05.02.1965
Sameinað þing: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2321 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

Stóriðjunefnd

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. spurði, til hvers við vildum vera með í n. Til þess að reyna að opna augun á þeim stjórnarsinnum og þeim tilvonandi stjórnarsinnum, framsóknarmönnum, fyrir því, hvað þeir eru að gera í þessu, vegna þess að það, sem við þekkjum af undirbúningnum í þessu sambandi nú þegar, er þannig, að það er einhliða áróður, sem rekinn er og plögg aðeins frá annarri hlið, sem lögð eru fyrir allar nefndirnar, líka landsvirkjunarnefnd. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. forsrh. að vera að reyna að breiða neitt yfir þetta. Ríkisstj. er búin að taka sína ákvörðun í þessu máli, það er greinilegt. Það, sem ríkisstj, vill gera með þeim undirbúningi, sem nú á að fara fram, er ekki að athuga málið frá báðum hliðum um, hvort virkja skuli t.d. við Búrfell og hvort komið skuli upp alúminíumverksmiðju, heldur skuli aðeins athuga málið frá annarri hliðinni og útbúa áróðursplögg, í sambandi við það. Það á að athuga málið einhliða, en ekki frá báðum hliðum og það er sú málsmeðferð, sem við erum á móti. Við álítum, að frá upphafi eigi að athuga þetta mál frá báðum hliðum og þess vegna eigum við að vera með í þessari nefnd. Ef ríkisstj. væri ekki búin að ákveða sig í þessu máli, mundi hún ekkert hafa við það að athuga, að við værum í svona nefnd, en af því að ríkisstj. er búin að taka ákvörðun í þessu máli og ætlar að útvega sér almennileg áróðursplögg og véla Framsfl. inn í þetta samsæri með sér, vill hún einvörðungu fá Framsókn þarna inn og ekki okkur.

Hæstv. samgmrh. sagði hér nokkur orð út af því, sem ég hafði sagt og kom með nokkrar spurningar um leið til mín og aths. Hann sagði, að sérfræðingar, verkfræðingar, hefðu lagt fram sín plögg og þau hefðu verið send til þm. í þeim leyniskjölum, sem þeir hafa fengið. Þessi plögg sýna undireins, hvernig á að undirbúa þetta mál. Hæstv. samgmrh. veit það ósköp vel, að þessi plögg eru aðeins frá annarri hlið. Það eru aðeins plögg frá þeim verkfræðingum, sem eru með virkjuninni og reynt að drepa á dreif öllum aths., sem fram hafa komið. Það liggur fyrir nú þegar álit frá einum helzta sérfræðingi Íslands viðvíkjandi Búrfellsvirkjuninni, frá Sigurði Thoroddsen verkfræðingi. Þau plögg fá ekki að koma fram. Það liggja fyrir rannsóknir nú þegar frá sérfræðingum Sameinuðu þjóðanna, líka við Búrfell. Þau plögg fá ekki að koma fram. Og ég býst við, að það eigi að sjá um að skipa þessa n., sem ríkisstj. talar um, þannig að þessi plögg fái ekki að koma fram og það, sem gerir það að verkum, að við viljum vera með í þessari nefnd, er að koma með kröfurnar um það, að plöggin frá hinni hliðinni fái líka að koma fram.

Hæstv. samgmrh. sagði, að vafalaust ættum við að virkja okkar jökulvötn í framtíðinni. Jú, vissulega eigum við að virkja okkar jökulvötn. En við eigum að undirbúa þá virkjun þannig, að við séum öruggir með, að þær virkjanir verði heppilegar fyrir okkur, en ekki dýrustu og ópraktískustu virkjanirnar, sem hægt er. Það er algerlega rangt hjá honum, að við höfum nokkurt öryggi í þessum málum enn þá, þótt við komum upp allmörgum varastöðvum og rekum þær með dísilvélahreyflum. Það er gefið mál, að svo framarlega sem við þurfum að reka samfleytt vikum saman, þegar lagt er saman yfir árið, slíkar varastöðvar þannig, þá er rafmagnsframleiðslan orðin dýrari, en hún mundi vera í sumum bergánum okkar núna.

