22.10.1964
Neðri deild: 5. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (2203)

12. mál, vaxtalækkun

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það eru fáein orð út af því, sem hæstv. ráðh. sagði. Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði verið nauðsynlegt að hækka vextina, þeir hefðu verið hækkaðir til að koma á samræmi milli framboðs og eftirspurnar á lánsfé. Þeir hefðu verið hækkaðir fyrst og fremst í þessu skyni. Við skulum segja, að þetta sé rétt, að þeir hafi verið hækkaðir í þessu skyni. En þá segi ég, að þetta hafi algerlega mistekizt. Ég fullyrði, að ósamræmi milli framboðs og eftirspurnar á lánsfé hefur sjaldan og sennilega aldrei verið meira í íslenzkum þjóðarbúskap, en einmitt nú, eftir að búið er að framkvæma pólitík hinna háu vaxta í nokkur ár.

Ég veit, að hæstv. ráðh. er ljóst, að því fer alls fjarri, að um nokkurt samræmi sé að ræða á milli framboðs og eftirspurnar á lánsfé á Íslandi. Er nægilegt að vísa í þau tvö dæmi, sem ég tók: Annars vegar ástandið hjá vélaiðnaðinum, sem Sveinn Guðmundsson framkvæmdastjóri hjá Héðni lýsti með sterkum orðum. Hins vegar dæmið frá öðrum framkvæmdastjóra, sem hafði nákvæmlega sömu sögu að segja. Ástandið hjá almenningi er þó sennilega enn þá verra, en hjá þeim fyrirtækjum, sem þessir aðilar eru kunnugastir.

Það hefur sem sé sjaldan eða aldrei verið harðsnúnari skömmtun á lánsfé en einmitt nú, því að það eru bókstaflega einu ráðstafanirnar, sem hæstv. ríkisstj. reynir að gera til að hamla gegn verðbólgu og þenslu í landinu, að draga saman lánveitingarnar og svo það, sem gert er til að koma á almennri kjaraskerðingu. Þannig er það tvíþætt.

Hæstv. ráðh. segir, að sparifjáraukning hafi orðið mikil í landinu og sagði, að spariféð hefði aukizt um 2.680 millj. kr. En það er bara sá galli á, að það eru þessar smáu viðreisnarkrónur, sem hæstv. ráðh. talar um. Sparifjáraukningin hefur orðið furðulega lítil á þessu tímabili, þegar tekið er tillit til verðgildis sparifjárins, sem hefur hrunið að verðgildi ár frá ári. Og mætti sjá þetta með því að bera saman frá ári til árs og miða þá líka við dýrtíðaraukninguna í landinu. En því miður hef ég ekki þær tölur hér við höndina. En það mundi sýna sig, ef dæmið væri tekið á þennan hátt, sem er hinn eini rétti háttur, að sparifjáraukningin er lítil miðað við það góðæri, sem verið hefur í landinu og allar almennar kringumstæður. Þarna kemur vitanlega til kjaraskerðingin, sem ríkisstj. hefur pínt fram og svo verðbólgan, sem dregur auðvitað stórkostlega úr sparifjármynduninni. Pólitík ríkisstj. hefur alveg misheppnazt að þessu leyti.

Eiginlega vildi hæstv. ráðh. helzt ekki viðurkenna, að það hefðu verið gerðar neinar ráðstafanir til að draga úr lánsfjármagninu eða peningamagninu í umferð. Mér skildist það helzt á honum núna, að hann vildi a.m.k. sem allra minnst, úr því gera. Og rökin voru þau, að bankaútlán í landinu í heild hefðu hækkað um 2.500 millj. kr. Og ef ég man tölurnar rétt, þá voru þau á fimmta þúsund millj. áður og á sjöunda þúsund millj. nú, minnir mig vera. Þannig mun láta nærri, að bankaútlánin hafi aukizt um 50–60% En í því er fólginn stórkostlegur samdráttur, þegar þess er gætt, að allt verðlag í landinu hefur hækkað miklu meira en 60%. Það er því engin furða, þó að strekki einhvers staðar í hjá framleiðslufyrirtækjunum, þegar þessar tölur eru skoðaðar, einmitt þessar tölur, sem hæstv. ráðh. flutti hér fram og áttu að sýna það, að útlánastarfsemi í landinu væri ekki miklu minni en áður, skilst manni. En með því að reyna að sýna fram á það er ráðh. í raun og veru farinn að afneita þeirra eigin stefnu, því að hún hefur óumdeilanlega verið byggð á því að takmarka, hversu mikið lánsfé væri í umferð. Þeir hafa talið það vera nauðsynlegt. Það þarf ekki að vera í neinum feluleik með þetta, því að þessar þús. millj., sem dregnar hafa verið inn í Seðlabankann, hafa að sáralitlu leyti farið þaðan aftur út í innanlandsumferðina. Það kann að vera, að þær hafi að einhverju örlitlu leyti farið út, en að sáralitlu leyti. Það er beinn nettó–samdráttur lána frá því, sem var áður og við viljum hafa. Enn fremur er þess að gæta, að endurkaup hafa verið dregin saman, eins og ég hef margsinnis bent á. Það er þess vegna engin tilviljun, hvernig ástandið er í lánamálunum. En því miður hafa jafnvel ekki þessar fórnir, sem menn hafa verið látnir færa, orðið til þess að ná jafnvægi í efnahagsmálunum.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri fásinna að lækka vextina, á meðan ekki væri fullnægt eftirspurn eftir lánsfé. En ég bara spyr: Lækkuðu þeir vextina á íbúðalánunum vegna þess, að þeir teldu, að það væri allt í einu búið að fullnægja eftirspurn eftir lánsfé? Var það þess vegna, sem þeir lækkuðu vextina á íbúðalánunum? Nei, auðvitað ekki. Ég held, að það hafi verið vegna þess, að þeir ráku sig á þá köldu staðreynd, að þessi vaxtapólitík þeirra var óframkvæmanleg og þeir eigi eftir að reka sig á það víðar. Og eins og einhver þm. skaut hér inn í áðan, ef þessi röksemdafærsla ráðh. stæðist, þá ættum við að eiga nú von á gífurlegri vaxtahækkun til að draga eitthvað úr því stórkostlega ósamræmi; sem er á milli framboðs og eftirspurnar á lánsfé.

