11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2308)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hef áður rætt um þetta frv., bæði við 1. og 2. umr. þess, og ég hef raunar ekki miklu við að bæta það, sem ég hef sagt. En þó hafa verið haldnar hér ræður í dag, sem mig furðar stórlega á. Og það er af því tilefni, sem ég ætla að gera hér litlar aths. við það, sem þar hefur verið sagt og ítreka nokkuð mín sjónarmið.

Fyrst stóð hér upp hv. 5. þm. Norðurl. v. og flutti gamansama ræðu og í þeim sérstaka stíl, sem hann temur sér og okkur þykir öllum gaman að. En ég tók ræðu hans mátulega alvarlega. Hér talaði einnig hv. 3. þm. Sunnl. af miklu meiri alvöruþunga um viss atriði, sem hann hafði í huga af því, sem fram kemur í þessu frv. og gerði þá að umræðuefni 41. gr. frv. Mér finnst margt undarlegt við þessar ræður. Í fyrsta lagi er það dálítið einkennilegt að fara nú að hreyfa þessu hér á síðasta augnabliki, þegar allar horfur eru á því, að þessi hv. þd. afgreiði frv. til Ed. Það er eins og þessir hv. þm. hafi fengið einhverja alvarlega eftirþanka um mál, sem ég hélt þó sannarlega að væri útrætt hér.

Um það efni frv., sem helzt hefur verið rætt, þ.e. 41. gr., þá er það mitt álit, að það sé bezti kaflinn í frv. og það, sem gefur því mest gildi. Mér virðist, að það þoki okkur Íslendingum a.m.k. nokkur mikilvæg spor fram til réttlátara og betra þjóðfélags. Og þó gengur þessi grein alls ekki mjög langt miðað við það, sem er í öðrum löndum. Og úr því að það er farið á annað borð að setja reglur um þessi efni, var áreiðanlega ekki hægt að ganga skemmra en 41. gr. hljóðar um.

Og hvað er það þá, sem felst í 41. gr. frv.? Felst í henni bann við vinnu barna? Það er alls ekki, ekki nema þá að nokkru leyti. Inntakið í gr. er takmörkun á vinnu barna og það er talsverður mismunur á banni og takmörkunum. Þó felst algert bann við því að nýta vinnuafl barna undir 15 ára aldri á almennum erfiðisvinnumarkaði til jafns við fullharðnaða karlmenn. Það er bannað samkv 41. gr. frv., að börn yngri en 15 ára vinni í verksmiðjum og í uppskipunar- og útskipunarvinnu og byggingarvinnu. Ég skil ákvæði þessi þannig og það hljóta allir að skilja, að vinnuveitendum sé algerlega bannað að ráða börn á þessum aldri til þessara ákveðnu tegunda af erfiðisvinnu. Þá felur gr. í sér bann við því, að drengir yngri en 15 ára séu ráðnir á skip og loftfar og stúlkur, yngri en 18 ára, séu ráðnar í skiprúm eða vinnu í loftfari. Með þessu eru upp talin bannákvæði í gr. Allt annað, sem í gr. segir, eru svo sjálfsagðar takmarkanir á vinnu barna og þau ákvæði fela alls ekki í sér hann við því, að börn stundi einhverja vinnu.

Þar með er t.d. ekki bannað, að börn á þessum aldri vinni stuttan vinnutíma við ýmis algeng störf, sem til falla. Börn geta hér eftir sem hingað til hjálpað foreldrum sínum við búnaðarstörf og fiskvinnu, svo að dæmi séu nefnd og atvinnurekendur geta ráðið börn til starfa að því marki, sem greinin segir. Um hámarksvinnutíma barna 14–16 ára segir, að hann skuli vera 8 stundir á dag. Unglingar um eða eftir fermingaraldur mega sem sagt vinna 6–8 tíma á dag. Þetta er ekkert bann við barnavinnu. Hv. 5. þm. Norðurl. e. getur því látið börn sín, sum af þeim a.m.k., vinna 8 tíma á dag og sum kannske minna, þau sem yngri eru. Ég álít, að eins og gr. er nú orðuð, geti allir unað sæmilega við og það yrði Alþ. til lítils sóma, ef hlaupið yrði til og rýmkað um þau smávægilegu bönn og takmarkanir, sem í henni felast. Ég legg því eindregið til, að hv. þdm. afgreiði 41. gr. frv., eins og hún er orðuð, enda er hv. þd. búin að gangast inn á sjónarmiðið um bann við verstu og óhollustu erfiðisvinnu og takmarkanir á annarri barnavinnu. Ég sé raunar ekki, að það sé hægt að breyta hér neinu, úr því sem komið er og ef það yrði gert, væri farið inn á braut, sem ekki hefur áður verið farið inn á hér í afgreiðslu þingmála, svo að ég minnist. Ég vona því, að hv. 5. þm. Norðurl. v. og hv. 3. Sunnl. verði einir um sínar skoðanir