05.11.1964
Neðri deild: 11. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2225)

27. mál, jafnvægi í byggð landsins

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 28 til 1. umr., er byggt á þeirri skoðun, að það sé eitt af meginhlutverkum þjóðfélags okkar Íslendinga að sjá svo um, að Ísland haldi áfram að vera byggt land, og ekki aðeins litill hluti af landinu, heldur landið allt milli fjalls og fjöru, hið byggilega land utan óbyggða. Við, sem flytjum þetta frv., höldum því ekki fram, að sérhvert íslenzkt heimili eigi að standa þar, sem það hefur staðið eða stendur nú. Þetta frv. fjallar ekki um slíkt, heldur um byggðarlög og landshluta og notkun náttúrugæða af landi og sjó um allt Ísland. En það má að okkar hyggju ekki ske, að umheimurinn hafi á komandi tímum ástæðu til að líta svo á, að heil byggðarlög á Íslandi og heilir landshlutar séu orðnir einskis manns land. Réttur okkar Íslendinga til slíkra landshluta kynni þá að verða véfengdur af þeim þjóðum, sem sjálfar búa við landþrengsli. Kenningin um rétt þéttbýlislanda til lífsrúms í veröldinni er ekki úr sögunni og það er ekki víst, að hún verði úr sögunni, þó að stórveldin kunni að slíðra sverð sín.

Íbúatala landsins var hinn 1. des. 1963 samkv. hagskýrslum 187 þús. tæpar. Þjóðin er enn ekki fjölmennari en svo, að hún gæti fullvel komizt fyrir í einni borg, t.d. höfuðborginni hér við Faxaflóa og þetta yrði samt ekki sérlega stór borg á heimsmælikvarða. Það má vel vera, að Íslendingar gætu, þó að þeir byggju allir saman í einni borg, skapað sér nægar tekjur til framfærslu sér og sínum og til öflunar þeirra lífsþæginda, sem nútíminn og framtíðin krefjast. Um það skal ég ekki dæma. En við Íslendingar, þessi 187 þús., gerum þá kröfu til lífsins, sem enginn annar jafnfámennur hópur manna gerir á þessari jörð, en það er að fá að vera sjálfstætt ríki með sjálfstæðri tungu og þjóðmenningu og að eiga landið, sem við erum kennd við, vítt land og fagurt og auðugt að náttúrugæðum. Við vitum það vel eða ættum að vita, að ef við ættum ekki þetta stóra og góða land og ef við ættum það ekki ein, værum við ekki sjálfstæð þjóð.

En eignarréttur landa helgast af byggð. Okkar eignarréttur á landinu er áunninn með landsbyggð. Landið hefur fóstrað og stækkað þessa litlu þjóð og þjóðmenningu hennar. Við gætum búið öll í einni borg og hætt að vera íslenzk þjóð. Við gætum flutt okkur burt af þessu landi til annarra hlýrri og frjósamari landa og hætt að vera íslenzk þjóð. Það er nóg rúm fyrir okkur í sumum þeim löndum. Þúsundir Íslendinga eru sagðar búa við velmegun í annarri heimsálfu. En okkar ósk er að vera fólk mikilla örlaga, að eiga ein land og ríki. Við vitum, hvers virði það er fyrir okkur, sem nú lifum og afkomendur okkar, að það getur gert Íslendinginn í nútíð og framtíð mann að meiri, frjálsari og höfði hærri, en hann ella væri. En þessi örlög leggja okkur þá skyldu á herðar að byggja þetta land. Það er Íslendingum sem slíkum lífsnauðsyn að byggja landið.