Nei, sannleikurinn er sá og það er bezt fyrir hæstv. ráðh. að játa, að við getum ekki hér á Íslandi látið frjálsa eftirspurn og frjálst framboð á lánsfé ráða vöxtunum. Við höfum aldrei getað það. Og sú pólitík að vera að reyna slíkt ber dauðann í sér og er hættuleg fyrir íslenzkan þjóðarbúskap. Enda hafa allir flokkar ætíð verið sammála um þetta, þangað til þessi nýja stefna var tekin upp, sem við höfum verið að ræða. Við skulum því spara okkur allar hátíðlegar umr. um framboð og eftirspurn á lánsfé í þessu sambandi og snúa okkur að raunveruleikanum, en hann er sá, hvernig þetta snýr að okkar þjóðarbúskap í einstökum greinum.

Síðan kom ráðh. að því, sem hann hefur reyndar stundum komið að áður, að sýna fram á, hvað vaxtamálið væri í raun og veru lítið mál, það væri bara smámál. Þó að það væri breytt vöxtunum úr því, sem þeir eru núna og niður í það, sem þeir voru áður, væri það í raun og veru smámál. Hann hafði tölur á reiðum höndum, eins og oft endranær. Það væru 40 millj., sem það sparaði sjávarútveginum. Á þessu sæjum við, að hér væri ekki um þýðingarmikinn lið að ræða.

Ég hélt nú sannast að segja, að eftir þær umr., sem orðið hafa um þessi mál á undanförnum missirum, mundi ég ekki heyra rök af þessu tagi framar. Ég hélt, að hæstv. ráðh. væri orðið það ljóst af biturri reynslu, hvaða liður vextirnir eru í þjóðarbúskapnum. Eða hvað var það, sem þeir ráku sig á í kjarasamningunum í vor? Hvers vegna neyddust þeir til að lækka vextina á íbúðalánunum úr 8%, þvert ofan í sína stefnu og niður í 4%? Hvers vegna? Það var vegna þess, að ef átti að halda áfram með 8% vexti á íbúðalánum, var orðið óhjákvæmilegt, að það kæmi inn í kaupgjaldið í landinu. Og ef átti að halda þeirri vaxtapólitík áfram, sem þeir voru búnir að fylgja í mörg ár og eru enn að tala hér fyrir, þá rak það atvinnulífið gersamlega í strand, því að hvernig hefði atvinnureksturinn átt að borga það kaup, sem vinnandi maður þyrfti að hafa til þess að geta staðið undir — við skulum bara segja 600–700 þús. kr. íbúð með 8% vöxtum þeirra? Hvað heldur hæstv. ráðh., að sá maður þyrfti að hafa í kaup, sem undir því þarf að standa? Mundi hann ekki vilja reikna það dæmi og segja okkur svo, að það sé þýðingarlitið fyrir íslenzkan sjávarútveg og íslenzkan atvinnurekstur og íslenzkan þjóðarbúskap, hvaða vextir gildi á Íslandi? Ég álít, að það muni þurfa að fara langt til þess að heyra rök eins og þetta úr ráðherrastóli.

Í öðrum löndum er mönnum þetta svo vel ljóst, að þeir gera sér grein fyrir því, að jafnvel ákvörðun um að breyta vöxtunum um 1/2% er stórkostleg ákvörðun. En hér segir hæstv. ráðh., að það skipti undirstöðuframleiðsluna í landinu nálega alls ekki neinu, hvort vextirnir eru 9% eða 7%, eða hvort þeir eru 9% eða 51/2%, eins og gert er ráð fyrir, að þeir verði á endurkaupavíxlunum, ef okkar frv. yrði samþykkt. Þetta eru hraustir menn, sem svona tala og þessi rök er okkur boðið upp á hér á hv. Alþingi og það ár eftir ár.

