22.10.1964
Neðri deild: 5. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (2204)

12. mál, vaxtalækkun

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til að karpa við hv. þm. um atriði í íslenzkum efnahagsmálum, sem eru þaulrædd bæði hér á hinu háa Alþingi og í umr. um stjórnmál og efnahagsmál yfirleitt. Ég get þó ekki komizt hjá því að leiðrétta mjög alvarlega rangtúlkun á ummælum mínum og skoðunum varðandi þýðingu vaxta og vaxtabreytinga. Það er alger rangtúlkun á orðum mínum og skoðunum á þeim málum, að ég telji eða hafi nokkru sinni sagt nokkuð í þá átt, að ég telji vaxtabreytingar nauðaþýðingarlitlar. Þvert á móti er ég á sömu skoðun og mér vitanlega allir hagfræðingar eru og ég held allir stjórnmálamenn líka, að auðvitað hefur hæð vaxta mjög mikla þýðingu í sérhverju hagkerfi, sérstaklega svonefndu frjálsu hagkerfi. En í hverju er þýðing vaxtanna fólgin? Það er það, sem okkur hv. þm. virðist greina nokkuð á um. Ég held, að allir hagfræðingar og allir fjármálamenn séu um það sammála, að þýðing vaxta, þýðing þess, hversu vextir eru hafðir háir, sé fyrst og fremst fólgin í áhrifum vaxtahæðarinnar á sparifjármyndunina annars vegar og hins vegar á áhrifum vaxtahæðarinnar á framkvæmdastigið eða fjárfestingarstigið, þ.e. á það, í hversu miklar framkvæmdir framkvæmdamenn telja sér hagkvæmt og skynsamlegt að leggja. Þegar það þykja, eins og hv. þm. sagði alveg réttilega áðan, stórtíðindi og er talið hafa stórkostleg áhrif á efnahagskerfi annarra þjóða, sem búa við mun frjálsara hagkerfi, en við gerum hér á Íslandi og talið hafa mikil áhrif, þegar forvöxtum seðlabanka er breytt um 1/2 %, þá er það auðvitað vegna þess, að þá gera menn sér grein fyrir, að hækkunin eða lækkunin hefur tilsvarandi víðtæk áhrif á framkvæmdastigið, á það, hversu miklum hluta tekna sinna hlutaðeigandi þjóð ver til framkvæmda eða til fjárfestingar og jafnframt er vaxtahækkun talin munu verða til að auka sparifjármyndun, auka verðbréfakaup í því skyni að auðvelda aukna fjárfestingu, en menn gera sér ljóst, að vaxtalækkun mundi þýða minnkun á sparifjármyndun, minnkuð verðbréfakaup alveg sérstaklega. Um þetta eru allir fjármálamenn og hagfræðingar auðvitað sammála, svo að þarna fór hv. þm. með algerlega rétt mál.

Það, sem ég verð hins vegar að undirstrika í mínum orðum áðan og hv. þm. vildi rangtúlka sem ummæli mín í þá átt, að vaxtahæð hefði enga þýðingu, var að ég væri að benda á, að allt of mikið væri gert úr þýðingu vaxtahæðarinnar fyrir rekstrarkostnað einstakra atvinnugreina. Það er ómótmælanleg staðreynd, að t.d. íslenzkum sjávarútvegi er vaxtakostnaðurinn miklu minni gjaldaliður, en allajafna er látið í veðri vaka af hv. stjórnarandstöðu og það er ómótmælanleg staðreynd, sem byggist á þeim beztu tölum, sem fáanlegar eru, að vaxtalækkun niður í það, sem vextir voru 1959, mundi spara íslenzkum sjávarútvegi tæpar 40 millj. kr. og það er ekki meira, en sem svarar 1 % af heildarútgjöldum íslenzks sjávarútvegs. Þetta er jafnómótmælanlegt og hitt, að auðvitað hefur það þýðingu fyrir sparifjármyndunina og framkvæmdastigið, hvort vextirnir eru 7%, 9% eða 10%. En þar er um allt önnur atriði að ræða.

