarmálið varðar Alþingi sem stofnun. Það varðar Alþingi sem æðstu yfirstjórn landsins. Hvalfjarðarmálið varðar Alþingi vegna þess, að með því er verið að ræna þingið rétti sínum. Í þessu málí er ríkisstj. að svipta Alþingi valdi, sem því er ótvírætt gefið samkv. stjórnarskránni.

Strax eftir að ríkisstj. tilkynnti í fyrrasumar, að samningaviðræður um Hvalfjörð væru hafnar, komu fram eindregin mótmæli frá Framsfl. og Alþb. Sérstök áherzla var á það lögð í yfirlýsingu beggja, að ekkert yrði í þessum málum aðhafzt, nema samþykki Alþingis lægi fyrir. Strax á fyrstu dögum þingsins kom fram þáltill. frá nokkrum þm. Alþb., þar sem megináherzla var á það lögð, að ríkisstj. hefði ekki heimild til að gera nokkurn samning við NATO um Hvalfjörð, nema samþykki Alþingis kæmi til.

Það er sannarlega hörmulegt fyrir sérhvern unnanda lýðræðis og þingræðis að horfa upp á bolabrögð ríkisstj. í þessu máli. Till., sem flutt var til að vernda sjálfsagðan rétt Alþingis, var kæfð hér í þinginu með forsetavaldi. Till. kom fram á þriðja degi þingsins, en þegar Alþingi var slitið 7 mánuðum síðar, hafði hún ekki enn fengizt send til n., hvað þá meir. Allan veturinn er hæstv. forseti Sþ. látinn sitja sem fastast á till., meðan ríkisstj.

stendur í leynisamningum við Atlantshafsbandalagið.

Á s.l. vori komu 3 eða 4 hershöfðingjar og flotaforingjar í heimsókn til ríkisstj. að fjalla um það mál, sem Alþingi mátti ekki ræða um, hvað þá taka ákvörðun um. Þannig hefur ríkisstj. múlbundið Alþingi, en fengið herforingjaráði NATO í hendur það hlutverk, sem Alþingi bar. Hvers konar tilmæli stjórnarandstöðuflokkanna um þinglega meðferð málsins eru algerlega hunzuð og grafarþögn ríkir um málið í blöðum ríkisstj. þar til skyndilega einn góðan veðurdag, að þjóðin stendur frammi fyrir gerðum hlut. Það er búið að semja og ekkert meira um það að tala.

Þessi framkoma ríkisstj. er ekki aðeins móðgun við Alþingi, heldur hrein lögleysa og alvarlegt lögbrot. Samningurinn um Hvalfjörð er ógildur, vegna þess að sá aðili, sem undirritaði samninginn fyrir Ílands hönd, hafði ekkert umboð til að semja um slík mál, nema Alþingi hefði áður veitt honum heimild.

Áður en ég sný mér að efnishlið Hvalfjarðarmálsins, vil ég í örstuttu máli ræða lagalega hlið málsins, — það lögbrot ríkisstj., sem nú liggur fyrir.

Hv. þm. munu kannast við 21. gr. stjórnarskrárinnar, en í henni segir ótvírætt, að ríkisstj. megi enga samninga gera við erlend ríki, sem fela í sér kvaðir á landi, nema samþykki Alþingis komi til. Kvaðir á landi eru takmarkanir á yfirráðarétti lands. Erlendum aðila eru veitt afnot og umráð lands. Það er samdóma álíi fræðimanna, að yfirleitt sé um kvaðir að ræða, þegar hernaðarleg aðstaða er veitt. Ég þykist viss um, að því muni ekki verða mótmælt hér, að um kvaðir á landi sé að ræða með samningunum um olíustöð fyrir herskip í Hvalfirði. Ég minnist þess einnig, að þá stuttu stund, sem málið var rætt í þinginu hér í fyrrahaust, gerði hæstv. utanrrh. enga tilraun til að mótmæla því, að um kvaðir á landi væri að ræða. Einu rökin, sem hæstv. utanrrh. reyndi að bera fyrir sig, voru þau, að samningarnir um Hvalfjörð væru byggðir á herverndarsamningnum svonefnda frá 1951 og með þeim samningi hefði ríkisstj. fengið vald til þess í eitt skipti fyrir öll að gera slíka samninga, Alþingi hefði sem sagt afsalað sér ákvörðunarrétti um þessi mál í hendur komandi ríkisstj. og með byggingu lóranstöðvarinnar á Snæfellsnesi hefði ríkisstj. notað sér þetta vald án þess að biðja Alþingi leyfis. Aðferðin við samningagerð um lóranstöð sýndi, hvaða fordæmi hefði skapazt.

