19.12.1964
Efri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða hina svonefndu skattlagningu, sem hv. þm. minntist hér á, en ég skal taka undir það, að það er eðlilegt, að bændur geri hærri kröfur nú til afgreiðslu í stofnlánadeildinni og Búnaðarbankanum heldur en áður, vegna þess að áður höfðu þeir þá reynslu, að það þýddi ekki annað, en takmarka kröfurnar. Nú hafa þeir gert hærri kröfur og þeir hafa fengið aukna fyrirgreiðslu. En ég býst við því, að hv. þm. og ég þekkjum vel, hvernig hefur verið með afgreiðslu lána úr stofnlánadeildinni og búnaðarsjóðunum, sem fyrr voru að starfi. Báðir höfum við áreiðanlega haft umboð fyrir marga og báðir vitum við það, að það hefur alltaf verið svo, að lánveitingarnar hafa staðið alveg fram að jólum. En það hefur ekki þótt fært að afgreiða lánin milli jóla og nýárs, því að þá er starfslið bankans bundið við uppgjör. Og mér er kunnugt um það, að starfslíð bankans hefur unnið allan þennan mánuð sleitulaust og oftast fram á nótt við afgreiðslu lána og eftir því sem lánin eru fleiri, verður verkefnið meira, vinnutíminn lengri og það gæti þess vegna vel verið, að það yrði ekki búið nú að afgreiða fyrr en t.d. á Þorláksmessu, en það hefur verið búið daginn fyrir Þorláksmessu undanfarin ár. Ég skal ekki segja um það.