01.03.1965
Neðri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (2294)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Allt það, sem viðkemur dvöl varnarliðsins í landinu og aðstöðu þess hér, er eftir því sem ég bezt veit, í varnarsamningnum og þar hafa verið dregin saman öll þau atriði varðandi samskipti varnarliðsins við íslenzka aðila, sem mönnum kom til hugar þá að kæmu til athugunar. Þess vegna höfum við ekki farið inn á það að setja inn í íslenzka löggjöf, sem við erum hér að móta og breyta vetur eftir vetur, einstök ákvæði, sem snúa að varnarliðinu og ég hef litið þannig á, að það, sem aðeins að því snýr, eigi þá að vera fyrst og fremst í sambandi við samninginn og þau einu lög, sem ráða skiptum íslenzku þjóðarinnar við varnarliðið og dvöl þess. Ég er þeirrar skoðunar, að það væri óviturlegt að fara að dreifa inn í íslenzka löggjöf hér og þar ákvæðum, sem snerta þetta tímabundna ástand, sem er í varnarmálunum og þær breytingar, sem menn sjá ástæðu til að gera á þeim samskiptum, þurfi að vera á hreinum grundvelli milli íslenzkra yfirvalda, utanrrn., varnarmáladeildar og í gegnum það gagnvart varnarliðinu. Og ef við ætluðum að fara að setja inn í hina almennu íslenzku löggjöf ákvæði um þetta sérstaka fyrirbrigði, held ég, að það mundi ekki reynast okkur vel.

Ég hef af þessum formsástæðum ekki séð ástæðu til að taka undir það í sambandi við þetta mál að fara að blanda varnarliðinu og öllu því vandamáli inn í það. Ég má segja, að það hafi komið fram skilningur í menntmn. á því viðhorfi, þó að ég viti vel, að menntamálanefndarmenn hafa ólíkar skoðanir á hinu erlenda sjónvarpi og öllu, sem því viðkemur. Afstaða menntmn. byggist sem sagt á því, að þetta sé annað mál. Þess vegna var að minni till. aðeins sett inn í brtt. n. ákvæði um það íslenzka sjónvarp, sem væntanlega hefst innan skamms og ég hefði talið eðlilegast, að varnarmálunum væri haldið á sínum bás, en reynt að blanda þeim ekki inn í aðra löggjöf, enda gæti það orðið allt að því endalaust.