06.05.1965
Neðri deild: 83. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2269)

74. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Vilhjálmur Hjálmarsson: Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér kom í stanz í gær, þegar hv. þm. Birgir Finnsson flutti hér till. um að vísa þessu frv. til ríkisstj. Ég veit ekki betur en þetta frv. hafi verið samþykkt frá Ed. með 13 shlj. atkv. og afgreitt við 2. umr. hér í þessari hv. deild með 20:13 atkv. Og þar með hefur það komið fyllilega fram, að meiri hluti Alþingis er málinu samþykkur. Svo er flutt hér till. um að vísa þessu sama máli til ríkisstj.

Rökin, sem fram voru flutt fyrir þessari till., virtust mér vera einkum tvenns konar: annað það, að það væri auglýst tóbak í erlendum blöðum, sem hingað bærust og það hefði þess vegna ekkert gildi að banna auglýsingar í innlendum blöðum og hitt, að það þurfi að gera meira í málinu og þess vegna megi nú ekki gera neitt!

Þetta hvort tveggja, tillöguflutningurinn og röksemdaleiðslan, voru mér fullkomið undrunarefni. Sömuleiðis þau rök, sem hv. 3. þm. Vestf. hafði fram að færa, þar hallast ekki á. Hann virðist aldrei hafa vitað, að til séu undantekningarákvæði í lögum. Það getur vel verið, að hann hafi ekki séð það, en ég hugsa, að ýmsir aðrir hafi séð lög þannig úr garði gerð.

Ég ætla ekki að fara að lengja umr. um þetta mál. Það er ástæðulaust að elta ólar við svona hluti. Menn finna alveg, hvað hér hangir á spýtunni. Og málið er ekkert flókið: Það er almenn skoðun manna og það þm. eins og annarra, að tóbaksnautn sé háskaleg og ekki sízt unglingunum. Engum lifandi manni kemur til hugar, að tóbaksframleiðendur séu að hefja hér auglýsingaherferð, ef það hefði ekki örvandi áhrif á neyzluna. Allar auglýsingar verka í þá átt. Hér er um það að ræða að draga úr þeim áróðri og ekkert annað. Þetta er mergurinn málsins.

Ég vildi aðeins lýsa þessari skoðun minni og vitanlega legg ég eindregið til, að frávísunartill. verði felld og sá vilji, sem þegar er kominn fram í hv. Alþingi, nái fram að ganga.