Ég vil leyfa mér að minna á það í þessu sambandi, að hér var nýlega á ferð einn af stjórnmálaleiðtogum Norðmanna og flutti hér erindi um landsbyggðarmál Noregs. Margir hv. alþm. hlýddu á mál hans. Honum fórust m.a. orð eitthvað á þessa leið: „Sumir Norðmenn segja sem svo: Hvers vegna eigum við að vera að byggja firði og fjalldali norður á Hálogalandi og Finnmörk? Þeir gætu alveg eins spurt: Hvers vegna erum við að byggja Noreg?“ Þannig leit þessi merki Norðmaður á landsbyggðarvandamál síns lands. Og á þessu sviði eiga Norðmenn og Íslendingar við sama vandamálið að stríða. En Norðmenn hófust handa um að leysa sitt landsbyggðarvandamál á sérstæðan hátt, með Norður-Noregslöggjöfinni fyrir 13 árum. Á þessum 13 árum eru Norðmenn búnir að láta jafnvægissjóði sína hafa til umráða, eftir því sem haft var eftir þessum Norðmanni í íslenzkum blöðum, hátt á 5. milljarð ísl. kr., en til viðbótar kemur svo það fjármagn, sem varið hefur verið til uppbyggingar í einstökum landshlutum Noregs vegna skattafríðinda, sem þar voru tekin í lög samtímis jafnvægislöggjöfinni. Við Íslendingar höfum ekki farið að þeirra dæmi. En það eru fleiri lönd en Noregur, sem telja sig þurfa að taka þetta viðfangsefni föstum tökum og hafa þegar gert það. Ég kem að því síðar.

Ég ætla ekki að þessu sinni að fara mörgum orðum um þá gífurlegu röskun jafnvægis í byggð landsins, sem hefur átt sér stað á undanförnum árum, hef gert það áður. En í þessu sambandi vil ég þó leyfa mér að fara með nokkrar tölur úr grg. þessa frv. varðandi þær breytingar, sem orðið hafa á búsetu landsmanna síðan á árinu 1940 eða um nálega aldarfjórðungsskeið. Er þá miðað við manntal í árslok 1940 og manntal í árslok 1963. Á þessum 23 árum fjölgaði landsmönnum úr rúmlega 121 þús. upp í nálega 187 þús., eða um 53.9%. Á sama tíma fjölgaði hér við sunnanverðan Faxaflóa, í Kjalarnesþingi, um 122%. En á Vesturlandi sunnan Gilsfjarðar fjölgaði aðeins um 26.5%, á Suðurlandi um 21%, á Norðurlandi um 13.2%, á Austurlandi um 6.2% og á Vestfjörðum fækkaði um 22%. Íbúum þeirra 6 bæja og sveitarfélaga, sem skipulagsmenn telja nú til Stór-Reykjavíkur, fjölgaði á þessu tímabili úr 43.400 upp í 95.400, þ.e.a.s. á þessum 23 árum. Þessi fjölgun hér á höfuðborgarsvæðinu hjá okkur er miklu meiri fjölgun hlutfallslega, en orðið hefur í höfuðborg Noregs eða á höfuðborgarsvæðinu þar síðan um aldamót og þykir þó um of þar í landi. Í Noregi var í árslok 1960 íbúafjöldi landsins í heild 3 millj. 596 þús., en íbúafjöldinn á höfuðborgarsvæðinu, Osló og Aker, var um sama leyti 4.771.00 eða rúmlega 13% af þjóðinni. En hér er á höfuðborgarsvæðinu, eins og ég sagði áðan, meira en 50% af þjóðinni.

Hér er vissulega um mjög svo varhugaverða þróun að ræða, ekki aðeins fyrir fólksfækkunarsvæðin, — og með fólksfækkun á ég hér bæði við beina og hlutfallslega fólksfækkun, — heldur einnig varhugaverða þróun fyrir höfuðborgarsvæðið sjálft, sér í lagi höfuðborgina. Ég hef áður rætt um það mál hér á hinu háa Alþingi og það hafa fleiri gert, bæði innan þings og utan, en vegna þessarar þróunar er það frv., sem hér liggur fyrir, fram borið.

Ég kem þá næst að því að lýsa meginefni þess frv., sem hér liggur fyrir um sérstakar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins á þskj. 28. Hinar sérstöku ráðstafanir, sem hér er um að ræða, eru samkv. frv. í því fólgnar, að komið verði upp sjálfstæðri ríkisstofnun, sem annist þessi mál og beri ábyrgð á framkvæmd þeirra og að þessari ríkisstofnun, jafnvægis- eða landsbyggðarstofnun ríkisins, verði tryggt fjármagn, sem um munar, til starfsemi sinnar, að fylgzt verði með þróun byggðar og atvinnulífs víðs vegar um land, framfaraáætlanir gerðar og að hinir einstöku landshlutar og byggðarlög fái aðstöðu og hvatningu til frumkvæðis í þessum málum. Hér er að verulegu leyti höfð hliðsjón af þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið í Noregi á þessu sviði, en þó að sjálfsögðu miðað við íslenzka staðhætti. Ég vil taka það fram, að með þessu frv. er ekki á neinn hátt hróflað við gildandi lögum frá 1962 um atvinnubótasjóð. Við fylgismenn þessa frv. gerum ráð fyrir, að þau lög standi og að atvinnubótasjóður haldi áfram starfsemi sinni, sem mótazt hefur á sérstakan hátt, en sú starfsemi miðar ekki nema að nokkru leyti að því marki, sem miðað er að með þessu frv.