Áður en lengra er haldið, er rétt að staldra við þessa lóranstöð á Snæfellsnesi. Það er rétt að minna á, að sú samningsgerð var einnig stjórnarskrárbrot. Lögbrot ríkisstj. í dag verða ekki fyrirgefin vegna fyrri afbrota. Auk þess er óhjákvæmilegt að geta þess, að þegar samningurinn um lóranstöðina var gerður, gaf utanrrn. blöðunum alranga hugmynd um þær framkvæmdir, sem þá var um samið og má auðveldlega sanna það með tilvitnunum í blöð, þó að ekki sé tími til að gera það hér.

En hvað er þá að segja um herverndarsamninginn frá 1951? Er þar að finna eitthvert ákvæði, sem sýnir, að Alþingi hafi afsalað þessum rétti sínum samkv. stjórnarskránni í hendur komandi ríkisstj.? Sá, sem les herverndarsamninginn, sem prentaður er í Lagasafninu, mun fljótlega sannfærast um, að þar er ekki eitt einasta ákvæði um, að Alþingi afsali sér þessum rétti. Og það þarf reyndar engan að undra, að slíkt ákvæði skuli ekki vera til í þessum samningi, því að slíkt ákvæði gæti tæpast verið atriði í milliríkjasamningi. Í þessum samningi segir m.a. í inngangsorðum, að þar sem Íslendingar geti ekki sjálfir varið land sitt og þar sem tvísýnt sé um alþjóðamál, hafi NATO farið þess á leit við Ísland og Bandaríkin, að þau gerðu ráðstafanir til, að látin verði í té aðstaða á Íslandi til varnar landinu. Í 1. gr. segir, með leyfi forseta, m.a.:

„Að í þessu skyni lætur Ísland í té þá aðstöðu í landinu, sem báðir aðilar eru ásáttir um, að sé nauðsynleg.“

Í 2. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ísland mun afla heimildar á landssvæðum og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að í té verði látin aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum.“

Og í 3. gr. segir og ég bið hv. þm. að taka vel eftir:

„Það skal vera háð samþykki Íslands, hverrar þjóðar menn eru í varnarliðinu, svo og með hverjum hætti það tekur við og hagnýtir þá aðstöðu á Íslandi, sem veitt er með samningi þessum.“

Og í 4. gr. segir:

„Það skal háð samþykki íslenzku ríkisstj., hversu margir menn hafa setu á Íslandi samkv. samningi þessum.“

Ég leyfi mér að fullyrða, að aðrar gr. samningsins skipta ekki máli í þessu sambandi. En ég spyr hæstv. forsrh., sem ég vænti, að muni ræða þetta mál og svara spurningum hér á eftir í forföllum hæstv. utanrrh.: Hvar í þessum samningi er nokkurs staðar gefið í skyn, að Alþingi afsali sér valdi til að fjalla um samninga við Bandaríkin eða NATO um kvaðir á landi? Og ég vil leyfa mér að benda á, að megi nokkuð lesa út úr þessum samningi, þá er það það, að Alþingi hafi þetta vald áfram ásamt ríkisstj.

Þegar rætt er um íslenzka aðila í þessum herverndarsamningi, er ýmist talað um Ísland eða íslenzku ríkisstj. Þegar hugtakið Ísland er notað, er auðvitað átt við þá aðila, sem samninginn gera af hálfu Íslendinga og heimild hafa til að gera slíka samninga af hálfu Íslendinga, þ.e.a.s. Alþingi og ríkisstj., hvort tveggja Alþingi og ríkisstj.

Eins og áðan kom fram, segir ótvírætt í 3. gr. samningsins, að það skuli háð samþykki Íslands, þ.e. Alþingis og ríkisstj., með hverjum hætti varnarliðið tekur við og hagnýtir þá aðstöðu á Íslandi, sem veitt er með samningi þessum. Í 4. gr. segir aftur á móti, að íslenzka ríkisstj. skuli ráða því, hve margir menn hafi setu á Íslandi samkv. samningi þessum. Í þessari gr. er ekki gert ráð fyrir því, að Alþingi hafi afskipti og með því er undirstrikað, að um önnur atriði eigi Alþingi einmitt að fjalla. Af þessu hlýtur að mega draga þá augljósu ályktun, að með samningnum hafi það beinlínis verið ætlunin að undirstrika það sérstaklega, að Alþingi ætti að fjalla um sérhverja nýja kvöð á landinu, stóra og smáa, eins og stjórnarskráin gerir að sjálfsögðu ráð fyrir. Nú er það staðreynd að vísu, að Alþingi fékk ekki árið 1951 að fjalla frekar um hernámsframkvæmdirnar, eftir að búið var að samþykkja sjálfan samninginn, eins og eðlilegt hefði þó verið. Skýringin á þessu er ef til vill sú, að samningurinn var ekki löggiltur á Alþingi, eins og menn muna, fyrr en 7 mánuðum eftir að bandaríski herinn kom til landsins.