Það er ekki til neins heldur fyrir hæstv. samgmrh. að vera að segja það, að okkur liggi svo mikið á í þessu efni, að við getum ekki beðið. Við höfum bergár enn þá, sem við getum lagt í og við höfum, að því er hæstv. forsrh. sagði, látið að því liggja, að við höfum verið á móti stórvirkjun, við höfum meira að segja Laxá á Norðurlandi, jafnódýra virkjun og Búrfell með 9 þús. kw., sem við getum virkjað. Við getum komið með stórvirkjun nú þegar í bergá, þannig að það þýðir ekkert að fara að sletta neinu slíku fram, en þora svo hins vegar ekki að láta þær nefndir starfa, sem eiga að vinna að þessu, vegna þess að það er verið að drepa niður, að það komi fram upplýsingar í þessu máli, af því að þær eru óþægilegar fyrir þá agenta, sem vilja eindregið, hvað sem það kostar og hve dýrt sem það kann að verða þjóðinni, koma upp útlendu auðvaldi hérna suður í Straumsvík.

Þarna er þess vegna um hreina vitleysu að ræða. Við getum alveg hreint ráðizt í okkar raforkuvirkjanir. Við getum líka ráðizt í stórvirkjanir. Við getum líka komið upp stóriðju og ráðizt í það strax á grundvelli þeirra virkjana, sem nú þegar eru mögulegar í okkar bergám. Þetta liggur fyrir. En það er bara reynt að stinga þessu undir stól, líka í þeim nefndum, sem þegar hafa verið skipaðar.

Hæstv. samgmrh. fór svo að tala um, að Norðmenn hefðu hleypt inn útlendu auðvaldi. Hvert mundi verða hlutfallið? Ég þori ekki að segja það alveg nákvæmlega hérna, en mér er nær að halda, að af öllum auð Noregs muni það útlenda auðvald varla eiga yfir 5%. En hvað mundi alúminíumhringurinn eiga mikið af því fjármagni, sem fest væri í atvinnufyrirtækjum á Íslandi? Við vitum það allir, að það er ekki bara talað um þessar 1100 millj., sem 30 þús. tonna verksmiðjan kostar. Það er talað um að auka það rétt strax, þrefalda það, vegna þess að 100 tonna alúminíumverksmiðja er meðallagið, sem þarf í Evrópu nú, þannig að það mundi kosta yfir 3.000 millj. kr., það fyrirtæki, sem þarna væri komið upp. Þið vitið það náttúrlega allir, að við Íslendingar getum hvenær sem er þjóðnýtt þetta fyrirtæki. Það er ekkert, sem bannar Alþingi Íslendinga það. Það er Alþingi Íslendinga, sem ræður lögum hér, en ekki útlendur alúminíumhringur.

En erlendur aðili, sem á 3.000 millj. kr. og meira til í íslenzku atvinnulífi, gerir sínar ráðstafanir til þess að eiga ekki neitt slíkt á hættu. Og hverjar eru þær ráðstafanir? Þær ráðstafanir eru að ná þeim tökum á stjórnmálaflokkum á Íslandi með ýmsum ráðum, að það verði ekki gerðar slíkar samþykktir. Þær ráðstafanir eru að kosta t.d. íslenzk blöð og hafa slík ítök þannig í stjórnmálalífi á Íslandi, að hann eigi ekki á hættu, að menn fari að komast á þá skoðun, að það eigi að þjóðnýta svona fyrirtæki. M.ö.o.: það er verið að bjóða upp á að fá voldugan auðhring inn í landið, sem skellir sér á bak við tjöldin inn í íslenzk stjórnmál, reynir að „fínansera“ íslenzka stjórnmálaflokka, reynir að ná tökum á þeim til þess að koma í veg fyrir, að seinna meir sé kannske farið að þjóðnýta eignir hans og annað slíkt, ósköp eðlilegt frá hans hálfu. En þeir flokkar, sem æskja eftir að fá slíkt inn, gera sér þá e.t.v. einhverjar vonir um að verða fyrir náðinni á eftir.

