12.11.1964
Neðri deild: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2234)

50. mál, verndun fornmenja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þau lög, sem nú gilda um verndun fornminja á Íslandi, eru frá 1907 og hefur, eftir því sem ég bezt veit, lítið eða ekki verið breytt síðan. Á þeim tíma, sem síðan er liðinn, hafa gengið yfir þjóðfélag vort þær stórkostlegustu breytingar, sem orðið hafa í öllu okkar þjóðlífi og allri okkar sögu. Og það má segja, að sú kynslóð, sem ég enn þá tilheyri, hafi í raun og veru ræturnar í anda aftur í því, sem við venjulega köllum fornöld eða aftur í söguöld, en sú kynslóð, sem nú sé að vaxa upp, standi raunverulega í þeirri hættu að verða rótlaus í okkar landi. Breytingarnar eru svo miklar, að það þarf að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess, frekari en gert var með l. um verndun fornminja 1907, að reyna, að svo miklu leyti sem slík verndun getur orðið til þess að tryggja eitthvert samhengi í sögu þjóðarinnar eða þjóðarerfðinni, að tryggja þessar fornminjar betur, en þar er gert, taka meira undir þær, en þar er. 1907 hugsa menn fyrst og fremst um okkar söguöld eða þjóðveldistíma, skulum við segja og raunverulega liggur nokkurn veginn í orðunum, að það séu menjarnar frá þeim tíma, sem er verið að varðveita. Íslenzka þjóðfélagið hins vegar, þrátt fyrir ýmsar breytingar á því, þá á raunverulega það þjóðfélag, sem hér er á fyrstu 1.000 árum Íslandsbyggðar, meira skylt innbyrðis á þessum 10 öldum heldur, en það þjóðfélag, sem nú er að rísa hér upp. Þjóðfélagslega séð getum við þess vegna vel sagt, að það, sem til væri af fornminjum frá fyrstu 1.000 árum Íslandsbyggðar, ætti að öllu leyti að heyra undir sömu vernd og gengið var út frá að veita fornminjum, svo sem fyrstu greinarnar í l. um verndun fornminja frá 1907 gera. Þó er það aðeins eitt atriði, sem ég hér tek út úr. Ég veit, að í sambandi við verndun ýmissa lausra forngripa hefur það orðið svo, að það hefur verið safnað alveg jafnt þeim forngripum, sem eru frá miðöldunum, þannig að þar er tiltölulega vel um hugsað. Þó er það svo, að ýmislegt, sérstaklega af tækjum og slíku, er að glatast frá þessum tíma. En það er sérstaklega eitt atriði, sem ég vildi gera till. um að bæta nú inn í l. um verndun fornminja og það er að reyna að varðveita þau hús, sem enn þá standa og byggð hafa verið fyrir 1874 eða byggð á fyrstu 1.000 árum Íslandsbyggðar og hafa annaðhvort frá almennu byggingarlistar- eða sögulegu sjónarmiði eða að öðru leyti það gildi, að það væri rétt að varðveita þau. Sannleikurinn er, að við höfum nú á síðustu 90 árum eyðilagt ákaflega mikið af slíkum fornminjum. Mikið af slíkum húsum hefur verið rifið og mörg af slíkum húsum liggja nú undir skemmdum. Það er vitanlegt, að með þeim stórvirku tækjum, sem við nú höfum, er miklu fljótar verið að eyðileggja þessa hluti heldur en áður fyrr og það er enn fremur vitað, að sparneytni manna hefur stundum komið í ljós í því, að menn hafa rifið gömul, sögulega fræg hús, byggð úr sterkum innviðum fyrir 100–200 árum og notað sömu innviðina til þess að byggja ný hús úr þeim, þannig að okkar hirðuleysi um slíkar gamlar, sögulegar menjar er því miður mjög mikið.

Það, sem felst í þessu frv., er raunverulega að taka inn undir 2. gr., þar sem talið er, hvað séu staðbundnar fornminjar eða fornleifar, eins og það þar er kallað, í viðbót við þingbúðarústir eða öll gömul mannvirki og annað slíkt, fornar grafir og hellnaáletranir og annað þess háttar, — að taka þar inn undir líka, í viðbót við fornar kirkjur eða bæjarhús og slíkt, öll hús, sem byggð eru fyrir 1874. Það, að ég tek 1874, er náttúrlega að nokkru leyti tilviljun. Það er eins rétt að binda það við fyrstu 1.000 ár Íslandsbyggðar. Ég álít hins vegar, að það liggi nógu langt frá okkar eigin tíma til þess, að menn verði að viðurkenna, að það beri a.m.k. að athuga öll þau hús, sem byggð eru á þessum tíma, áður en þau séu rifin.