Þegar Alþingi fjallaði um samninginn, var herinn búinn að koma sér fyrir. Þá var búið að ákveða þær kvaðir á landi, sem hersetunni fylgdu. Þessi framkoma gagnvart Alþingi var stórhneyksli og lögbrot á sínum tíma. En um síðir hlaut samningurinn lagagildi. Samþykkt Alþingis var þá ef til vill óbein viðurkenning á þeim ákvörðunum og hernaðarframkvæmdum, sem ríkisstj. hafði þá þegar gert. En hvort sem löggilding samningsins var viðurkenning Alþingis á þeim kvöðum, sem þá þegar tilheyrðu fortíðinni, eða ekki, þá er hitt ljóst, að Alþingi gat ekki afsalað sér um alla framtíð því valdi, sem stjórnarskráin veitir og þess vegna varð óhjákvæmilega að leggja fyrir Alþingi sérhverja nýja framkvæmd hersins, sem fól í sér einhverja kvöð á landi eða landhelgi.

Hæstv. utanrrh. hélt því blákalt fram hér í þinginu í fyrra, að með samningnum frá 1951 væri öllum ríkisstj. veittur réttur til að semja við Bandaríkin og NATO um nýjar framkvæmdir á vegum hersins án þess að leita samþykkis Alþingis. Í framhaldi af þessari fullyrðingu vil ég leggja aðra spurningu fyrir hæstv. forsrh.: Álítur ríkisstj. engin takmörk fyrir því, hve miklar kvaðir á landi megi semja um við NATO og Bandaríkin á grundvelli herverndarsamningsins? Ímyndar ríkisstj. sér, að fræðilega væri ekkert því til fyrirstöðu, að Bandaríkin fengju að byggja herstöðvar í hverjum einasta firði, án þess að Alþingi fjallaði um málið?

Ég vænti þess, að hæstv. utanrrh. svari þessum spurningum alveg undanbragðalaust og ég vænti þess líka, að hv. þm. skilji, hvílíka endaleysu leiðir af þeirri fullyrðingu, að Alþingi hafi afsalað sér þessu valdi 1951. Og jafnvel þó að í herverndarsamningnum, — það vil ég að okum taka fram í þessu sambandi, — jafnvel þó að í herverndarsamningnum hefði verið ákvæði, sem segði skýrt og skorinort, að Alþingi afsalaði sér hér með þessum rétti, þá get ég leyft mér að fullyrða, að fræðimenn eru almennt þeirrar skoðunar að slíkt ótakmarkað framsal valds af hálfu Alþingis sé óheimilt með öllu og ógilt og geti þar af leiðandi ekki átt sér stað.

Ég vil minna hv. alþm. á þá staðreynd, að Alþingi er æðra ríkisstj. Ríkisstj. er fyrst og fremst verkfæri í höndum þingsins. Við, þessir 60 þm., erum raunverulega húsbændur ríkisstj., þó að einstakir ráðh. vilji kannske gleyma því á stundum. Alþingi ber skylda og réttur til þess að varðveita vald sitt og rétt. Hér hefur það hins vegar gerzt, að þjónninn hefur stolið húsbóndaréttinum. Hæstv. ríkistj. hefur gert samning, sem hún hefur enga heimild til að gera og þessi samningur er því ekki gildur, hvorki gagnvart einum né öðrum. Kvenfélag Hallgrímskirkju hefði alveg eins getað gert þennan samning við NATO eins og ríkisstj. Heimildarlaus aðili er enginn aðili. Samningurinn er því aðeins ómerkilegt pappírsgagn. Þetta er rétt að hafa í huga nú þegar, svo að menn geri sér ljóst, að engum Íslendingi ber skylda til að virða þennan samning eða afleiðingar hans, hvorki nú né síðar.

