05.02.1965
Sameinað þing: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

Stóriðjunefnd

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki halda ræðu, því að ég þykist skynja, að það muni vera áhugamál að ljúka þessum umr. utan dagskrár á þessum fundi. En ég get ekki varizt því, að í mínum augum eru þessar umr., sem fara fram á milli stjórnarliðsins og Alþb., dálítið kímilegar, þegar tillit er tekið til þess, sem hér gerðist rétt fyrir þinghléið, þegar hátíðlegar yfirlýsingar voru gefnar af sumum, sem hér eiga hlut að máli, um lýðræðislega nauðsyn þess, að allir flokkar væru með í athugun allra mála og ýmsar ráðstafanir voru gerðar, sem sumum komu dálítið einkennilega fyrir, til þess að, að því er sagt var, að tryggja slíkt. Þetta er því allt saman dálítið kátbroslegt í augum sumra.

Ég vildi aðeins segja það, sem er þó raunar alveg óþarfi að taka fram, að Framsfl, er að sjálfsögðu alveg óbundinn í stóriðju- og stórvirkjunarmálinu og hefur lagt til menn í þessa n. til að greiða fyrir því, að hægt væri að komast að niðurstöðu um, hver afstaða manna verði í því máli og flokkurinn hefur enga yfirlýsingu varðandi þetta mál gefið aðra en þá, sem kemur fram í bréfi flokksins til ráðh, frá 7. des. og ég las hér áðan fyrir hv. þm.