Í 1. gr. þessa frv. er tilgangur þess markaður þannig, að hann sé sá að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með rannsóknarstörfum, áætlanagerð og fjárhagslegum stuðningi til framkvæmda í þeim landshlutum, þar sem bein eða hlutfallsleg fólksfækkun hefur átt sér stað undanfarið eða er talin yfirvofandi. Stjórn þeirra mála, sem hér er um að ræða, er samkv. frv. falin svonefndri jafnvægisnefnd 7 manna, er kjörnir verði af Alþingi að loknum alþingiskosningum hverju sinni. Þessi nefnd er samkv. frv. stjórn jafnvægissjóðs þess, sem fjallað er um í II. kafla frv. Gert er ráð fyrir, að jafnvægisnefndin komi saman til funda einu sinni í mánuði hverjum og oftar, ef þörf krefur. Fundir hennar eru þá ekki oftar, en svo að jafnaði, að nm. gætu verið búsettir hvar sem er á landinu, enda verður það að teljast æskilegt og gera má ráð fyrir, að fundir verði ekki alltaf haldnir á sama stað. N. verður að sjálfsögðu að hafa fastráðna starfskrafta í þjónustu sinni, enda ráð fyrir því gert í frv. Verkefni n. er samkv. frv. rannsókn á þróun landsbyggðar og atvinnulífs í einstökum landshlutum á hverjum tíma, skýrslugerð í því sambandi, áætlunargerð og ráðstöfun fjár úr jafnvægíssjóði. En gert er ráð fyrir, að Framkvæmdabankinn annist dagleg afgreiðslustörf og reikningshald fyrir sjóðinn.

Í 7. gr. frv. segir svo:

„Jafnvægisnefnd lætur, þegar þörf þykir til þess, gera áætlanir um framkvæmdir í einstökum byggðarlögum, enda séu þær við það miðaðar, að með þeim sé stuðlað að jafnvægi í byggð landsins. Áætlanir þessar skulu að jafnaði gerðar í samráði við sýslunefnd, bæjarstjórn eða hreppsnefnd, eina eða fleiri. Lán og framlög úr jafnvægíssjóði skulu ákveðin með hliðsjón af slíkum áætlunum, séu þær fyrir hendi.“

En í 14. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að framkvæmdaáætlanir byggðarlaga og landshluta geti einnig orðið til á annan hátt, að framkvæmdaaðilar heima fyrir á þeim svæðum, sem í hlut eiga, eigi frumkvæði að og vinni að gerð slíkra áætlana og geti fengið til þess fjárhagsstuðning hjá jafnvægissjóði að framkvæma þá vinnu, sem til þess þarf. Gert er ráð fyrir, að þeir aðilar, sem hér er um að ræða, geti verið bæjarstjórnir, hreppsnefndir eða sýslunefndir og einnig fjórðungsþing, þar sem fjórðungssambönd eru starfandi og að skipuð verði af þessum aðilum framfaranefnd til að annast áætlunargerðina fyrir það svæði, sem um er að ræða. Framfaraáætlun heimagerð yrði síðan lögð fyrir Jafnvægisstofnun ríkisvaldsins. Slík áætlanagerð heima fyrir mundi hafa mikla kosti. Hún yrði að jafnaði byggð á meiri kunnugleika og nánari þekkingu á því, hvar skórinn kreppir að, en áætlun fjarlægari landsnefndar. Og áætlunarstarfið heima fyrir mundi hafa hvetjandi áhrif og örva hugkvæma áhugamenn til dáða. En að sjálfsögðu verða slíkar svæðisbundnar framfaranefndir að geta lagt vinnu í áætlunargerðina og fengið sérfræðilega aðstoð og til þess er ætlazt, að þær geti fengið fjárhagslegan stuðning hjá jafnvægissjóðnum til þess, ef jafnvægisnefnd samþykkir.

