05.02.1965
Sameinað þing: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2313 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

Stóriðjunefnd

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda neinum óskyldum málum inn í það, sem ég segi um þetta mál, en það er sannfæring mín, að málið lítur ljósast út, ef það er bara skoðað út af fyrir sig.

Hér eru þau vinnubrögð viðhöfð, að einn þingflokkurinn er talinn ósamstarfshæfur um eitt stærsta mál þjóðarinnar, sem Alþingi á um að fjalla, þegar þar að kemur. Og hann er talinn ósamstarfshæfur um undirbúning þessa máls. Ég hlýt að krefjast þess, að sá eða þeir herrar, sem hafa kveðið upp þann dóm um þingflokk Alþb., rökstyðji hann, færi fram skýr rök fyrir því, í hvaða máli þingflokkur Alþb. hefur brotið af sér svo stórlega gagnvart þingræðis- og lýðræðisvinnubrögðum, að hann sé dæmdur ósamstarfshæfur. Ef hæstv. forsrh. vill kveða upp þann dóm á eigin ábyrgð, þá geri hann það. Ef hæstv. samgmrh. vill gera það, þá geri hann það og rökstyðji sitt mál. En svona dómi er ekki hægt að una, nema skýr rök séu færð fram fyrir því, að þessi þingflokkur sé ósamstarfshæfur og þá leiðir fleira af því.

Þetta mál ber þannig að, að mér skilst, að hæstv. iðnmrh. hafi rætt við formann þingflokks Alþb. Til hvers var það samtal? Var það ekki til þess að gefa Alþb. kost á því að eiga menn í þessari hugsuðu nefnd? Formaður þingflokks Alþb. hefur litið þannig á, því að hann lagði málið í spurnarformi fyrir þingflokkinn og spurði, hver væri afstaða þingflokksins, hvort þingflokkurinn vildi, að við ættum þá aðstöðu að fylgjast með störfum þessarar n. og eiga þar fulltrúa, 1–2. Þingflokkurinn svaraði því játandi, og eftir það átti ég ekki von á öðru, en það kæmi tilkynning um það, ef n. væri skipuð, að þá ættum við þar fulltrúa. En svo birtist það í einu af stjórnarblöðunum, að lýðræðisflokkarnir skipi nú 7 manna nefnd til þess að fást við undirbúning þessa stórmáls og eftir að búið er að ræða við þingflokk Alþb., er þingflokkurinn hunzaður. Hefði þá ekki þögnin verði sæmri og að ganga fram hjá honum frá byrjun?

Fyrir okkur vakir ekki launung í málinu, sagði hæstv. forsrh. Hvað vakir þá fyrir þeim með útilokuninni? Ekki pukur. En einum þingflokki skal samt haldið utan við athugun og undirbúning málsins. Hvað annað? Segið þið það. Ekki launung. Ekki pukur. En hvað er það þá? Hvað er það þá, sem knýr ríkisstj. til þess að halda einum þingflokki utan við og brjóta þannig allar þingræðislegar reglur? Er það hræðsla kannske? Er það hræðsla? Og þá við hvað? Ég get ekki séð, að hér væri við neitt að vera hræddur, því að ef þátttakendur í Alþb. í slíkri undirbúningsnefnd beittu sér ofstækisfullt á móti öllum málsatriðum í athuguninni, kæmi það í ljós, þegar n. skýrði frá sínum störfum og ef þessi andstaða væri ekki byggð á neinum haldgóðum rökum, tefði þetta ekkert málið auðvitað.

Það er eðli og andi lýðræðisins að skoða mál frá öllum hliðum og leyfa minni hl. sem meiri hl. að fjalla um þau. Það fer því ákaflega illa á því, eins og að var víkið hér áðan, að kenna þennan verknað einmitt við lýðræðisflokkana.

