26.10.1964
Neðri deild: 6. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (2288)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég beindi einni spurningu til hæstv. ráðh. og hún var sú, hvort kvikmyndaeftirlitið íslenzka næði til þeirra kvikmynda, sem sýndar eru í sjónvarpinu á Keflavíkurvelli. Ég var ekki að spyrja um það, hvort einhver slík mynd hefði verið sýnd, sem ekki mundi hafa staðizt reglur íslenzks kvikmyndaeftirlits. Þess vegna er þeirri spurningu enn ósvarað, hvort íslenzka kvikmyndaeftirlitið nái til þeirra kvikmynda, sem sýndar eru í sjónvarpinu á Keflavíkurvelli. En ég skil orð hæstv. ráðherra þannig, að íslenzkt kvikmyndaeftirlit nái ekki til sjónvarpsins á Keflavikurvelli. Og ég tel, að þetta sé hin mesta óhæfa.