Flest þeirra ákvæða, sem ég nú hef nefnt, eru í I. kafla frv. En í II. kafla eru ákvæði um jafnvægissjóðinn, fjáröflun til hans og ráðstöfun þeirra fjármuna, sem hann ræður yfir á hverjum tíma, til eflingar atvinnulífi og landsbyggð í samræmi við tilgang frv.

Samkv. 9. gr. frv. er ætlazt til þess, að til jafnvægissjóðs renni fastákveðinn hundraðshluti, 11/2 %, af tekjum ríkissjóðs ár hvert og í fyrsta sinn af tekjum ársins 1964. Miðað við tekjuáætlun fjárl. þessa árs yrðu fyrstu tekjur sjóðsins þá um 40 millj. kr. og samkv. fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, yrðu þær 48 millj. kr. á árinu 1965, en því hærri sem ríkistekjur reynast meiri og yrðu sjálfsagt þegar á næsta ári talsvert yfir 50 millj., vegna þess að gera má ráð fyrir, að fjárlögin verði hærri, en frv. er nú. Auk þess mundi sjóðurinn að líkindum, er frá líður, hafa nokkrar og eitthvað vaxandi vaxtatekjur og í 12. gr. frv. er gert ráð fyrir, að hann geti tekið lán til starfsemi sinnar á því sviði, sem þar er rætt um, þ.e.a.s. ef sveitarfélögum er veitt aðstoð til að koma upp íbúðum. Þá er og gert ráð fyrir, að kostnaður við störf jafnvægisnefndar, þ. á m. áætlunargerð, greiðist sérstaklega úr ríkissjóði.

Í 10., 11. og 13. gr. eru aðalákvæðin um ráðstöfun á fjármagni jafnvægissjóðsins. Samkv. 10. gr. má veita úr sjóðnum lán til hvers konar framkvæmda, sem eru til þess fallnar að dómi sjóðsstjórnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þ. á m. til kaupa á atvinnutækjum, enda sé áður leitað álíts hlutaðeigandi sveitarstjórnar, sé hún ekki sjálf umsækjandi. Það er skýrt fram tekið, að hér skuli vera um viðbótarlán að ræða, þ.e.a.s. að lán úr jafnvægissjóði komi ekki í staðinn fyrir þau lán, sem nú tíðkast að veita, heldur til viðbótar við þau, þar sem þess er þörf, til þess að af framkvæmdum geti orðið. Lán jafnvægissjóðs yrðu því áhættulán, enda eðlilegt, að þau séu það. Í frv. eru ekki ákvæði um lánskjör, lánsupphæðir eða lánstíma. Allt slíkt teljum við, a.m.k. fyrst um sinn, verða að vera á valdi jafnvægisstofnunarinnar sjálfrar og að reglur um útlánin verði að mótast af þeirri reynslu, sem hún fær í starfi sínu. Sérstaklega er fram tekið, að veita megi sveitarfélögum lán til að koma upp íbúðum. Það má ekki eiga sér stað framvegis, að landssvæði, sem eiga í vök að verjast, missi af fólki vegna skorts á íbúðarhúsnæði, t.d. sérmenntuðum mönnum eða kunnáttumönnum í verklegum efnum, en því miður hefur slíkt átt sér stað og núverandi lánsstofnanir taka ekki tillit til slíks.

Í frv. er þó ekki eingöngu gert ráð fyrir lánastarfsemi, heldur einnig óafturkræfum framlögum, en til þess að veita slík framlög er gert ráð fyrir að þurfi aukinn meiri hluta í jafnvægisnefndinni. En þessi óafturkræfu framlög mundu koma til greina, þar sem líklegt þykir, að ekki gæti orðið um endurgreiðslu að ræða.

