03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (2262)

74. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur á nokkrum fundum sínum athugað og rætt frv. til l. um breyt. á 1. nr. 58 1991, um einkasölu ríkisins á tóbaki og leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem meiri hl. n. gerir till. um í nál., að þrátt fyrir bann á tóbaksauglýsingum, sem frv.. ákveður, skuli áfengis- og tóbakseinkasölu ríkisins eftir sem áður vera heimilt að auglýsa verð á tóbaksvörum.

N. hefur við meðferð málsins rætt efni frv. við landlækni, Sigurð Sigurðsson, og borgarlækni í Reykjavík, Jón Sigurðsson. Létu þeir n. í té ýmis fróðleg gögn um skaðsemi tóbaksreykinga og þá aðallega vindlingareykinga á heilsu manna og mæltu annars með samþykkt frv. fyrir sitt leyti.

Báðir lýstu þessir læknar í viðræðum sínum við n. áhuga sínum á því, að sala vindlinga í stykkjatölu yrði bönnuð. Út af þessu vil ég taka fram, að fjmrn. hefur þegar með reglugerðarákvæði bannað sölu vindlinga í stykkjatölu.

Frá Félagi íslenzkra stórkaupmanna hefur allshn. borizt bréf, þar sem lagzt er gegn samþykkt þessa frv. og talið, að auglýsingabannið mundi koma að litlum notum í framkvæmd og að af því mundi m.a. leiða gjaldeyristap vegna tóbaksauglýsinga.

Í grg. með frv. gerði flm. grein fyrir sannfæringu sinni, að bann við tóbaksauglýsingum mundi reynast drjúgur liður í baráttunni gegn tóbaksreykingum og þá sérstaklega reykingum unglinga. Getur meiri hl. n. í aðalatriðum fallizt á þetta álít flm. og leggur því til, eins og ég áður sagði, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem lýst er í nál. og ég hef áður lýst.