Ég furða mig á því, að hæstv. forsrh. skuli stíga hér í stól og halda því fram sem meginrökum fyrir því, að Alþb.-mönnum sé haldið utan við þessa undirbúnings- og athugunarnefnd, að þeir hafi fyrir fram tekið afstöðu á móti málinu. í þingflokki Alþb. var það tekið fram, að auðvitað mundu fulltrúar bandalagsins taka málefnalega afstöðu til hvers atriðis í þessu starfi n., málefnalega afstöðu, hver sem endanlega niðurstaðan yrði í okkar þingflokki um afstöðu til málsins. Og auðvitað kemur ekki neitt annað til greina. Menn, sem taka hér þátt í störfum í þn., hafa auðvitað hinn fyllsta rétt og þingmannsskyldu til að taka málefnalega afstöðu til málsatriða og endanlegrar niðurstöðu máls og afstaða þeirra til niðurstöðu máls getur ekki mótazt, fyrr en búíð er að líta á hin einstöku málsatvik á athugunarstigi og framkvæmdastigi. Að halda annarri eins fásinnu fram og að við höfum brotið af okkur rétt þingflokksins til þess að eiga menn í athugunarnefnd, af því að það sé vitað um, að menn séu á móti þessum stóriðjuplönum, sem hér um ræðir, — ég veit, að þeir, sem segja þetta, finna það um leið og þeir segja það, að svona nokkuð tekur þjóðin ekki sem góð og gild rök og sér, að þarna er verið að fela eitthvað annað og hafa þetta að yfirvarpi og þetta er lélegt yfirvarp. Ég fullyrði það, að þátttakendur Alþb. í svona n. hefðu ekki umboð til neins annars frá þingflokknum heldur en taka málefnalega afstöðu til hvers málsatriðis, sem fyrir kæmi í starfi þessarar n. Á þeim grundvelli er ekki til minnsti flugufótur til þess að svipta okkur aðstöðu til starfa í nefndinni.

Þingflokkur Alþb. sem allir aðrir þingflokkar á skilyrðislausan rétt til þátttöku í þessari n., án alls tillits til þess, hver verða kynni endanleg afstaða þingflokksins til lokaafgreiðslu málsins, það fullyrði ég. Ég tel, að yfirvarpsrök hæstv. forsrh. hafi verið á þessa leið: Ef fulltrúi frá þingflokki er á móti endanlegri afgreiðslu máls, — sem engan veginn er heldur gefið á þessari stundu, — þá hefur hann ekkert að gera fí n. Andstæðingar hafa einmitt verulegu hlutverki og þýðingarmiklu hlutverki að gegna í n. og við athugun mála, að bera fram rök, sem kynnu að mæla á móti, og það er alveg eins nauðsynlegt og að borin séu fram rök, sem mæla með máli, til þess að heildarathugun fáist. Athugun eintómra jákvæðra, er auðvitað ekkert annað en yfirborðsathugun á máli og þetta er svo þýðingarmikið og stórt mál, að þarna veitir ekkert af, að það sé notuð aðstaða út í yztu æsar, til þess að málið sé á undirbúningsstigi skoðað frá öllum hliðum. Og þeir, sem vilja loka þá möguleika úti, að málið sé þannig skoðað, vilja eitthvað annað, en þeir segja um endanlega niðurstöðu þessa máls og þar er eitthvað óhreint í pokahorni. Það mun þjóðin seinna segja, að óhreinindi hafi verið í pokahorninu, ef menn vilja útiloka það, að alhliða skoðun fari fram. Hins vegar, ef fulltrúar Alþb. væru með hégóma einn og ofstækisfulla afstöðu, sem styddist ekki við rök, er ég alveg viss um það, að meiri hl. hefði þrótt til þess að hrista allt slíkt af sér og láta það ekki verða til tafar í málinu.

Dettur nokkrum manni í hug, að nokkur maður utan þings eða innan taki afstöðu til stóriðjumála á þann hátt, ef hann er spurður: Ertu á móti stóriðju? Það mundi enginn heilvita maður segja: Ég er á móti stóriðju. Er stóriðja alveg óþekkt fyrirbæri á Íslandi? Var ekki byrjað á stóriðju með togaraútgerðinni? Hefur það farið eftir flokkum, hvort menn voru með eða móti togaraútgerð? Eru ekki ríkisverksmiðjurnar stóriðja? Hefur það farið eftir flokkum? Nei. Er ekki verksmiðjan í Gufunesi stóriðjuvísir? Er ekki sementsverksmiðjan það? Hefur afstaða til þessara mála farið eftir flokkum? Alls ekki. Það verður ekki í afstöðunni til þessara mála fundinn grundvöllur undir þann fordæmingardóm, sem nú er ætlunin að kveða yfir þingflokki Alþb. Það verður að finna hann einhvers staðar annars staðar. Og þeir, sem kveða upp þennan dóm, eru ekki of góðir til þess. Þeir eru siðferðilega skyldir til þess að rökstyðja þennan dóm og segja með sanni, hvað veldur því, að þeir stíga það skref að útiloka þingflokk Alþb. frá þátttöku í starfi undirbúningsnefndar í stóriðjumálum.