Svo eru það ekki aðeins vextir af peningalánum, sem menn þurfa að borga. Fjármagnskostnaðurinn í landinu er ekki aðeins vextir af peningalánum og það ætti þó hagfræðingum að vera ljósara en nokkrum öðrum. Vextirnir koma inn í kaupgjaldið. Þeir koma inn í verðlagið og húsaleiguna og það er ekki aðeins t.d. unga fólkið, sem þarf að fá vextina inn í kaupgjaldið. Allir aðrir vilja hafa sama kaup og unga fólkið þarf að fá og endurgjald fyrir allar eldri eignir hækkar með hækkuðum vöxtum. Fjármagnskostnaðurinn allur vex gífurlega með háum vöxtum, og annaðhvort verður framleiðslan að borga eða menn verða að taka þetta á sig í kjararýrnun. Annaðhvort verður framleiðslan að borga eða þeir, sem eiga ekki eignir, verða að taka þetta á sig í kjararýrnun. Og með þessu eru tekjurnar í þjóðfélaginu og fjármagnið flutt yfir til þeirra, sem eiga eignirnar.

Hér er ekki aðeins um það að ræða, hvað þarf að borga í vexti af láni í banka. Hér er um fjármagnskostnaðinn í landinu að ræða almennt. Og það er ekki að furða, þó að úrskeiðis hafi gengið í þessum efnum, ef það er almennt litið svo á í stjórnarráðinu, að það sé þýðingarlitið atriði fyrir þjóðarbúskapinn og framleiðsluna í landinu, hvað vextirnir séu.

Þá sagði hæstv. ráðh., að innstæðubindingin hefði verið lífsnauðsynleg, til þess að hægt væri að halda áfram að endurkaupa afurðavíxlana. Ég er á allt annarri skoðun. Ég álít, að það hafi ekki þurft á neinni innstæðubindingu að halda til þess að halda áfram þeirri pólitík, sem rekin var í því efni og ég og hæstv. ráðh. og ýmsir fleiri stóðum að árum saman. Ég álít, að það hafi ekki þurft að koma á neinni innstæðubindingu til þess að halda því áfram og þurfi ekki til að taka þá stefnu upp aftur. Það er sagt, að þetta hafi verið gert af því, að þessar ráðstafanir hafi áður aukið verðbólguna. Hver er reynsla okkar um verðbólguna nú þessi árin, eftir að nýja stefnan var tekin upp, sem átti að koma í veg fyrir hana, og svo áður? Það hefur verið örari verðbólguþróun hér nú þessi árin, en nálega nokkru sinni fyrr. Og varðandi gjaldeyrissjóðinn er þetta að segja: Ætli það hefði ekki orðið heldur lítill gjaldeyrissjóður hjá hæstv. ráðh., ef erlendu lántökurnar hefðu ekki átt sér stað? Og það verður óneitanlega dálítið undarleg pólitík, þegar annars vegar er verið að bisa við að eignast þessar gjaldeyrisinnstæður, en hins vegar er verið að pína íslenzka atvinnurekendur til þess að taka lán erlendis til stutts tíma til þess að halda sínum rekstri gangandi. Gjaldeyrissjóðurinn hefði orðið litill, ef erlendar lántökur hefðu ekki verið framkvæmdar í stórum stíl og meira að segja lausaskuldasöfnun við útlönd átt sér stað í ríkum mæli eða sem nemur mörg hundruð millj. kr.

Ég sagði hér áðan, að baggar viðreisnarinnar hefðu átt að leggjast á menn til að greiða niður, erlendu skuldirnar. Og það er staðreynd, að því var marglýst yfir, að þjóðin yrði að leggja á sig byrðar viðreisnarinnar til þess að greiða niður erlendu skuldirnar, þær væru of miklar og þær þyrftu að lækka. En þær hafa hækkað stórkostlega og hæstv. ráðh. játaði það. En þá fór hann að halda æði mikla ræðu um, að þessar skuldir, sem nú hefðu bætzt við, væru svo miklu heppilegri lán, en hefðu áður verið tekin. Ég hef ekki tölur til þess að mæta svona fullyrðingum af hendi hæstv. ráðh. En ég dreg það í efa, sem hæstv. ráðh. segir um þetta. M.a. er mér vel kunnugt um, að stutt vörukaupalán erlendis hafa einmitt vaxið á þessum síðustu árum um mörg hundruð millj., þannig að mér er nær að halda, að þessu sé alveg öfugt farið við það, sem hæstv. ráðh. vildi vera láta. Okkur var sagt í upphafi „Viðreisnar“, að skuldirnar væru hættulega miklar og þyrftu að lækka. Það rétta var, að skuldirnar hafa aldrei verið hættulega miklar og þær hafa hækkað.