Fyrst ég á annað borð taldi mér nauðsynlegt að koma veg fyrir þennan alvarlega misskilning, vil ég með örfáum orðum víkja að því, sem hv. þm. sagði um áhrif vaxtahækkunar 1960 á sparifjármyndunina síðan og útlánaaukninguna siðan. Ég benti á það í orðum mínum áðan, að spariféð hefði síðan 1960 aukizt um næstum 2.700 millj. kr. og heildarútlán banka og sparisjóða hefðu á sama tíma aukizt um næstum 2.500 millj. kr. Þetta taldi ég bera þess órækt vitni, að mjög sæmilegt jafnvægi hafi náðst milli sparifjáraukningarinnar og heildarútlána banka og sparisjóða, þannig að sú verðbólga, sem hér hefur því miður verið síðan, á ekki rót sína að rekja til þess, að heildarútlán banka og sparisjóða hafi vaxið umfram eðlilega og heilbrigða sparifjármyndun. En ef við förum nokkur ár aftur í tímann, þ.e. til fyrri ára en 1960, verður allt annað upp á teningnum. Ég hef því miður ekki við höndina hér í þingsalnum tölur, sem ná lengra aftur en til ársloka 1960. En ef við athugum þær breytingar, sem urðu á sparifé landsmanna frá árslokum 1956 til ársloka 1959 eða ársbyrjunar 1960, þessi þrjú ár, kemur í ljós, að sparifé jókst þá um 595 millj. kr. En hvað halda hv. þm., að bankaútlánin hafi aukizt mikið á sama tíma, á þessum sömu þremur árum? Hvað skyldu þau hafa aukizt mikið? Þau jukust á sama tíma um 1.436 millj. kr. M.ö.o.: sparifjármyndunin stóð ekki undir helmingi útlánaaukningar banka og sparisjóða á þessum þremur árum fyrir 1960. Sama mundi koma í ljós, ef ég hefði allar tölur yfir áratuginn 1950–1960, sem ég hef því miður ekki við höndina. Í þessu var einmitt vandi þessara ára fólginn. Sparifjáraukningin dugði ekki upp í helming útlánaaukningar banka og sparisjóða. Þetta var eitt það, sem allra óheilbrigðast var við fjármálaástandið á áratugnum 1950– 1960. Og sú nýja stefna, sem upp var tekin 1960, hafði það að höfuðmarkmiði að gera gagngera breytingu á þessu. Afleiðing þess, að sparifjármyndunin dugði ekki einu sinni að hálfu leyti upp í útlánaaukninguna, varð auðvitað óviðráðanleg verðbólga innanlands og stöðugur gjaldeyrishalli í utanríkisviðskiptunum. Þetta tvennt hlýtur að fara saman. Ef bankaútlánin eru aukin meira en helmingi, meira innanlands en sparifjármynduninni nemur, getur það ekki haft önnur áhrif, en annað tveggja eða hvort tveggja. Hér er afleiðingin hvort tveggja, óviðráðanleg verðbólga innanlands og stöðugur greiðsluhalli gagnvart útlöndum. Þetta var líka einkenni áratugsins 1950–60, óviðráðanleg verðbólga innanlands og stöðugur greiðsluhalli gagnvart útlöndum, með mjög litlum undantekningum.

Þessu hefur tekizt að breyta. Greiðsluhallanum hefur verið snúið upp í greiðsluafgang síðan 1960, það sýnir gjaldeyrisvarasjóðurinn og þótt að vísu hafi ekkí tekizt að vinna bug á verðbólgunni, eru or;sakir verðbólgunnar síðan 1960 allt aðrar en þær voru á áratugnum 1950–1960, og það er mergurinn málsins. (EystJ: Hverjar?) Orsakir verðbólgunnar síðan 1960 eru fyrst og fremst víxlhækkanir, sem orðið hafa á milli kaupgjalds og verðlags, fyrst og fremst þær, að sökum þróunarinnar í kaupgjalds- og verðlagsmálum hefur kauphækkunin orðið meiri, en útflutningsatvinnuvegirnir hafa getað staðið undir. En það er ekki hægt að rekja verðbólguna frá 1960 að neinu leyti til rangrar stefnu í peningamálum eða fjármálum hér innanlands. M.ö.o.: það hefur ekki verið það misræmi milli sparifjármyndunar og bankaútlána, sem var eitt höfuðeinkenni áratugsins 1950–60. Sönnun fyrir því, að það er ekki hægt að rekja verðbólguþróunina síðan 1960 að neinu leyti til stefnunnar annaðhvort í banka– eða peningamálum, er sú, að sparifjáraukningin hefur numið um 2.700 millj. siðan 1960, en heildarútlánaaukning bankanna um 2.500 millj. kr. Þær tölur taka af öll tvímæli um það, að stefnan í þessum málum hefur verið heilbrigð, a.m.k. miklum mun heilbrigðari en hún var allan áratuginn 1950–60.