05.02.1965
Sameinað þing: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

Stóriðjunefnd

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er rétt, að það komi fram, að hæstv. iðnmrh. boðaði þegar í gær forföll sökum slæms kvefs, sem hann er með. En hann hefur í morgun talað við formann Alþb., tjáði honum þá lasleika sinn og jafnframt, að hann harmaði það út af fyrir sig, að fregn hefði komið af þessu máli, áður en þeirra samtal hefði átt sér stað, svo sem hann ætlaði, um það, með hverjum hætti væri hægt að koma því við, að Alþb. fengi að fylgjast með því, sem gerðist í þessu máli.

Ég ítreka það, að það hefur aldrei verið ætlun hans né ríkisstj. að halda neinum upplýsingum í málinu fyrir Alþb. Hitt er svo annað mál, að það ríkir mjög mikill misskilningur hjá hv. Alþb.-mönnum á því, hvað gerzt hefur og til hvers þessi nefndarskipun er. Hér er vitanlega ekki um þn. að ræða, heldur að ríkisstj. hefur fengið sér til ráðuneytis aðila til undirbúnings tillögugerð fyrir Alþingi. Og það er ljóst, að áður en þessu máli verður ráðið til lykta, hlýtur Alþingi með venjulegum þinglegum hætti að taka tvær mikilsverðar ákvarðanir, annars vegar um, hvort ráðizt skuli í stórvirkjun, væntanlega við Búrfell og í öðru lagi, hvort samning eigi að gera við erlendan aðila um byggingu alúminíumverksmiðju. Þessi atriði eru auðvitað tengd hvert öðru, en mundu vafalaust koma fyrir Alþingi sitt í hverju lagi. Og að undirbúningi málsins er raunar unníð með mismunandi hætti.

Hv. 3. þm. Reykv, skýrði frá því, að hann hefur af hálfu ríkisstj. verið fenginn til athugunar ásamt fleirum á virkjun í Þjórsá og hugmyndum um landsvirkjun. Hann segir að vísu, að ekki hafi verið lengi haldinn fundur í þeirri n. En vitanlega verður engin ákvörðun tekin um landsvirkjun eða virkjun í Þjórsá, nema málið komi fyrir þessa n. og málið komi fyrir Sogsvirkjunarstjórn, ef Sogið, eins og ráðgert hefur verið, yrði aðili að virkjuninni og síðan verði málið tekið upp á Alþingi með þinglegum hætti, fái hér löglega meðferð og þn. athugi málið.

Segja má, að það, sem hér er um að ræða nú, sé sams konar athugun á hugsanlegri alúminíumverksmiðju og n., sem hv. 3. þm. Reykv. er í, á að framkvæma á landsvirkjun eða stórvirkjun. Og þá sjá það auðvitað allir menn, að það er með öllu óeðlilegt, að sams konar aðild eigi þeir að undirbúningi ákvörðunar um þetta mál, sem fyrir fram hafa lýst því yfir, að þeir séu algerlega á móti málinu, eins og hinir, sem segja: , Ég er ekki búinn að taka ákvörðun. Ég get hugsað mér að verða með málinu.“ Menn geta haft mismunandi ríka tilhneigingu til þess að vera með málinu eða á móti, en þeir segja: Ég hef opinn hug. Ég er ekki búinn að komast að niðurstöðu.“

Nú höfðum við talið, með réttu eða röngu, að Alþb. væri búið að taka sína ákvörðun. Við höfðum skilið það m.a. af daglegum skrifum Þjóðviljans að undanförnu og ég verð að segja, að ég held, að engum hafi blandazt hugur um það, sem hlustaði á hv. 3. þm. Reykv., að hann var búinn að taka ákvörðun, og hann talaði ekki fyrir sig einan, heldur fyrir allan sinn flokk. Hitt er svo annað mál, að hv. 5. þm. Austf. er dálítið loðnari í máli, eins og stundum hefur átt sér stað áður og hv. 5. þm. Vestf. segir, að þeir séu alls ekki búnir að taka ákvörðun, nei, alls ekki. Já, í mörgu er nú Alþb. klofið.

Þarna höfum við m.a. mjög ólíkan vitnisburð frá þremur talsmönnum í þessu stórmáli nú á þessum fundi. Ég vil ekki segja, hvern af þessum þremur heiðursmönnum ég met mest og skal þess vegna ekkert gera upp á milli, hver sannast segir af þeim. En ef taka á mark á hv. 5. þm. Vestf., — ég hugsa, að hann vilji láta taka mest mark á sér, en lítið mark á hv. 3. þm. Reykv., — þá væri eðlilegt að taka þetta mál upp til endurskoðunar: En ef ég á að taka mark á hv. 3. þm. Reykv., er mjög erfitt að taka málið upp til endurskoðunar. Ég held, að menn hafi tekið sér tíma til umhugsunar, þegar um minna vafamál hefur verið að ræða en þetta.

