05.05.1965
Neðri deild: 82. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (2266)

74. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það hefur talsvert verið um það rætt nú í seinni tíð, að það bæri brýna nauðsyn til að reyna að hamla gegn vaxandi reykingum, einkum æskufólks í landinu og það hefur ekki skort á, að ýmsir aðilar hafi tekið þar undir með fögrum orðum, játað þar staðreyndir, að vísu um alveg ótvíræða skaðsemi reykinga meðal ungs fólks, en svo þegar kemur að því, að það þarf örlitið að leggja á sig, að e.t.v. gætu einhverjir tapað örfáum krónum, er ekki áhuginn meiri en svo, að þá geta menn látið fögru orðin ein nægja í þessum efnum, en vilja ekki leggja það á sig að tapa kannske örfáum krónum í sambandi við auglýsingar, sem birtast til hvatningar í sambandi við reykingar. Fyrirsláttur er hafður um það, að það hafi ekki unnizt tími til þess að athuga þetta mál niður í kjölinn, menn þurfi að taka sér frest, af því að þetta þurfi að skoðast miklu betur. Sannleikur málsins er sá, að við höfum um mjög langan tíma hér á Íslandi nokkurn veginn verið lausir við að hafa sífelldar auglýsingar um tóbaksnotkun og áfengisauglýsingar líka, við höfum verið lausir við þetta hér að mestu. En tóbaksauglýsingar eru nýlega að skjóta upp kollinum hér, einmitt um það sama leyti, þegar við þykjumst ætla að gera nokkrar ráðstafanir til þess að vernda okkar unga fólk frá skaðsemi reykinganna. Þessar auglýsingar eru einmitt að byrja, nú hjá okkur, af alvöru. Og því er málið ósköp einfalt hjá okkur, það er í rauninni bara að taka ákvörðun í málinu um það að stöðva þetta strax í upphafi. Og slík afsökun eins og það, að hingað berist til landsins erlend blöð með tóbaksauglýsingum, — á maður þá von á því, að framhald af þessari röksemd verði það, að það sé líka sjálfsagt að leyfa áfengisauglýsingar, í öllum blöðum íslenzkum, vegna þess að erlend blöð auglýsa alveg óspart þessa tegundina af whisky frekar en aðra o.s.frv.? Nei, hér er aðeins spurningin um það: Er einhver alvara á bak við það, sem þegar hefur komið hér fram á Alþ., að við ættum að gera nokkrar ráðstafanir í þá átt að reyna að hamla gegn vaxandi reykingum, einkum meðal ungs fólks í landinu?

Hæstv. menntmrh. gaf hér nokkra skýrslu um það á síðasta þingi, að hann hygðist gera allmikið í þessum efnum og hefði undirbúið málið allrækilega, að sókn yrði hafin einmitt gegn vaxandi reykingum meðal ungs fólks. Og ég geri ráð fyrir því, að nokkuð hafi þegar verið af þessu gert og það sé meiningin að gera þetta. Mér þætti það þá skjóta nokkuð skökku við, þegar æskulýðssamtök í landinu snúa sér til þingflokkanna og biðja um, að ráðstafanir verði gerðar til þess að banna slíkar auglýsingar, sem eru nú að halda innreið sína í blöðum og tímaritum á Íslandi, ef Alþ. ætlar þá að heykjast á því að banna slíkt.

Það er auðvitað enginn vafi á því, að það, sem hér er á ferðinni, er einfaldlega það, að nokkrir aðilar sjá sér hagnaðarvon í því, að þessar auglýsingar fái að birtast í íslenzkum blöðum. Það er málefni út af fyrir sig, að íslenzku dagblöðin sérstaklega standa fjárhagslega höllum fæti og það þarf efalaust að taka á því vandamáli hér eins og í ýmsum öðrum löndum. En ekki vil ég leysa vanda þeirra á þann hátt, að þau geti birgt sig upp af tóbaks- eða brennivínsauglýsingum. Ég held, að það verði að finna einhverjar aðrar leiðir til þess að leysa vanda blaðanna í þeim efnum. Og svo auðvitað kemur til nokkur hagnaðarvon þeirra, sem fara með umboð fyrir þessi þekktu tóbaksframleiðslufyrirtæki, sem telja það ómaksins vert að ausa út peningum í sambandi við slíkar auglýsingar.

Það er auðvitað enginn vafi á því, að tóbaksauglýsingar af þeirri gerð, sem hafa verið að birtast í blöðum hér að undanförnu og í kvikmyndahúsunum, hafa vitanlega sitt að segja. Það er enginn vafi á því. Auglýsingarnar eru oft og tíðum þannig úr garði gerðar, að þær vekja athygli, þær vekja áhuga unga fólksins, enda kunna þessir aðilar til verka, sem þarna eru á ferðinni. Ég mæli því sterklega á móti þeirri till., sem hér var lýst af hv. 2. landsk. þm., og ég vil vænta þess, að hv, alþm. úr öllum flokkum sjái hér sóma sinn í því að verða við þeim tilmælum, sem Alþ. hafa borizt einmitt um það að banna þessar auglýsingar og vera þannig sjálfu sér samkvæmir í sambandi við þær yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið hér á Alþ. að undanförnu, til þess að gera ráðstafanir í þá átt að hamla gegn vaxandi reykingum ungs fólks.