11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans og undirstrika þær óskir mínar, að hann fylgist með þeim vanda, sem ég efast ekkert um, að hér er á ferðinni, og geri það, sem réttmætt er að gera í slíkum tilfellum sem þessu. Ég er fyrir mitt leyti ekki í neinum vafa um, að það er brýn þörf á því að vinna að því, að rekstrarlánin til síldveiðiskipa verði hækkuð allverulega frá því, sem verið hefur og það með sérstöku tilliti til þess, hvernig nú stendur á.