04.05.1965
Neðri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2243)

66. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft frv. á þskj. 74 til athugunar og orðið sammála um að leggja til, að frv. verði vísað til ríkisstj. Einn nm., hv. 3. þm. Sunnl., skrifar þó undir nál. með fyrirvara.

Eins og fram kemur í nál., er það álít sjútvn., að endurskoða þurfi í heild lög nr. 5 frá 18. maí 1920, um bann gegn botnvörpuveiðum og að við þá endurskoðun þurfi að taka tillit til þeirra atriða, sem frv. á þskj. 74 fjallar um, en það eru einkum þrjú atriði. Í fyrsta lagi er þar lagt til, að sektir fyrir landhelgisbrot verði hækkaðar verulega. Í öðru lagi er lagt til, að bannað verði að láta af hendi eða selja upptæk veiðarfæri þeirra, sem sekir hafa gerzt um botnvörpuveiðar í landhelgi, fyrr en í fyrsta lagi einum mánuði eftir að sektardómur hefur verið kveðinn upp. Í þriðja lagi er lagt til, að sett verði ótvíræð ákvæði í l. um það, að náist ekki í sekan skipstjóra á veiðiskipi, sem tekið hefur verið að ólöglegum veiðum, sé heimilt að dæma útgerðarfyrirtæki skipsins og gera það á allan hátt ábyrgt fyrir landhelgisbrotinu.

Sjútvn. hefur fengið umsögn frá sakadómara ríkisins um frv. og hvert þessara þriggja atriða, sem frv. fjallar um. Er umsögn sakadómara prentuð sem fskj. með nál. Í þeirri umsögn kemur fram rökstuðningur fyrir því, að athuga þurfi nánar þessi þrjú efnisatriði frumvarpsins, og með því að leggja til, að frv. verði vísað til ríkisstj., fellst sjútvn. á þá afstöðu sakadómara ríkisins. Hins vegar, eins og fram er tekið í nál., eru innan n. mjög skiptar skoðanir um sjálfar till., sem í frv. felast, eins og fram er tekið í nál.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta, þar sem nál. og bréf sakadómara ríkisins skýra sig alveg sjálf, en leyfi mér, herra forseti, fyrir hönd sjútvn. að leggja til, að frv. verði vísað til ríkisstj.