11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2307)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Nú þótti mér bara gaman, að hv. 5. þm. Norðurl. v. skreið rétt inn á íhaldsatkv., ef ég man rétt. Það var auðsjáanlega farinn úr honum allur mesti galsinn frá því í dag, eins og það hefði verið stungið á dálitlum blásnum belg og vindurinn hlaupið út. Það var lítið eftir af öllum þessum galsa, sem hann var með í dag, þó að hann væri að reyna að vinna hann upp, en tókst nú ekki, flúði pínulítið á Volgubakka, en gat ekki einu sinni haldizt þar og er þá fokið í flest skjól hjá honum.

Ég skil það ákaflega vel, þegar þessi hv. þm. kemur hér upp og reynir stundum að leika fífl fyrir okkur hér á þingi. Hann finnur það, að hann hefur alltaf verið sínu kjördæmi til skammar, síðan hann var kosinn hér á Alþ. og verið sjálfur nokkur blettur á þinginu og hann er að reyna ofur litið að bæta úr þessu með því að leika fífl. Og þetta getur verið mjög skemmtilegt til dægrastyttingar stundum í tilbreytingaleysinu. En þetta á bezt við, ef hann er t.d. að ræða — við skulum segja eins og hann var að tala um áðan — eitthvert kvígufrv. og það mætti nota það stundum í sambandi við refi og minka og annað þess háttar. En þegar hann fer að gera þetta í sambandi við mál eins og það, sem hérna liggur fyrir, má hann búast við að fá sina refsingu og það allhart útilátna og það hefur hann fengið. Þess vegna fann hann til þess sjálfur hérna áðan, þegar hann var að telja upp það, sem ég hafði sagt, að það mundi ekki vera viðeigandi að nota allan þann galsa og grín, sem hann var með, þegar hann var að tala um t.d., að 13 ára drengir hefðu dáið hérna suður í Hafnarfirði, orðið undir hlaða við uppskipun og fleiri slík slys, sem skeð hafa núna upp á siðkastíð í þessum efnum. Hann fann það nokkurn veginn á sér, að þetta væru ekki nein gamanmál. Það er vel hægt í sambandi við kvígu og refi og minka að tala svona, en þegar um er að ræða líf og velferð barna, er það ekki viðeigandi. Og meira að segja þessi þm. finnur það.

Þessi hv. þm. þóttist hafa lesið þetta frv. Ekki trúi ég því nú, vegna þess að þetta hrafl, sem hann var að koma með hérna áðan, var allt saman tómur útúrsnúningur, bara til þess að reyna að leika fífl, til þess að reyna að fá einhverja menn til að hlæja. Hann er kannske ekki enn þá farinn að gera sér ljóst, að í þessu frv. er lögð nokkur skyldar á herðar almennings að hjálpa börnum og vildi fara að gera það að einhverju almennu njósnamáli eða eitthvað þess háttar, að allir ættu að vera að njósna hver um annan. Um hvað er þarna að ræða? Það er um það að ræða, að ef barn á bágt, á engan að, eða þeir, sem það á að, vanrækja það eða jafnvel misþyrma því, er það skylda annarra borgara í þjóðfélaginu að koma því til hjálpar. Þetta á þessi þm. ósköp bágt með að skilja. Þetta verður í hans augum helzt að einhverjum nazisma. Þetta er hins vegar mál, sem er mjög alvarlegt mál og það hér í Reykjavík. Hann vildi gera grín að öllu, sem laut að lauslæti og slíku. En hann þekkir kannske ekki dæmi þess, að mæður fari þannig burt frá kornungum börnum, að þær gefi þeim svefntöflur áður til þess að reyna að láta þau sofna, eða setja það, sem jafnvel næstum verra er, í pela barns. Hann gerir sér ekki í hugarlund, hvað það er, sein nútíma stórborg á við að etja af þjóðfélagslegum vandamálum og hvers konar barátta það er, sem borgararnir í þjóðfélaginu verða að heyja sameiginlega til þess að bjarga þeim, sem engan eiga að. Hann hefði, heldur en að reyna að koma með eitthvert hrafl úr frv. til þess að gera grín að því, átt að fara niður á lögreglustöð, fá að líta í lögregluskýrslurnar, eða þó að hann hefði ekki gert meira en að sjá eina mynd, sem einn framtakssamur skólastjóri hefur látið taka um lífið í Reykjavík hvað börnin snertir og þeirra aðbúnað sumra hverra, þeirra sem bágt eiga og þeirra, sem þarf að hjálpa.

