07.12.1964
Neðri deild: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

Olíugeymar í Hvalfirði

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki á þessu stigi að ræða þetta mál neitt efnislega, heldur læt ég nægja að vísa til þess, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Austf. Ég er honum að öllu leyti sammála um það, sem hann sagði og læt nægja að vísa til þess.

En það var aðeins eitt atriði, sem ég vildi gjarnan fá nánar upplýst, vegna þess að mér finnst, að eftir ræðu hæstv. forsrh. sé það ekki fullkomlega ljóst, hvaða aðili það er, sem hefur fengið leyfi til að gera hinar umræddu framkvæmdir í Hvalfirði. Ég hef staðið í þeirri meiningu vegna fyrri fréttatilkynningar, sem ríkisstj. gaf út, að það væri Atlantshafsbandalagið, sem hefði sótt eftir því að gera þessar framkvæmdir og það væri Atlantshafsbandalagið, sem hefði fengið nú leyfi ríkisstj. til að gera þessar framkvæmdir. Af ræðu hæstv. forsrh. skildist mér hins vegar helzt, að það væri varnarliðið eða Bandaríkjastjórn, sem hefði fengið leyfi til að gera þessar framkvæmdir, því að hann nefndi alltaf varnarliðið í sambandi við þessi mál, en ekki Atlantshafsbandalagið. Og ég vildi gjarnan þess vegna fá það upplýst hjá hæstv. forsrh. til að fyrirbyggja allan misskilning í þessum efnum, hvort það væri frekar Atlantshafsbandalagið eða varnarliðið, þ.e.a.s. Bandaríkjastjórn, sem hefði fengið leyfi til þess að gera þessar framkvæmdir. En þetta hefur að vísu meginþýðingu fyrir heimild ríkisstj. til þess að gera þennan samning, vegna þess að t.d. varnarsamningurinn frá 1951 er samningur milli Íslands og Bandaríkjanna, en ekki milli íslands og Atlantshafsbandalagsins, og samkv. honum hefur ríkisstj. ekki neina heimild til þess að leyfa Atlantshafsbandalaginu að gera hér sérstakar framkvæmdir. Ef hún leyfir Atlantshafsbandalaginu að gera hér einhverjar sérstakar framkvæmdir, þá þarf hún sérstakan samning til þess að gera það.