Þá vil ég vekja athygli á því, að í 15. gr. frv. er gert ráð fyrir þeim möguleika, að jafnvægisstofnunin geti, ef sérstaklega stendur á, gerzt meðeigandi í atvinnufyrirtæki, sem hún telur nauðsynlegt að koma á fót, ef ekki reynist unnt að stofna fyrirtækið á annan hátt, enda sé einnig aukinn meiri hl. a.m.k. því samþykkur í n. Í norsku jafnvægislöggjöfinni, sem ég nefndi áðan, eru einmitt ákvæði, sem að þessu lúta og norsku jafnvægissjóðirnir hafa gert töluvert að því á undanförnum árum að gerast meðeigendur í slíkum fyrirtækjum.

Einnig vil ég vekja athygli á ákvæðum 13. gr. um sérstaka jafnvægissjóði í einstökum byggðarlögum eða landshlutum. Greinin fjallar um það, að á nánar tilteknu landssvæði sé hægt að koma upp sjálfstæðri jafnvægisstarfsemi á þann hátt, að þetta landssvæði fái til ráðstöfunar sinn hluta af allsherjarsjóðnum, en njóti þá ekki stuðnings af honum með öðrum hætti. Þetta miðar, eins og ákvæði 14. gr. um framfaranefndir, að því að örva frumkvæði og framkvæmdagetu heima fyrir í hverjum landshluta í samræmi við tilgang frv., enda hafi hinir sérstöku jafnvægissjóðir, er til kemur, hlotið löggildingu jafnvægisnefndar. Gert er ráð fyrir, að þeir aðilar, er að slíkum sjóði standa, útvegi sjálfir nokkurt viðbótarfé heima fyrir til starfsemi sinnar eða leggi fram á þennan hátt fé, sem þeir geti ráðstafað til framkvæmda í þágu atvinnulífs til eflingar byggðinni á hlutaðeigandi svæði.

Þá vil ég að lokum vekja athygli á 16. gr. frv. Þar segir svo, að þegar komið er upp atvinnufyrirtækjum með fjárhagslegum stuðningi ríkisvaldsins, skuli ríkisstj. leita álits jafnvægisnefndar um staðsetningu þeirra. Þetta á að sjálfsögðu eigi sízt við um fyrirtæki eða stofnanir, sem ríkið sjálft á eða rekur á sviði atvinnulífsins og ætti í framkvæmd einnig að eiga við ýmsar aðrar opinberar stofnanir, þótt eigi þyki hér henta að setja um það almenna reglu, þar sem sumar af slíkum stofnunum hljóta að verða tengdar við ákveðna staði, t.d. höfuðborgina. Þetta ákvæði, eins og fleiri í þessu frv., styðst við erlend fordæmi frá löndum, sem tekið hafa upp jafnvægisstarfsemi, en þar er að því stuðlað af hálfu ríkisvaldsins á ýmsan hátt, að atvinnufyrirtæki, sem eru að hefja starfsemi sína með nýrri fjárfestingu, starfi fremur í þeim byggðarlögum, sem höllum fæti standa, en í hinum stærstu borgum eða umhverfi þeirra.

Í ákvæði til bráðabirgða er og ákvæði, sem ástæða er til að nefna sérstaklega. Þar er svo fyrir mælt, að jafnvægisnefnd skuli þegar eftir gildistöku l. gera bráðabirgðaáætlun um sérstaka aðstoð við þau byggðarlög, sem nú þykir sýnt að dregizt hafi aftur úr og hætta er á að eyðist, þó því aðeins, að þar geti talizt vel viðunandi náttúruskilyrði til atvinnurekstrar, og verja til þeirrar aðstoðar allt að þriðjungi af tekjum sjóðsins sem óafturkræfu framlagi næstu 3 ár. Sum byggðarlög virðast nú þannig á vegi stödd, að hafa verði hraðan á, ef þær sérstöku ráðstafanir, sem þjóðfélagið kann að vilja gera þeim til aðstoðar, eiga ekki að verða um seinan og leyfi ég mér að vísa til grg. frv. og þeirra fundasamþykkta, sem þar er getið, í því sambandi.

Um einstök efnisatriði þessa frv. og rök fyrir þeim leyfi ég mér að öðru leyti að vísa til grg., sem fylgir frv., svo og þess, sem áður hefur verið um þetta mál rætt hér á hinu háa Alþingi.

