02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

Minning látinna manna

Á 16, fundi í Sþ., 2. des., mælti forseti (BF):

Páll Zóphóníasson fyrrv. alþm. og búnaðarmálastjóri lézt í borgarsjúkrahúsinu hér í bæ í gærkvöld eftir rúmlega árs vanheilsu, 78 ára að aldri.

Páll Zóphóníasson fæddist í Viðvík í Skagafirði 18. nóv. 1886. Foreldrar hans voru Zóphónías prófastur Halldórsson bónda á Brekku í Svarfaðardal Rögnvaldssonar og kona hans, Jóhanna Soffía Jónsdóttir háyfirdómara Péturssonar. Páll lauk námi í bændaskólanum á Hólum árið 1905, stundaði nám í búnaðarskóla og lýðháskóla í Danmörku 1906–1907 og lauk prófi í landbúnaðarháskólanum danska árið 1909. Sumarið 1909 ferðaðist hann um Noreg og Svíþjóð, en kom heim þá um haustið og hóf kennslu. Hann var kennari við bændaskólann á Hvanneyri árin 1909–1920 og jafnframt bóndi á Kletti í Reykholtsdal 1914–1920. Skólastjóri bændaskólans á Hólum var hann 1920–1928. Árið 1928 fluttist hann til Reykjavíkur og hóf störf hjá Búnaðarfélagi Íslands. Hann var ráðunautur í sauðfjárrækt 1928– 1936, ráðunautur í nautgriparækt 1928–1951 og búnaðarmálastjóri 1950–1956. Eftir að hann lét af föstu starfi vegna aldurs, hafði hann eftirlit með forðagæzlu á vegum Búnaðarfélagsins, meðan honum entist heilsa.

Páll Zóphóníasson gegndi margs konar trúnaðarstörfum jafnframt aðalstarfi sínu og átti mikinn þátt í félagsmálum. Hann var stofnandi og formaður ungmennafélagsins Íslendings í Andakíl og Ungmennasambands Borgarfjarðar, hreppsnefndarmaður í Reykholtsdal, oddviti í Hólahreppi og formaður búnaðarfélagsins þar, átti sæti í stjórn Kaupfélags Skagfirðinga og Framfarafélags Skagfirðinga. Hann var í yfirfasteignamatsnefnd við fasteignamatið 1930, 1940 og 1956, í ríkisskattanefnd frá stofnun hennar 1931, var formaður kjöt- verðlagsnefndar 1934–1942 og mjólkurverðlagsnefndar 1934–1948, Átti um skeið sæti í skipulagsnefnd fólksflutninga og úthlutunarnefnd jeppabifreiða. Á Alþingi átti hann sæti á árunum 1934–1959, sat á 32 þingum alls. Búnaðarþingsfulltrúi var hann 1925—1927.

Páll Zóphóníasson átti til mikilla gáfumanna að telja og hefur efalaust getað valið um ýmsar leiðir, þegar hann ákvað sér ævistarf. Hann kaus það hlutskipti að vinna að landbúnaðarmálum og aflaði sér víðtækrar þekkingar á því sviði. Þegar hann kom frá námi erlendis, hóf hann kennslu og þótt hann léti af skólakennslu á miðjum aldri, var hann alla ævi ötull kennari bænda og leiðbeinandi í búnaðarmálum. Nemendur hans frá Hvanneyri og Hólum róma mjög kennslu hans. Leiðbeiningar hans og holl ráð í fyrirlestrum á mannfundum um land allt og í útvarpi eru kunnari en svo, að frá þurfi að segja. Þekking hans á landbúnaðarmálum var mikil, enda var hann með eindæmum glöggur og minnugur og eljumaður með afbrigðum. Á Alþingi lét hann sig mörg mál varða, en að sjálfsögðu voru landbúnaðarmálin honum hugleiknust.

Páll Zóphóníasson var heilsteypt persóna, fastur í skoðunum og einlægur. Hann var óhvikull í deilum um málefni, gat sótt fast á þeim vettvangi og ekki var hann myrkur í máli um það, sem honum þótti miður fara. En hann var vinsæll um land allt og kunnur að góðvild og greiðasemi. Áhrifa af miklu ævistarfi hans mun lengi gæta í íslenzkum landbúnaði.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Páls Zóphóníassonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]