02.03.1965
Efri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (2251)

74. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Eins og álít allshn. ber með sér, hafði ég skrifað undir það með fyrirvara og tel ég rétt að gera grein fyrir honum með örfáum orðum.

Þó að ég sé auðvitað ekki sérfræðingur í heilbrigðismálum, tel ég það varla fara á milli mála með tilliti til þess, hve almenn skoðun lækna það er nú, að tóbaksnautn sé skaðleg mannslíkamanum, að hún sé heilsuspillandi og þar sem ágreiningur er varla um það, að heilsuvernd og heilsugæzla er verkefni hins opinbera, leiðir af því, að eðlilegt sé, að hið opinbera vinni gegn tóbaksnautn. Um þetta hygg ég að varla geti veríð ágreiningur.

Annað mál er það, að mér finnst, að sú leið, sem hér er lagt til að farin sé, sé að ýmsu leyti óhugnæm. Það er margt fleira en tóbak, sem fólk notar, bæði fæðutegundir og annað, sem ekki er vafi á að er óhollt frá heilsufræðilegu sjónarmiði. En annað mál er það, hvort réttasta leiðin til að vinna gegn slíku séu bönn af því tagi, sem hér er um að ræða. En þrátt fyrir þetta sé ég þó ekki ástæðu til þess að leggjast gegn þessu frv. og kemur þar tvennt til: Í fyrsta lagi það, að þær vörur, sem hér er um að ræða, hafa sérstöðu í því efni, að ríkið er, eins og kunnugt er, eini aðilinn, sem annast dreifingu þeirra. Þess vegna er ekki hægt að tala um það, að neitt frelsi sé skert, hvað snertir það að auglýsa slíka vöru og vinna að dreifingu hennar, vegna þess að slíkt frelsi er ekki til. Í öðru lagi kemur það til, sem fram kom í ræðu hv. frsm., að tilsvarandi bann er nú þegar í gildi um áfengissöluna og með tilliti til þess, að mikið álítamál muni vera, hvort sé óheilnæmara, áfengisnautn eða tóbaksnautn, virðist í sjálfu sér ekki ástæða til þess, að munur sé þar á gerður í þessu efni. Þess vegna hef ég ekki séð ástæðu til þess að leggjast gegn samþykkt þessa frv., en vildi þó, að þær aths., sem ég hef gert, kæmu fram.