Hitt getur vel verið, að skiptar verði skoðanir um, hvort það skref að reisa með erlendu fjármagni alúminíumverksmiðju á Íslandi, sem eigi að fá kannske helminginn af raforku frá stórorkuveri á raunverulegu framleiðsluverði, þegar engir aðrir landsmenn fái það og enginn annar atvinnurekstur í landinu fái það með slíku verði, — um það geta orðið skiptar skoðanir. En þær skoðanir verða að mótast við meðferð málsins og endanlega afstaðan verður að byggjast á því og hlýtur að gera það og þá m.a. á matinu á því, hvort ekki sé hyggilegra að líta sér nær og stíga einhver smærri skref, fara t.d. í það nauðsynlega skref fyrir sjávarútveginn að byggja upp dráttarbrautir, skipasmíðastöðvar, svo að við séum menn til þess að annast sjálfir viðhaldið á okkar skipaflota. Það eitt að byggja 10–12 slíkar stöðvar, sem gerðu okkur fært að annast viðhaldið á okkar flota og byggja upp einhvern hluta af honum, það væri nærtækt verkefni og mætti kallast stóriðja og ég efast um, að við réðum við miklu meira, meðan við værum að því. Þannig hrópa á okkur nærtæk verkefni í iðnaði og iðju og stóriðju, sem álitamál mikið getur verið, hvort eigi að þoka aftur fyrir annað. Og afstaða manna endanlega til stóriðjumála hlýtur að markast af því, hvað menn vilja láta ganga fyrir af því marga, sem við þurfum að gera, en höfum ekki afl til að gera.

Ég kallaði hér fram í áðan, þegar um það var rætt, hvort við hefðum gefið yfirlýsingu eða formaður okkar þingflokks hefði gefið yfirlýsingu um það, að við værum á móti þessu máli og yrðum það endanlega. Ég sagði: Hafi ráðh. spurt um þetta, þá er það áreiðanlegt, að hann hefur engan rétt til þess að spyrja um slíkt, hver yrði okkar endanlega afstaða, því að hún hlýtur, eins og ég sagði, að mótast af afstöðunni til hinna einstöku atriða málsins, sem blasa ekki nú við. Hefur Framsfl. verið spurður um þetta og hefur hann goldið þann inngangseyri fyrir að vera í n. að segja, lýsa því yfir: Ég er endanlega með málinu? Ef hann hefur ekki gert þetta, er ekki hægt að loka þingflokk Alþb. úti á þeim grundvelli, að hann neiti að gefa svona yfirlýsingu. Og spurningin er því: Eru þeir komnir inn í n., fulltrúar Framsfl., að gefinni svona yfirlýsingu um lokaafstöðu til málsins?

Auðvitað er það svívirða við þingflokk Alþb. að bera honum þau boð, að hann geti fengið skilaboð, hann geti fengið vitneskju frá einhverjum úr n. eða einhverjum úr ríkisstj. af því, sem sé að gerast eða hafi gerzt í n. Það er svívirða. Það lætur enginn þingflokkur bjóða sér það að fá þannig fréttir undan og ofan af, en mega ekki starfa í n. Slíka vitneskju um einstök atriði hefðum við ekkert með að gera. Á því gætum við ekki myndað okkur neina heildarskoðun um málið. Einungis með því að fylgjast með starfi undirbúningsn. og meta hvert einasta atriði fæst það, sem leyfir okkur að undirbyggja endanlega afstöðu okkar.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég þykist hafa sagt hér fá orð í fullri meiningu, sem mega skiljast, ef menn vilja skilja. Það er krafa Alþb., að hér verði leiðrétting á gerð með einhverju móti á þann veg, að Alþb. fái fulltrúa að þingræðislegum rétti sínum og venjum í þessari n., annaðhvort með því að eiga 2 af 7 eða 2 af 9 mönnum, svo að þeir geti fengið að vera, sem þar eru, en Alþb. fái 2 menn í nefndina.