Við hljótum allir að vera sammála um, að það er þýðingarlaust, bæði fyrir andstæðinga málsins og fyrir meðhaldsmenn málsins og fyrir þá sem opinn hug hafa í málinu; að vera að eyða löngum tíma í bollaleggingar um það við menn, sem eru fyrir fram ákveðnir undir öllum kringumstæðum að vera á móti málinu. Það er alveg á sama hátt og ég sagði, að þegar kominn er slíkur skilsmunur fram í þn., klofnar þn. og hver hluti hefur sína sérstöku fundi. Það breytir ekki því, að hvor nefndarhluti á þinglegan rétt á því að fá vissar upplýsingar, líka sá hluti n., sem er á móti máli. Og ég ítreka það hér, að það hefur aldrei komið til álita að halda neinum upplýsingum, er máli skiptu, fyrir neinum þingflokki. Þingflokkum hefur verið gefin skýrsla um þessi mál og hæstv. iðnmrh. talaði einmitt um það á ríkisstjórnarfundi í gær, að hann mundi einhvern næstu daga gefa þinginu nýja skýrslu um málið, svo að tal um launung í þessu sambandi er gersamlega ástæðulaust. Og tal um það, að það sé verið að taka þinglegan rétt af Alþb., er þegar af þeirri ástæðu fjarstætt, að málið er ekki enn þá komið inn í þingið. Það má í raun og veru miklu frekar segja, að ríkisstj. hafi fengið menn til þess að vinna ákveðið verk fyrir sig að undirbúningi stjórnarfrv. Nú veit ég að vísu, að þessir mætu Alþb.-menn hafa mikið dálæti á ríkisstj., en að þeir vilji endilega komast í þann hóp að verða taldir hennar sérfræðingar, hef ég ekki haft hugmynd um, að þeir væru svo áfjáðir, fyrr en þá nú.

Hv. Framsfl. hefur metið það svo, að afstaða hans í málinu væri slík, að hann teldi eðlilegt að taka upp þetta samstarf við stjórnina. En hann segir: Það er vegna þess; að hann er ekki búinn að gera upp sinn hug. Hv. 5. þm. Vestf. segir raunar það sama: Ég er ekki búinn að gera upp minn hug. Alþb. er ekki búið að gera upp sinn hug. — Hv. 3. þm. Reykv, kemur aftur og segir: Það er smáræði, okkar barátta gegn hernáminu, — sem hann svo kallar, — gegn þeim ósköpum, sem hér eiga að ske. Það er aðeins lítill forsmekkur af okkar baráttu, sem þið hafið séð, á móti þeirri baráttu, sem við ætlum að hefja á móti þessu máli. — Nú skal ég að játa það, að þegar þeir voru í ríkisstj., hv. 5. þm. Austf. og hv. 5. þm. Vestf., voru þeir ekkert ákaflega æstir á móti hernáminu og meira að segja gerðu nýjan samning um að halda því við, svo að það getur vel verið, að þeir yrðu dálitið meðgjörlegri í málinu, líka í þessu, heldur en hv. 3. þm. Reykv. En hans yfirlýsingar eru þarna alveg ljósar. Þær eru alveg ljósar. Og það er mjög eðlilegt, að ríkisstj. hugsi sig vel um, áður en hún taki þá menn til þess að að undirbúa þetta mál af sinni hálfu, sem hafa sömu afstöðu í málinu og hv. 3. þm. Reykv. hefur og okkur hingað til hefur skilizt, að a.m.k. hv. 5. þm. Austf. hefði, hvað sem hv. 5. þm. Vestf. líður.

Alþb. á ekki frekari þinglegan rétt að því að koma að undirbúningi þessa máls á þessu stigi, en hverju öðru máli, sem ríkisstj. er með til athugunar og hyggst e.t.v. munu leggja fyrir Alþingi. Ríkisstj. hefur ekki tekið ákvörðun um að leggja málið fyrir Alþingi í frv.- formi. Það er hugsanlegt, að hún geri það, en þannig er um ótalmörg mál, og það á enginn, allra sízt andstöðuflokkur, rétt á því, meðan mál er til slíkrar athugunar hjá ríkisstj., að það sé komið til hans og leitað fyrir fram samstarfs við hann um málið. Það fer vitanlega algerlega eftir mati stjórnarinnar á öllum aðstæðum, hvort hún telur það vera sjálfri sér og sínum áhugamálum til styrktar að leita slíkrar samvinnu við andstöðuflokka stjórnarinnar.

