05.02.1965
Sameinað þing: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

Stóriðjunefnd

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er nú mjög vaxandi gengi stjórnarinnar, þegar þeir keppast jafnákaft um að komast í okkar þjónustu, hv. stjórnarandstæðingar, eins og þessar umr. bera vitni um, því að hér er, eins og margoft hefur verið tekið fram, eingöngu um það að ræða að vinna ákveðið verk fyrir ríkisstj., sem síðan kemur með lögformlegum hætti undir ákvörðun hv. Alþingis.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta. Málið liggur alveg ljóst fyrir. En ég vil einungis leiðrétta það — og þess vegna kvaddi ég mér hljóðs — hjá hv. 5. þm. Vestf., að þess hefur aldrei verið krafizt, að menn lýstu fyrir fram stuðningi við málið og það gert að skilyrði þess að komast í þessa n. Ákvörðun ríkisstj. byggist á hinu, að menn hefðu opinn hug í málinu og væru ekki búnir að taka ákvörðun. Og það er alveg ótvírætt og hefur hér komið fram af málflutningi hv. 3. þm. Reykv., eins og ég hef áður vitnað til, að af hálfu Alþb. hefur hingað til verið talað um málið á þann veg. (HV: Afstaða þingflokksins er ókunn.)