Hann var ekkert á móti barnavernd. Hann vildi, að allir væru góðir við börnin. En það er því miður ekki svo. Það eru ekki allir góðir við börnin. Og börnin þurfa þá að finna það, að þau eiga einhverja að í þjóðfélaginu til þess að hjálpa þeim. Svo talaði hann mikið um vinnuna. Ef einhver börn væru að stela, væri það vegna þess, að þau væru ekki látin vinna frá því snemma á morgnana þangað til seint á kvöldin. Það er ráðið, sem hann mundi beita. En ef hann hefði athugað lögregluskýrslurnar, hefði hann séð, að þar voru þess dæmi, að móðir sendi barn sitt út í búðir til þess að stela, ekki að barnið væri að finna upp á þessu sjálft. Það eru ekki allir góðir við börnin.

Það er engin ástæða til þess að loka augunum fyrir þeim þjóðfélagslegu vandamálum, sem við erum að berjast við, eða reyna að gera grín að þeim. Það eru alvarlegri mál en svo. Þarna er um það að ræða að reyna að hjálpa börnunum og reyna að vekja almenning til þess að hjálpa börnunum. Þessi hv. þm. vill hafa sama ráð og þeir hafa haft hér vafalaust í gamla daga, þessir hreppstjórar, sem hann var svona hrifinn af, þræla börnunum endalaust út. (Gripið fram í.) Já, þeir virtust vera einhverjir þeir köldustu gagnvart börnunum, þegar þeir voru að bjóða þau upp á sveitarþingunum. Og þessi þm. er kannske búinn að gleyma því. En ég man enn þá eftir því, að fjölskylda, til þess að vera ekki sundrað, hafi orðið að flýja og það þvert yfir Húnaflóann og Skagafjörðinn til Siglufjarðar, til þess að komast undan því, að systkinunum væri tvístrað og konan og maðurinn aðskilin, af því að þau þurftu að þiggja af sveit. Það er nú ekki lengra um liðið, það eru ekki nema rúm 30 ár. Það er bezt fyrir hann að tala ósköp varlega um hreppstjóraeinræðið á Íslandi og aðferðirnar, sem þeir notuðu og oddvitarnir höfðu líka með það að gera og voru oft ekki betri. (Gripið fram í.) Það var dálítið svipuð tegund og þessi hv. þm. er svo hrifinn af. Það voru venjulega einhverjir stórbændur, sem voru ekkert nema harðneskjan, eins og hann er.

Var það nokkuð fleira, sem hann þyrfti að fá svarað strax? Nei, þess vegna er það þannig og það gerir þessi hv. þm. sér ekki ljóst, að þetta er miklu stærra og meira vandamál en hann hefur hugmynd um, af því að hann veit yfirleitt ósköp lítið um vandamál þjóðfélagsins og setur sig lítið inn í þau. Og þegar hann leyfir sér að taka til máls, þá talar hann án þess að hafa nokkurt vit á þeim. Ég býst við, að þessum hv. þm. finnist ósköp sjálfsagt, að læknar, sem skoða þessi börn, verði að lýsa því yfir, að það sé búið að valda þeim ævilöngum skaða með þrældómi, að 13 ára drengir séu orðnir bognir í baki af of mikilli vinnu. Þess vegna er það, að það, sem gert er með þessu frv. til þess að reyna að vernda börn og unglinga í þessum efnum, er tiltölulega lítið og mundi þykja smánarlega lítið í öðrum löndum Evrópu.

Það er talað hér um, að það sé allt of strangt, að það skuli vera 8 tíma vinnudagur fyrir börn, sem séu 14–16 ára, það sé hreinasta hneyksli. Þessi maður, sem um þetta talar, virðist ekki hafa hugmynd um það, að sem stendur eru fullorðnir karlmenn að knýja það fram í löndunum í kringum okkur og hafa fyrir löngu knúið það fram í flestum þeirra og víkja ekki frá því að hafa 8 tíma vinnudag og vinna alls ekki lengur. Og í fjölmörgum löndum, m.a. sums staðar í Bandaríkjunum, er vinnutíminn á viku kominn niður í 35 klukkutíma. En hérna finnst þessum hv. þm., að það væri aldeilis dæmalaus ósvífni, að 14–16 ára börn eigi ekki að fá að vinna lengur en 8 tíma á dag. Hann er sjálfur kominn alveg í standandi vandræði með sinn búskap. Ég held, að hann ætti ekki að vera að fást við þennan búskap, ef hann á nú 10 börn og segist láta þau öll vinna og getur ekki haft meiri verkaskiptingu á milli þeirra en svo, að þau kæmust ekki af með 8 tíma á dag. Þá kann hann ekki að stjórna búi. Og ef hann er svo ríkur eins og hann er stundum að tala um, hlýtur það að vera af mjög miklum þrældómi, ekki bara hans sjálfs.