Við skulum alveg horfast í augu við, hvað þarna er að gerast. Við höfum kynnzt því á öðrum sviðum líka. Við munum jafnvel þá tíma, þegar sérstakir passar voru gefnir út, til þess að atvinnulausir Íslendingar gætu komizt inn á Keflavíkurflugvöll og hvaða stjórnmálaflokkar stóðu að því að gefa þá passa út, til þess að veita mönnum atvinnu, þegar lá við skorti úti um allt land, þannig að það er bezt fyrir menn að tala ósköp varlega. Við höfum náttúrlega reynslu í þessum efnum hér á Íslandi, og við vitum, að Straumsvík og Keflavík eru ekki langt hvor frá annarri.

Hæstv. samgmrh. fór að tala um, hvernig íslenzk verkalýðshreyfing gæti verið á móti þessu. Af hverju svaraði hann engu af mínum spurningum? Á að semja um það að gefa svona hring svo að segja exterritorial-rétt á Íslandi? Á að semja um það eða ekki? Því þorir hann ekki að svara? Á að semja um, að hann sé laus við þá venjulegu skatta, sem íslenzkir atvinnurekendur verða að bera, fyrir utan að fá lágt rafmagnsverð og allir Íslendingar verði að borga hærra rafmagnsverð þess vegna? Af hverju þorir hann ekki að svara? Á þá líka að semja við hann um það, að hann sé undanþeginn íslenzkri vinnulöggjöf? Hann getur svarað strax. Hann er varkár, vegna þess að hann veit, að hvert orð, sem hann mundi nota núna, mundi verða notað á móti honum seinna. Það er óþægilegt að binda sig, af því að megnið af hv. þm., er ég hræddur um, sé ekki farið að hugsa það langt, að þeir skilji, hvað við liggur í sambandi við þetta. Það var fyrir réttum 20 árum farið fram á að fá 3 afgirt svæði á Íslandi, Keflavíkurflugvöll, Skerjafjörð og Hvalfjörð, fyrir amerískt yfirráðasvæði í 99 ár, sem ekki átti að heyra undir íslenzka lögsögu. Ég er hræddur um, að það, sem vakir fyrir í sambandi við þennan alúminíumhring, sé að skapa sérstakt svæði á Íslandi, sem heyri ekki undir venjulega íslenzka lögsögu. Og ef enginn ráðh. þorir að gefa þá yfirlýsingu hér í dag, að það sé ekki meiningin að undanþiggja þennan hring undan íslenzkum sköttum, undan samningum milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda á Íslandi, þá er ég hræddur um, að það þýði, að þeir vilji hafa opna leið til þess að gera slíkt. Og ég sé, að þeir eru orðnir mjög varkárir strax. En við vitum fyrir fram, hver meiningin er í þessu, því að við höfum dálitla hugmynd um, hvernig svona samningar eru víða erlendis, einmitt við svona smáþjóðir eins og okkur. Ég veit ósköp vel, að þessi alúminíumhringur leyfir sér það ekki gagnvart Norðmönnum, sem hann nú þegar í því plaggi, sem við höfum, er farinn að fara fram á við Íslendinga. Hann leyfir sér það ekki. Nei, hann stendur þar suður í Sviss, talar við Norðmenn annars vegar, Íslendinga hins vegar og pressar báða á víxl. Það er það, sem er að gerast í dag. Og þeir menn hér á Íslandi, sem eru svona æstir í að fá þennan hring hingað, eru að hjálpa honum til þess að pressa á þennan máta. Og siðan verður haldið áfram að segja við þessa aðila, sem nú á að fá svona áfjáða í að fá þennan útlenda hring hér inn: Það fer til Noregs, ef þið látið ekki undan með þetta. — Svona á að pressa og pressa á víxl.