Hvað er svo að gerast í Hvalfirði? Hinn ógildi samningur ríkisstj. við NATO fjallar um það fyrst og fremst að breyta núverandi olíubirgðastöð í Hvalfirði í olíuafgreiðslustöð fyrir herskip. Svo á að heita, að stöðin verði ekki notuð hversdagslega, heldur aðeins þegar í harðbakka slær. Að álíti ríkisstj. má þó breyta þessu með stuttri fréttatilkynningu úr stjórnarráðinu hvenær sem er. Ríkisstj. dregur enga dul á það, að stöðin á fyrst og fremst að koma að gagni í hugsanlegri styrjöld. Vísvitandi er því með þessu verið að gera ráðstafanir til þess, að Íslendingar og land þeirra dragist sem mest inn í styrjaldarátökin. Enginn mun lengur reyna að telja Íslendingum trú um, að ráðstafanir hernámsliðsins séu Íslendingum til varnar og sízt af öllu þetta nýjasta tiltæki. Á einni nóttu má breyta Hvalfirði í herskipalægi og þegar það hefur gerzt, hafa Íslendingar verið settir í fremstu víglínu stríðsátakanna.

Það er ekki unnt að ræða Hvalfjarðarmálið án þess að skoða það í ljósi þeirrar þróunar, sem átt hefur sér stað seinustu árin. Á valdaskeiði vinstri stjórnarinnar dró ekki aðeins stórlega úr öllum hernámsframkvæmdum, heldur voru áformin um Hvalfjörð, sem 1956 voru komin á flugstig, algerlega lögð til hliðar. Fyrsta alvarlega skrefið er hins vegar stigið af ráðherrum Alþfl. 1959, þegar þeir eru orðnir einir í ríkisstj. Þá er í algeru heimildarleysi samið um byggingu lóranstöðvar á Snæfellsnesi, í næsta nágrenni Hvalfjarðar og þessi miðunarstöð mun nú vera orðin hæsta mannvirki Evrópu og sérstaklega ætlað að auðvelda kafbátum og skipum miðanir.

Næst var Keflavikurflugvöllur gerður að stjórnarmiðstöð fyrir kafbátaflotann á norðanverðu Atlantshafi og flotinn tók við yfirstjórn bandaríska herliðsins. Og nú er farið að rannsaka sem bezt allar aðstæður. Bandaríkjamenn fá í framhaldi af þessu leyfi íslenzku ríkisstj. til að mæla upp og kortleggja botn Faxaflóa og því verki er nú lokið. Síðan koma samningarnir um Hvalfjörð. Það er vissulega blindur maður, sem sér ekki, hvert stefnir. Það er stefnt á volduga flotahöfn í Hvalfirði. En ríkisstj. veit, að ef hún vill notfæra sér andvaraleysi almennings, verður hún að ná markinu í litlum áföngum. Hæstv. ríkisstj. þykist kunna þá kúnst að matreiða ofan í Íslendinga, og í þetta sinn á aðeins að bera á borð eina litla olíustöð.

Þessir nýju samningar um Hvalfjörð hljóta að minna menn á þá staðreynd, að einmitt um þessar mundir er verið að ræða um stofnun kjarnorkuflota NATO-ríkjanna. Að svo stöddu er auðvitað ekki unnt að slá því föstu, hvort stöðin í Hvalfirði er hugsuð í tengslum við slíkan flota eða ekki, en vissulega er það ekki ólíklegt. Og samkv. rangtúlkun ríkisstj. á lögum landsins og samkv. samningunum um Hvalfjörð þarf ekki annað, en ráðherraleyfi, til að skapa kjarnorkuflotanum aðstöðu í Hvalfirði. Við umr. um þessi mál í þinginu í fyrra lagði ég á það sérstaka áherzlu, að gagnvart Íslandi ættu Bandaríkjamenn nú um tvær leiðir að velja: Volduga herstöð í landinu eða enga herstöð. Bandaríkjamenn hafa tekið herstöðvamál sín til endurskoðunar nú í seinni tíð vegna breyttra viðhorfa í vígbúnaðartækni og nú fyrir skömmu munu menn minnast, að þeir tilkynntu, að þeir hygðust leggja niður 500 herstöðvar í einu. Samningurinn um Hvalfjörð táknar örlagarík tímamót, vegna þess að hann sýnir hvor stefnan hefur orðið ofan á varðandi Ísland. Á sama tíma og friðarhorfur fara ört batnandi, er hernámið á Íslandi magnað um allan helming.

Ég vil ekki orðlengja þetta mál frekar hér utan dagskrár, enda geri ég ráð fyrir, að margir aðrir þm. vilji komast að og einn hefur nú þegar kvatt sér hljóðs. En ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. forsrh. enn einnar spurningar og það er þriðja og síðasta spurningin og lokaorð mín að sinni. Ég vil spyrja: Hvenær gerir ríkisstj. ráð fyrir, að framkvæmdir muni hefjast í Hvalfirði?