Ég hef áður sagt það hér í sambandi við baráttu fyrir að reyna að vernda þannig ýmislegt, sem tilheyrir okkar þjóðarerfð, að hvað svo sem þær kynslóðir, sem eiga eftir að taka við í þessu landi, seinna meir geta gert, þá er það eitt, sem þær geta ekki og það er að byggja aftur gömul hús. Það, sem einu sinni er búið að eyðileggja, geta þær aldrei skapað að nýju. Þær geta gert tilraunir til þess að hlaða upp kot, til þess að reyna að eiga þá einhver kot, þegar búið væri að rífa öll þau gömlu, en það verður ekki það sama og kot, sem menn höfðu einhvern tíma búið í og unnið í og starfað hér fyrr á tímum. Þegar ég legg til, að þessi hús, sem byggð eru

fyrir 1874, séu varðveitt með þeim skilmálum, sem í 2. gr. frv. greinir, þá eru það hús ýmissa tegunda, sem ég er að hugsa um. Það eru t.d. hús, sem við gætum raunverulega kallað höll, í Viðey. Ég hef á undanförnum áratug a.m.k. þrisvar eða fjórum sinnum flutt till. um það í sambandi við fjárl., að eitthvað verði gert til þess að hindra þá eyðileggingu, sem er að grafa um sig í því húsi. Þær till. mínar hafa aldrei fundið náð fyrir augum meiri hl. hér á Alþingi. Hins vegar sé ég mér til mikillar ánægju, að það er farið að skrifa allmikið um þetta mál nú, þannig að það má vera, að mönnum fari smám saman að renna blóðið til skyldunnar, þegar menn sjá, hvílík vítaverð vanræksla á sér stað þar, svo að ég nú ekki tali um, — það mundi heyra meira undir handrit, — að verzlunarskjöl frá undanförnum öldum liggja þar í hrönnum uppi á loftinu í Viðey, án þess að nokkur maður taki þau til handargagns og eru þau þó öll mikils virði fyrir rannsókn á okkar verzlunarsögu. Mér hefur verið bent á, þegar ég hef flutt þessar till. viðvíkjandi Viðey, — ég held, að ég hafi byrjað á því fyrir 10 árum, — að það vantaði raunverulega allar heimildir til þess, að ríkið gæti nokkuð gripið þarna inn í. Með þessu frv. skapast sú heimild hvað það hús snertir og önnur slík. Það stendur, með leyfi hæstv. forseta, í 2. gr.: „Þegar um er að ræða hús, sem byggð eru fyrir 1874 og notuð eru enn, skal sú skylda hvíla á eiganda að halda þeim við. Séu slík hús eigi notuð eða sé viðhald þeirra vanrækt, er það réttur og skylda ríkisins að halda þeim við á sinn kostnað og gera á þeim þær endurbætur, er í engu spilli gildi þeirra sem söguminjum, en nauðsynlegar eru til viðhalds: ` Og enn fremur segir þar: „Óski ríkisstj. eftir að kaupa slík hús, sem um ræðir í f–lið 2. gr., til varðveizlu eða óski eigandi eftir að selja þau ríkinu, skal fara um mat á þeim eftir 6. gr. laga þessara,“ eins og t.d. um fornminjarnar, þegar eigendur þeirra geta leitað til ríkisstj. viðvíkjandi þeim málum og þá skal meta þau af lögkvöddum mönnum, eins og þar stendur.

En það er ekki aðeins Viðey, það eru mörg önnur hús, sem ég er þarna að hugsa um. Við höfum varðveitt til allrar hamingju nokkra gamla, góða höfðingjabæi og þeir eru til fyrirmyndar og við erum stoltir af því að sýna þá, hvort sem það er Glaumbær, Burstafell eða önnur slík, Grenjaðarstaður eða aðrir. En af gömlu kotunum aftur á móti er ég hræddur um að sé að verða lítið eftir. Og var þó þorrinn allur af okkar forfeðrum, sem bjó þar, en ekki í þeim fögru híbýlum, sem enn þá hafa varðveitzt og voru höfðingjasetur meira eða minna. Ég álít þess vegna alveg nauðsynlegt, að það sé gerð ráðstöfun til þess, að einhver af þessum kotum, sem enn kunna að vera, séu varðveitt í þeirri mynd, sem þau voru og á þeim stað, sem þau voru. Það getur að vísu verið jafnrétt að byggja upp hér í Reykjavík og láta hlaða litið kot til þess að sýna það á lóð þjóðminjasafnsins, bara til þess að æskan í Reykjavik, börnin, geti fengið að sjá, hvernig þetta var, en eitthvað af þessum gömlu kotum þarf að varðveita. Ég veit, að það er dýrt, það er hlutur, sem ríkið verður að taka að sér. Mörg af þeim kotum hafa það sorglegar minjar að geyma fyrir eigendurna, fátæktina, þrautirnar, sem minning þeirra er tengd við, að flestir þeirra hafa verið fljótir til að rífa þau, þegar þeir hafa byggt myndarlega upp sína bæi. En fyrir þjóðminjafræði okkar er stórkostlegt tap að slíku.