Nei, það þýðir ekkert að ætla að reyna að eyðileggja nú á síðustu stundu þetta frv. með einhverjum galsa og glensi og útúrsnúningum og vitleysu. Hér er um miklu alvarlegra mál að ræða en svo. Hitt er rétt, sem hv. 3. þm. Sunnl. kom hér inn á, að það verða á ýmsum stöðum viss vandkvæði í sambandi við að knýja þetta mál fram og sérstaklega vegna eins, vegna þess, hvernig almenningsálítið er í þessum málum hjá okkur enn þá. Almenningsálítið er alls ekki nógu vakandi í þessum málum, enn sem komið er. Við þekkjum þess dæmi, að þegar börn og það ekki sérstaklega gömul hafa verið búin að vinna 8 tíma t.d. í verksmiðjum og verkstjórarnir hafa rekið þau heim, hafi jafnvel foreldrarnir komið og sagt: Hvað er þetta, geta ekki börnin fengið eftirvinnu alveg eins og þeir fullorðnu? Það þarf meira að segja stundum gagnvart foreldrunum að passa upp á, að börnunum sé ekki þrælað út. Það þarf að breyta almenningsálitinu í þessu sambandi.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. var að láta svo í skína, að með þessu væri algerlega bannað, að unglingar ynnu eftir kl. 5 á daginn. Því miður er það ekki svo, því miður. Það er aðeins í frv., að þau megi ekki vinna meira en 8 tíma á dag. Það þýðir, að þau geta unnið þó nokkuð af þessum 8 tímum í eftirvinnu, við skulum segja t.d. í sambandi við síldarsöltunina. Það er hægt að láta þau vinna að kvöldinu til, því miður, eftir þessu frv., en það má ekki vera lengur en 8 tíma. Ég segi því miður, af því að ég álít, að það ætti helzt að hindra, að það væri nokkur næturvinna fyrir börn, það ætti helzt að hindra það. Í reglugerðinni, sem ráðh. hefur heimild til að setja, er mælt svo fyrir, að það skuli sporna við því, að þau vinni næturvinnu. Það er ekki bann sem sé, það á að reyna að draga úr því og það er mjög rétt að setja þau ákvæði og ég hefði satt að segja verið því fylgjandi að hafa þau harðari. Það er vansi á okkar menningu og okkar atvinnulífi að láta börn vinna næturvinnu. Og sannleikurinn er sá, að á meðan það viðgengst, er það vegna þess, að þessi vinna er ekki skipulögð nægilega vel og hún er of ódýr, til þess að atvinnurekendum finnist það borga sig að taka þarna upp almennileg tæki. Það eru til tæki til þess að salta í síldartunnur, án þess að láta mannshöndina koma þar að. Og það væri gott að mörgu leyti að knýja það fram á ýmsan máta, að okkar atvinnurekendur hugsuðu dálítið betur um skipulagningu vinnunnar, en þeir gera. Og það mætti gjarnan ýta á þá með það, að þeir gætu ekki bara gripið til ódýrrar barnavinnu til þess að bjarga í slíku, heldur hugsuðu um að þróa vélavinnuna í þessu sambandi. Það var svo forðum daga og hefur lengi þótt svo við brenna, að þar sem vinnuafl hefur verið ákaflega ódýrt, vanrækja menn bæði skipulagningu og vélanotkun. Þess vegna er það því miður svo, að gagnvart þessum börnum innan 14 ára aldurs er það aðeins takmarkað, að þau megi vinna meira en 7 tíma á sólarhring, en það er ekki bannað, að það sé í eftirvinnu eða næturvinnu, aðeins svo fyrir mælt, að það skyldi reynt að sporna við því. Og þetta á að vera í reglugerð. Nú er það því miður svo, að það er búið að vera í lögum árum saman ýmislegt bann í þessum efnum og fyrirmæli um, að það skuli í reglugerð kveðið nánar á um það bann, en sú reglugerð hefur aldrei verið sett. Það hefur aldrei verið sett sú reglugerð, sem átti að setja samkv. þessum barnaverndarlögum. Hins vegar veit ég það nú, að við megum treysta því, að hæstv. ráðh. mun setja þá reglugerð, þannig að það verði nú tryggt, að betur verði séð um framkvæmdina á þessum lögum, en verið hefur undanfarið, enda hefur hún verið okkur til ákaflega mikils vansa. Það er ekki víða í jafnstórum borgum og Reykjavík, sem við mundum t.d. sjá annað eins af kornungum börnum, ég held næstum því niður í 6 ára, sem séu að selja blöðin hérna úti og það í hvaða veðri sem er. Þessi krakkagrey hrópa sig hás með blöðin. Þetta er bannað í svo að segja hverju einasta landi í kringum okkur og útlendir ferðamenn og fréttaritarar, sem hingað koma, eru standandi forviða á þessu menningarleysi Íslendinga. Í öðrum löndum er komið upp litlum blaðsöluturnum, þar sem menn geta keypt sér blöð, en smábörn eru ekki látin vera á götunum í hvaða veðri sem er til þess að selja blöð þar. Það er ekki einu sinni í þessu frv. lagt bann við þessu.

