02.03.1965
Neðri deild: 49. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (2209)

12. mál, vaxtalækkun

Frsm. meiri hl. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 261, gat fjhn. ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. n. leggur til, að það verði fellt, en fulltrúar Framsfl. leggja til á þskj. 73, að það verði samþ.

Í kjölfar l. nr. 4 20. febr. 1960, um efnahagsmál, fylgdu ýmsar ráðstafanir á sviði peninga- og viðskiptamála. M.a. voru bæði innláns og útlánsvextir mjög mikið hækkaðir frá því, sem verið hafði um alllangt skeið. Einnig var vaxtakjörum breytt til hækkunar hjá ýmsum stofnsjóðum. Eins og kunnugt er, var ráðstöfunum þessum ætlað að hamla á móti verðbólguþróuninni í landinu og breyta þeim hugsunarhætti almennings, að óskynsamlegt væri að eiga sparifé. Það var líka staðreynd, að allir, sem komizt höfðu yfir fasteignir, högnuðust, þótt þeir hefðu þurft að stofna til mikilla skulda. Ráðstafanir þessar báru þann árangur, að tiltrú fólks á gjaldmiðlinum fór vaxandi. Einnig urðu þær til þess að draga úr óeðlilegri fjárfestingu. Þróunin í efnahagsmálum leiddi til þess, að vextir voru aftur verulega lækkaðir í árslok 1960 og nú um síðustu áramót voru útlánsvextir enn á ný lækkaðir og innlánsvextir þá að sjálfsögðu um leið. Segja má, að útlánsvextir hafi almennt verið lækkaðir um 1%, en vextir af afurða- og rekstrarlánum lækkuðu meira, eða úr 71/4% í 53/4% og 61/2 %.

Eins og fram er tekið í áliti meiri hl. fjhn., telur hann ekki rétt að ganga lengra í lækkun vaxta, en þegar hefur verið gert. Mundi það hafa í för með sér enn meiri eftirspurn eftir lánsfé og draga úr hvöt manna til að eignast sparifé.

Í 4. gr. frv. er lagt til, að fjárhæðir þær, sem bundnar eru á reikningum banka og annarra innlánsstofnana hjá Seðlabankanum, hækki ekki fram yfir það, sem þær eru nú. Innlánsfénu í Seðlabankanum er fyrst og fremst ætlað að standa undir endurkaupum bankans á framleiðsluvíxlum. Þar sem búast má við því, að endurkaupin komi til með að aukast, telur meiri hl. n. ekki fært að binda innlánsfé við ákveðna upphæð, enda í ósamræmi við þá stefnu, sem fylgt hefur verið í peningamálunum að undanförnu. Meiri hl. n. leggur því til, að frv. verði fellt.