Ég er ákaflega hræddur um, að meginið af hv. þm. geri sér enn þá ekki ljóst, inn í hvað þeir eru að fara með þessu. Þeir munu kannske gera það á eftir, þegar þeir eru búnir að láta hafa sig til þess að koma þessu í gegn. En þá er það of seint. Það er núna, sem á að athuga þetta mál. Við vitum það ósköp vel, — það þýðir ekkert að vera með þær yfirlýsingar, sem hæstv. forsrh. var með, — að þegar búið er að athuga þetta mál í þessari n., þá er búið að taka ákvörðunina og síðan er það mál pínt í gegnum þingið. Og af hverju er Framsókn tekin inn í það? Hún er tekin inn í það vegna þess, að þingmeirihl. stjórnarflokkanna hefði ekki dugað, ef Framsfl. hefði staðið á móti þessu máli. Þá hefðu þeir fyrir norðan farið að hreyfa sig, af því að það er vitað mál, að þetta verður hér syðra og það hefði ekki verið hægt að koma málinu í gegn. Þess vegna er unnið að þessum málum á þennan hátt, sem gert er. Þess vegna var það núna, þegar þessi nefnd er sett, þegar samsærið er bruggað um þetta, að tækifærið var, ef það væru einhverjir menn innan stjórnarflokkanna enn þá, sem væru ekki búnir að taka ákvörðun um að gera þetta, hvað sem það kostar, — þá var tækifærið núna til þess, að við ræddum sameiginlega um þessi mál í þessari n. og við, sem værum á móti þessum yfirráðum útlenda auðvaldsins hér, hefðum tækifæri til þess að vara ykkur hina við, sem anið út í þetta eins og blindir kettlingar.

Og svo að síðustu ætla ég aðeins að koma með eina yfirlýsingu fyrir hönd Framsfl. Mér skilst það, að fyrst menn, sem eru á móti því að koma upp alúminíumverksmiðju í Straumsvík, eiga ekki að fá að vera með í þessari n., þá sé Framsfl. hér með búinn að gefa út yfirlýsingu um það, að hann standi með því, að í Straumsvík verði komið upp alúminíumverksmiðju með virkjun úr Búrfelli. Og ég vil um leið óska Framsfl. til hamingju með hans miklu og voldugu og heilögu baráttu fyrir dreifbýlinu á Íslandi, þegar hann stuðlar að því að fá upp nýjan Keflavíkurflugvöll hérna rétt fyrir sunnan Hafnarfjörð og stofnar til þess, að atvinnuleysingjarnir á Norðurlandi og Vestfjörðum fari í ríkara mæli að streyma hingað suður á næstu árum í vinnuna við það afmarkaða landssvæði, sem verður utan við íslenzka lögsögu suður í Straumsvík. Þetta er þá baráttan fyrir dreifbýlinu. Og ef Framsfl. er ekki með sjálfum sér, heldur bara á yfirborðinu búinn að taka þá ákvörðun að vera með alúminíumverksmiðju í Straumsvík, þá er bezt, að hann gefi yfirlýsingu um það nú þegar, — ef það eru einhverjar vomur á honum enn þá, ef hann er ekki búinn að selja sig gersamlega í þessu máli. Ég hef fylgzt með því hérna í þinginu, hvernig agnið hefur sigið lengra og lengra niður í kok Framsfl. Því var kastað út til hv. 3. þm. Norðurl. e., Gísla Guðmundssonar, með því, að það var látið í ljós, að það yrði dálítill spotti úr Búrfellsvirkjun og norður og e.t.v. gæti það komið til mála, að alúminíumverksmiðjan yrði reist við Eyjafjörð og að mín blómlega ættarbyggð ætti að fá þá blessun að láta drepa allan kvikfénaðinn í nánd hennar, eins og alls staðar hlýzt nú af, þar sem alúminíumverksmiðja kemur upp og hélt ég nú, að eyfirzkir bændur kærðu sig ekki um að lifa eins og þeir norsku bændur, sem lifa næst alúminíumverksmiðjunni á kinda- og kúalausu búi með styrk frá alúminíumverksmiðjunni, af því að búið sé að eitra þannig í kring, að kvikfénaður geti ekki þrifizt þar. En þessum litla, fallega spotta með þessari dásamlegu beitu á var kastað til Gísla Guðmundssonar í fyrra og hann gleypti við og Framsfl. svelgdi þetta og nú er fiskurinn dreginn inn á önglinum og þessi n. er komin.

Því gaf ég þessa yfirlýsingu hér fyrir hönd Framsfl., að hann væri með alúminíumverksmiðju í Straumsvík, vegna þess að það þyrfti að flýta fyrir að eyða dreifbýlinu og það væri kannske um leið hægt að spilla fyrir sjávarútvegi við Faxaflóa.

Ef Framsfl. er á annarri skoðun og vill lýsa því yfir nú, að þetta hafi verið alger misskilningur hjá mér og hann sé algerlega á móti því að koma upp alúminíumverksmiðju í Straumsvík, þá hefur hann tækifæri til þess að gera það.