15.12.1964
Neðri deild: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. Ég tel, að sú meginbreyting, sem felst í þessu frv. á l. um verðlagsráð sjávarútvegsins, sé til bóta, það atriði, að skýrt sé fram tekið, að við verðákvörðun á fiski skuli að jöfnum hluta taka tillit til kostnaðarins við að afla fisksins, eins og tillit er tekið til kostnaðarins við að vinna hann og selja hann. Það álit ég, að sé til bóta, og það er enda skoðun mín, að það hafi verið meiningin; að þannig yrði á málunum haldið, þegar þessi lög voru upphaflega sett.

Annað atriði í þessu frv., sem miðar að breyt. á l., er um val á oddamanni í yfirnefnd. Það má vel vera, að það verði heldur til bóta, að það sé fastur aðili, sem sinnir þessum störfum. Ég býst við því, að það sé heldur til bóta en að vera að skipta þarna um mann í sífellu, eins og verið hefur. En þó verð ég að segja það, að ég hefði talið miklu betra, að þeir aðilar, sem þarna sitja að samningborði, reyndu fyrst að koma sér saman um oddamann, eins og gert var ráð fyrir í l., að þeir gerðu, og dæmi eru til um, að það hafi heppnazt. En með þessari breyt, er því slegið föstu, að tiltekinn embættismaður skuli vera þarna oddamaður í öllum tilfellum.

En ég tel rétt, þó að þessar breyt., sem hér er gert ráð fyrir að gera á l. um verðlagsráð sjávarútvegsins, séu fremur til bóta að mínum dómi og eigi að greiða fyrir þeim út af fyrir sig, að taka það skýrt fram, að því fer að mínum dómi alls fjarri, að sú leið, sem valin var til verðákvörðunar á fiski með þessari lagasetningu um verðlagsráð sjávarútvegsins, sé heppileg eða hún leysi þann vanda, sem þarna er við að glíma.

Þessi leið byggir á gerðardómsaðferð. Það er gert ráð fyrir því, að hægt sé að úrskurða um það, hvert skuli vera fiskverð á hverjum tíma. Það á að vísu að ákveðast eftir athugun á ýmsum kostnaðarreikningum, sem lagðir skulu fram af aðilum. En það er lítil lausn á slíku vandamáli eins og það er að ákveða fiskverð að kveða upp einhvern úrskurð í þeim efnum. Það þarf fyrst og fremst að leggja til grundvallar í þessum efnum samkomulag á milli aðila, því að hér er um það að ræða, að annar aðilinn er að selja sína vinnu og sinn framleiðslukostnað og enn annar að kaupa, og jafnvel þó að menn fari þá leið, sem nú er gert ráð fyrir með þessari breytingu, að það skuli fara hér bil beggja, það skuli taka álíka mikið tillit til framleiðslukostnaðar fisksins og til vinnslukostnaðarins og það skuli fara þar bil beggja í úrskurði, þá leysir þetta ekki vandann, þegar verulegan vanda ber að höndum. Þetta mundi í framkvæmdinni koma þannig út og er sennilega ekki fjarri því að vera, eins og málin standa nú, að það mætti búast við því, að kostnaðarreikningar sýndu það, að fiskibáturinn og sjómennirnir þyrftu að fá 5 kr. fyrir kg af fiskinum, en hins vegar kæmu svo aftur fiskkaupendur, frystihúsaeigendur og sýndu með sínum útreikningum, að þeir gætu ekki borgað nema 3 kr. fyrir kg. Þá er ákveðið samkv. þessum 1., — og valið er ekkert þungt eða erfitt, — þá er ákveðið, að fiskverðið skuli vera 4 kr. Þá á að fara þarna mitt á milli. Ég er ekki í nokkrum vafa um það fyrir mitt leyti, að a.m.k. hafi þessir útreikningar, sem voru lagðir til grundvallar, verið í höfuðatriðum réttir, þá mundi slíkur úrskurður eins og þessi, að ákveða fiskverðið í slíku tilfelli 4 kr. kg, ekki leysa neitt. Fiskverðið væri þá of lágt fyrir framleiðendur. Þeir yrðu að finna sér einhverja aðra leið út úr vandanum. Og fiskverðið væri of hátt fyrir þá, sem eiga að kaupa, og þeir mundu ekki vilja kaupa. Ef slíkt misræmi eins og þetta skapast og ekki er mögulegt að ná samkomulagi á milli þeirra aðila, sem þarna eiga að eigast við eða hljóta að eigast við, þá verður að koma til afskipta ríkisvaldsins á einn eða annan hátt og brúa bilið og gera það kleift, að framleiðslan geti gengið með eðlilegum hætti. Þetta hefur nú sumpart verið tekið upp í sambandi við verðákvörðun á landbúnaðarafurðum. Þar hefur ríkisstj. verið með í spilinu og lagt til það, sem upp á hefur vantað, þegar endarnir náðu ekki saman m.a.

