19.12.1964
Efri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2331 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að biðja um orðið utan dagskrár til þess að bera fram fsp. til hæstv. ríkisstj. varðandi þann mikla vanda, sem Stofnlánadeild landbúnaðarins virðist nú eiga við að stríða. Þessa fsp. ætlaði ég raunar að bera fram í gær, en hætti við það, vegna þess að hæstv. landbrh. hafði ekki ástæðu til að mæta á þingfundi að sögn hæstv. forseta deildarinnar.

Menn hafa átt því að venjast, að stofnlánasjóðir landbúnaðarins eða stofnlánadeildin, sem við tók af þeim, lyki afgreiðslu lána nokkru fyrir jól og ég minnist þess oft og einatt, að ég hef farið heim af þingi fyrir jólin um þetta leyti og þá verið búið að afgreiða öll þau lán, sem ég hef haft umboð fyrir.

Nú er ástandið hins vegar þannig, að aðeins eru afgreidd lægstu lánin, en hin látin bíða afgreiðslu, jafnvel þótt þar sé um að ræða lán, sem bankinn var búinn að lofa skriflega að veita á þessu ári. Á það má einnig minna í þessu sambandi, að bankinn tók upp þá nýbreytni í ár að krefjast þess, að allar lánsumsóknir væru komnar fram þegar í aprílmánuði og hefur einnig á annan hátt reynt að takmarka fjárfestingu í sveitum á árinu. Um þetta mun ég ekki ræða nánar að þessu sinni, en ég óska svars og upplýsinga hæstv. ríkisstj. um það, hvort bændur megi ekki vænta skjótrar úrlausnar í þessum vandamálum, þannig að öll þau lán, sem lofað var, verði afgreidd næstu daga.