05.02.1965
Sameinað þing: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

Stóriðjunefnd

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð til þess að skýra það, sem Framsfl. hefur framkvæmt í þessu máli, síðan það var síðast hér til umr. og í sambandi við þá nefndarskipun, sem rædd hefur verið.

Eins og hv. þm. er kunnugt, var útbýtt til þeirra nokkrum gögnum varðandi rannsóknir, sem átt höfðu sér stað í þessum málum, bæði varðandi virkjanir og hugsanlega alúminíumverksmiðju. Þetta var þm. afhent, ef ég man rétt, annaðhvort í byrjun desember eða seint í nóvember og þingflokkur framsóknarmanna gerði svofellda ályktun um þetta efni 7. des., sem send var í bréfi til hæstv. iðnmrh.:

„Á fundi í þingflokki framsóknarmanna í gær, 7. des., var gerð eftirfarandi samþykkt:“ — Ég skal taka það fram, að við vildum, að þetta kæmi fram strax þá frá okkur til hæstv. ríkisstj., áður en nokkuð frekar yrði afhafzt í þessum málum, en búið var að setja í þær skýrslur, sem þá lágu fyrir. — „Í tilefni af bréfi iðnmrh., dags. 23. nóv. s.l. og skýrslum og grg. þeim, er því fylgdu, tekur þingflokkur framsóknarmanna þetta fram:

1. Flokkurinn telur aðkallandi að hraða svo sem unnt er virkjunarframkvæmdum til að bæta úri rafmagnsskorti í landinu.

2. Flokkurinn telur rétt, að athugaðir séu í sambandi við stórvirkjun, möguleikar á því að koma upp alúminíumverksmiðju. Jafnframt leggur flokkurinn á það megináherzlu, að hann telur, að slíkri verksmiðju beri, ef til kemur, að velja stað með það fyrir augum, að starfsemi hennar stuðli að jafnvægi í byggð landsins.

3. Flokkurinn leggur til, að þingkjörin nefnd, sbr. þáltill. á þskj. 13, taki þessi mál til frekari athugunar og geri um þau tillögur, svo fljótt sem verða má.

Þetta tilkynnist yður hér með, hæstvirtur ráðherra.“

Í lok bréfsins er, eins og allir mega heyra, ítrekað það, sem oft áður hafði komið fram af hendi flokksins, að hann teldi eðlilegt, að þingkjörin nefnd yrði sett í þessi mál og vísað til þáltill. um þau efni.

Í janúarmánuði bað hæstv. iðnmrh. mig um að ræða við sig og erindi hans var að segja mér frá því, að ríkisstj. hefði í hyggju að stjórnskipa n. til þess að fjalla um þessi efni á mjög hliðstæðan hátt og stungið var upp á í þáltill. framsóknarmanna. Þetta ætti þó að vera stjórnskipuð nefnd. Ég sagði hæstv. ráðh. þá, að okkar stefna væri sú í málinu, að í því starfaði þingkjörin n., og þá með það fyrir augum, að við álítum eðlilegt, að allir þingflokkar gætu átt þar hlut að máli. Spurðist ég fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvort ekki væri hægt að fá fylgi stjórnarflokkanna við þá lausn, að sú till. gæti orðið samþ. eða önnur till. hliðstæð að efni um þingkjörna mþn. Hæstv. ráðh. sagði, að stjórnarflokkarnir mundu ekki fylgja því, að á þessu þingi yrði sett þingkjörin mþn. og þar af leiðandi mundu þeir ekki veita fylgi okkar þáltill. um þetta efni. Það væri því einungis um það að ræða, ef fram ætti að fara athugun á málinu, að það yrði í stjórnskipaðri nefnd og ósk ríkisstj. væri sú, að Framsfl. legði til tvo þm. í slíka nefnd með mjög hliðstæðu verksviði og gert var ráð fyrir, að mþn. hefði.

Við athuguðum þetta síðan í flokknum, og okkur fannst það vera í samræmi við tillögur okkar um þetta mál að taka þátt í slíkri nefnd, enda þótt við fengjum því ekki ráðið, að það yrði mþn. á þá lund, sem við höfðum gert uppástungu um. Þetta mótast af því, að við viljum, að þessi mál séu betur athuguð og skoðuð ofan í kjölinn, áður en afstaða verður tekin til þeirra. Höfum við oft lagt áherzlu á þetta hér áður og raunar vil ég enn taka fram, að ég tel það mikið tjón, að það hefur ekki verið efnt til mþn. um þetta mál fyrir æðilöngu.

Að íhuguðu öllu þessu varð niðurstaðan sú, að við svöruðum hæstv. ráðh. og ósk hans á þessa lund með bréfi, dags. 2. febr.:

„Með bréfi, dags. l. febr., mælizt þér til þess, að Framsfl. tilnefni af sinni hálfu tvo menn í stjórnskipaða nefnd til þess að athuga stóriðju- og virkjunarmál. Þingflokkur framsóknarmanna hefur ákveðið að verða við þessari ósk, þar sem upplýst er í viðræðum við yður, að stuðningur stjórnarflokkanna fæst ekki við þáltill. Framsfl. um þingkjörna mþn. í þessu máli, en kosningu slíkrar n, hefði flokkurinn talið heppilegasta meðferð á málinu.

Hefur þingflokkurinn samþykkt að tilnefna í nefndina alþm. Gísla Guðmundsson og Helga Bergs.“

Þetta ætla ég, að skýri alveg, hvað gerzt hefur af hendi Framsfl. í sambandi við þetta og í tengslum við það, sem hann hefur áður lagt til. Það leiðir af því, sem ég þegar hef sagt, að við erum samþykkir því, að fulltrúar allra flokka verði í þessari n. og mundum vilja styðja eindregið fyrir okkar leyti, að svo yrði.