08.05.1965
Neðri deild: 86. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2229)

27. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. hv. d. hefur haft mál þetta til meðferðar og kemur fram á þskj. 676, að samstaða hefur ekki fengizt í n. um afgreiðslu þessa máls.

Meiri hl. fjhn. leggur til, að málið verði afgr. með rökstuddri dagskrá, þar sem fram kemur í skýrslu, sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþingi á þskj. 635, að í undirbúningi hjá henni er frv. til jafnvægis í byggð landsins.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál hér. Hér er um að ræða mál, sem ég reikna með að flestir hv. þm. hafi áhuga á að nái fram að ganga, þegar það hefur fengið þann undirbúning, sem þarf og leyfi ég mér því að leggja til f. h. meiri hl. fjhn., að það fái nú afgreiðslu, eins og kemur fram á nál. á þskj. 676, með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Þar sem fram hefur komið í skýrslu ríkisstj., sem lögð hefur verið fyrir Alþingi á þskj. 635, að ríkisstj. hefur ákveðið að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. til laga um framkvæmdasjóð strjálbýlisins, er hafi það hlutverk að tryggja landsmönnum sem jafnasta aðstöðu til alhliða iðnþróunar og uppbyggingar, telur d. ekki ástæðu til að fjalla frekar um frv. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.”