12.05.1965
Efri deild: 91. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

Starfslok deilda

Á 91. fundi í Ed., 12. maí, mælti forseti (SÓÓ):

Þetta verður síðasti þingfundur hv. Ed. að þessu sinni, þar sem nú er ákveðið, að þingslit fari fram síðar í dag. Nú, þegar fundum deildarinnar lýkur, vil ég nota tækifærið til að þakka ykkur hv. þdm. fyrir samveruna á þessu þingi, sem nú er að ljúka, samveruna og ánægjulega samvinnu. Ég vil þakka skrifurum deildarinnar fyrir frábæra stundvísi og ágætt starf. Þá þakka ég varaforsetum fyrir þá aðstoð, sem þeir hafa veitt mér sem forseta. Skrifstofustjóra Alþingis færi ég beztu þakkir fyrir ágæta samvinnu og einnig fulltrúum hans og öðru starfsliði Alþingis. Nú, þegar leiðir skiljast, óska ég öllum utanbæjarþingmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu, ykkur öllum og fjölskyldum ykkar óska ég gleðiríks og ánægjulegs sumars og megum við svo öll hittast heil á komandi hausti, þegar þing hefst að nýju.