07.12.1964
Neðri deild: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2293 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

Olíugeymar í Hvalfirði

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af því, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. Að mestu get ég vísað til þess, sem kom fram áðan í minni ræðu. Hann segir, að ég hafi nánast látið eins og mér væri ókunnugt um, hvaða þjónusta hafi verið í Hvalfirði. Þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðh. Það er kunnugt, hvaða þjónusta hefur verið í Hvalfirði.

Hann segir enn, að það þurfi að gera þessar framkvæmdir, sem nú eru fyrirhugaðar, til þess að sú þjónusta geti haldið áfram, það þurfi að endurnýja eitthvað af geymum, sem hafa verið undanfarið í Hvalfirði. En þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðh. Þetta er ekki aðalatriði málsins, því að ef hér hefði einvörðungu verið um það að ræða að gera þann útbúnað, sem þyrfti, til þess að sama þjónusta gæti verið í Hvalfirði áfram og verið hefur, þá þyrfti ekki að byggja þar nein hafnarmannvirki, engar bryggjur, engin vatnsforðabúr og engin ný legufæri í firðinum. Það þyrfti sem sagt ekki að stíga nein þessi skref, til þess að sama þjónusta gæti verið þar áfram. Og ef hæstv. ríkisstj. vildi ekki, að sú þjónusta væri úr þeim sömu geymum og hún hefur verið, þá hefði það eitt verið látið nægja að veita leyfi til geymabygginganna, en nota þau hafnarmannvirki og þær bryggjur, sem fyrir eru. Hæstv. ráðh. er að reyna hér að komast fram hjá aðalkjarna málsins, sem er raunar nýjar flotaframkvæmdir í Hvalfirði. Þarna er verið að draga athyglina frá því.

Það er sagt: Hér er aðeins verið að endurnýja gamla geyma. En það er alls ekki rétt. Meginkjarni málsins er raunar eins og ég hef leyft mér að draga fram.

Stjórninni er mjög illa trúað í sambandi við þetta mál, eins og vonlegt er, m.a. vegna reynslunnar af sjónvarpsmálinu. Þegar hæstv. ríkisstj, hafði leyft að stækka sjónvarpsstöðina, sem áður hafði verið gert að skilyrði, að væri mjög veik, til þess að hún næði ekki til Íslendinga, var því haldið fram hér á hv. Alþingi af hæstv. utanrrh., að með þessu yrði í raun og veru engin breyting, því að stöðin yrði eftir sem áður svo veik, að Íslendingar mundu ekki hafa gagn af henni. En nú er það upplýst, að þessar upplýsingar voru beinlínis rangar. Enn fremur var því blákalt haldið fram þá úr stjórnarherbúðunum, að varnarliðið gæti ekki haft sjónvarp hjá sér með veikari stöð en þeirri, sem nú væri ráðgerð. En það er líka upplýst nú, að þessar upplýsingar hæstv. ríkisstj. voru ranga, og þessar röngu upplýsingar voru gefnar meðan stjórnin var að koma því í framkvæmd, að varnarliðssjónvarpið gæti náð til manna hér á Suðvesturlandi. Stjórninni er mjög illa trúað í þessu tilliti, sem eðlilegt er. Og það er líka augljóst, að nú er hún að reyna að draga athyglina frá aðalatriði þessa máls, nokkuð hliðstætt því, sem þá var gert.

Hæstv. ráðh. sagði, að það mætti teljast merkilegt, að þeir, sem að meginstefnu vildu varnir eða vera í varnarsamtökum, skyldu vera ósamþykkir því að bæta við þessum framkvæmdum í Hvalfirði. En ég spyr: Hvers vegna hafa þá allar ríkisstj., sem setið hafa fram að þessu, synjað um flotaframkvæmdir í Hvalfirði? Hvers vegna hafa allar ríkisstj. frá stríðslokum og þ. á m. ríkisstj., sem hann hefur setið í, ekki viljað verða við óskum, sem fram hafa komið um flotaframkvæmdir í Hvalfirði, nýjar framkvæmdir, hvorki smáar né stórar? Það er vitanlega vegna þess, að ríkisstj. hafa fram að þessu talið óeðlilegt að verða við slíkum óskum, þótt ísland væri í Atlantshafsbandalaginu, alls ekki talið, að Íslandi bæri nein skylda til að leyfa slíkar framkvæmdir í Hvalfirði, þó að við værum í Atlantshafsbandalaginu og það væri líka óeðlilegt að leyfa þetta. Þessi hefur verið fram að þessu afstaða allra ríkisstj., sem um þessi efni hafa fjallað.

Það er vitanlega fjarstæða að halda því fram, að verunni í Atlantshafsbandalaginu fylgi skylda til að fallast á allt það, sem forráðamenn bandalagsins vilja gera á Íslandi, því að slíkt nær vitanlega engri átt og Íslendingar eru ekki einir um að hafa þann fyrirvara. T.d. hafa Norðmenn ekki viljað fallast á nándar nærri allar óskir, sem komið hafa fram úr höfuðbúðum Atlantshafsbandalagsins, ekki treyst sér til að fallast á þær sumar og telja þeir þó, að Atlantshafsbandalagið eigi rétt á sér og vilja vera þar.