19.11.1964
Efri deild: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (2248)

74. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er mjög einfalt í sniðum og þarf ekki langra skýringa með.

Svo sem öllum þdm. er kunnugt, er talið vísindalega sannað, að tóbak valdi mjög alvarlegum meinsemdum eða a.m.k. sé sterkur þáttur í að valda þeim og fyrir eigi alllöngu voru birtar grg. erlendra sérfræðinga, auk þess sem innlendir sérfræðingar hafa einnig um það mál fjallað, þar sem það þótti ótvírætt, að viss tegund tóbaksnotkunar a.m.k. væri mikill skaðvaldur hvað snerti heilsu manna. Það ætti öllum að vera það sameiginlegt áhugamál og er ekki að efa, að svo sé, að reyna að girða fyrir það, að slík notkun eigi sér stað að því marki sem auðið er á hana að hafa áhrif. Hitt er annað mál, að það vitum við öll, að tóbaksnotkun er nautn, sem er hægara sagt en gert að fást við, svipað og með áfengisnautnina, en það hefur þó jafnan verið viðurkennt, að það væri rétt varðandi áfengisnautnina að vinna gegn henni með öllum tiltækum ráðum. Af hálfu hins opinbera hefur verið varið verulegum fjárveitingum í því skyni. Í sambandi við tóbakið hefur ekkert verið gert í því efni og talið, að þar væri um miklu meinlausari atriði að ræða. En nú, eins og ég áðan sagði, virðist augljóst, að hér sé allveruleg hætta á ferðum og a.m.k. séu svo sterkar líkur fyrir því, að tóbakið sé mikill skaðvaldur heilsu manna, að það sé ekki síður ástæða til að sporna gegn notkun þess.

Þetta frv., sem ég hef leyft mér að flytja, er um það eitt atriði, að tóbaksauglýsingar hvers konar yrðu bannaðar. Það mætti kannske segja sem svo, að þetta væri ástæðulítið og þarflaust, því að þetta mætti gera einfaldlega með ákvörðun ríkisstj., þar sem hér er tóbakseinkasala. Tóbakseinkasalan hefur ekki auglýst neitt að ráði tóbak og það er sjálfsagt einfalt með framkvæmdarákvörðun að takmarka þær auglýsingar.

En ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er fyrst og fremst sú, að það er fullkomin ástæða til að álíta, að einmitt hversu dregið hefur mjög úr einkanlega sígarettureykingum hér á landi á þessu ári, það hafi orðið til þess, að framleiðendur þessarar vöru hafi jafnvel hugsað sér til hreyfings um það að útbreiða hana og koma henni meir á framfæri, en verið hefur, með auglýsingum. Og það er að sjálfsögðu ekkert í vegi fyrir því, eins og nú standa sakir, að framleiðendur geti kostað hér auglýsingastarfsemi og þess hefur orðið vart, að það er farið að auglýsa hér í kvikmyndahúsum sígarettur og ég hygg, að það sé rökstudd ástæða til að álíta, að uppi séu hugmyndir um það og fyrirætlanir hjá framleiðendum á sígarettum að reyna að vinna sér upp það tjón, sem þeir telja sig hafa orðið fyrir hér með minnkandi notkun þessarar tóbaksvöru. Af þessum sökum er þetta frv. flutt til þess að stöðva hvers konar auglýsingar slíkar.

Svo sem hv. þdm. er kunnugt, eru hvers konar auglýsingar á áfengi bannaðar og hér er gert ráð fyrir, að hið sama gildi um tóbak. Auðvitað er þetta ekki nema einn þáttur í þessu máli og það þarf að sinna því í stærri stíl bæði af heilbrigðisyfirvöldum og fræðsluyfirvöldum varðandi starfsemi í skólum og af hálfu heilbrigðisstofnana. Inn á það mál er ekki farið hér, enda á það ekki heima í frv. sem þessu, sem er um breyt. á l. um einkasölu ríkisins á tóbaki.

Ég hygg, herra forseti, að ekki sé þörf á því að þreyta hv. þdm. með lengri tölu um þetta mál, en vil leyfa mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn., og vil jafnframt mega vona, að hv. n. fyrst og fremst og síðan hv. d. geti sameinazt um það að afgreiða þetta mál og það helzt sem skjótast, þannig að þessi auglýsingaherferð, sem virðist vera að skjóta upp kollinum, verði kæfð í tæka tíð.