Frv. að mestu leyti sama efnis og þetta hefur þegar verið flutt á tveim undanförnum þingum, en því miður ekki náð fram að ganga. Nú sýnist mér hins vegar ýmislegt benda til þess, að nýtt viðhorf hafi skapazt til þessara mála og meiri skilningur, en fyrr á hinni aðkallandi nauðsyn þess, að spornað sé gegn því með skipulögðu átaki, sem um munar, að þjóðin leggi meiri eða minni hluta af landi sinu í eyði. Það er nokkuð áberandi stundum í fari okkar Íslendinga og sérstaklega um þessar mundir að gefa gaum að því, sem aðrar stærri þjóðir hafast að og fara eftir einhvers konar heimstízku í meðferð þjóðmála. Og nú vill svo vel til, að hægt er að benda á það þessu máli til stuðnings, að ekki aðeins frændur vorir Norðmenn, heldur og ýmsar aðrar þjóðir hér í álfu hafa nú í seinni tíð talið sér nauðsynlegt að taka landsbyggðarmál sitt til sérstakrar meðferðar og gert í því sambandi ýmsar mikilsverðar ráðstafanir í löggjöf og stjórnarframkvæmdum. Við, sem að þessu frv. stöndum, höfum undir höndum upplýsingar um opinberar ráðstafanir þessa efnis frá sjö Norðurálfulöndum auk norsku jafnvægislöggjafarinnar. Þessi löggjöf er að sjálfsögðu með ýmsu móti, enda staðhættir mismunandi. En eitt er hér alls staðar sameiginlegt: að í henni, þ.e.a.s. í löggjöfinni, er ákveðið, að þjóðfélögin hafi hönd í bagga um það, hvernig löndin byggist á komandi tímum og leggi fram til þess mikla fjármuni að koma í veg fyrir, að hin blindu lögmál fjármagns og viðskipta verði hinum félagslegu og þjóðlegu sjónarmiðum yfirsterkari og alls ráðandi. Í Frakklandi hefur verið gerð 10 ára áætlun um flutning ýmiss konar ríkisstofnana burt frá höfuðborginni og um að dreifa starfsemi einstakra stofnana um landið. Atvinnufyrirtæki, sem flytja starfsemi sína a.m.k. 200 km út fyrir París eða út í „græna beltið“, sem svo er nefnt, fá sérstaklega hagstæð lán í Frakklandi. Árið 1960 var talið, að búið væri að flytja á þennan hátt um 600 atvinnufyrirtæki, sem höfðu 170 þús. manns í vinnu. Tvær stórar bifreiðaverksmiðjur með 25–30 þús. menn voru t.d. fluttar vestur á Bretagne. Á Ítalíu hefur verið stofnaður sérstakur uppbyggingarsjóður fyrir Suður-Ítalíu og sérstakar uppbyggingaráætlanir gerðar á vegum ríkisins fyrir Sardiníu og Sikiley. Í Bretlandi eru nú skráð á uppbyggingaráætlun um 300 svonefnd uppbyggingarsvæði víðs vegar um Bretland, strjálbýl landssvæði eða landssvæði, þar sem koma þarf upp nýjum atvinnugreinum, í stað annarra úreltra, svo og útborgasvæði til að létta á London og öðrum stórborgum. Á þessum uppbyggingarsvæðum hefur ríkið sjálft, brezka ríkið, látið koma upp fjölda atvinnu- og framleiðslustöðva, sem leigðar eru út eða síðar seldar og einnig eiga atvinnufyrirtæki kost á mjög háu opinberu framlagi, ýmist beinu eða í formi skattgjaldsafsláttar, vegna fjárfestingar á þessum svæðum. Nánari ákvæði um þessi framlög í Bretlandi eru í nýrri löggjöf frá brezka þinginu frá árinu 1963. Í Svíþjóð starfaði mþn. að þessum málum á árunum 1959–1963 og gerði till. um að verja miklu fé til uppbyggingar svonefndra þróunarsvæða í Svíþjóð. Þar er m.a. gert ráð fyrir sérstöku og lægra rafmagnsverði í nyrzta hluta Svíþjóðar og er það athyglisvert fyrir okkur hér á Íslandi, en hér er það nú svo, að hin strjálbýlli héruð greiða hæst verð fyrir raforkuna. Ég nefni aðeins þessi dæmi, en ég skal bæta því við, að í Svíþjóð eins og í Noregi hafa verið uppi og gerpar af opinberum aðilum ákveðnar till. og áætlanir um flutning opinberra stofnana og starfsmanna burt úr höfuðborgunum, þ.e.a.s. stofnana, sem er ekki talið nauðsynlegt að séu þar.