Þess vegna er það engum efa bundið, að þetta frv. er góð tilraun til þess að bæta úr brýnni þörf og afnema ljótan blett á okkar þjóðfélagi. Ég veit, að það kemur til með að kosta allmikla baráttu, ekki sízt við almenningsálítið, að fá þetta framkvæmt, en veit, að það muni takast á endanum.

Það var rætt hér sérstaklega um eða minnzt á, að það væri hart, að það skyldi vera í þessu frv., að það skyldi stefnt að því, að börn skyldu ekki vinna annað, á meðan þau væru í skóla. Ég hefði nú kosið, að það hefði verið sagt beinlínis, að það væri bannað, að þau væru í alls konar lausavinnu, á meðan þau væru í skóla. Sannleikurinn er, að það er ófremdarástand, þegar hér eru nú skólar í Reykjavík t.d. tvísettir og börn sem fara t.d. kl. 1–2 í skólann, byrja að vinna kl. 8 á morgnana, eru í skólanum allan daginn og koma venjulega ólesin og hafa hvergi aðstöðu til þess að lesa. Skólarnir eru tvísettir og þrísettir jafnvel og ekki aðstaða til þess að lesa í þeim,og fyrir svo og svo mörg börn er engin aðstaða til þess að lesa heima. Og fyrir þessi börn var nauðsynlegt, að kennararnir gætu einmitt leiðbeint þeim í skólunum um eftirmiðdaginn og skólarnir væru bara einsetnir og þau gætu fengið að vera í skólastofunum á eftir og lesa þar í næði og jafnvel spyrja sína kennara. Þannig er þetta í menningarlöndum. Hér aftur á móti er prédikað: Þessi börn, sem eru svona í skólanum, eiga að fara út og vinna. — Og það er svo sem vitanlegt, að sum hraðfrystihúsin hérna og slíkt eru rekin með vinnu barna og unglinga, vegna þess að það er ekki haft almennilegt skipulag á, að það sé hægt að láta þá eldri vinna þar.

Það er þess vegna vægt að orði kveðið þarna, allt of vægt, aðeins rétt stillt upp þessu, að það skuli stefnt að því, að börnum sé ekki þrælað út og unglingum í launavinnu, á meðan þau eru í skólanum. Hins vegar, eins og menn muna kannske eftir, þegar hér lá síðast fyrir skólalöggjöfin, ef ég man rétt, lá þar fyrir yfirlýsing frá læknum, að vinna, sem lögð væri á börn, sem komin eru í landsprófsbekk og þar ofar, væri það mikil, að það ofbyði yfirleitt þeirra heilsu. Satt að segja er það alveg þrælavinna, sem þau börn hafa, sem eru hérna t.d. í landsprófsbekkjunum, ef þau ætla að standast þar og ekki síður í t.d. menntaskólanum.

Eitt gladdi mig í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., og það er hans yfirlýsing um það, að hann muni greiða atkv. á móti þessu frv. og ég vona, að hann hafi hugrekki til þess að standa við það, og vona enn fremur, að hann sýni sig í því að standa við þau orð sín að skrifa grein á móti því. Það hefði nefnilega verið synd, af því að hann talaði svo mikið um synd hérna, ef hann hefði sleppt því. Komandi sögu er það dýrmætt sögulegt plagg að fá í hendurnar grein frá einum af þessum draugum, einum af þessum gömlu, útdauðu hreppstjórum og oddvitum frá sveitaflutningatímunum, fá grein í hendurnar frá einum slíkum. Hugsið þið ykkur, ef við hefðum nú í dag grein, þar sem maður — við skulum nú ekki tala um, ef það hefði verið þm., hefði verið alveg sérstaklega að mæla með því, hve sveitaflutningarnir væru dásamlegir, hvað það væri indælt fyrir t.d. systkinahóp, að honum væri sundrað og losnaði við það að fá að vera hjá foreldrum sínum, hvað það væri ánægjulegt fyrir 7 og 8, 10 og 12 ára gömul börn að vera boðin upp á hreppaþingi og hvað þetta væri nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið og hvað það væru hættulegir menn fyrir þjóðfélagið, sem væru að berjast á móti svona nokkru. Því miður eigum við enga slíka grein, en sannarlega hefði sagnariturum 19. og 20. aldar þótt vænt um það að eiga eina slíka. Þess vegna fagna ég því, að hv. 5. þm. Norðurl. v. skuli nú skrifa grein um, hvað það sé voðalegt að setja þessi lög í gegn og sagnaritarar komandi tíma skuli loksins hafa aðgang að slíkum hugsunarhætti eins og einkenndi þrælahaldarana í gamla daga.