Þá er enn fremur vitanlegt, að í mörgum gömlum kaupstöðum á Íslandi er enn þá þó nokkuð af húsum frá þessum tíma, sem eru í bráðri hættu. Í fyrsta lagi eru hér í Reykjavík slík hús, sem eru í hættu bara út af lóðaverðinu og öðru slíku. Það er að verða svo hátt, lóðaverðið víðast hvar á þessum gömlu eignarlóðum í miðbæ Reykjavíkur, að freistingin til þess að láta rífa gömlu húsin, sem eru þar eða flytja þarf burt, sem eyðileggur þau líka, er svo rík, að það þarf sérstakar ráðstafanir að gera, ef menn vilja viðhalda bæði einhverjum gömlum steinbæjum, svo að ég tali nú ekki um torfbæjunum á þeim stöðum, þar sem þeir eru nú í Reykjavík. Og það álít ég nauðsynlegt. Ég álít ekki, að það eigi að vera meginreglan að flytja allt slíkt upp að Árbæ. En það getur þýtt, að það verði að bæta þeim eigendum mjög vel upp, til þess að Reykjavík fái innan sinna gömlu vébanda að hafa slíkar gamlar minjar. Við vitum líka, að á Vopnafirði, Djúpavogi, Eyrarbakka, ótal stöðum á landinu, eru gömul hús enn þá. En ég er hræddur um, að þeim fækki með hverju árinu sem líður, og öðru hverju sér maður jafnvel hér í blöðunum, þegar nýbúið er að rífa slík hús.

Ég held þess vegna, að það sé ekki seinna vænna, að frv. um þetta mál sé samþykkt og ég held, að það sé að einu leyti alveg sérstaklega tímabært, að við gerum það nú og það þegar á þessu þingi. Við erum að reyna að heimta handritin heim og erum að vonast til þess, að við fáum þau heim. Og við þurfum að sýna það í verki, að við séum ekki bara að gera kröfu til þess, sem Íslendingar og Danir í Kaupmannahöfn hafa varðveitt, heldur að við höfum líka fullan hug á að varðveita það, sem raunverulega tilheyrir fornminjum hérna heima. Og ég held, að það mundi frekar bæta okkar aðstöðu hvað snertir okkar siðferðilegu kröfur, ef við sýndum það, að við værum mjög ákveðnir í því að vilja stíga stór spor til þess að varðveita það, sem gamalt er hjá okkur og sjá um, að það verði ekki eyðilagt. Þess vegna held ég líka út frá okkar réttlátu baráttu fyrir því að fá handritin heim, þá sé rétt fyrir okkur að gera meira að því að reyna að varðveita það, sem er enn þá eftir t.d. af húsum frá fyrstu 1.000 árum Íslandsbyggðar og fleira mættum við gera og er gert og þess vegna hef ég flutt þetta mál. Ríkinu eru bundnar nokkrar skyldur með þessu. Þær eru ekki sérstaklega stórar og verða því ekki ofjarl, en það tryggir sér hins vegar með þessu að þurfa ekki að horfa upp á það aðgerðalaust, að slík hús, sem öll þjóðin er sammála um að varðveita, en eru í einstaklingseigu, þau meira eða minna drabbist niður, ekki sízt þegar um hús er að ræða, sem bæði frá sögulegu og listrænu sjónarmiði eiga skilið að varðveitast og það vel.

Hins vegar er mér ljóst, að það mun vafalaust vera um nokkuð að ræða af húsum, við skulum segja ýmsar skemmur eða skot eða útihús eða slíkt frá þessum tíma, sem koma undir þessi lög, en mönnum mundi kannske ekki þykja rétt endilega að varðveita. Og þá legg ég það með síðustu mgr. 2. gr. í hendur þjóðminjavarðar að taka ákvarðanir um slíkt. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Þó er þjóðminjaverði heimilt, ef sérstaklega stendur á að hans álíti, að leyfa, að slík hús séu flutt, ef þess er sérstaklega óskað eða jafnvel rífa þau, ef þjóðminjavörður álitur einskisvirði að halda þeim við.“ Ég treysti þjóðminjaverði, hver svo sem hann er á hverjum tíma, fyllilega til þess að sjá um þetta og vil leggja þetta vald í hans hendur, því að mér er ljóst, að það getur náttúrlega verið um nokkuð af húsum að ræða, sem enginn sérstakur fengur sé að því að varðveita. En l. þurfa hins vegar að gilda um allt saman, um öll hús, sem byggð eru fyrir 1874, þannig að það sé ekkert af þeim rifið eða flutt, nema því aðeins að áður hafi þjóðminjavörður haft aðstöðu til þess að segja sitt álit þarna um og beita sínu valdi.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að óska þess, að þessu frv. verði nú að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn. og vil ég leyfa mér að vonast til þess, að það fái afgreiðslu á þessu þingi og þm. geti orðið sammála um í fyrsta lagi að gera þar á þær breytingar, sem þeir álitu heppilegar, sem ég er fyllilega ásáttur um að gera og í öðru lagi að samþykkja það og gera það að lögum á þessu þingi.