Viðfangsefni stórþjóðanna á meginlandinu eða á Bretlandseyjum eru að sjálfsögðu ólík okkar viðfangsefnum og við getum ekki sniðið okkar löggjöf eða framkvæmdir nema að nokkru leyti eftir fordæmum þeirra. En það, sem athyglisverðast er í þessu sambandi, er sú grundvallarhugsun, sem nú er að festa rætur í mörgum löndum, að þjóðfélagið geti ekki látið sér óviðkomandi staðsetningu landsbyggðarinnar eða staðsetningu atvinnu og framleiðslu, að samanþjöppun eða „centraliseringu“ á litlum landssvæðum verði að vera takmörk sett. Hin nýja og vaxandi samgöngutækni er þegar farin að skapa nýja og áður óþekkta möguleika í þessu sambandi. Margt bendir til þess, að hér sé um að ræða eitt höfuðviðfangsefni þjóðfélaganna á komandi tímum, og þó er það e.t.v. hvergi eins aðkallandi og hér á Íslandi að taka þetta viðfangsefni föstum tökum. Hef ég áður vikið að ástæðum til þess.

Eins og ég sagði áðan, yrðu árlegar tekjur jafnvægissjóðs, miðað við sennilega afgreiðslu fjárl. 1965, að líkindum eitthvað kringum 50 millj. kr. eða rúmlega það samkv. þessu frv. Þetta er ekki mikið fjármagn miðað við þau verkefni, sem fyrir hendi eru. En miklu skiptir, að ekki sé lengur dregið að hefjast handa. Jafnvægisstofnunin þarf að komast á fót sem fyrst. Framkvæmdastjóri norsku jafnvægisstofnunarinnar sagði hér á dögunum, að ráðamenn í Noregi vildu stöðva fólksflóttann úr dreifbýlinu, stöðva strauminn, eins og hann orðaði það. En getum við stöðvað þennan straum? Spurði hann, og spurningunni svaraði hann sjálfur á þessa leið: Já, við getum það, þ.e.a.s. við Norðmenn getum það, ef við viljum.

Við Íslendingar getum það líka, ef við viljum. Þjóðfélagið getur gert þær ráðstafanir, sem til þess þarf, að Ísland verði áfram byggt land. Hér er fyrst og fremst um að ræða rétta dreifingu þess fjármagns, sem þjóðfélagið getur ráðið yfir, til þess að skapa framleiðslumöguleika, íbúðir og það, sem til þess þarf að lifa menningarlífi nútíðar og framtíðar um landið allt. Jafnvægisstofnunin á að verða þess umkomin að leggja til það fjármagn, sem á vantar, þegar búið er að fara hinar venjulegu leiðir. Hún á að geta lagt það lóðið á vogarskálina, sem úrslitum ræður. Hún á að hafa varðstöðu og skynsamlega forsjá.

Það getur verið, eins og Carlsen sagði um daginn, að þetta kosti eitthvað. Við megum ekki láta okkur bregða í brún, þó að það kosti eitthvað fyrir svona litla þjóð að vera sjálfstætt ríki og eiga landið. Það kann að reynast, eins og skáldið sagði, dálítið dýrt, a.m.k. um stundarsakir, að vera Íslendingur. En það kynni þó að reynast dýrara fyrir afkomendur okkar að vera það ekki.

