02.03.1965
Neðri deild: 49. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (2236)

50. mál, verndun fornmenja

Frsm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft þetta frv. til athugunar og hefur sent það til umsagnar þjóðminjavarðar og skjalavarðar Minja- og skjalasafns Reykjavíkurborgar. Báðir þessir sérfræðingar hafa sent umsagnir til n. og eru þær prentaðar sem fskj. nr. 1 og 2 með nál. á þskj. 276. Báðir þessir aðilar fara fram á, að það yrði ýmislegt fleira, sem athugað yrði í sambandi við endurskoðun á l. um verndun fornminja. Þau eru orðin gömul, allt frá 1907 og þess vegna mjög mikil þörf á endurskoðun á þeim með tilliti til fleira, en felst í frv. á þskj. 56. Það hefur þess vegna orðið að samkomulagi í menntmn. að leggja til að vísa þessu frv. til ríkisstj. nú í trausti þess, að hún skipi nefnd til þess að endurskoða gömlu l. um verndun fornminja frá 1907, endurskoða þau þá mjög alhliða, þannig að tillit væri tekið til allra þeirra hugmynda, sem fram hafa komið og fram kunna að koma á næstunni um þessi mál og þá náttúrlega einnig þeirra, sem fram koma í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Við viljum ætla þessari n. að vísu rúman tíma til þess að vinna að þessu, því að þetta er vafalaust allmikið og nauðsynlegt verk, sem þarna þarf að vinna, en þó æskilegt, að hún gæti sem fyrst skilað áliti, en í síðasta lagi, að hún skili því til ríkisstj. þannig, að hægt væri fyrir þingbyrjun 1967 að leggja frv. endurskoðað fyrir Alþingi. Það er þess vegna sameiginleg till. menntmn., að þessu frv. sé nú vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hún skipi n. til þess að endurskoða þessi lög.