06.05.1965
Neðri deild: 83. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2270)

74. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Sú till., sem ég bar fram í gær við umr. um þetta mál, að vísa málinu til ríkisstj. til nánari athugunar, virðist hafa komið sumum hv. þm. í nokkurt uppnám. En það er einmitt þegar menn eru í slíku hugarástandi, sem mönnum hættir til að láta fara frá sér fljóthugsaðar tillögur.

Sumum mönnum, sem vilja beita sér gegn neyzlu áfengis og tóbaks, hættir því miður stundum við að leggja of mikið upp úr hvers konar boðum og bönnum, en eins og alkunnugt er, geta boð og bönn verið ákaflega misheppnuð oft og tíðum. Það bann, sem lagt er til að sett verði á tóbaksauglýsingar í þessu frv., sérstaklega tóbaksauglýsingar í blöðum, mundi áreiðanlega vera misheppnað hér á landi. Það er vegna þess, eins og ég tók fram í þeim orðum, sem ég lét fylgja till. minni í gær, að það streyma inn í landið erlend blöð og tímarit, sem eru full af skrautlegum og áberandi auglýsingum um tóbak, og þessi blöð liggja frammi almenningi til sýnis við hliðina á íslenzku blöðunum. Þótt bannað væri að auglýsa í íslenzkum blöðum, mundu unglingar okkar hafa þetta fyrir augunum eftir sem áður. Það þarf ekki lengra að fara, en fram á lestrarsal þingsins til að sjá þetta, þar liggja bæði íslenzk og erlend blöð. Við skulum segja, að það væru engar tóbaksauglýsingar í íslenzku blöðunum, en það væru samt margar auglýsingar svipaðar þessari, sem ég held á, að finna í þeim erlendu. Þetta hafa þingsveinarnir okkar fyrir framan sig og ef við ætluðum að gera eitthvað raunhæft, þá ættum við kannske að byrja á því að láta ekki slík blöð liggja frammi þingsveinunum til sýnis hér á þinginu. Hér er önnur auglýsing af sama tagi. Í þessum tveimur blöðum, sem eru í þessari möppu, sem ég held á, eru auglýstar sígarettur af tegundunum Marlboro, Players, 2 tegundir, Pall Mall, Piccadilly, Benson Hedges, Chesterfield, Rothmans o.s.frv.

Þetta, sem ég hef nú verið að reyna að útskýra fyrir hv. þm., er aðalástæðan fyrir því, að ég tel, að frv. þurfi nánari athugunar við, vegna þess að það bann, sem þar er gert ráð fyrir á auglýsingum á tóbaki í íslenzkum blöðum, muni ekki koma að gagni.

Hv. 5. þm. Austf. (LJós) varpaði fram þeirri spurningu til mín í gær, hvort ég vildi þá ekki alveg eins taka upp auglýsingar á áfengi. Ég hef ekki lagt það til og ætla mér ekki að leggja það til. Hins vegar álít ég, að auglýsingabannið á áfengi sé tiltölulega gagnslitið, meðan erlendar auglýsingar eru hér yfirfljótandi á bóka- og blaðamarkaðinum. Í þessum sömu heftum, sem ég held hér á, eru auglýstar þessar tegundir af áfengi með mjög áberandi og skrautlegum auglýsingum: Courvoisier, VAT 69, Haig, Stoek 84 Brandy, Ballantine's Whisky, Cinzano Vermouth Highland Queen, Martini Vermouth, Dubonnet og Martell. Þetta geta þingsveinarnir leikið sér að því að stúdera hér frammi á borðinu hjá okkur í lestrarsalnum og auðvitað hv. þm. líka. — Nei, ég held, að bann sem þetta nái varla tilgangi sinum, því miður, þótt ég viti, að fyrir flm. frv. og þeim, sem styðja það hér á Alþ., vaki það auðvitað fyrst og fremst, að einhver árangur verði af þeirri lagasetningu, sem við erum að ráðgera.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Ég held, að málið liggi alveg ljóst fyrir. Ég tel, að ef málinu verður vísað til ríkisstj., eigi fyrst og fremst að athuga það gaumgæfilega, hvort ekki sé rétt að banna auglýsingar á tóbaki í kvikmyndahúsum, en þær tíðkast þar mjög, að ég hygg, flestum sýningargestum til mikils ama. Einnig álít ég, að það sé rétt að athuga, hvort ekki eigi að taka upp einhvers konar merkingar á tóbaksumbúðum í þá átt að vara menn við hættunum af reykingum.