07.12.1964
Neðri deild: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2285 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

Olíugeymar í Hvalfirði

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. gerði nokkra tilraun til þess hér áðan að verja hið augljósa stjórnarskrárbrot ríkisstj. í þessu máli. Við hlýddum á varnir hans og áður en þessar umr. halda öllu lengra, þá vil ég taka vörn hans fyrir í stuttu máli, áður en hún gleymist um of.

Ég bar þrjár spurningar upp við hæstv. forsrh. Engri þeirri svaraði hann nú beint, en tók lítillega til meðferðar þá fyrstu. Sú spurning var um það, hvar í herverndarsamningnum væri nokkurt ákvæði um það, að Alþingi hefði afsalað sér rétti til að ákveða, hvort gerðir skuli samningar um kvaðir á landi við erlend ríki, — hvar í þessum samningi sé að finna nokkurt slíkt ákvæði. Hæstv. forsrh. svaraði þessari spurningu alls ekki beint, en vísaði í 1. gr. herverndarsamningsins og ég get ekki séð með nokkru móti, að í svari hans felist nein sönnun fyrir því, að Alþingi hafi afsalað sér þessum rétti. Hann vitnaði í þessa grein, sem ég vil lesa, eða þessi orð, sem ég hef að vísu ekki öll, en mergurinn málsins í þessari grein er: „Í þessu skyni lætur Ísland í té þá aðstöðu í landinu, sem báðir aðilar eru ásáttir um, að sé nauðsynleg.“ Það er þetta hugtak: Ísland, sem skiptir máli í þessu sambandi. Hvað er átt við mað hugtakinu Ísland? Hæstv. forsrh. svaraði því hér áðan og sagði, að þar væri átt við ríkisstj. Ég er honum algerlega ósammála og ég býst við, að svo sé um fleiri. Með hugtakinu Ísland er að sjálfsögðu átt við Alþingi og ríkisstj., þ.e.a.s. þá aðila, sem gera þennan samning, þar sem þessi grein er í og gera yfirleitt skv. stjórnarskránni þá samninga, sem hafa í sér fólgnar kvaðir á landi, þegar þeir samningar eru við erlend ríki. Og ég tók það fram hér áðan og vil endurtaka það, að í herverndarsamningnum eru notuð tvö hugtök í þessu sambandi um íslenzka aðila. Það er annars vegar notað hugtakið Ísland og það er hins vegar notað hugtakið íslenzka ríkisstj. Þetta bendir ótvírætt til þess, að þarna sé ekki um sama aðilann að ræða og þegar talað er um Ísland, þá sé ekki átt við íslenzku ríkisstj. Ég held, að það sé ákaflega einfalt að álykta út frá þessari staðreynd á þennan veg.

Ég benti á það hér áðan, að þegar um það er að ræða, eins og segir í 3. gr. samningsins: „Það skal vera háð samþykki Íslands, hverrar þjóðar menn eru í varnarliðinu, svo og með hverjum hætti það tekur við og hagnýtir þá aðstöðu á Íslandi, sem veitt er með samningi þessum,“ sem sagt, það er Ísland, eins og segir í samningnum, sem um þessi mál skal fjalla, en hins vegar er í 4. gr. sagt: „Það skal háð samþykki íslenzku ríkisstj., hversu margir menn hafa setu á Íslandi skv. samningi þessum.“ Hér eru gerð glögg skil í samningnum. Annars vegar hefur ríkisstj. þetta ákveðna yfirráðasvæði og ákvarðanasvæði, meðan aftur Alþingi og ríkisstj. fer með önnur atriði þessa máls, eins og hafði ævinlega verið fram að þeim tíma og hlýtur að verða áfram.