Það Iiggur alveg ljóst fyrir, af hverju leitað hefur verið til Framsfl. Það liggur alveg ljóst fyrir; að það var talað við hv. 5. þm. Austf., formann þingflokks Alþb. og að eftir að þeir höfðu skipzt á skoðunum, hæstv. iðnmrh. og hann, virtist okkur sú skoðun hafa komið fram hjá hv. 5. þm. Austf., að það væri þýðingarlaust að ætla að hafa við hann eða hans flokk samvinnu við undirbúning málsins. Ef hann hefði lýst því yfir: Okkar hugur er algerlega opinn í málinu, við höfum enga ákvörðun tekið, — þá hefði málið horft öðruvísi við af hálfu ríkisstj. En slík yfirlýsing kom a.m.k. ekki fram við hæstv. iðnmrh. og ég hef þrátt fyrir nokkra loðnu hjá hv. þm. nú ekki heyrt hann gefa þá yfirlýsingu af hálfu Alþb., svo að ég verð að ætla, að hv. 5. þm. Vestf. hafi frekar talað fyrir sjálfan sig, heldur en fyrir þingflokkinn í heild.

Það er svo allt annað mál, hvort menn á sínum tíma verða með eða móti stórvirkjun.

Eins og ég segi, við erum margir, sem teljum, að stórvirkjun og hugsanleg alúminíumverksmiðja hér með erlendu fjármagni muni verða til góðs fyrir landið og að þessu beri að keppa, svo framarlega sem viðunandi skilmálar fást. Og við teljum benda svo miklar líkur til þess, að þeir muni fást, að það sé sjálfsagt að kanna málið ofan í kjölinn. Margir okkar líta þannig á málið. Ýmsir segja: Okkur er málið of óljóst, til þess að við viljum nokkuð um það segja á þessu stigi, en við erum a.m.k. ekki fyrir fram á móti.

Hingað til hefur Alþb. viljað láta mun ætla, að það væri fyrir fram algerlega á móti málinu. Og til hvers vill það þá komast í þessa n.? Getur tilgangurinn verið annar, en sá að reyna að drepa málinu á dreif, draga það, hindra með öllum líklegum ráðum, að málið fái framgang? Ég spyr hv. 3. þm. Reykv.: Er það ekki einmitt hans ósk og von, að þetta takist? Var það ekki vegna þess, að hann hafði trú á því, að það væri hægt að drepa málinu á dreif með smávirkjunum, sem gerð voru boð eftir tilteknum verkfræðingi hér í bænum austur til Moskvu í haust og málið þar tekið til athugunar á þann veg, hvort hugsanlegt væri, að Rússar með einhverju móti fengjust til þess að greiða fyrir smávirkjunum og gera þær líklegri í augum Íslendinga, heldur en þessa stórvirkjun, sem í huga hv. þm. er tengd við alúminíumverksmiðju og við heyrðum nú, að hann telur, að með öllu móti beri að gera tortryggilega í því skyni að hindra skjóta ákvörðun?

Málið mun undir öllum kringumstæðum verða lagt fyrir Alþingi, ef og þegar þar að kemur, með þinglegum hætti. Og enginn flokkur þarf að óttast eða kvíða því, að hann verði sviptur þinglegum eða lýðræðislegum rétti. Og ég fullvissa hv. Alþb.-menn um, að þeir skulu fá allar efnisupplýsingar á málinu, eftir því sem stjórnin telur rétt vera og tímabært. Hitt, að þeir geti með hótunum eða svigurmælum fengið ríkisstj. til þess að hafa annan hátt á undirbúningi mála fyrir þing, kemur auðvitað ekki til mála. Þeir geta espað sig hér upp eins og þeir vilja, hótað að tefja þingstörf og framgang annarra mála og sagt, að annað meira muni á eftir fylgja, ef ekki verði að þeirra kröfum farið. Ég fullvissa þá um það, að slíkt orðbragð hefur engin áhrif. Þetta mál mun verða metið eftir efnislegum rökum. Ef menn sannfærast um, að það sé verulegur hluti Alþb., sem enn hafi raunverulega opinn hug í málinu og sé fús til efnislegra viðræðna, þá er eðlilegt, að það hafi áhrif á undirbúning málsins. En að svo miklu leyti sem rök hníga að því, að þeir séu raunverulega búnir að taka sína ákvörðun og m.a. þessar umr. hér séu einungis upphaf að þeirri gífurlegu andstöðu, sem hv. 3. þm. Reykv. boðaði, sýnir það einungis glögglega, að það er gersamlega þýðingarlaust að ætla að láta þá vera með í að undirbúa tillögugerð í málinu. Á hinu eiga þeir svo skilyrðislausan rétt, að málið verði undir þá borið á þinglegan hátt, þegar ríkisstj. hefur til sínar tillögur.