Ég vek aðeins athygli á þessu, að að mínum dómi er sá grundvöllur, sem þarna er lagður, mjög hæpinn og hann leysir ekki vandann nema í einstaka tilfelli, og það má engan veginn halda á þessu vandamáli þannig af hálfu ríkisstj., að þó að leið hafi verið fundin til þess að kveða upp einhvern úrskurð um fiskverð, þá sé tiltölulega afskipta- og hugsanalítið gengið til þessa verks. Ríkisstj. verður að taka sinn þátt í að leysa vandamál eins og þessi, ef aðilarnir sjálfir geta ekki komið sér saman um þann grundvöll, sem starfa á eftir, en það er auðvitað það æskilegasta.

Hvað varðar hagsmunamál sjómanna, þá mundi misræmi í ákvörðun fiskverðsins leiða einfaldlega til þess, eins og dæmi eru til um, að sjómennirnir una þá ekki fiskverðinu, því að það er aðeins einn hlutinn í að ákvarða kaup sjómannsins, fiskverðið, og þá segja þeir upp skiptakjörunum og heimta sér til handa hærri skiptahlut og hækka kaup sitt við samningsborðið, þar sem ekki er um gerðardóm að ræða eftir þeirri leið.

En eitt atriði er það hér, sem ég vildi þó aðeins minnast á, því að um það hafa orðið nokkrar deilur varðandi túlkun á þessum lögum, og það er ekki gerð nein breyting á því ákvæði. Það er ákvæðið í síðustu málsgr. 9. gr. l., en það er nú tekið upp í þetta frv. alveg

óbreytt. En þessi niðurlagsmálsgr. er svo hljóðandi:

„Þannig skipuð fellir yfirnefnd fullnaðarúrskurð um ágreiningsatriði, og ræður meiri hl. atkvæða úrslitum.“

Ég fyrir mitt leyti hef litið svo á og lít svo á enn, að þetta orðalag þýði, að það þurfi á hverjum tíma í yfirnefndinni meiri hl. atkv., til þess að þar verði ákvörðun tekin. En hins vegar hefur í a. m, k. einu tilfelli þetta atriði verið túlkað þannig í framkvæmdinni, að oddamaðurinn einn gæti ákveðið um úrslitin, jafnvel þó að allir hinir fjórir, sem með honum voru í yfirdóminum, væru honum andvígir. Ég vildi nú beina því til hæstv. ráðh., sem með þetta mál hefur að gera, að hann lýsi því hér, hver er skilningur hans í þessum efnum, því að ef skilningurinn er sá, sem hér hefur orðið nokkur ágreiningur um, að oddamaðurinn geti hér einn ráðið, jafnvel þó að meiri hl. í yfirdómi sé honum andstæður, þá tel ég alveg óhjákvæmilegt að fenginni reynslu að flytja brtt. um þetta ákvæði í l. og í frv. En þess þarf hins vegar ekki, ef skoðun ráðherrans er sú, að það eigi að túlka þetta atriði á þá lund, sem ég hef gert, því að mér finnst satt að segja orðalagið vera mjög skýrt, þar sem segir, að þannig skipuð felli yfirnefndin fullnaðarúrskurð um ágreiningsatriði og ræður meiri hl. atkvæða úrslitum, — mér finnst í rauninni ekki vera hægt að túlka þetta nema á einn veg.

Ég skal svo ekki lengja hér frekar umræður um þetta, en þykir sjálfsagt að greiða frekar fyrir því, að breyting á þessum lögum geti náð fram að ganga fyrir jólafríið.