11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (2305)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil, áður en þetta frv. fer héðan úr d., leyfa mér að fara um það örfáum orðum. Ég tel, að margt í frv. sé mjög til bóta og meira en orðið tímabært að setja það í lög, þó að annað sé kannske vafasamara og geti orkað þar tvímælis. Ég ætla þó ekki að ræða frv. í heild, aðeins eina gr. þess,

41. gr., eins og hún nú er orðin, en var áður 39. gr., þegar frv. var hér lagt fram.

Í 4. mgr. þessarar gr. er rætt um hámarks vinnutíma barna og ég tel það mjög til bóta, að ákvæði um slíkt skuli tekið upp í það frv., sem hér er til umr. Þótt að sjálfsögðu séu skiptar skoðanir um það, hvort börnum hér á Íslandi nú hin síðari árin hafi verið ofþyngt með vinnu eða ekki, tel ég, að sjálfsagt sé að setja í lög ákvæði um hámarks vinnutíma, sem leyft er að börn eða unglingar megi vinna. Í 2. mgr. þessarar gr. er skýrt ákvæði um það, að eigi megi ráða börn yngri en 15 ára til vinnu í verksmiðjum, til uppskipunar og útskipunarvinnu eða byggingarvinnu. Ég tel, að Alþ. sé þarna í mjög miklum vanda og þurfi að íhuga sérstaklega þetta ákvæði mjög gaumgæfilega, áður en það verður lögfest. Ég tel ekki, að við megum einblína á aðstöðu í öðrum löndum, því að vitað er, að hér á landi er aðstaða að þessu leyti með öðrum hætti, bæði hvað vinnuþörf barna og aðstöðu barna til vinnu viðkemur. Á Norðurlöndum og í okkar nágrannalöndum mun skólaganga barna allt upp að 15–16 ára aldri vera því nær allt árið, eða 10–11 mánuði og því aðeins um stutt sumarfrí að ræða hjá þeim frá skólagöngunni og þar af leiðandi mjög eðlilegt, að þau séu látin njóta þess sumarfrís frá skólanum, án þess að þau séu ráðin til vinnu. Hér á landi hafa börn á þessum aldri, 14–15 ára, aftur frí allt sumarið og ég verð að segja, að ég tel það öfgar og ekki fá staðizt, að það sé til þess að bæta siðferði unglinga á þessum aldri að banna þeim með lögum að vinna þá vinnu, sem talizt getur við þeirra hæfi, ef jafnhliða er séð fyrir því, að það sé ekki um ofálag að ræða.

Ég tel, að Alþingi verði mjög í þessu tilfelli að gæta þess, að það á ekki að setja lög, sem við vitum allir fyrir fram að muni verða þverbrotin um land allt og enginn yfirleitt telja sig bundinn af. Ég er sannfærður um það, að ef það ætti hreinlega að banna alla vinnu unglinga upp að 15–16 ára aldri, eins og hér kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., mundu þau lög ekki verða virt og verða brotin, — ja, ég held, að megi segja um land allt. Ég skal viðurkenna, að það er hægt að benda á fordæmi úr sögu Íslendinga og án efa einnig vitað úr sögu annarra þjóða um ofþjökun barna í sambandi við vinnu. En við verðum á hverjum tíma að meta aðstæður og við verðum umfram allt, tel ég, hér á Alþ. að gæta þess að reyna að finna hinn gullna meðalveg og gæta þess, að þau lög, sem við látum frá okkur fara, séu virt og þau séu haldin og þeir, sem framkvæma eiga lögin, standi ekki frammi fyrir því að ráða ekki að neinu leyti við framkvæmd þeirra vegna almenningsálitsins.

Ég tel því, að þegar þetta frv. fer nú héðan úr d. til hv. Ed., þurfi að skoða það betur en gert hefur verið, þó að ég viðurkenni, að hv. menntmn. þessarar d. hafi lagt mikla vinnu í þetta frv., farið mjög nákvæmlega yfir það og að mörgu leyti unnið mjög gott og þarft verk með þeim endurbótum, sem hún hefur gert á frv.

Ég vildi láta þessa ábendingu frá mér koma fram hér, áður en frv. fer úr d., sem í höfuðdráttum er það, að það verði að líta á aðstæður hér á landi eins og þær eru, en ekki einskorða sig við það, sem er í löggjöf okkar nágrannalanda og fyrst og fremst gæta þess að láta ekki

frv. fara sem lög frá Alþ. á þann veg, að búast megi við, að því verði ekki hlýtt.