Önnur vörn hæstv. forsrh. var að styðja sig við þau fordæmi, sem gefin hafa verið og ég tók það mjög skýrt fram áðan, að ég gæti ekki séð, að hægt væri að verja sig með slíkum fordæmum, sem væru út af fyrir sig sjálf stjórnarskrárbrot og hefðu verið það á sínum tíma. Eftir að herverndarsamningurinn var gerður, var óhjákvæmilegt, að sérhver ný hernámsframkvæmd, sem fól í sér nýjar kvaðir á landi, væri lögð fyrir Alþingi og væri það ekki gert, hlaut það að vera stjórnarskrárbrot. Ég er í þessu tilfelli aðeins að endursegja það, sem ég sagði hér áðan, en vegna þess að hæstv. forsrh. gerði enga tilraun til að svara þessu, sé ég mig tilneyddan til þess að endurtaka það. Ég bar upp þá spurningu við hæstv. forsrh., hvort hann álíti ekki, að einhver takmörk væru fyrir því, hvert vald ríkisstj. hefði í samningum við Bandaríkin og við Atlantshafsbandalagið. Ég spurði hann, hvort ríkisstj. ímyndaði sér, að hún gæti gert samning við Atlantshafsbandalagið um, að komið skuli á fót herstöðvum í hverjum einasta íslenzkum firði eða hverjum einasta íslenzkum dal, án þess að Alþingi kæmi þar nokkurs staðar nærri. Ég get ekki annað séð en fullyrðing hæstv. forsrh. leiði til þessarar niðurstöðu, en ef svo er ekki, þá væri mjög ánægjulegt og fróðlegt að fá skýr svör hæstv. forsrh. við þessu atriði.

Það er að sjálfsögðu ákaflega erfitt að halda uppi málefnalegum umr. og rökræðum um mál eins og þessi, þegar annar málsaðilinn gefst hreinlega upp, eins og hæstv. forsrh. gerði hér áðan. Og ég vil aðeins segja það, að rökþrot hans í þessu máli eru að sjálfsögðu staðfesting á þeirri staðreynd, að hér er um lögleysu að ræða og hér er um ógildan samning að ræða.

Ég vil svo minna hæstv. forsrh. á það, ef hann skyldi sjá sér fært að svara þeirri spurningu, sem ég lagði fyrir hann hér áðan, að ég lagði einnig fyrir hann þriðju spurninguna, þ.e.a.s. hvenær ríkisstj. ímyndaði sér, að framkvæmdir mundu hefjast og ef hann sér sér fært að koma hér í ræðustólinn á nýjan leik, þá væri æskilegt að fá svar við þeirri spurningu einnig.

Um ræðu hv. 2. þm. landsk., hæstv. forseta sameinaðs Alþingis, þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Ég held, að hún hafi verið fullkomin staðfesting á því, sem ég hélt hér fram áðan, hvernig legið var á þessu máli hér á s.l. Alþingi. Hann staðfesti það, sem ég sagði, að það liðu mánuðir frá því að málið kom fram á Alþingi og þar til þingi var slitið og allan þann tíma tókst ekki einu sinni að koma málinu til nefndar, hvað þá meir. Hann sagði, að málið hefði 11 sinnum verið á dagskrá. Það kann að vera rétt. Ég geri hins vegar ráð fyrir því, að flestum hv. þm. sé kunnugt um, að það skiptír mjög miklu um afgreiðslu mála, ekki hvort þau eru á dagskránni, heldur hvar á dagskránni þau eru. Við þekkjum mörg dæmi um það hér í þinginu, að það eru kannske 30 eða 40 mál, eins og var á dagskrá seinasta fundar sameinaðs þings og ef mál er mjög neðarlega á dagskránni, þá er það sama og það sé alls ekki á dagskránni. Ég man ekki eftir því, að ég hafi farið fram á það nokkru sinni, að það yrðu ekki umr. um þetta mál, þó kann það að vera í einu tilfelli eða svo, en ég minnist þess ekki. Hins vegar man ég eftir því, að ég kvaddi mér sérstaklega hljóðs hér utan dagskrár a.m.k. einu sinni til þess að minna hæstv. forseta sameinaðs þings á, að þetta mál væri ævinlega svo neðarlega á dagskránni eða ekki á dagskránni, að það væri ekki útlit fyrir, að það fengist afgreitt.