Síðustu 23 árin hefur þjóðinni, eins og ég sagði áðan, fjölgað um nál. 54%. Ef gert er ráð fyrir sömu fjölgun hlutfallslega áfram og litið 23 ár fram í tímann til ársloka 1986, ættu íbúar landsins þá að vera rúmlega 100 þús. fleiri, en þeir eru nú. Þegar rætt er um að skipuleggja landsbyggðina, er spurningin fyrst og fremst þessi: Hvar verða heimili þessara 100 þús. Íslendinga, sem bætast við í landinu á þessum 23 árum — eða á einhverjum styttri tíma eða lengri tíma, ef menn vilja svo vera láta? Það er hægt að hugsa sér, að allur þessi mannfjöldi eða mestur hluti hans safnist saman á höfuðborgarsvæðinu. En í sambandi við allan þennan mannfjölda eru líka möguleikar til að efla byggð í öllum landshlutum og það er það, sem þjóðfélagið þarf að stefna að. Náttúrugæðin eru víða. Landbúnaðurinn í sveitunum ætti að geta tekið á móti miklu meira fólki, en við hann vinnur nú þrátt fyrir aukna tækni. Á 19. og 20. öld hafa myndazt víðs vegar um land rúmlega 70 þéttbýlísmiðstöðvar fyrir utan höfuðborgina og stærstu kaupstaðina, sem telja nokkrar þúsundir manna hver. Flestar eru þessar þéttbýlismiðstöðvar við sjóinn, en nú í seinni tíð eru þær einnig að myndast í sveitum, á krossgötum í sambandi við verzlun og fleira, í kringum skóla, á jarðhitastöðum o.s.frv. Þessi byggð öll eða mestöll hefur vaxtarskilyrði, ef rétt er að henni búið, en þó misjafnlega góð og slíkir staðir geta orðið fleiri. Ísland mun á næstu áratugum eignast mannafla til að geta gefið hinum mörgu þéttbýlisstöðum nýtt líf og jafnframt til að efla sveitirnar og fáa, stóra kaupstaði eða bæi, t.d. einn eða tvo í hverjum landshluta.

Að þessari þróun er jafnvægisstofnuninni, sem þetta frv. fjallar um, ætlað að vinna. Um það þarf hún að hafa samráð við reynda menn og sérfróða á ýmsum sviðum. Hún þarf að byggja á því, sem fyrir er, en jafnframt að hafa auga fyrir nýjum viðhorfum, nýjum möguleikum. Nútímafólk hér á landi vill, eins og annað nútímafólk, verkaskiptingu og fjölbreytni. Sjávaraflinn mun enn um hríð reynast drýgstur til eflingar hinum mörgu smáu þéttbýlisstöðum við sjóinn og alveg sérstaklega þegar farið verður að nýta hann betur til manneldis, en nú er gert. Og íslenzkur landbúnaður kann að eiga sér meiri markaðs- og vaxtarmöguleika, en nú er almennt viðurkennt. En Íslendingar eru líka iðnaðarþjóð og hafa raunar alltaf verið. Innlend hráefni og alþjóðleg gerviefni opna sjálfsagt ýmsar nýjar leiðir. Ekki er ólíklegt, að gamall íslenzkur heimilisiðnaður, þjóðleg handavinna eða listmunagerð eigi eftir að veita mörgum vetraratvinnu, e.t.v. ekki svo mjög á sveitaheimilum eins og fyrr, heldur í þorpum og bæjum, þar sem veturinn er nú hjá mörgum dauður tími heima. Í sumum löndum er heimilisiðnaður og ferðamannaþjónusta nátengdar atvinnugreinar. Og þegar sá draumur rætist, að hafizt verður handa um stórvirkjun fallvatna til framleiðsluaukningar, verður þar um að ræða mikla, óvenjulega möguleika til að auka jafnvægið milli landshluta. Það væri stórslys í skipulagsmálum landsbyggðar, ef þeir möguleikar væru látnir ónotaðir, ef nýtt fjármagn á þessu sviði væri látið ýta undir öfugþróun í stað þess að stuðla að jafnvægi.

Ég mun nú ljúka máli mínu. Það er von okkar flm., að sá tími nálgist, að það málefni, sem við berum hér fram, hljóti nauðsynlegt fylgi hér á hinu háa Alþingi. Ég geri ráð fyrir, að ýmsir hafi sannfærzt um það nú í seinni tíð, að hér er bent á hina réttu leið. Við erum að sjálfsögðu reiðubúnir til að ræða um þær breytingar á þessu frv., sem til bóta mættu verða. Þegar íslenzk jafnvægisstofnun kemst á fót, verður þar um að ræða tákn þess, að með vaxandi fólksfjölda renni hér upp ný landnámsöld, en ekki landeyðingaröld. Við Íslendingar erum um þessar mundir staddir á þeim örlagastað, þar sem skilur milli feigs og ófeigs. Ef þjóðin hirðir ekki um að láta landið stækka sig, smækkar hún og líður undir lok.

Ég vil, herra forseti, að lokinni þessari umr. leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.